Greinasafn fyrir merki: Guð

Ég um mig frá mér til mín

„Nei, ég trúi bara á sjálfa mig. Ég trúi ekki á neitt, sem er meira en ég sjálf.“ Hópur fólks var að ræða um trú og trúariðkun og ein spurningin var: „Trúir þú á Guð?“ Svarið var nei. Trúarafstaða fólks er með ýmsu móti en róttækust þegar fólk trúir bara á sjálft sig og ekkert stærra eða meira. Mörk trúar skipta máli. Líka á hvað við festum traust okkar og hvort eðlileg sjálfsást útiloki það sem er stærra en eigið egó. Ég um mig frá mér til mín.

Að trúa bara á sjálfan sig er afmarkandi afstaða og útilokar veruleika Guðs og lífs eftir dauða. Þetta er merkilega skýrt og afgerandi svar þeirrar lífsafstöðu, sem hríslast um allan hinn vestræna heim og er að eðlisbreyta hinni litríku og lífselsku veraldarnálgun hins kristna heims í allt annað en mannvinsamlega menningu. Því ég-menningin raðar gildum skýrt og klárt. Ekkert er einstaklingnum æðra, engin gildi sem þarf að taka mið af sem ekki varða “mig” eða “mitt”. Ég-menning er vefur einstaklingshyggju. Ég-menningin er skeytingarlaus um stórgildi sögu eða þarfa annarra. Guð er þessu fólki dauður, trúin óþörf, sem og listin og allt hitt sem einstaklingurinn kann ekki við eða speglast vel í prívatspegli sjálfsdýrkunarinnar. Viðmiðið er skýrt: Ég um mig frá mér til mín. Annað er plat, fake newseða óþarft.

Sjálfurnar

Fyrir nokkrun áratugun voru þau talin kjánar, sem voru bara upptekin af sjálfum sér. Að taka myndir af sér var talið skrítið. En nú eru selfie-stangirnar staðalbúnaður ferðafólks. Það sjáum við vel í og við Hallgrímskirkju. Sjálfufólkið tekur myndir af sér með kirkju, orgel eða altari í baksýn. Ferðalög margra eru eðins ferðir sjálfsins og umhverfið er fremur bakgrunnur en meginmyndefnið. Myndasmiðurinn er ekki lengur á bak við vélina heldur framan við og fremstur á myndinni. Ljósmyndarinn er í fókus og veröldin er í bakgrunni.

 Í textagerð er hliðstæð þróun. Þegar fólk skrifaði greinar í blöð eða tjáði sig opinberlega fyrir hálfri öld var sjaldgæft að fólk bæri einkamál á torg. Orðið ég mátti helst ekki koma fyrir í textum. En nú er það ég einstaklinganna, sem lætur gamminn geysa á samfélagssíðunum, í fjölmiðlum og í opinberri orðræðu. Til að segja sögu er ekki nóg að skrifa litríkan texta um eitthvað utan eigin ramma heldur er áherslan á eigin lífsreynslu og stýrir hvernig efni eru kynnt, hvernig efni er raðað og ritsmíð lokið. Ég um mig frá mér til mín.  

Lúkkið

Strákarnir – ekki síður en stelpurnar – standa við spegla heimsins og dást að sér og skoða lúkkið. Á heimilinum eru háð neyslustríð. Unga kynslóðin verður að kaupa nýju skóna, nýjastu búningana og vera á öldufaldi tískunnar. Annars er hætt við að þau falli gagnvart grimmu alvaldi einhverrar sjálskipaðrar tískulöggu, sem ekki leyfir neitt eldra en tveggja mánaða. Eldri kynslóðin tekur líka þátt í neyslu ég-menningarinnar. Spegill, spegill herm þú mér – er ég ekki flottur – er ég ekki smart? Útlit er sjálfufólkinu mikilvægara en innræti. Og því eru allar þessar umbreytingar á fólki, fegrunaraðgerðir og svo eru sýndartjöld sett upp á heimilum og í lífsferðum fólks. Sjálfhverfingin stýrir.

Narcissus

Fólk hefur um allar aldir verið upp tekið af sjálfu sér og misst sjónar á samhengi sínum, gildum og samfélagi. Grikkir sögðu t.d. sögu um Narcissus sem tákngerving sjálfsástarfólks heimsins. Örlög hans voru að elska aðeins sjálfan sig og engan annan eða aðra. Ég um mig frá mér til mín. Narcissus var svo hrifinn af spegilmynd sinni, að hann gat ekki slitið sig frá henni, verslaðist upp og dó. Vegna sjálfumgleði fólks í samtíma okkar og þar með skertrar samkenndar hefur uppvaxandi kynslóð verið kölluð narkissa-kynslóðin, sjálfukynslóðin. Vissulega hafa egóistarnir alltaf verið til, fólk sem þjónar helst eigin duttlungum og hagsmunum. Hin siðblindu eru verstu fulltrúar sjálfhverfunnar. Þegar menning Vesturlanda tekur sjálfhverfa u-beygju veiklast samfélagsgildin. Ég-menningin setur viðmið. Sannleikur er ekki lengur hlutlægur veruleiki þeim sem hugsa þröngt frá eigin sjónarhóli, heldur eitthvað sem þarfir einstaklinganna kalla á. Pólitískir loddarar halda fram að satt sé lygi og fake-news. Aukinn stuðningur við pólitíska öfgaflokka er einn liður þessarar þróunar. Guðstrú og trúarafstaða fólks breytist einnig. Það, sem ekki þjónar sjálfinu og uppfyllir einkaþarfir, er látið gossa. Sjálfusóttin getur verið jafn skefljalaus og fíkn og hefur líka skelfilegar afleiðingar í fjölskyldum þeirra, sem eru kengbogin inn í sjálf sig. Trúarstofnanir og menningarstofnanir lenda í svelg og týnast í glatkistu sögunnar.

Tengslin?

Ef fólk afneitar því sem er stærra en það sjálft tapast Guðstengingunni og heimsmyndin breytist. Að vera trúlaus er ekki það að efast, vera veikur í trúnni eða reiður Guði, þegar sorgin nístir og allt virðist mótdrægt. Nei, trúleysi er sú afstaða að maður sjálfur sé nafli heimsins, miðja alls sem er. Það er trúleysi að hafna að Guð sé Guð. Broddurinn í allri ræðu Jesú er: Hverju trúir þú? Heldur þú framhjá Guði með því að dýrka þig?”

Ég eða Guð

Hvar stendur þú og hvert stefnir þú? Trú er ekki aðeins mál framtíðar eða elliára heldur varðar núið. Guð er innan í þér, í náttúrunni, í fegurðinni, ástinni, lofsöngvum kristninnar, kærleiksverkum veraldar. Fyrir framan öllsem horfa í spegla heimsins og dýrka eigið sjálfer Guð sem horfir og elskar þetta fólk sem speglar sig. En Guð neyðir engan til gæfuríks lífs, opnar ekki framtíð og eilífð nema fólk virðiað lífið er meira en eigin nafli – og opni eigið sjálf. Maðursem er kengboginn inn í sjálfan sig og fókuserar bara á sjálfan sigsér ekki samhengi lífsins. Ég-menningin er menning andlegrar fátæktar og samfélagslegrar upplausnar. Ég um mig frá mér til mín er hraðvirkasta leið dauðans í þessum heimi.

Við erum mikilvæg í hinu stóra

Hver er grunngerð okkar? Allt fólk er hamingjusækið. Okkur dreymir um að fá að njóta lífsins. En til að draumurinn rætist verðum við að sjá okkur sjálf, kosti okkar og galla. Óraunsæ aðdáun á eigin snilli og lúkki er ekki nóg. Við þurfum þroskaða visku og agað raunsæi til að við öðlumst heilbrigða sjálfsmynd. Þroskuð manneskja hugsar um fleira en eigin þarfir. Tilveran er stærri en spegilsalur sjálfsins.

Kirkjan í heiminum er speglasalur himinsins. Guð horfir á okkur og vill okkur vel, gefur gildi og samhengi, lærdóm, list og fegurð til að njóta og samfélag til að lifa í og þjóna. Stærstu og glæsilegustu draumarnir eru í vitund Guðs, sem dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi söfnuður fólks njóti lífsins. Ég-menningin hrynur því hún er sjálfhverf fíknarmenning. En veröld trúarinnar varðar sannleika lífsins. Í veröld trúarinnar tekur fólk þátt í hinum raunverulega draumi Guðs um elskuna, um hamingjuna, vonina og lífið. Þar ertu elskaður og elskuð. Þar ertu raunverulega til og í raunverulegum tengslum. Ég um okkur frá veröld til Guðs.

Hvar áttu heima?

Fyrir nokkrum dögum síðan talaði ég við skemmtilegan mann í Gautaborg. Hann vakti athygli þar sem hann fór því hann var kátur en líka einstakur vegna áberandi brunasára og fingralausra handa. Andlitið var flekkótt, útlimirnir voru skellóttir og augun höfðu skaddast. Við fórum að tala saman og maðurinn sagði mér, að hann hefði fæðst í Íran en flust til Svíþjóðar þegar hann var barn. Svo hafði hann lent í hræðilegum og alræmdum bruna í Gautaborg, en hafði lifað af, reyndar mjög illa farinn. „Þess vegna er ég svona“ sagði hann. Þegar hann var búinn að segja mér sögu sína spurði ég. „En hvar áttu heima? Hvar er tilfinningalegt heimili þitt? Er það í Íran, Gautaborg eða annars staðar?“ Maðurinn horfði á mig með öðru auganu og hitt leitaði eitthvað annað og sagði: „Mitt heimili er jörðin. Ég á ekki heima í Íran eða Svíþjóð eða neinum einum stað. Ég er jarðarbúi.“ Þetta stóra svar mannsins hefur lifað með mér síðan. Hvar er heima og hvað merkir það?

Gothia 2019

Ég fór til Gautaborgar með drengjum mínum og stórum KR-hópi á Gothia Cup – sem er vikulöng fótboltaveisla. Með í för voru þrír þjálfarar, fararstjórar, foreldrar sem sáu um að unglingarnir fengju svefn, næringu og öryggi. Og þeir voru með töfra í tám og fótum og spiluðu góðan fótbolta. En það voru ekki aðeins lið úr Vesturbænum sem voru í borginni þessa daga heldur 32 íslensk lið auk hinna erlendu, bæði karlalið en líka kvennalið. 1686 lið tóku þátt í mótinu og frá 177 þjóðlöndum.

Ég ætlaði varla að nenna á setningarhátíðina, sem átti að halda á Nyja Ullevi-leikvanginum í miðborg Gautaborgar. En við fórum samt og ég sá ekki eftir að fara því hátíðin var áhrifarík. Mannhaf fyllti leikvanginn. Fjörið var mikið, fánar heimsins brostu í kvöldsólinni og það dagaði á mig undir dillandi tónlist, stórbrotnum danssýningum og söng, sem tugir þúsunda tóku þátt í, að þessi knattspyrnuveisla væri heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Allir voru komnir til að gera sitt besta, gleðjast, tengjast, segja sögur, hlægja og spila fótbolta. Lífið alls konar og fjölbreytilegt. Stóri heimurinn skrapp saman og hið nálæga varð stórt. Sú tilfinning helltist yfir mig, að þessi litríki hópur væri ein hjörð. Þetta væri einn heimur, sem við byggjum í. Litarháttur fólksins var mismunandi en gleðin var lík, söngurinn sameinaði og boltagleðin kallaði fram samsemd. Og því var niðurstaða viðmælanda míns svo áhrifarík: „Mitt heimili er jörðin. Ég er jarðarbúi.“

Gildi, djúptengsl – heima

Hvar áttu heima? Og staldraðu við – hvar er festa þín? Hvað skiptir þig máli og hvar ertu sönn eða sannur? Við mennirnir erum ekki eins, en þurfum þó að vera eitt. Við eigum þessa jörð sameiginlega. Við erum afkomendur jarðarinnar og berum ábyrgð á henni. Á minningardögum sem eru haldnir þessa dagana um tunglferðir hafa verið dregnar fram myndir úr ferðunum. Og áhrifaríkastar eru jarðarmyndirnar, af bláu, dásamlega fallegu kúlunni. Hún er heimili okkar. Ef höfin mengast meira og hiti hækkar enn frekar þá förum við ekki eitthvað annað, á hitt heimili okkar. Við getum ekki flúið burt. Við erum heima, á jörðinni. Það er ekkert plan B.

Lífið

Textar dagsins fjalla um líf. Lexían dregur upp stórkostlega mynd af listrænum skapara, sem býr til flotta veröld og dregur upp tjöld himins. Svo er í pistlinum fjallað um hið góða líf, sem okkur er boðið að lifa, heimsskipan sem tengir allt og alla og skapar lífgefandi jafnvægi. Og svo er guðspjallð úr frægustu ræðu heimsins, fjallræðu Jesú í Matteusarguðspjalli. Þar setur Jesús veröld, himinn og jörð í samhengi. Og þar er ekki uppgjöf, mengun, dauði, hræðsla, heldur þvert á móti von, lífsgæði og dásamleg skipan alls sem er. Af því Guð er og elskar er ekki bara sorg og líf til dauða. Lífið lifir. Lífið er sterkara en allt sem ógnar. Lífið er meira en efnislífið því Guð er og elskar.

Vonleysi eða von

En svo er allt hið neikvæða. Miðlar heimsins hafa tekið að sér að boða vond tíðindi og alls konar dómsdaga. Boðskapur illfara og dauða, mengunar, stríða og ógna dynja á okkur alla daga. Svo eru allt of margir stjórnmálamenn sem magna ófrið, bera fram kreddur sínar um aðskilnað hópa og þjóða. Það eru þeir, sem vilja loka löndum gegn þeim sem eru á flótta. Við eigum að staldra við og horfa með gagnrýni. Ríki hluti heimsins horfist ekki í augu við, að það erum við sem lifum umfram efni og getu veraldar til að fæða og næra. Neysluspor okkar eru langt umfram hið eðlilega. Í stað þess að bregðast við með auðmýkt, mannúð og kærleika er alið á ótta, andstöðu, aðgreiningum. Stjórnmál Bandaríkjanna eru að rotna innan frá með ótta- ógnar- og hatursboðskap. Traustið rofnar. Í menningu Evrópu og Bandaríkjanna takast á grunngildi mannúðar og kærleika annars vegar og sérhyggju og andúðar hins vegar. Og útgönguhasar Bretlands úr Evrópusambandinu magnar líka hópa-aðgreiningar og tortryggni.

Aðgreiningarhyggjan, sem myndar veggi og múra, fjandskapast við dansandi fólk á fótboltamóti í Gautaborg. Hatursboðskapur er í andstöðu við kristna réttlætis-friðar- og siðferðishefð. Hrætt fólk leggur áherslu á aukna aðgreiningu en ekki aukna samvinnu. Hvar áttu heima? Og ekki spurt hvort þú eigir heima í Reykjavík, Garðabæ eða einhverju öðru sveitarfélagi hér á landi eða erlendis. Spurningin varðar hver gildi þín eru, heildindi og hagsmunir. Áttu heima jörðinni, ertu jarðlingur – eða sérréttindasinni? Áttu heima í sérstækum forréttindakima?

Guð hefur áhuga á lífi fólks og velferð heimsins

Skiptir aðgreiningarhyggjan og menningarleg átakamál kristindóminn máli? Já, hlutverk kirkju Krists er alltaf að standa með lífi, réttlæti, friði og kærleika. Jesús Kristur er ekki pólitískur leiðtogi heldur frelsari heimsins, sem frelsar fólk frá synd fangelsum illra tilfinninga og óréttlæti. Við fulltrúar hans í heiminum erum ekki flokkspólitísk fyrst og fremst – heldur pólitísk vegna trúar okkar. Málflutningur okkar er hinn guðlega elska sem alltaf er í þágu lífins. Því spyrjum við okkur sjálf, fólkið okkar, samfélag okkar og stofnanir, stjórnmálamenn og uppalendur um gildi, hvaða gildi liggi til grundvallar. Þegar stjórnmálaflokkar reyna að tryggja hag hóps fólks á kostnað annarra ber að bregðast við. Þau sem eiga sér ekki málsvara eiga hann alltaf í Jesú Kristi.

Kristinn siður og siðferði

Hinn kristni siður hefur trosnað í vef þjóðfélaga hins ríka hluta heimsins. Þar með hefur bilað mikilvæg kjölfesta menningarinnar. Það er gott, að forréttindi kirkjustofnana eru að hverfa, en það er hins vegar stórkostlega alvarlegt að siðferðileg festa riðlast, siðvitið veiklast og flestir hugsa aðeins um eigin hag. Það er háskalegt þegar fólk gleymir, að við erum öll meðlimir hins stóra samfélags mannkyns. Þurrkar í Afríku eða stríð í Asíu eru ekki aðeins vandamál í Afríku eða Asíu. Það eru okkar mál líka. Þegar stórviðburðir verða flýr fólk voðann og flæðir yfir löndin. Við erum ein stórfjölskylda á sameiginlegu heimili. Við erum öll ábyrg og kölluð til að vera eitt í þessum heimi. Við eigum að vera ábyrg í pólitík okkar, neyslu, matarnotkun og tengslum. Og við eigum að fara vel með jörðina okkar og gæta hennar. Það er köllun, sem Guð hefur úthlutað.

Það er búið að flauta. Leikurinn er hafinn, boltinn rúllar og allir menn eru með. Líka hin brenndu. Hinum sjálfhverfu eiginhagsmunaseggjum er boðið að vera með því við eigum að vera jarðarbúar. Hvernig viltu að heimili þitt sé? Guð hefur mjög sterkar skoðanir á því máli, hefur bæði slökkt elda og læknað sár og vill að við gerum hið sama.

Velkomin heim.

Amen.  

Hugleiðing 28. Júlí, 2019. Hallgrímskirkja. 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Myndirnar: Broskarlinn var við fætur okkar samtalsaðilanna, er á skólalóð Lerlycke-skólans i Hisingen, Gautaborg. Hin myndin er lánuð frá Sony Bravia. 

I did tell about my encounter with a man in Gothenburg some days ago. I was there as a father of two soccer-boys who – among thousands of young footballers – were feasting for a week. I met the man where the Icelandic teams were sleeping. He told me he was Iranian by birth but he had lived in Sweden since his childhood. And I asked him about his emtional home. Are you at home in Iran or Sweden? He watched me and told me: „I am at home on Earth. I am an Earthling but not Swedish or Iranian. A passport does not define you.“ We then had a fruitful and thoughtful conversation on the ethics of that approach. Then I went to the inauguration ceremony of the Gothia Cup. Flags of 177 nations were flying high. People of all colors were feasting, singing and dancing. And the ceremony brought again back to me that we are one humanity, one family in a single home – the Earth.

The biblical texts for this day single out that God has created life and our habitat. We are God‘s people. Jesus Christ has come to save the world. And that entails that we – as followers of Jesus Christ – are called to serve life, serve people and serve nature. Jesus Christ – as the savior of the world – is not specializing in „out of the world issues,“ but issues of politics, „down to earth issues,“ and real issues of struggle of human beings. One world, one family One Lord. How many of you are non-Icelandic in church today? Welcome home. You are an Earthling with the role of working for the common good of all of humanity and Nature. Welcome home.

 

Nr. 1 fyrsta boðorðið

Ef einhver brýtur af sér eða verður fyrir stórkostlegu áfalli – hvað er þá hægt að gera? Hvernig á að bregðast við ef allt fer í rugl á heimilum? Hvað er hægt að gera þegar hrun verður í þjóðfélagi? Hvað er vænlegast ef kreppur trylla stórar hreyfingar eða félög? Hvað gerir þú þegar eitthvað mikið gerist í lífi þínu? Þá þarf að stoppa, bregðast við af raunsæi og finna bestu útleiðina. Stundum þarf að taka u-beygju, viðurkenna vandann, iðrast og setja nýjar reglur.

Í stað þess að leggja út af guðspjalli dagsins munum við, prestar Hallgrímskirkju, íhuga boðorðin næstu vikurnar. Boðorðin eru einstök. Þau hafa verið milljörðum manna leiðbeiningar í þúsundir ára. Þau hafa verið kölluð umferðarreglur lífsins. Boðorðin eru dýrmæti – ekki aðeins trúmönnum, heldur eru þau líka þættir í siðfræði og siðferði heimsbyggðarinnar. Andi þeirra hefur mótað mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og haft áhrif á löggjöf, mannskilning, hugmyndir um réttindi og réttlæti og hvernig við skiljum rétt og rangt. Boðorðin hafa verið eins konar vegprestar við lagagerð og samtal um hið réttláta þjóðfélag. En hvert er gildi þeirra nú? Hafa þau gildi í nútímasamfélagi?

Fleiri lög eða innræti?

Í miðju efnahagshruninu fyrir rúmum áratug urðu deilur um leiðir út úr vandanum. Margir töldu, að skerpa yrði löggjöf og gera nýja stjórnarskrá til að fyrirbyggja hörmungar í framtíð. Jón Sigurðsson, sem um tíma var formaður Framsóknarflokksins, sagði þá að endurskoðun laga væri ekki sjálfgefin lausn vandans, en það myndi hjálpa ef fólk færi bara eftir boðorðunum! Það er þörf ábending. Það er ekki nóg að setja góð lög ef fólk er ósammála anda þeirra og fer ekki eftir þeim.

Hvaða skoðun hefur þú á boðorðunum? Telur þú, að ef fólk lifir í anda boðorðanna megi vænta góðra mannasiða og blómstrandi þjóðfélags?

Manstu fimmta boðorðið og manstu kannski alla röðina? Fyrstu þrjú boðorðin varða afstöðu manna til hins guðlega, en sjö seinni orðin eru um mannheim. Boðorðin eru í heild á tveimur stöðum í Biblíunni, í annari Mósebók tuttugasta kafla og síðan í fimmtu Mósebók í fimmta kafla. Og kaflarnir eru ólíkir.

Boðorðin eru sett inn í söguframvindu eyðimerkurgöngunnar, en þau endurspegla lífshætti borgarsamfélags en ekki siðfræði og siðferði umreiknandi hirðingjaflokks. Boðin eru hluti af regluverki þjóðar og eins og við vitum þarf heilbrigt þjóðfélag samfélagssáttmála, leikreglur um samskipti og úrlausn mála. Þessi fáu boðorð eru aðeins nokkur af miklum reglubálki hebresku þjóðarinnar. Og reglurnar, sem þeir settu sér, eru raunar mörg þúsund. Það er ekki aðalatriði, að þú munir hvort bann við morðum sé á undan eða eftir banni við hjúskaparbrotum. Það er ekki aðalatriði að þú þekkir, munir eða skiljir þessi boð, heldur að andi þeirra móti til góðs og verði innræti þitt.

Kristnir menn hafa um aldir kennt, að boðorðin séu mikilvæg en þó ekki skuldbindandi reglur. Lög, boð og skyldur eru ekki miðja eða höfuðatriði kristins átrúnaðar heldur Guð. En gruflandi trúmaður spyr hins vegar um afleiður sambandsins við þennan Guð, sem alltaf er túlkaður sem guð réttlætis og umhyggju. Trú er tengsl við heimshönnuðin og því er eðlilegt að spurt sé hvernig kerfið, sem þessi Guð hefur skapað, virki best. Trú er aldrei tæki í þágu eigin dýrðar, heldur samband við Guð. Guð er ekki sjálfhverfur heldur tengslavera, sem elskar. Þar með er gefið, að trú mótar siðferði, trú hvetur til réttlætis og trú kallar á siðfræði. Trú varðar allt líf einstaklings, þjóðfélags og náttúru, stjórnmál, samskipti á heimili, uppeldi og skólamál. Trú er ekki sprikl í mórölskum möskvum, heldur afstaða sem elur af sér mannskilning, heimsskilning, náttúrusýn, friðarsýn og allt mögulegt annað varðandi tengsl við fólk og gildir einu hvaða trú eða kynhenigð það hefur eða hvernig það er á litinn. Auðvitað er atferli trúmanna með ýmsu móti og ekki allt gott. En trúin verður ekki dæmd af mistökum, frekar en góð löggjöf af glæpamönnum, eldur af brennuvörgum eða þjóðir af áföllum. Afstaða Jesú til boðorðanna er til fyrirmyndar.

Jesús Kristur hafði afslappaða frelsisafstöðu gagnvart reglum. Jesús benti á, að lífið þjónar ekki reglum heldur þjóna reglur lífinu. Þannig ætti að nálgast lög, form og kerfi manna, líka boðorðin. Jesús áleit, að aðalreglurnar væru um mannvirðingu og Guð. Hann bjó til tvöfalda kærleiksboðið, sem er eiginlega samþjöppun hans á öllum boðorðunum. Hvernig er það nú aftur? Tvöfalda kærleiksboðið fjallar um að elska Guð og elska fólk og það hljóðar svo: “Elska skalt þú, Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, og öllum huga þínum. … og náunga þinn eins og sjálfan þig.”

Þetta er hin elskulega útgáfa og túlkun Jesú á boðorðunum. Annars vegar uppstefnan og hins vegar þverstefnan. Krossinn er tákn þessa boðs. Elska til Guðs er himinstefna og himintenging hins trúaða eins og langtréð eða uppstólpinn. En trúin er einskis virði nema að hún bæti líf og hamingju fólks, einstaklinga og samfélags. Það er þvertréð á krossinum. Og í samtíð okkar hefur komið í ljós að ef við erum ekki rótfest í heilnæmri náttúrutengingu förum við villur vega, mengum og deyðum. Trú, sem aðeins varðar stefnu inn í eilífð, er á villigötum. Trú, sem aðeins sér menn, hefur tapað áttum. Guð og fólk, Guð og veröld – allt í senn og samfléttað. Þegar þú sérð kross + máttu muna Guð, menn, nátttúru og að Guð elskar þig og alla veröldina. Og andsvar þitt við þeirri elsku er, að þú mátt elska Guð, veröldina og mennina þar með.

Guðselska eða I-god

Hvernig var aftur fyrsta boðorðið? Það hljóðar svo: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þetta hljómar einfalt, en er þó snúið. Letingjar veraldar forðast alltaf þetta boðorð. Ísraelar bjuggu til gullkálf og allir menn hafa tilhneigingu til að búa sér til sinn eigin smáguð, sitt eigið guðsríki. Sumir trúa blint á flokkinn sinn, aðrir lúta fíknarguðinum. Fæðufíkn, neyslufíkn nær tökum á mörgum. Margir óttast svo yfirmenn sína, flokksræðið og alls konar harðstjórnir, að menn tapa áttum, hugrekki og heilindum og litlir hjáguðir verða einræðisherrar. Síðan er sjálfsdýrkun í ótal útgáfum, sem er algengasta hjáguðadýrkun í okkar heimshluta.

Það er I-godeða ég-um-mig-frá mér-til-mín-afstaðan, sem á sér síðan ótal spilingarútgáfur. Þessi smáguðaafstaða er það, sem er drifkraftur spillingar í vestrænum samfélögum. Stærsta hrun síðustu ára Íslands er ekki fjármálahrun eða bankahrun heldur siðferðishrun. Það hrun er einstaklingum, félögum og samfélagi eins og illvígt innanmein, sem hefur búið um sig í leynum og lengi, menningarmein sem dregur til dauða ekki bara fólk heldur líka lífríki náttúrunnar.

Ef við, sem einstaklingar, komumst ekki út úr okkar eigin smáveröld verðum við sjálfsblekkingu að bráð og sérstaklega um eigið ágæti og eigin snilli. Og sjáum þá ekki að veröldin er stærri en mannheimur og við höfum stærra og merkilegra hlutverki að gegna en bara í okkar smáheimi. Hlutverk okkar er að þjóna, ekki bara að sjálfum okkur – heldur líka öðrum. Fyrsta boðorðið merkir, að ég verði ekki raunverulegt ég nema Guð sé þar, fái aðgang að sjálfinu og hjáguðirnir fari úr hásætinu. Viskan er: Ef litlu guðirnir fá of mikið vægi veiklast líf og lífsgæðin spillast. En ef Guð fær að vera miðja sjálfs og lífs þá getur sjálfið lifað vel, guðsflæðið virkað rétt og samfélag manna, þjóðfélagið, græðir stórlega. Guð og gildi fara saman.

Öll könnuðumst við að hafa ruglast á röð boðorðanna. Það er í góðu lagi því það er andi boðorðanna sem er aðalmálið. Takmarkið er, að þau verði okkur töm, að við temjum okkur inntak þeirra, þau verði innræti okkar, mynstur sálarinnar, sem stýrir viðbrögðum okkar í lífinu.

Mannasiðir

Hvaða grunn þörfnumst við undir byggingu samfélags, menningar og samskipta? Hvers konar leikreglur þarf að setja? Hvaða gildi viljum við að stofnanir og skólar þjóðarinnar hafi? Þegar dýpst er skoðað – hvers konar gildi viljum við og hvers konar mannasiði? Fyrsta orðið er upp, þvert og niður. Nær til alls sem er í þessari veröld og er til góðs. „Ég er Drottinn Guð þinn … þú skalt ekki aðra Guði hafa.“  

(Myndina sem fylgir tók ég á Jakobsveginum – á leiðinni til Santiago de Compostella. Vegvísarnir eru margvíslegir. Þessi vegprestur var fagur og boðorðin eru fögur. )

 

Ástarsögur

 

Ég sat í vikunni fyrir framan sjónvarpið með sonum mínum sem eru á unglingsaldri. Við horfðum á leiki í Meistaradeild Evrópu. Við sáum Juventus sigra vini okkar í Manchester. Svo sáum við líka brot úr öðrum leikjum. Strákarnir mínir eru í boltanum og fylgjast með heimsknattspyrnunni. Og íþróttahetjurnar eru dýrlingar nútímans, fyrirmyndir, sem hafa mikil áhrif á og móta milljónir uppvaxandi ungmenna um allan heim. Og þegar við hrifumst og hryggðumst yfir leikjum vikunnar flaug í gegnum hug mér: Hvað hefur áhrif á drengina mína? Hvað mun móta þá? Hvernig verða þeir? Hvað gerir þeim gott og hvað verður þeim til góðs? Og ég horfði á þá ástaraugum.

En við, karlarnir mínir, sáum ekki bara meistaradeildarleiki heldur líka leiki í allt annarri deild, – og mun myrkari. Það var steraþátturinn, sem Kveikur sýndi nú í vikunni. Við hlustuðum á sögur þeirra, sem hafa freistast til að nota stera. Markmiðið er einfalt, að fá hjálp við að móta líkamann, gera hann stæltan og flottan. Og vöðvarnir verða útblásnir við steranotkunina. En í flottum skrokki er fleira en vöðvar – sterar rugla fínstillt jafnvægi efnabúskapar líkamans.Og það er fjöldi ungmenna sem deyr á Íslandi á hverju ári vegna stera. Það, sem átti að skapa stórkostlegt lúkk, var í raun ásjóna dauðans. Sterkasti maður heims dó, líklega vegna steranotkunar. Og æðið heldur áfram, það eru ungu drengirnir sem eru ginkeyptastir fyrir sterunum. Þessar sögur hræddu.

Og svo heyrði ég í vikunni margar aðrar sögur um unglinga, sem hafa lent í algerum ógöngum vegna útlitsáherslu. Til að ná útitsmarkmiðum sínum, hvort sem þau eru raunsæ eða ekki, hætta margir unglingar að borða eðlilega – og mörg lenda í hringrás blekkinga og alls kyns veikinda. Til hvers? Ásýnd er ekki inntak hamingju. Og við ættum að horfa ástaraugum á börnin okkar, hugsa um hvort þeim lánast að rata veg hamingjunnar og hvað við getum gert til að styrkja þau og efla. Það er sótt að þeim, raunar okkur öllum. Vertu þetta, notaðu þetta, gerðu þetta, kauptu þetta. En hvað dugar og hvað þráum við innst inni?

Í okkur býr ástarþrá. Við höfum öll þörf fyrir umhyggju, athygli, strokur, aðdáun og samfélag. Við erum börn ástarinnar, á leið eftir ástarveginum og viljum fá að vera með öðrum á þeim vegi. En hvernig lánast okkur?

Hallgrímur og Passíusálmar

Í dag er Hallgrímsmessa. Við minnumst þess, að 344 ár eru liðin frá dauða Hallgríms Péturssonar, sem lést 27. október 1674. Hallgrímur var frábært skáld, að mínu viti mikilvægasta trúarskáld Íslendinga. Stærsta kirkja þjóðarinnar er táknkirkja mannsins og trúar hans. En af hverju skyldi Hallgrímur Pétursson hafa orðið svo elskaður meðal formæðra og forfeðra okkar? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega – en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á sín börn og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu, fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi, og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Og það er sú ástarsaga sem er góður gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs hins stóra og rismikla. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki hinum reiða guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Hamingjuleitin

Unga fólk nútímans, eins og á öllum öldum, leitar hamingjunnar. Hvað verður þeim til lífs og gleði? Eru sterarnir góðir fyrir stráka, sem eru að stækka og vilja vera stæltir? Eru köglarnir, grasreykingar í Hólavallagarði eða matarflóttinn það besta fyrir stráka og stelpur?

Hvað gladdi þig mest þegar þú varst að alast upp? Og hvað hefur fært þér mesta ánægju æ síðan? Er það ekki ástin, kærleikurinn, menningin, siðvitið, listin, fólkið sem elskar þig? Þessi félagslega fæða sem fæst í fjölskyldum og heillyndu uppeldi, jafnvel þar sem margt er brotið og í skralli.

Átakalaust líf er ekki hið eftirsóknarverðasta. Og mikilvægt er að muna að sorg er skuggi ástarinnar. Ef við viljum aldrei syrgja ættum við aldrei að elska. Sorgin fylgir alltaf miklum ástarsögum. Ég, þú, við öll, erum kölluð til að elska, njóta, hlægja og fagna. Við erum ferðalangar á vegi ástarinnar í þessum heimi. Og þegar við minnumst ártíðar Hallgríms Péturssonar, minnumst við ástarsögu hans og Guðríðar og fjölskyldu þeirra. En sú saga var í fanginu á stóru ástarsögunni, sem Hallgrímur ljóðaði svo vel um – ástarsögu Guðs. Guð elskar, Guð kemur, Guð umfaðmar alla veröld og þig líka. Líka þegar myrkrið umlykur þig.

Pílagrímaferðirnar

Við, sem störfum í þessum mikla helgidómi, Hallgrímskirkju, verðum daglega vitni að leit fólks að inntaki lífsins. Hingað koma margir og tjá, að þetta sé áhrifaríkur staður. Og mörg ykkar vitið, að einn af fjölmiðlarisum veraldar hefur úrskurðað, að Hallgrímskirkja sé eitt af mikilvægstu íhugunarhúsum heimsins. Það kemur þeim ekki á óvart, sem sækja þessa kirkju. Og ekki lýgur the Guardian– vörður sannleikans – og flytur ekki falsfréttir gegn betri vitund.

Hvað merkir að vera íhugunarhús? Það er staður þar sem er gott samband, góð skynjun og líðan, skapandi hugsun. Staður til að tengja við innri mann, umhverfi en líka við eilífðina. Og af því fólk hefur heyrt, að Hallgrímskirkja sé staðurinn, kemur það hingað til að vera. Það fer ekki aðeins hálfa leið upp í himininn og baka – þ.e. í kirkjuturninn, heldur inn í kirkjuna og sest niður. Þar er hægt að fara yfir líðan, vonir og áhyggjur og kveikja svo á kertum til stuðnings sálarvinnunni, hugsa um til hvers við lifum og af hverju. Í kyrru kirkjunnar taka margir ákvarðanir um stærstu málin og breyta um stefnu, ákveða með fjölskyldumál sín, atvinnu, menntun, tengsl og líka tengslarof. Allt þetta, sem fólk hugsar um varðar merkingu, hamingju og tilgang. Þetta sem allir leita að og hugsa um. Og svo er vaxandi fjöldi, sem kemur frá útlöndum, í þetta mikla sambandshús, til að giftast, fer á heimsenda til að fá bæn og blessun yfir ást sína. Ástarsögurnar eru alls konar.

Þín ástarsaga

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Tengsl trosna og gliðna eins og við prestar sjáum oft. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur upplifun, reynslu, því sem kemur til móts við djúpa kærleiksþörf fólks. Og fólk á ferð lífsins kemur í þessa kirkju til að leita að hinu djúpa. Við segjum ástarsögu um Hallgrím og Guðríði og ástarsögu Guðs sem alltaf elskar. Og þó Hallgrímskirkja sé gott íhugunarhús fyrir borg, þjóð og heim er þó annað hús sem skiptir þig þó enn meira máli. Það ert þú sjálfur – þú sjálf. Þú ert raunar miðjan í ástarsögu Guðs og heimsins. Þú mátt elska og njóta ástar. Sterar, grasreykingar, matarflótti eru ásýndarmál, yfirborð – en hið innra þarftu það sem raunverulega gefur þér hamingju.

Viltu hamingju – staldraðu við.

Leitar þú ástar – hún stendur þér til boða.

Þarftu fang? Það er tilbúið.

Viðurkennir þú þörf þína – þá er vinur við hlið þér.

Guð sér þig. Þú og þitt fólk er elskað.

Guð elskar.

Amen

Hallgrímsmessa – 28. október, 2018

 

Af hverju er Guð ekki í tísku?

Ég talaði við vinkonu mína í vikunni. Hún sagði mér að hún hefði farið að bera kross um hálsinn og hefði fengið harkaleg viðbrögð við þessum krossburði. Nánast verið skömmuð, eins og hún hefði gert eitthvað rangt! Viðbrögðin hefðu verið slík að hún hefði farið yfir mörk vina sinna. Kross hennar vekti álíka viðbrögð eins og hún væri múslimakona með búrku! Kross, sem tákn, allt í einu óleyfilegur? Er trú jaðarsett? Er fólk sem staðsetur sig innan kristinnar trúarhefðar allt í einu orðið geislavirkt – menningarlega hættulegt? Trú sem nútíma líkþrá? Eru syndir klerka og trúmanna slíkar að vinsældir Guðs hafi hrapað og fólk, sem merkir sig sama trúartákni og er í þjóðfánanum sé jaðarsett? Vinkona mín brást við áreitninni með því setja á sig annan kross í viðbót. Hún ber því tvo krossa!

Merkingarferð í opnu rými

Eitt er trú einstaklings og annað opinber staður. Hallgrímskirkja er ekki á jaðrinum heldur í miðju borgarlífs og líka logó Reykjavíkur og túrisma. Kirkjuturninn er táknmynd um uppstefnu alls sem íslenskt er. Á hverjum degi kemur fjöldi fólks í kirkjuna, raunar þúsundir. Þetta fólk kemur ekki aðeins af því kirkjan er ferðamannastaður, ljóshús eða hreinn helgidómur með bjartan hljóm. Það kemur ekki aðeins af því að hér eru listaverk, gott orgel og fínn útsýnisstaður. Flestir koma vegna þess að þetta fólk er á ferðalagi – á lífsleið hamingjunnar. Og slíkt ferðalag varðar ekki aðeins skemmtilegar upplifanir eða fallegt umhverfi, heldur það sem rímar við djúpa þrá hið innra. Þetta sem trúmenn hafa kallað hið heilaga og aðrir merkingu eða tilgang lífsins.

Á hverjum degi sest fólk niður í kirkjunni til að njóta kyrrðarstundar. Margir íhuga og biðja, flestir hugsa um líf sitt og sinna. Margir fara svo og kveikja á kerti, koma fyrir á ljósberanum og biðja bæn. Hallgrímskirkja er eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins er mat the Guardian. Hér er gott samband – í allar áttir, til hliða, inn á við og út á við. Og við trúmenn vitum að hér er ekki aðeins gott samband við innri mann heldur frábært samband við Guð. Þetta er heilagur staður.  

Hvað er heilagt?

Hvaða hugmyndir eða skoðanir sem við höfum um Guð og trúarefni eigum við öll löngun til þess sem er heilt, friðsamlegt, viturlegt og lífgefandi. Það er þráin eftir hinu heilaga. Þar hittir Guð okkur.

Ég hef mætur á rithöfundinum Karen Armstrong sem hefur skrifað af viti og þekkingu um trúarbrögð, vanda þeirra og vegsemd. Í bókinni Jerusalem, one city, three faiths ræðir hún m.a. um að meðal okkar, Vesturlandabúa, sé Guð kominn úr tísku. Af hverju? Jú, í viðbót við makræðið og efnishyggjuna hafi of margir trúmenn verið slæmir fulltrúar Guðs, notað Guð til að réttlæta eigin geðþótta, eigin vilja, þarfir, pólitík og hernað. Reynt að hagnýta sér Guð. Trúmenn hafi komið óorði á Guð. Þeirra vegna hafi Guð hrapað á vinsældalistanum. Og við getum bætt við – vegna frétta liðinna vikna – að prestar og áhrifamenn í menningarlífi – hafa gerst sekir um skelfilega glæpi, m.a. ofbeldi gegn börnum. Þeir hafa komið óorði á Guð, átrúnað og trúfélög. En þrátt fyrir að spilltir prestar séu til, illskan teygi sig víða og Guð fari úr tísku heldur manneskjan þó áfram að leita að hinu heilaga.

Armstrong bendir á, að allir menn leiti að hinu stórkostlega í lífinu. Margir reyna eitthvað einstakt í náttúrunni, aðrir eigi sínar stærstu stundir í faðmi ástvina. Listin er mörgum uppspretta unaðar. Allir leita að samhengi, sátt, að því sem sefar dýpstu þrá hjartans og veitir samhengi fyrir líf, þerrar sorgartárin og veitir tilgang. Þetta er það sem margir kalla hið heilaga.

Og hvernig sem trúfélögum reiðir af og Guð fellur á vinsældakvarðanum geta menn aldrei slitið þörfina fyrir heilagleikann úr sálinni, eytt strikamerki hins heilaga úr anda sínum. Ef myndin af Guði hefur orðið smærri í samtímanum vegna mannlegrar spillingar brýtur mannsandinn þó ávallt af sér fjötra og leitar hins stórkostlega. Við leitum alltaf út fyrir mörk og skorður. Við þolum ekki fangelsi hins lágkúrulega, segir Armstrong. Og þetta heillar guðfræðinginn í mér: Hið heilaga er heillandi. Við megum gjarnan spyrja okkur gagnrýnið: Er Guðsmynd okkar of smá? Eru kreddur okkar til hindrunar? Erum við of lítillar trúar? Viljum við frekar hafa Guð í vasanum, en að opna fyrir stórkostlegum Guði, sem gæti ógnað eða sprengt heimatilbúið öryggi okkar og smáþarfir?

Guð á ferð

Efasemdarmenn aldanna hafa haft nokkuð til síns máls. Við náum aldrei að galopna sálar- og lífsgáttir okkar nægilega mikið gagnvart veru og merkingu Guðs. Mál okkar megnar ekki að lýsa Guði nema með líkingamáli sem stækkar skynjun, en nær þó aldrei að lýsa fullkomlega hinu guðlega. Engin kirkja, kirkjudeild eða átrúnaður megnar að umfaðma algerlega hið heilaga. Hið heilaga er alltaf meira, hið heilaga er alltaf í plús. Kannski er erindi okkar trúmanna hvað brýnast að fara að baki Guði – þ.e. okkar eigin túlkunum og til hins heilaga? Það merkir að fara að baki einföldum hugmyndum og kenningum og opna – svo hinn heilagi fái að snerta okkur í líkþrá huga eða líkama okkar. Og Heilagleiki Guðs færir sig um set þegar trúmenn bregðast og spilling læðist inn í huga fólks og musteri. Guð er ekki fasteign kirkjunnar – heldur Guð á ferð, lifandi Guð.

Og nú ert þú á ferð? Hvað er þér heilagt? Og hver er vandi þinn? Meistari, miskunna þú oss kölluðu hin sjúku í texta dagsins. Þegar þú biður um hjálp, leitar að merkingu, opnar og kallar í djúpum sálar þinnar ertu á heilögum stað, í heilögum sporum. Krossar eða ekki krossar, kirkjur eða ekki kirkjur, gamlar hugmyndir eða nýjar – Guð er þar sem fólk er, púls sköpunarverksins. Heilagleiki Guðs hríslast um veröldina, guðlaus maður nær líka sambandi. Vinsældafall Guðs hefur ekkert með Guð að gera heldur fremur flekkun manna. Guð er ekki fortíð og stofnun heldur framtíð og líf. Það erum við, sem köllum á hjálp en ekki Guð. Guð er ekki háður mönnum heldur menn Guði. Erindi Jesú varðar mannelsku, að Guð elskar, styður, hjálpar. Guð er alltaf lífsmegin – nærri okkur öllum.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 2. sept. 2018. Norrænar Maríusystur í kirkju ásamt söfnuði.