Greinasafn fyrir merki: trú

Þú ert frábær

Ég stóð við Lynghagann og fagnaði hlaupafólkinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Rúmlega fjórtán þúsund manns hlupu mislangar vegalengdir. Stemmingin var stórkostleg. Bros voru á flestum andlitum, gleðin hríslaðist um hlauparahópinn. Hvatningarköll hljómuðu frá þeim sem stóðu á gangstéttum og hlátrar ómuðu. Tónlistarfólk spilaði og kröftug, taktþung músík hljómaði úr hátölurum. Krafturinn var mikill. Gaman alla leið, áfram.

Ég hef farið niður á Lynghaga í mörg ár til að hvetja ættingja mína og vini. Það er gaman að vera með í þessum samheldna gleðihópi. Og svo var sérstaklega gaman í gær því drengirnir mínir – ellefu ára – hlupu 10 kílómetra í fyrsta sinn. Við foreldrarnir fögnuðum þegar þeir komu hlaupandi, léttstígir. Svo hjóluðum við vestur á Grandaveg til að hvetja þá áfram þar og furðuðum okkur á hve fjaðurmagnaðir þeir voru eftir átta kílómetra. Svo urðum við hjóla hratt til að komast á undan þeim í Lækjargötuna. Þetta var dásamlegt að taka þátt í þessari miklu hlaupagleði. Reykjavíkurmaraþon er uppskeruhátíð æfinga sem hafa staðið vikur, mánuði og jafnvel mörg ár. Mörg sem voru hlaupa tóku ákvörðun í vetur að vinna að hlaupinu. Árangur í lífinu sprettur ekki af sjálfu sér heldur er ávöxtur vilja og vinnu. Hamingjan í lífinu er líka árangur ástundunar.

Þegar við hjóluðum í átt að Grandanum sá ég stórt skilti. Við það var hvetjandi hópur sem aldeilis lagði sitt til. „Áfram, áfram“ kölluðu þau. Þetta var áheitahópur og það sem stóð á skiltinu þeirra var fallegt: Þú ert frábær. Þegar ég hjólaði svo í gegnum gamla vesturbæinn hugsaði ég um hve góð skilaboð þetta eru: Þú ert frábær. Þetta voru auðvitað skilaboð til allra þeirra sem hlupu, þau væru dýrmæt, frábær. En þetta er líka boðskapur af himnum til okkar manna. Við erum frábær, dýrmæt og öll einstök.

Áheitin

Og allir vita sem hafa kynnt sér Reykjavíkurmaraþonið að mörg hlaupa í áheitaskyni – til að láta gott af sér leiða. Þúsundir hlaupa til að styðja Ljósið, Píeta, Hjálparstarf kirkjunnar, Krabbameinsfélagið eða önnur mannræktarmálefni. Svo er safnað fyrir fólki sem hefur veikst eða slasast. Mörg voru að safna fyrir unga konu sem lenti í alvarlegu hjólaslysi á dögunum og lamaðist. Stuðingurinn er á grundvelli þess að allir eru mikilvægir og við megum og þurfum að standa saman.

Þú ert frábær. Það eru mikilvæg skilaboð sem allir þurfa að heyra margoft í lífinu, þarfnast þess að finna fyrir þeim jákvæðnisanda í uppeldi og fjölskyldulífi. Enginn kemst til manns nema hafa notið þess að einhverjum þyki hann eða hún frábær. Og þau sem hafa ekki mikinn stuðning heima fá stundum að heyra þetta mikilvæga hjá kennaranum í skólanum, í kirkjunni eða vinunum sem kunna að hrósa. Þú ert frábær.

Við þurfum hvatningu, jákvæða nálgun, hrós. En við höfum ekki gagn af því að fá aldrei gagnrýni eða jákvæða greiningu á veikleikum. Einfeldningslegt „þú ert æðisleg eða sjúklega flottur“ er ekki það sem skapar hamingjusamt fólk heldur fremur sjálfhverft og vanrækt fólk. Við þörfnumst þess að heyra og finna að við séum metin og svo mikið elskuð að við erum alin upp með aga, vinnu, hlýrri gagnrýni, kennt að reyna á okkur, þekkja mörkin, hvenær við særum aðra og hvernig við getum verið sjálfstæð en samt ábyrg gagnvart öðru fólki. Í textum dagsins eru tjáðar skuggahliðar mannlífs og við þurfum að temja okkur raunsæji Ritningarinnar. Þar sem er ljós verða skuggar. Enginn er fullkominn þó köllun okkar sé að nýta alla okkar hæfni og gáfur til góðs og hamingju. Stefnumark manna verður ekki til af engu heldur við þjálfun og ræktun hið innra og ytra.

Ekki ástandsskoðun heldur ást

Þú ert frábær. Svo var það sálmafossinn í kirkjunni í gær. Á þriðja tímanum var fjöldi kominn í kirkjuna til að njóta söngs nýrra sálma, hrífandi tónlistar, dásemda Klaisorgelsins og almenns sálmasöngs. Sex kórar sungu, á annað hundrað manns veitti okkur af sönggleði sinni. Fjöldi tónlistarmanna lék á hljóðfæri sín, sex nýir sálmar, lög og ljóð, voru frumfluttir. Þúsundir komu í kirkjuna til að njóta, syngja og úr varð fyssandi dásemd tilbeiðslu og lífs.

Þú ert frábær. Það voru skilaboðin sem ég kom með úr Reyjavíkurmaraþoni inn í sálmafossinn. Hinn mikli boðskapur sem ég greindi í textum, hljómum, undrum tónlistarinnar var hinn djúpi boðskapur Jesú Krists: Þú ert frábær. Guð kristninnar er ekki smáguð heldur Guð hins stærsta og mesta. Allt sem Guð gerir er af því að sá Guð er jákvæð elska, sem kallar fram efni af hreinni ást, kallar fram greinar lífsins í gleði skapandi iðju. Og þegar áföllin dynja yfir, reiðhjólaslys, óðir menn keyra í morðæði inn í hópa saklauss fólks eða stinga hnífum sínum í grandalausa vegfarendur er Guð ekki áhorfandi. Guð er þar. Guð kom, kemur og mun koma. Guð birtist í setningu á Grandavegi: Þú ert frábær. Og Guð kom og kemur í Jesú Kristi og öllum þeim sem gera gott. Sá Guð sem ég trúi á og þekki var í miðju hópsins á hlaupum í dag. Sá Guð á sér samverkafólk í lífinu sem safnar fé til góðs og tjáir að það er frábært. Og sá Guð talar til okkar allra í helgum textum og sálmum lífsins: Þú ert frábær og ég vil að þú fáir að njóta hamingju.

En sá Guð segir líka: Það er margt í þessari veröld sem er hræðilegt og spillir lífi, geði, freistar og afvegaleiðir. Eins frábærir og mennirnir eru læðist sýkin, syndin, tortýmingin líka meðal okkar og smeygir sér inn í okkur. Og því er vei líka tjáð í öllum heilbrigðum átrúnaði. Við erum ekki frábær af okkur sjálfum heldur af því Guð hefur skapað okkur sem frábær og vill styrkja okkur að vera slík. Við erum ekki frábær af því að það sé niðurstaðan á ástandsskoðun á okkur. Við erum frábær af því Guð metur okkur mikils þrátt fyrir vitleysur okkar og klúður. Okkur tekst að óhreinka okkur og gera margt sem miður fer. Við erum kölluð til að vera frábær og erum það þegar við lifum í raunsæi um okkur sjálf, veröldina, mannfólkið, lífið og Guð.

Þú ert frábær. Það er yfirlýsingin sem Guð gaf þér í fæðingargjöf. Við erum öll svo elskuð að þegar við hlaupum lífshlaup okkar er Guð nærri, hleypur við hlið okkar, hvetur okkur áfram, já og ber áfram þegar við dettum. Það er söngur lífsins. Viltu vera frábær?

Hugvekja í Hallgrímskirkju, 20. ágúst, 2017, sunnudag eftir menningarnótt. 10. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B.

Trúin úrelt?

Ágætt tímarit, Grapevine, er gefið út hér á landi og fjallar um íslensk málefni fyrir enskumælandi fólk. Nýlega var því haldið fram í þessu riti að vegna nútímaviðmiða hefði trúin hopað. Ein rökin eru að meðlimafjöldi þjóðkirkjunnar hafi minnkað.  Á þrjátíu árum hefur fjöldinn lækkað um tuttugu prósent. En þrátt fyrir breytingar í kirkjuefnum er trúin ekki að hverfa. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa. 

Hvað er trú?

Sumir telja í einfeldni sinni að trúnni fylgi óhjákvæmilega forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina. Því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er Grapevinetúlkunin. Það er rangt, trú er ekki hugmyndir, hvorki gamaldags eða nýjar hugmyndir, heldur mun róttækara fyrirbæri. Aðrir telja að trú sé það að samþykkja bókstafsútgáfu helgirita. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.

En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa heimatilbúinnar speki.

En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er ekki yfirborðslegar skoðanir og alls ekki forvísindaleg lífssýn. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg, en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru hins vegar háðar trú. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Trú er undur sem Guð kallar fram.

Trú er það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Trúarkenningar breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Þar með hættir Guði ekki að vera til. Guð er fólki nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er nánari en vitund okkar. Guð er hinsta og dýpsta viðmið hvers manns.

Ekki á útleið heldur innleið

Er þá trúin ekki á útleið? Nei, þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki – aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkjufélag tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt veiklaðar eða úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka kenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið að sköpunarsagan sé ekki náttúrufræði heldur ljóð sem tjáir tilgang og samhengi lífsins. Trú hvetur til hugmyndagrisjunar. Þar sem trú er hinsta viðmið fólks beinist hún gegn yfirborðsnálgun. Trú þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú. Trú hvetur til ævarandi siðbótar.

Lífsfestan sjálf

Tenging við Guð leiðir til lífssýnar og kallar á túlkun trúarreynslu. Öll þau sem hafa verið upplýst af trú fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn og magnaður af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Við veljum sjálf hvort við sjáum í undri veraldar aðeins tilviljun eða nemum hið mesta og stærsta – undur Guðs.

Hvað er hinsta viðmið þitt, lífsfesta þín? Þar er trú þín og þar talar Guð við þig.

Íhugun – janúar 2017.

Pabbar eru líka fólk

 

Hvenær byrjar eilífa lífið? Í þessu lífi. Þegar barn er vígt himninum í skírn kyssir eilífðin tímann. Skírn og trúaruppeldi hafa verið töluð niður í samfélagi okkar en ekkert er of gott fyrir börnin. Og börnin þurfa að læra margt og eflast að þroska. Sálarþroski og trúarþroski er einn veigamesti þáttur þess að verða manneskja. Börnin þurfa að læra að umgangast hið heilaga, að tala við Guð og að sjá líf sitt í stóru samhengi lífsins, sjá hlutverk sitt í tengslum við annað fólk, bera virðingu fyrir sjálfum sér og að þjóna öðrum og nýta hæfileika sína til góðs.

Kirkjan aðstoðar við trúarlega mótun en heimilin eru afgerandi um hvort börnin fá notið trúarþroska. Guðmæður og guðfeðgin hafa líka hlutverk við uppeldið. Við erum öll kölluð til að blessa börnin. Karlarnir hafa líka hlutverk; feður, afar, bræður – já heilu karlahóparnir.

Leyfið

Við allar skírnir á Íslandi, í heimahúsum, í kirkju, í messum og utan messutíma, eru lesin orð Jesú um að leyfa börnum að koma:  “Leyfið börnunum koma til mín…” – segir hann – “…varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.” Og þetta er guðspjallstexti dagsins.

Prestarnir fara gjarnan með textann við skírnirnar en stundum lesa foreldrar, guðfeðgin eða aðrir ástvinir. Sjaldan er fyrirstaða með að afla lesara og það er gaman að sjá og heyra ástvinina flytja þennan elskulega texta um að leyfa börnunum að koma til Jesú. Þegar bræður eða pabbar lesa hef ég stundum hugsað um vilja karlanna til uppeldis. Eru þeir tilbúnir að vera trúarlegar fyrirmyndir, sinna kvöldbænaiðjunni, lesa biblíusögurnar, skýra eðli bæna, kenna góðverk og vera huggandi öxl þegar slys og dauðsföll verða?

Jákvæðni foreldranna

Prestar tala við foreldra áður en skírt er. Þessi skírnarviðtöl eru merkileg. Þá er hægt að fara yfir líðan, samskipti hjóna, möguleika og skyldur varðandi velferð og uppeldi barnsins, spyrja um líðan á meðgöngu og eftir fæðingu, fara yfir hætturnar sem steðja að ungbarnafólki, ræða um samskipti, álagsþætti og ræktun kærleikans. Ótrúlegt er hversu viljugir flestir foreldrar eru að kafa djúpt og hversu hæfir flestir eru að ræða þessi mál. Fæst hiksta þegar spurt er um trúarlega afstöðu og sjaldan hika þau að segja skoðunum sínum í þeim efnum. Og þær eru margvíslegar og alls konar.

Ég vek athygli feðranna á stöðu þeirra, möguleikum og þátttöku í uppeldi, trúarlegu atlæti barnanna og hvaða fyrirmyndir þeir séu eða geti verið á öllum sviðum. Frjálsir pabbar samtíðans eru tilbúnir til góðra verka. Þeir eru jafnvel tilbúnir að taka upp bænahald að nýju til að vera betur í stakk búnir að gefa börnum sínum traust og sálarfestu.

Hlutverk karlanna

Karlar eiga að skoða hlutverk sitt og skyldur varðandi trúaruppeldi. Rannsókn á trúarlegri mótun fólks á Íslandi árið 1986 sýndi að feður gegndu litlu trúarlegu mótunarhlutverki. Mömmurnar voru langmikilvægastar, síðan komu ömmur og afar, svo prestarnir og pabbarnir voru í fjórða sæti. Ástæðurnar voru menningarlegar. Atvinnuhættir og samfélagsgerð bundu marga pabba einhvers staðar fjarri heimilum, svo sem út á sjó. Í heimi þar sem karlar áttu að bíta á jaxlinn í sorgum og áföllum áttu sumir þeirra í vandræðum með náin samskipti, fíngerða samræðu og uppeldi. Og konurnar sáu gjarnan um trúarlega miðlun.

Vöðvastælt víkingaímynd og tilfinningafryst karlmennskuídeöl fyrri ára voru heldur ekki hliðholl kærleiksáherslu og tilbeiðsluiðkun. En hörkunaglarnir detta úr tísku. Feður samtíma okkar eru mun virkari í uppeldi ungviðisins nú en fyrir þremur áratugum. Þáttaka kvenna og karla er jöfn í atvinnulífinu og eðlilegt að karlarnir axli jafna ábyrgð í heimilislífinu.

Gæði fæðingarorlofs

Kynhlutverkin hafa breyst. Lögin um fæðingarorlof (nr. 95/2000) höfðu góð áhrif á íslenska feður. Markmið laganna er að tryggja barni samvistir með báðum foreldrum. Tilgangur þeirra er m.a. að hvetja karla til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi til jafns við mæður. Skírnarviðtölin hafa sannfært mig um að flestir karlarnir eru afar barnvænir. Þeirra hlutverk er ekki lengur bara á kafi í að byggja eða nota feðraorlof í puð. Þeir eru þvert á móti á kafi í bleyjum og tilfinningalífi barna sinna.

Bónusarnir eru margir. Það er beinlínis heilsusamlegt að taka feðraorlof. Alla vega uppgötvuðu Svíar, að karlarnir sem taka feðraorlof eiga mun síður hættu á að deyja fyrir fimmtugt en hinir sem nýta sér ekki orlofið. Það hefur lengi verið vitað að konur lifa almennt heilbrigðara lífi eftir að þær verða mæður, en rannsóknir leiddu líka í ljós, að þegar feður bindast börnum sínum tilfinningaböndum verða þeir varkárari, passa sig betur gagnvart hættum, drekka minna og heilsa þeirra batnar. Þeir fara að axla fleiri ábyrgðarhlutverk sem konur hafa sinnt áður. Með batnandi heilsu batnar heimilisbragur og líðan heimilisfólksins þar með.

Margir feður hafa nýtt tímann vel og notið þessa tíma. Einn faðir setti þá athugasemd á netið, að föðurorlof hans hefði verið frábær tími, “sjálfsagt skemmtilegasti tími lífs míns. Feðraorlof er mesta snilld”skrifaði hann.

Vilja vera heima en verða að vinna!

Pabbarnir eru á uppleið á Íslandi en atvinnusamhengi feðranna þarf að bæta. Það kemur í ljós að of margir feður telja sér ekki fært að taka sína orlofsmánuði. Af hverju? Vegna þess að aðstæður í fyrirtæki þeirra leyfi ekki fullt feðraorlof. Ef þeir taka allan orlofstímann eru margir hræddir um að búið verði að grafa undan starfi þeirra eða breyta þegar þeir koma til baka. Pabbar í feðraorlofi upplifa það sem konur hafa mátt búa við í áratugi, að barn stefni vinnu í voða. Of margir feður telja sig tilneydda að fara að vinna áður en þeir eru búnir með sinn kvóta. Það er skaði því það eru börnin sem eiga rétt á feðrunum en ekki fyrirtækin.

Það er skylda mín sem prests, skylda okkar sem safnaðar og skylda okkar sem kirkju að standa með börnum og fjölskyldum í að breyta viðhorfum. Það er skylda yfirmanna að tryggja fjölskyldufrið á ungbarnaheimilum. Jesús bað um að börnunum væri leyft að koma til hans. Það þýðir ekki aðeins að börnum verði heimilað að koma í kirkju, heldur að börnin fái notið alls hins besta í lífinu – líka feðra sinna. Þeir eiga að fá næði til tengjast börnum sínum og vera þeim trúarlegar fyrirmyndir. Faðir, sem nær tíma með barni sínu, fær betri möguleika á að leggja traust í sál þess og gefa því styrkari skaphöfn. Það er trúarlegt erindi og trúarlegt verkefni. Góður föðurtími með börnum skilar oft betri trúarþroska. Traust föðurímynd er sumpart forsenda guðstrausts.

Feður eru mikilvægir fyrir uppeldið. Jesús sagði “leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi.” Skírnin er mikilvæg og Jesús minnti á í skírnarskipuninni, að við ættum að kenna líka. Foreldrarnir báðir hafa trúarhlutverki að gegna.

Verndum feðurna, þá eflum við heilsu fólks, eflum heimilislíf – þá blessum við börnin og Jesús gleðst með fangið fullt af hamingjusömu fólki.

Amen

Hallgrímskirkja, 8. janúar 2017, 1. sunnudag eftir þrettánda.

Hvernig er Guð?

IMG_3082Í vikunni komu tveir ungir menn í Hallgrímskirkju og báðu um viðtal við prest. Þeir komu frá austurhluta Belgíu, settust niður í sófann hjá mér og var mikið niðri fyrir. Þeir upplýstu að þeir væru ekki komnir til Íslands til að skoða íslenska náttúru eða íslenskt mannlíf. Nei, þeir voru komnir til að hitta forseta Íslands og presta á Íslandi. Ég gat alveg skilið að þeir heimsæktu kirkjur og ef þeir rækjust á prestana ræddu þeir við þá líka. Nei, þeir voru ekki kirkjutúristar. Þegar þeir komu í Hallgrímskirkju fóru þeir ekki inn í kirkjuna og höfðu takmarkaðan áhuga á húsinu, listinni og söfnuðinum.

Undir dómi?

Þessir ungu Belgar voru í afar sértækum erindagerðum við forsetann og prestana: „Við erum komnir til að vara fólk við dómi Guðs, vara fólk við til að það iðrist.“ Og þeir upplýstu að siðferðilegt ástand íslensku þjóðarinnar væri slæmt. „Ef þið takið ekki til hjá ykkur verðið þið fyrir alvarlegri refsingu.“ Þetta voru skilaboðin.

Það sló mig að þessir unglingspiltar töluðu og hegðu sér eins og þeir væru þrjú þúsund ára spámenn sem komu með hræðilegan boðskap út úr eyðimerkurryki Miðausturlanda. Fyrst hélt ég að þeir væru að ýkja eða væru með falda myndavél. Svo fór ég að ímynda mér að þeir væru að leika nútímaútgáfu að Jónasi spámanni sem endaði í hvalnum áður en hann fór til Ninive. En svo dagaði á mig að þessi strákar voru komnir alla leið til Íslands til að hitta Guðna Th. Jóhannesson og fjölda af prestum til að tilkynna okkur að við yrðum að snúa baki við öllum nútímaviðmiðum t.d. um samskipti kynja, bæta okkur stórlega í siðferðinu og breyta um trúarafstöðu. Ef ekki, ja þá myndum við farast í eldgosi. Annar þeirra hafði orðið fyrir vitrun. Hann fullyrti að Guð hefði sagt honum þetta beint eins Guð talaði forðum við spámanninn Jónas.

Siðferðileg sýn?

Mér fannst heimsókn dómsspámannanna vondur gjörningur. Það var reyndar furðulegt að þeir sæktu svo langt í burtu frá aðstæðum og þörfum heimahaganna. Eru ekki næg verkefni í Belgíu? Mikil spenna hefur ríkt m.a. vegna múslima sem stýrðu árásum á París fyrir tæplega ári síðan. Hafa þessir ungspámenn hlutverk heima fremur en að fara í trúarvíking til Íslands? Siðferðilega fjarsýnir frekar en nærsýnir?

Þroskaskeiðin

Augljóst var af samtölunum að þessir drengir væru að fara í gegnum þroskaskeið. Mér var ljóst að þeir væru í leit að hlutverki og tilgangi með eigið líf. Flest ungt fólk reynir að spegla eigin hlutverk og drauma í speglum annarra. Flest ungt fólk finnur sér fyrirmyndir, hvort sem það er í fótbolta, pop-menningu, celebum eða snillingum og reynir að líkja eftir fyrirmyndum til að móta eigin stefnu. Mínir strákar horfa á bestu fótboltamenn í heimi og máta sig í íþróttalíf. Mig grunaði að þessir strákar hefðu nördast í einhverjum menningarkima og notað þrjú þúsund ára spámannstexta til að varpa vonum um eigin afrek yfir á Ísland.

Og ég þakkaði Guði í hljóði fyrir að þeir voru ekki í sjálfsvígshugleiðingum – ætluðu ekki að framfylgja einhverjum reiðiórum með því að sprengja eða skjóta Íslendinga. Nei, dómurinn sem þeir boðuðu var eldgos sem þeir ætluðu ekki að framkalla sjálfir heldur myndi Guð taka tappann úr eldfjallinu. Og ég benti á að eldgos væru algeng á Íslandi, stór og smá – það væri þekking í landinu að bregðast við og vissulega væru Katla og Hekla komnar á tíma. Og eldgosin hefðu aukið túrismann í seinni tíð. Meira segja væru ræktunaraðstæðurnar á Þorvaldseyri undir eldfjallinu Eyjafjallajökli betri nú en fyrir gos.

Vondi eða góði Guð?

„Hvað finnst þér um þennan dómsboðskap?“ spurðu Belgarnir, hissa á að ég var til í að ræða við þá. Ég svaraði þeim að allir menn þyftu reglulega að skoða sinn gang, hugsun, stefnu og verk. Allir gerðu mistök sem mikilvægt væri að viðurkenna, biðjast afsökunar á og bæta fyrir. Það væri verkefni okkar allra rækta samband við Guð, menn og náttúru.

Ég væri algerlega ósammála þeim um bókstarfstúlkun þeirra á Biblíunni og hvernig þeir töluðu um Guð. Þeir veldu út ofbeldistexta og skildu ekki stóra samhengið sem Jesús hefði tjáð og sýnt svo vel. Það versta væri að þeir töluðu um Guð eins og Guð væri refsiglaður, pirraður karl. Svoleiðis guðsmynd væri alltaf aðeins vörpun á eigin pirringi, eigin vanlíðan og eigin reiði. Þegar fólk megnaði ekki að leysa vanda sinn, varpaði fólk honum yfir á aðra og teldi að Guð væri að baki. Ofbeldismúslimarnir í Evrópu vörpuðu vanlíðan sinni og reiði yfir hve illa hefði verið farið með múslima yfir á samfélagið. Þeir réttlættu eigin ofbeldisverk með því að nota Guð sem einhvers konar göfgun. Slík guðsmynd væri fjarri þeirri guðsmynd sem Jesús Kristur hefði túlkað, sýnt og opinberað. Guð væri ekki reiður, dómaþyrstur, refsiglaður harðstjóri heldur þvert á móti elskubrunnur veraldar, ástmögur, kærleiksríkur faðmur.

Veröldin væri í lit – Guð elskar alls konar

Þeir glenntu upp augun og ég sagði þeim sögu af því að þegar ég var unglingur skipti ég veröldinni upp svart hvítt, í góða og vonda. En ég hefði á langri æfi lært að Guð er stærri en ég og mínar þarfir. Guð er stærri en þarfir lítilla reiðra karla í vandræðum og mun meiri en þarfir einstakra þjóða. Sá Guð sem ég þekki elskar múslima jafn mikið og kristna, heiðna menn jafn mikið og trúaða, listir jafn mikið og fótbolta, eldgos jafn mikið og tárvot smáblóm í sólarglennu sumarmorguns.

Þetta þótti þeim skrítin og of víðfeðm trú og siðferðið sem presturinn hefði túlkað allt of rúmt. Ég fullyrti að veröldin væri ekki svart-hvít heldur í lit. Guð elskaði alls konar. Það væri okkar lútherski arfur, þannig Guð þekktum við og í ljósi þess boðskapar túlkuðum við Biblíuna og hefðina. Og með það vegarnesti fóru þeir.

Guð ekki neikvæður hedur jákvæður

Og af hverju segi ég þessa sögu? Hún er ekki trúnaðarmál því þeir vildu að ég segði frá og flestir heyrðu um erindi þeirra. Ég segi ég þessa sögu svona ítarlega af því að í dag hefst fermingarfræðslan í Hallgrímskirkju og við getum notað þennan dómsgjörning til að gera okkur grein fyrir valkostum. Fólk kemur í þessa kirkju og aðrar kirkjur þjóðarinnar til að tala um trú, þroska, hlutverk, stefnu, líf í samfélagi og til hvers má vænta af okkur sem manneskjum og sem kristnum einstaklingum.

Boðskapur okkar er að Guð er ekki lítill, refsiglaður siðferðistappi, heldur stórkostleg nánd, sem umvefur okkur. Guð er ekki neikvæður heldur jákvæður. Guð blæs í okkur von, styrk, umhyggju, umburðarlyndi, hrifningu og öllu því besta sem til er í lífinu. Það eru alls konar stefnur til, aðilar og hlutir sem við getum sett í stjórnsæti lífs okkar. Í guðspjallstexta dagsins minnir Jesús á að við getum sett peningana í efsta sætið. Ef svo fer gerum við þau mistök að setja peninga í allt aðra stöðu en best hentar. Peningar eru ekki góður stjórnandi. Peningar eru bara tæki til að nota en ekki til að hlýða. Þegar við ruglumst og setjum peninga sem markmið þá verða afleiðingarnar rugl. Þá erum við komin með peningaguð en ekki handhægt verslunartæki.

Ekkert má ná tökum á okkur og móta, nema ofurgæðin sem gera okkur gott og bæta líf okkar. Okkur mönnum hættir til að setja það sem er á þarfasviðinu í bílstjórasæti lífsins. Ef við erum reið eða bitur vörpum við slíkum tilfinningum á líf okkar og látum stjórnast af þeim myrku þáttum. Ef við erum hvatalega bæld verða hvatir, t.d. kynhvöt, að stjórnvaldi lífs okkar. Ef við erum beygluð tilfinningalega vörpum við líklega vandanum yfir á öll tengsl við fólkið okkar. Hvað stjórnar þér, hvað viltu að sé leiðarljós þitt? Kirkjan getur verið þér frábær vettvangur til að hugsa um þroska þinn, hlutverk þín og þig sjálfan og sjáfa.

Á hvaða ferð ert þú?

Belgaunglingarnir eru farnir og ég hugsaði með mér: Þegar þessir strákar líta til baka eftir fjörutíu ár og hugsa um Íslandsdóminn mikla – þá munu þeir vonandi segja: „Já, þetta var merkileg ferð. Við héldum að við værum að kasta dómi yfir forseta, presta og íslensku þjóðina – en við vorum bara á okkar eigin þroskaferð. Það sem við héldum að væri fyrir aðra var okkar eigin þroskaglíma. Málið var ekki að Ísland tæki út þroska heldur við sjálfir.“

Nú ert þú á þinni ferð, þið sem eruð í kirkjunni í dag, ung eða eldri, fermingarungmenni, fjölskyldur, kórfólk frá Oslo, við starfsfólk kirkjunnar, þið sóknarfólk sem sækið messu. Þú ert á ferð – á þroskavegferð. Þú mátt gjarnan svara spurningunni sem varðar þig: Hver stjórnar þínu lífi? Eru það einhverjar sálarþarfir sem þú varpar yfir í vitund þína og réttlætir svo?

Eða hefur þú opnað fyrir þeim Guði sem gaf þér lífið, heldur þér á lífi alla daga, nærir þig fremur með von en dómi, kallar þig fremur til ástar en haturs, lýsir þér út úr myrkrinu og elskar hlátur og gaman? Það er svoleiðis Guð sem á heima í þessu guðshúsi, sem við tölum við og þráum að búi hjá okkur. Um þann Guð syngjum við, spilum fyrir í músík kirkjunnar og sjáum í leiftri listarinnar og sólarinnar í kirkjuskipinu. Við trúum á þann Guð sem Jesús opinberaði okkur. Sá Guð er ekki neikvæður heldur bara jákvæður.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 4. september, 2016. A-textaröð. 15. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Liverpool, Klopp og lífsviskan

Í gær var ég að vinna í prédikun dagsins. Tíu ára gamall sonur minn beygði sig yfir tölvuna þegar hann sá að ég var að skrifa um fótbolta, las lengi, horfði svo á mig og sagði: “Þetta er góð ræða hjá þér pabbi minn!“  Hann hefur gaman af knattspyrnu, iðkar hana og veit mikið um fótboltafræðin. Og í dag ætla ég að ræða um áhugamál hans og þeirra bræðra.

Knattspyrna hefur ekki verið meginefni íhugana í kirkjum landsins og kemur ekki við sögu í messum hvern sunnudag. En boltaíþróttir eru mikilvægar í lífi nútímafólks, tengja saman þjóðir og hópa og eru fremur til friðar en ófriðar. Þær vekja áhuga á fólki frá öðrum svæðum, borgum og menningu. Knattspyrnusamtök vinna að ýmsum góðum málum t.d. er respect-virðingarátak FIFA til að innblása fólki mannvirðingu, að láta engan gjalda fyrir útlit, bakgrunn, lit eða eigindir. Ég tala um fótbolta í dag – ekki til að mæra eða hælast af íslensku landsliðum kvenna og karla sem bæði eru frábær – heldur til að íhuga lífið og hvað er til eflingar. Í dag er það fótbolti og guðsríkið en skoðunarefnið gæti allt eins verið blak, körfubolti og handbolti – raunar allar íþróttir – því kristinn boðskapur fjallar um allt fólk og veröldina.

Season of salvation

FourFourTwoÍ ágústbyrjun kom inn á mitt heimili tímaritið FourFourTwo sem er knattspyrnutímarit. Forsíðan var óvenjuleg og minnti á steindan glugga, helgimynd í kirkju. En í stað postula og engla eru á myndinni fótboltakarlar sem eru frægir fyrir fleira en siðprýði og hetjulund. Á myndinni eru líka Arsene Wenger þjálfari Arsenal í London, þáverandi Liverpool-stjóri, Brendan Rogers, Wayne Rooney úr Manchester United og Vincent Kompany úr City. José Mourinho, einn skrautlegasti knattspyrnustjóri heims, er á miðju myndarinnar eins og Jesús en þó í lakkskóm, með bindi og í jakkafötum. Margar helgimyndir hafa púka einhvers staðar til að minna á að lífið er ekki bara leikur á himneskum blómavelli. Það er m.a.s. púki á Hallgrímsmyndinni yfir aðaldyrum þessarar kirkju. Sepp Blatter, FIFA-forsetinn, er á tímaritsmyndinni í hlutverki hins illa enda aðalleikari í langdreginni spillingarsögu FIFA. Welcome to the Season of Salvation. Velkomin til tíma lausnarinnar, tíma frelsisins. Eða hvað?

Trúlegu skot fótboltans

Þessi forsíða varð umtöluð í knattspyrnuheiminum og þótti ýmsum sú besta í langan tíma. Fótboltinn skýst ekki aðeins inn í peningaveröldina og tískuheiminn heldur yfirtekur boltamenningin líka ýmis ritúalhlutverk trúarbragðanna. Trúarlífsfélagsfræðingarnir hafa löngum bent á að í atferli leikmanna og áhorfenda séu trúarvíddir og boltamenningin þjóni ýmsum þörfum fólks, t.d. að tilheyra hópi, samhengi og þiggja skilgreiningu um hlutverk sín. Og boltinn gegnir uppeldishlutverki einnig því hetjurnar verða mörgum fyrirmyndir um hegðun og afstöðu. Boltasiðferðið verður viðbót eða jafnvel viðmið grunnuppeldis.

Útaf

Það er ekkert öruggt í boltanum. Síða fótboltablaðsins í ágúst er orðin úrelt. Brendan Rogers – sem þjálfaði Gylfa Þór Sigurðsson hjá Swansea og vildi fá hann með sér til Liverpool þgar hann fór þangað -var sagt upp. Honum var hent út, settur út af “sakramentinu” – sýnt rauða spjaldið. Hann þótti ekki nógu góður því Liverpool hefur tapað og tapað og er mun neðar á stigatöflunni en púlarar (stuðningsmenn Liverpool) sætta sig við. „You never walk alone“ er slagorð Liverpool en nú gengur Rogers aleinn og yfirgefinn. Mourinho í Chelsea er hugsanlega á útleið og hinir jafnvel líka.

Celebrity-menningin

Helgimynd fótboltans í ágústblaðinu varð mér til íhugunar. Það er ekki rétt að fótboltahetjurnar hafi geislabaug sem verðlaunaskjöld eldskírnar, sigurlaun í úrslitaleik lífsins. Hetjunum á takkaskónum er hampað um stund meðan þeir hafa töfra í tánum og þjóna hlutverki í liðinu sínu en svo er þeim kastað út. Ef þeir eru “góðir” í boltanum eru sjaldnast gerðar til þeirra miklar vistmunalegar, menntunar-, félagslegar eða siðferðilegar kröfur enda hefur komið í ljós að margar stjörnurnar í boltanum hafa brennt illa af í vítaskotum einkalífsins.

Íþróttahetjurnar hafa orðið hluti celebrity-meningarinnar. Fótboltastjörnurnar eru í hópi fræga fólksins. Menningararvefur vestrænna samfélaga hefur breyst. Áhersla á dyggðir hefur dvínað og siðferðisgildunum hefur verið skotið út af. Þetta á við um meginskyldur, aðalreglur lífs, mennsku og trúar, að við berum ábyrgð á hverju öðru, velferð annarra, menningargildum og samfélagi. Þessi siðgildi skiljast illa eða ekki. Hetjur í trúarlegum, samfélagslegum, pólitískum og menningarlegum skilningi eru týndar en fræga fólkið er komið í staðinn. Celebrity-menningin er umbreyta viðmiðum og er sett í staðinn fyrir siðmenningu eða flæðir inn í götin sem myndast í gildaflæði. Fræga fólkið getur orðið fyrirmyndir í ýmsu en sjaldnast sem þroskaðar fyrirmyndir um hvað við eigum að gera í siðferðisklemmu, gagnvart flóttamönnum í neyð, í nánum samskiptum fjölskyldu og áföllum eða gagnvart dauða.

Árni Guðjón var skírður áðan. Hvað haldið þið að foreldrar hans og fjölskylda vilji helst gefa honum sem nesti til ævinnar? Það sem reynist honum best. Hann mun alast upp í samhengi og menningu sem haldið er fram í samfélagi og vefmiðlum og foreldrarnir vilja að hann mannist vel og hafi gott innræti, menningu og menntun til lífs.

Hvernig afstaða og iðkun

Textar dagsins fjalla um tengsl fólks. Við erum minnt á hetjuna Rut í bók sem ber nafn hennar. Hún var flóttamaður sem þorði að velja hið erfiða en siðferðilega fagra. Í dauðanum valdi hún lífið. Hún var hetja og því dýrlingur. Í pistlinum er fjallað um að gera hið rétta, iðka hið góða sem alltaf er í krafti Guðs og vera þar með skínandi ljós og fyrirmynd meðal fólks. Í guðspjallinu er svo sjónum beint að mismunandi viðbrögðum fólks. Þar eru tveir en ólíkir synir. Annar segir já þegar pabbi hans bað hann en gerði þó ekkert. Hann sem sé sveik. Hinn sagi nei við pabbabeiðninni en framkvæmdi þó það sem beðið var um. Líf fólks er líf gagnvart öðrum, atferli okkar hefur áhrif á aðra og varðar gildi, sannleika, traust eða vantraust. Við erum alltaf í tengslum og iðkum annað hvort hið góða eða vonda. Og yfir okkur er vakað. Allt sem við gerum eru tengsl við grunn lífins, það sem við trúmenn köllum Guð. Jesús sagði að það sem við gerðum hinum minnstu systkinum gerðum við honum.

Klopp og Guð

Áfram með fótboltann. Brendan Rogers var rekinn frá Liverpool og er aleinn og yfirgefinn. Og af því celeb-menningin gleypir siðinn er söngur Liverpool úreltur: You never walk alone. Svo var Jürgen Klopp ráðinn í hans stað. Hann er kraftaverkamaður sem gerði Borussia Dortmund að stórkostlegu liði í Þýskalandi og heimsboltanum. Af hverju skilar hann liðum lengra en aðrir? Það er vegna þess að Klopp byggir á gildum en ekki yfirborðshasar, virðir mennsku spilaranna en ekki bara töfra í tánum, leggur upp úr að allir vitji þess sem innra býr og spili með hjartanu.

En af hverju þessar íþróttafréttir í messu? Hvað kemur Klopp kirkju við? Það er vegna þess að Guð er aðili að fótbolta Klopp. Hann var spurður um hvort fótboltaguðinn hefði snúið baki við honum. Klopp skrifaði og talaði um að hann tryði ekki á fótboltaguð heldur alvöru Guð. Við menn værum í frábærlega góðum höndum Guðs sem væri stórkostlegur. Sá Guð elskaði okkur, með kostum okkar en líka göllum og hefði gert okkur ábyrg gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Guð héldi ekki á okkur sem strengjabrúðum. Við værum sjálf ábyrg fyrir því sem við værum og gerðum. Við menn yrðu að skora okkar eigin mörk í lífinu.

Knattspyrnan hjá Klopp er ekki kristilegri heldur en í hinum liðunum – heldur er afstaða hans til mannlífs og annara hið áhugaverða og skilar að mínu viti jákvæðri mannsýn, hvatningu og ástríðu. Sem drengur í Svartaskógi var hann alinn upp við eflandi tengsl við Guð. Mamman kenndi honum bænir og amman fór með hann í kirkju sem hann sækir. Hann tekur tíma á hverjum degi til að vitja sjálfs sín og biðja sínar bænir. Síðan hefur hann lifað í stóra neti guðstrúarinnar og ræktaðri mannvirðingu. Sem þjálfari nálgast hann leikmenn sem mannverur en ekki aðeins vöðvavélar, að allir leiti hamingju og merkingar í áföllum og gleði lífsins. Nú festa hundruðir þúsunda aðdáenda Liverpool trú sína við Klopp en Klopp festir trú sína við meira en sjálfan sig.

Árni Guðjón, ferðamennirnir og þú í þínum verkum, gleði og sorgum, fótboltabullurnar og öll hin sem hafa engan áhuga á tuðrum, – öll reynum við að lifa hamingjuríku lífi. Hvað dugar best; celeb eða siður, lúkkið eða viskan? Ætlar þú að segja já eða nei í lífinu? Hvað ætlar þú gera? Já er best í lífinu og siðvit í samræmi við það já.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju 20. sunnudag eftir þrenningarhátíð, 18. október, 2015.

Lexía: Rut 2.8-12

Þá sagði Bóas við Rut: „Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“

Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann:

„Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Bóas svaraði: „Mér hefur verið sagt allt um það hvernig þér fórst við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, að þú yfirgafst föður þinn og móður og ættland þitt og fórst til þjóðar sem þú hafðir aldrei áður kynnst. Drottinn, Guð Ísraels, launi þér verk þitt til fullnustu fyrst að þú ert komin til að leita verndar undir vængjum hans.“

Pistill: Fil 2.12-18

Þess vegna, mín elskuðu, sem ætíð hafið verið hlýðin, vinnið nú að sáluhjálp ykkar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá ykkur, því fremur nú þegar ég er fjarri. Því að það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar. Gerið allt án þess að mögla og hika til þess að þið verðið óaðfinnanleg og hrein, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gerspilltrar kynslóðar sem þið skínið hjá eins og ljós í heiminum. Haldið fast við orð lífsins mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis. Enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína þegar ég ber trú ykkar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst ykkur öllum. Af hinu sama skuluð þið einnig gleðjast og samgleðjast mér.

Guðspjall: Matt 21.28-32

Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra gerði vilja föðurins?“ Þeir svara: „Sá fyrri.“ Þá mælti Jesús: „Sannlega segi ég ykkur: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til ykkar og vísaði ykkur á réttan veg og þið trúðuð honum ekki en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þið en tókuð samt ekki sinnaskiptum og trúðuð honum.“