Nesti

Hvað ætlar þú að taka með þér inn í haustið, veturinn, kuldann og myrkrið? Kaldar vindlúkur fóru um borgina í nótt. Haustið sækir að og inn í okkur. Veturinn liggur í leyni og til að umlykja okkur. Hvað tekur þú með þér inn í þann veruleika?

Til er hollensk barnasaga sem er kennslusaga. Lítil músafjölskylda bjó í hlöðnum steinvegg. Henni leið vel. Pabbinn og mammann voru iðin við safna vetrarforða og þau kenndu litlu börnum sínum að draga björg í bú. Allir skoppuðu út í móa að morgni og náðu jarðarávexti og komu í búrið í steinveggnum góða. Allir nema Jóhannes mús. Einn daginn sat hann út á steini þegar systkinin voru að vinnu. Þau kölluðu til hans: Hvað ertu að gera – ertu ekki að vinna? Og Jói svaraði: „Jú, jú ég er að safna hljóðum til vetrarins.“ Systkinin skildu ekki alveg þá söfnunarvinnu en létu gott heita. Daginn eftir var Jói enn út á steini og systkinin kölluðu að nýju: En nú var Jói að safna orðum til vetrarins. Hvernig fór hann að því? Þriðja daginn voru músasystkinin þreytt og kölluðu pirruð í rigningunni: Hvað ertu nú að gera? Þá var Jói var að safna lykt hrísmóa og engis fyrir langan og lyktarlítinn vetur. Svona hélt hann áfram alla daga, var sniðgenginn og litinn hornauga eins og hver annar ónytjungur. Hann safnaði litum himins og jarðar, sögum, söngvum, myndum og öllu því sem sumarið gaf skynjandi smáveru á steini. Til hvers?

Svo kom veturinn og fjölskyldan undi glöð við sitt í öryggi, skjóli og með mikla matarkistu. En svo kom þorri og góa, með kulda og vosbúð. Og að lokum var allt búið í búrinu og myrkrið læddist inn í sálina og hungrið svarf ógurlega að. Þá mundu þau allt í einu eftir söfnunarstarfinu sérstæða. „Jói hvar er nú allt sem þú safnaðir?“ – spurðu þau hæðnislega. Og Jói ræskti sig og sagði: „Lokið nú augunum.“ Og svo sagði hann fjölskyldu sinni frá hinum undursamlegu litum sumarins, hljómhviðum vindsins og seitli lækjarins, orðunum sem stráin hvísluðu, sögunum sem fuglarnir sögðu með flugi sínu. Og lítlir heilar fylltust af birtu, belgurinn hlýnaði og öngin hvarf. Og svo sagði hann frá þeim sem væri á himni og byggi allt þetta til svo lífið yrði ekki bara gott, heldur stórkostlegt. Og þetta varð þeim til bjargar. Jóasafnið varð til lífs.

Hver er auður þinn? Hvað ætlar þú að taka með þér úr sumrinu inn í hraglanda haustsins og myrkur vetrar? Áttu þér matarbúr og örugga innistæðu fyrir brauði? En hefur þú safnað þér hljóðum, tónum, ljóðum, sögum, myndum fyrir veturinn – allt það, sem sumarið gefur, til að ylja sér við og nærast af þegar kólnar og dimmir. Til þess er puð daganna, að við eigum nóg af öllu, ekki aðeins mat fyrir líkamann heldur mat fyrir sálina.

Hvað æltar þú að taka með þér til vetrarins? Er farið að hausta í ævi þinni? Enn er nógur tími ef þú staldrar við. Í því er viska daga og árstíða fólgin, að við söfnum kunnáttusamlega, að við söfnum ekki aðeins hinu efnislega heldur auð sem dugar þegar áföllinn verða, þrekið hverfur, sorgin nístir og allt er tekið. Hvað er það þá, og kanski er það fremur – hver er það þá sem stendur þér nærri?

Jóarnir í mannheimum fara þá leið. Til er afskaplega fallegt grískt orð sem kirkjufeðurnir gældu við, hugsuðu um sér til lífs. Það er orðið pleroma, sem er vegna stafagerðar grískunnar ótrúlega fallegt á blaði. En það er þó enn fegurra efnislega, því það var tengd orðræðu og lofsöng hinna skarpt hugsandi kirkufeðra um Guð. Guð í þeirra vitund var Guð, sem elskar fjölbreytni, vill hafa sem mest ríkidæmi á öllum sviðum, sem mest af litum, flest hljóð, mest af sögum og hljómhviðum. Guð er guð ríkulegs lífs, kemur sjálfur, hvíslar í eyra þér, er sjálft lífsaflið, titrandi hrifning þegar kyrra sumarkvöldsins bifar tilfinningastreng, þétt hönd og tryggur faðmur þegar reiðarslög dynja yfir. Viltu eiga þennan að þegar rignir sem mest? Hvað tekur þú með þér inn í haustið? Jesús sagði: Komið til mín.

Dögurður fyrir góða helgi

Eldaði eggjafritatta fyrir fólkið mitt á laugardegi í sveitinni. Úr varð þessi fíni dögurður í hádeginu. Svo þegar við vorum búin að nærast fórum við í góðan göngutúr.

8 egg

½ l rjómi

1 poki ferskt spínat

1 bréf beikon

½ poki rifinn ostur

2 msk smjör

3 rif hvítlaukur fyrir þau sem þola hvítlauk

krydd (t.d. miðjarðarhafskrydd – og hamborgarakrydd gengur ágætlega), salt og pipar.

Ofninn hitaður í 180°

Beikonið steikt í 1 msk smjöri þar til það er orðið stökkt. Þá er spínatinu bætt út í.

Rjómi og egg þeytt saman smástund og hellt í eldfast mót.

Beikoni og spínati bætt út í, kryddað og rifinn ostur yfir. Bakað í 25-30 mínútur.

Gott meðlæti er ferskt salat. Við notuðum mangó með en það má vera þroskuð pera og fetaostur. Svolítið balsamik bætir oftast.

Þökkum Drottni, því að hann er góður. Miskunn hans varir að eilífu. Amen og verði ykkur að góðu.

 

139

Byrjum á vitund þinni? Ertu hér? Fylgja þér einhverjar hugsanir úr lifun morgunsins sem hindra að þú komir? Lentir þú í einhverju sem þú ert enn að vinna úr? Sagði einhver eitthvað við þig sem þú ert enn að greina og skilja?

Ertu hér eða ertu þar? Margir rýna í símann í messu eða á kyrrðarstundum. Horfðu í kringum þig, fjöldi er að taka myndir og senda. Í sumum dönskum kirkjum kíkir meira en helmingur kirkjufólksins í símann í hverri messu. Fyrir skömmu síðan sá ég konu vafra í miðri prédikun. Á að banna síma í kirkju og láta alla setja símana í kassa við innganginn eins og í dönskum barnaskóla? Nei. Símnotkun vex alls staðar og kirkjurýmið er næðisrými sem hentar vafrinu. Og þar sem síminn er á lofti er víða farið að nota hann sem skjá fyrir sálmabók og biblíutexta. Þau sem koma í messu í Hallgrímskirkju geta flett á hallgrimskirkja.is í messunum til að veiða sálmanúmer, sálma og bilíutexta.

En hver er nálægð þín? Hvað fangar hug þinn? Er það netið, at morgunsins, reynsla daganna eða nærðu að vera í núinu? Hvað er næst þér? Viltu dýpra í þér? Alla leið?

Marteinn Lúther sagði að Davíðssálmarnir næðu að tjá allar tilfinningar manna. Allt sem menn reyndu í lífinu væri orðfært í þessum sálmunum. Það er rétt. Í sálmi 139 segir:

Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,
hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Eigi er það orð á tungu minni 
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Þú umlykur mig á bak og brjóst 
og hönd þína hefur þú lagt á mig…

Hvað er innst í þér? Hvað um guðlega alnánd? Guð er svo nærri þér að ekkert fer fram hjá þeirri vitund. Engar hugsanir eru Guði óþekktar. Þú segir ekkert sem elskunæmni Guðs nemur ekki. Þú gerir ekkert svo kvika Guðs verði þess ekki áskynja. Nándin er alger. Guð er þér nær en kvíði daganna. Þó þú lyftir þér á vængi netsins eða morgunroðans er Guð þar. Þegar þú forðast kirkjur, guðshús og heilaga staði heimsins er samt guðlegur meðhlaupari nærri. Og ef þú rásar burt frá þínu persónulega altari – er Guð þar – nær en sjálf þitt.

Hvert get ég farið frá anda þínum, 
hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig 
og hægri hönd þín halda mér…“

Guð er þér nærri – alls staðar – alltaf – hér og líka í þér.

Íhugun í kyrrðarstund 5. október, 2017.

Trú og tabú

Stelpa í Stykkishólmi hitti Jesú Krist. Hún var venjuleg fermingarstúlka í venjulegri fjölskyldu sem fór í venjulegt sumarfrí til Spánar. En þar varð óvenjulegur atburður. Stelpan og Jesús Kristur hittust. Hún tók þennan fund, samtalið og samskiptin svo alvarlega að hún breyttist. Fjölskylda hennar átti í erfiðleikum með að sætta sig það sem stúlkan sagði og gerði. Þau héldu að hún væri orðin klikkuð og sendu hana til geðlæknis. Trú var allt í einu orðin sjúkdómur.

Stúlkan hét Alma. Í ljósi nýrrar lífsreynslu tók hún allt til endurskoðunar. Vinatengslin breyttust. Foreldrar vinkonu hennar vildu ekki að þær hittust. Alma ólst upp í stóru þorpi og hafði margvísleg áhrif í margflóknu smásamfélagi. Orð hennar og athafnir reyndu þanþol margra. Í fermingarfræðslunni vissi presturinn sem ekki hvernig hann ætti að bregðast við. Ölmuguðspjallið var allt í einu eins og nýtt guðspjall í plássinu, Jesús var nærri.

Ég ætla ekki að segja ykkur alla söguna um Ölmu. En það gerir rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir frábærlega vel í margslunginni bók sem nefnist Englaryk. Guðrún Eva lýsir nærfærnislega brothættu samfélagi sem hefur allt í viðkvæmum skorðum en veit ekki hvernig á að glíma við stærstu gáturnar um líf, tengsl og möguleika. Í bókinni er þyrlað upp ágengum spurningum um hvað trú sé í nútímasamfélagi og hvort við séum á flótta. Hvað gerist ef hið guðlega snertir einstaklinga og hvernig höndla þeir trú og fjölskyldur þeirra? Texi Guðrúnar Evu er fyndinn og nærfærinn. Fíngerður húmorinn og glitrandi ljóðræna seitla inn í sálina.

Alma var á breytingaskeiði unglingsáranna þegar flest er tekið til skoðunar, viðhorf og siðferði. Höfundurinn opnar skápinn og leyfir okkur að fylgjast með þegar ung kona þorir að mæta Guði. Alma gerði mistök og neyddist til að læra að greina milli trúar og afleiðinga. Það er hlutverk okkar manna að þora að breytast en einnig læra af áföllunum. Fjölskyldan gerði líka mistök. En þannig er það hjá venjulegu fólki í venjulegum fjölskyldum í venjulegu íbúðarhúsum. Lífið er ekki klisja. Það býður upp plús – meira en við eigum von á. Stóru spurningarnar um tilgang lífsins læðast inn í okkur. Börnin spyrja, við glímum við tengsl okkar við fólkið okkar og svo verða slys, hamingjudagar koma sem og sólardagar og hversdagsverkefni. Í öllu þessu er spurt um hvort Guð sé til, hvort líf hafi tilgang, hvort heimurinn sé meira en bara efni og efnaferli. Alma var opin fyrir að hversdagsleg veröld væri dásamleg. Hún opnaði fyrir möguleika lífsins.

Tabú Íslands – kynlíf, dauði, trú

Þorir þú að hugsa um trú og tala um trú? Höndlum við þegar fólk verður fyrir vitrun sem breytir lífi þess? Afskrifum við þau sem klikkuð? Viljum við helst bara flýja – og troða þar með stærstu og erfiðustu spurningunum inn í skáp þagnarinnar. Í samfélagi okkar hafa verið þrjú tabú sem ekki hefur mátt tala opinskátt um. Í uss-uss-skápana hafa þessi þrjú verið sett: Trú, kynlíf og dauði.

1 Reyndar er kynlífið að losna úr skápnum en fólk hefur tilhneigingu til að hrapa í hina öfgana, klámið. Við þurfum vera auðmjúk og tilbúin að ræða hvatir, fjölbreytileika, tilraunir, sjúkleika og heilbrigði kynlífsins. Við foreldrar vitum best hvað það er mikilvægt að flýja ekki þegar ungviðið spyr.

2 Svo er það dauðinn sem hefur ekki verið í tísku nema í kvikmyndum. Dauðinn hefur ekki verið hitamál á kaffihúsunum síðan Jean Paul Sartre og tilvistarspekingarnir þorðu að færa hann í tal. En þó lítið sé talað um dauðann er það þó að breytast. Í fortíðinni var dauðinn fléttaður inn í líf fólks. Fólk dó heima og lík voru gjarnan á heimilum dagana á undan greftrun. Dauði dýranna á sveitabæjunum var eins raunverulegur og fæðing þeirra og líf. Spítalavæðingin svifti fólk dauðanándinni en nú leitar dauðinn úr skápum stofnanavæðingar. Ef við getum rætt um horfst í augu við dauðann og rætt um hann erum við enn betur fær um gott líf og lífsleikni.

3 Svo er þriðja tabúið og trú hefur líklega verið mesta tabúið, innst í skáp þagnarinnar. Hvað er trú? Alma hitti Jesú. Það verða ekki allir fyrir slíkri reynslu, fundurinn með Jesú er almennt ekki svo dramatískur en engu ómerkilegri. Meðan við lifum verðum við öll fyrir reynslu sem opnar og knýr okkur til að ákveða hvað við erum, til hvers við lifum.

Þrenns konar trú

Og við tökum okkur stöðu gagnvart heiminum,  hvort við viljum litla, meðalstóra eða stóra tilveru.

1 Ef við viljum að veröldin sé aðeins efni og tilfallandi efnaferli án Guðs þá er það guðlaus trú og tilveran lítil. Það er ekki hægt að sanna þessa lífsskoðun eða afsanna en það er ákvörðun af neikvæðu trúartagi að tilveran sé guðlaus. Ég hef lesið rökin en undrast að fólk sem trúir með þeim hætti verði ekki þunglynt. Það þarf hugrekki til að sogast ofan í hyl guðleysis.

2 Svo eru önnur sem telja að þekkingarskortur hindri að menn geti ákveðið hvort tilveran er guðlaus eða guðleg. Þau meta svo að þekking okkar sé takmörkuð. Við vitum reyndar talsvert margt en erum þó fjarri því að geta með vísindalegri aðferð dæmt um tilgang og Guð í geimnum. Ég skil vel fólk sem viðurkennir óvissuna um hið stóra og guðlega.

3 Svo er það þriðji hópurinn – fólkið sem trúir. Og trú er alls konar og hefur mjög mismunandi afleiðingar. Og flækjum ekki málin með alhæfingum, t.d. með því að segja að trú sé alltaf svona eða hinsegin. Múslimar í þorpi í Aghanistan eru allt öðru vísi en múslimar á Manhattan í New York. Kristinn sértrúarhópur í miðvesturríkjum Bandaríkjanna er allt öðru vísi en þjóðkirkjusöfnuður á Íslandi. Ruglum ekki og alhæfum ekki. Og í dag tölum við bara um trú á Íslandi, í okkar venjulega, umburðarlynda, íslenska og upplýsta þjóðkirkjusamhengi.

Trúin tengir

Hvað er heilbrigð trú? Hún verður ekki bara við að hitta Jesú í sumarleyfi í Andalúsíu. Hún vex upp í venjulegum húsum og hjá venjulegu fólki. Hún þroskast úr barnatrú yfir í vitund um að heimurinn nær lengra en nefið. Trú stækkar heimsskynjunina. Hún er tengsl við hið stórkostlega í veröldinni. Hún er skynjun um að veröldin er meira en efnaferli og köld tilviljun. Trúin sér í sandkornum á ströndinni undur veraldar og trúir að kærleikur Guðs sé eins og hafið (svo notuð sé heillandi mynd úr skáldskap Matthíasar Johannesen). Trúin sér í Jesú Kristi hið guðlega meðal manna, fyrirmynd um hvernig við getum brugðist við í flóknum heimi, kærleiksafstöðu til annars fólks, vilja til að sjá mennsku í öllum mönnum, líka þeim sem hefur mistekist. Trúin opnar, tengir og gerir manneskjuna heila og lagar tengsl ef allt er rétt. Trúin rýfur einangrun fólks og bætir. Það er alveg sama hvernig við klúðrum lífinu, Guð elskar fólk samt og vill styðja. Það er alveg sama hvaða áföll verða, flóð, eldgos, stríð – við erum kölluð til að bæta og gera gott úr, lækna og reisa við. Við erum kölluð til að vera útréttar hendur Guðs í veröldinni. Trú tengir ekki aðens við undur þessa heims heldur opnar glugga að veröldum handan tíma og efnis. Að trúa er að verða trúnaðarmaður Guðs. Það var það sem Alda uppgötvaði, að þegar maður trúir verður tilveran ljómandi, töfrandi og þrungin merkingu – svo notuð sé orð bókarinnar.  

En það að trúa er ekki að verða óskeikul ofurtilvera, súperman eða súperwoman. Trú breytist og dýpkar. Trú leitar þroska rétt eins og við stækkum úr barni í fullorðna veru. Við lærum, gerum mistök, dettum, rísum upp, sjáum hlutina í nýju ljósi og breytum um skoðun. Trú er ekki flótti heldur sítenging við raunveru heimsins. Trú er systir skynsemi og réttlætis. Þegar við trúum erum við ekki beðin um að fórna okkur í þágu einhverrar vitleysu og sérvisku. Það er ekki heilbrigð trú heldur sjúk og á villigötum. Við eigum ekki að fórna líkama okkar, frelsi og lífi fyrir þröngan málstað eða ofbeldi. Þvert á móti, við megum nota allt sem Guð hefur gefið okkur til farsældar og lífsleikni og einnig í þágu mannkyns og náttúru. Við þurfum ekki að trúa úreltum sögum og eigum að lesa Biblíuna með heilanum ekkert síður en hjartanu. Og við ættum að taka alvarlega niðurstöðu vísinda. Trúmaðurinn hefur enga þörf fyrir að einfeldningaskoðanir. Trúin má koma út úr skáp tabúsins í íslensku samfélagi.

Ævintýrin verða ekki aðeins á Spáni eða Stykkishólmi heldur heima hjá þér. Guð er ekki aðeins í þessari stóru kirkju, heldur innan í þér, talar til þín og býður þér að vera vinur og félagi þinn. Og tilveran verður miklu stærri og skemmtilegri þegar tengt er með trú og hjartað slær í takt við hjartslátt alheimsins – Guðs. 

Hugleiðing við upphaf barnastarfs og fermingarfræðslu í Hallgrímskirkju. 3. september 2017.

Hvers virði ertu?

Eru sumir dýrmætari en aðrir? Er verðmiðinn mismunandi? Eru einhverjir dreggjar samfélagsins og verðminni en hin sem eru mikils metnir borgarar. Fólk er vissulega flokkað í hópa eftir stöðu, efnahag, menntun og samkvæmt ýmsum stöðlum. En getur verið að við þurfum að gera okkur grein fyrir að manngildi er allt annað en verðgildi. Þú ert svo dýrmætur og dýrmæt að gildi þitt verður ekki metið til fjár. Gildi hjá Guði eru ofar peningagildi manna.

Samtalið

Jesú var boðið í mat. Símon gestgjafi var líklega góður karl, sem vildi tala um pólitíkina og trúmálin við Jesú Krist. Þetta var opið boð, svipað hádegisfyrirlestri og allir voru velkomnir. Fólk í nágrenninu mátti koma og hlusta á það, sem gesturinn hafði að segja.

Fundarstíllinn var af því tagi, sem Sókrates var kunnur fyrir. Þetta var algengur samkomuháttur í þessum heimshluta á þessum tíma, ekki aðeins meðal grískra menntamanna heldur líka gyðinglegra. Gestgjafinn og pallborðsfólk spurði og meistarinn svaraði. Síðan var rökrætt, dæmi tilfærð eða gátur lagðar fyrir. Sögur voru sagðar og gagnspurningar flugu og það sagt sem gæti þjónað málstað eða glætt skilning.

Hið einkennilega var að Jesús brá út af öllum venjum og siðum samfélagsins. Hann leyfði mellu að koma nærri sér, sem þótti ekki bara illt afspurnar, heldur siðferðilega og samfélagslega rangt. Hann leyfði henni líka að þrífa fætur sína, smyrja og nudda. Símon hefur örugglega orðið pirraður yfir að Jesús skyldi leyfa þessari borgarskömm að þjónusta sig og varpa þar með skugga á samkvæmið. Vegna tilfinningaviðbragðanna sagði Jesús Símoni sögu um tvo skulduga menn, sem fengu skuldaniðurfellingu. Annar fékk niðurfelldar “fimm milljónir” en hinn “fimmtíu.” Hvor ætli hafi verið þakklátari? Símon kunni hlutfallsreikning og svaraði því augljósu dæminu.

Í svona sögum af Jesú er oftast dramatískur viðsnúningur. Í þessari sögu beinir Jesús athyglinni að partískandalnum, að konunni alræmdu og byrjar að tala um mál hennar og stöðu, að hún hafi verið stórskuldug við Guð en hún iðrist einlæglega. Henni sé því fyrirgefið. Því sé hún þakklát og bregðist við með svona látum og yfirfljótandi þakklæti í fótanuddinu. Jesús gengur lengra og bendir Símoni veislustjóra á, að hann hafi lítið þakkað, gert lítið fyrir boðbera himins, lítils vænst, verið algerlega innan marka hins venjulega. Hann sé því ekki auðmjúkur gagnvart gjöfum lífsins og Guðs.

Auðvitað var þetta hastarlegt og rosalegt af Jesú. Símoni var vorkun. Hann var bara venjulegur maður sem vildi gera vel, efna til settlegra viðræðna sem gætu orðið til að bæta og efla fólk. Hann vildi siðsemi og vildi forðast að alræmd kona flekkaði heimili hans og blettaði æru hans. En Jesús bar hann saman við konuna á botni samfélagsins og hún fékk betri dóm! Hvers konar réttlæti er það? Og að baki er spurningin um manngildi og mannsýn.

Að tortryggja og endurmeta

Við getum haft alls konar skoðanir á að heimili sé flekkað af liði sem kemur utan af götunni óboðið? En aðalmálið er hvort við erum tilbúin að endurmeta hið mikilvæga og verðmæta.  

Jesús þorði að spyrja erfiðra spurninga og fór stundum út fyrir hefðbundin mörk til að fá menn til að opna augu, eyru, hjörtu og líf gagnvart hinu mikilvæga. Og spámenn og skapandi hugsuðir þjóna hinu sama. Uppskurður fordóma er eitt, en hvað kemur svo í kjölfarið er annað og líka mikilvægt. Paul Ricoeur, franski heimspekingurinn, minnti á að meistarar tortryggninnar kenndu okkur að sjá fólk og málefni með nýjum hætti. Meistarar tortryggninnar eru þau, sem þora að efast um viðtekin sannindi, andmæla því, sem ekki stenst skoðun og leggja til aðrar log betri túlkunarleiðir en hinar hefðbundnu. Í trúarefnum eigum við beita tortryggni með fullri einurð. En aðgátar er þörf, hvort sem verið er að túlka goðsögur, Biblíu, trúarbragðaefni eða heimspeki, veraldarsýn og mannhugmyndir aldanna. Tortryggjum en látum ekki þar við sitja, hugsum til enda – og elskum til loka og lykta. Hið mikilvæga er ekki aðeins að velta um og grafa grunn heldur endurbyggja og endurheimta dýptarviskuna. Góð guðfræði fagnar tortryggjandi afstöðu og lífssókn spekinnar.

Fólk í plús og fólk í mínus 

Og þá aftur til hórunnar, Símonar og Jesú á tali um afstöðu og fólk. Í samtali gestgjafans og Jesú opinberar meistarinn, að Símon er á villigötum í afstöðu sinni því hann skilur ekki að jafnvel bersyndug kona er heilög. Símon var háður ákveðnum hugmyndum um hvernig tilveran ætti að vera og hvernig ekki. Kona, sem væri á kafi í sukkinu og saurlifnaðinum væri einfaldlega ekki þess verð að vera í samfélagi heiðarlegs og venjulegs fólks. Hún átti sér engrar bjargar von í þjóðfélaginu. Konan væri fyrir neðan mennskuna, ekki þess verð að vera boðið og allra síst þess verð að fá að nálgast þá félaga, trúarleiðtogana og guðsmennina. Þar kom í ljós að Símon aðhylltist mínus-mannskilning.

Jesús bendir hins vegar á að einmitt vegna þess, að konan hefði verið í hræðilegum málum og iðraðist væri hún meðtekin – henni væri fyrirgefið mikið af því hun hefði iðrast gerða sinna. Í þessari afstöðu Jesús kemur plús-mannskilningur Jesú berlega fram. Í hans huga, í afstöðu hans og ræðu kemur í ljós að manneskjan er heilög og á alltaf möguleika ef hún vill vaxa og breytast. Engu máli skipti hvað konan hafi gert ljótt af sér, hún eigi séns gagnvart Guði. Manngildið er grunnatriði og ef fólk tengir sig við líf og Guð sé mál þess endurskoðað og fólkið náðað, sem heitir réttlætt á máli Biblíunnar. Og það er þessi mannsýn í plús, sem er afgerandi. Fólk er guðdómlegt og hefur eilíft gildi. Manneskjur eru stórkostlegar, líka þau sem hafa hrapað á botninn, þau sem eru lítilsvirt, hötuð og hræðileg. Af því að fólk er heilagt á það alltaf að eiga séns og við eigum að skipa málum svo það geti fengið að rísa upp og ná að gera sín mál upp.

Þegar við förum að skoða með augum trúarinnar, með augum Jesú breytist sýn. Við megum gjarnan vera tortryggin um samfélag og tískur þess en við verðum framar öllu að halda í markmið og leiðir ástar Guðs. Öll, sem þú mætir, eru guðlegar verur, sem tala til þín og biðla til hins guðlega í þér, handan við fordóma og grillur. Allar mannverur eru ásjóna Guðs í þessum heimi. Manneskjan er heilög og við þurfum alltaf að æfa okkur í þessu partíi, sem mannlífið er, að sjá Guð birtast á óvæntan hátt.

Guð sér þig og elskar. Hvernig horfir þú á fólk – er það með mínus eða í plús? Eigum við að setja verðmiða á fólk eða sjá strikamerki Guðs í sál allra manna?

Amen.

Textaröð:  B

Lexía:  Slm 32.1-7 (-11)

Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð og ekki geymir svik í anda. Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju. (Sela) Þá játaði ég synd mína fyrir þér og duldi ekki sekt mína en sagði: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“ Og þú afmáðir syndasekt mína. (Sela) Biðji þig þess vegna sérhver trúaður meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi nær það honum eigi. Þú ert skjól mitt, verndar mig í þrengingum, bjargar mér, umlykur mig fögnuði.

(Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga,
ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér. Verið eigi sem skynlausar skepnur, hestar og múldýr; með beisli og taumi þarf að temja þær, annars koma þær ekki til þín. Miklar eru þjáningar óguðlegs manns en þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku. Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, allir hjartahreinir menn hrópi af gleði.)

Pistill:  1Jóh 1.5-10

Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd. Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.

Guðspjall:  Lúk 7.36-50

Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“
Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“ „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“ Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“