Ávaxtasamir dagar

Dagarnir eru litríkir þessar vikurnar. Birtan vex með hækkandi sól. En litríki daganna er þó fremur huglægt og andlegt. Ég tala við marga á hverjum degi. Tek við tugum skilaboða í tölvupósti og með hjálp samkiptavefja og síma. Ég var með viðtalstíma í kirkjunni, var við hádegisbænir í Neskirkju á meðan vinir mínir í Háskólaprenti prentuðu 600 bréf til kjörmanna í biskupskjöri. Kona mín smeygði bréfunum í umslög og skaut þeim í pósthús. Þau verða borin út á morgun og föstudag. Ég skrifaði svo pistil fyrir Fréttblaðið, líklega þann síðasta um tíma því ekki rímar saman að skrifa meðan ég verð í kjöri til biskups. Ég hitti ástvini til að undirbúa útför og gekk frá minningarorðum. Síðan þjónaði ég við kistulagningu og útför. Svo naut ég þess undurs, að annar drengurinn minn las fyrir mig úr lestrarbókinni sinni og ég launaði honum – og bróðir hans fékk að njóta þess með honum – með að lesa fyrir þá úr frábærri bók Elínar Elísabetar Jóhannsdóttur um Eddu og Snorra fara í tímaflakk um kristnisöguna. Þegar tímaflakkinu lauk og drengirnir voru sofnaðir fór ég á mitt ritflakk og skrifaði ég tvær greinar. Annasamir en ávaxtasamir dagar.

Fjóla Haraldsdóttir, djákni í Lágafellskirkju

Framundan eru tímamót í þjóðkirkjunni þegar kosið verður til embættis biskups Íslands. Kirkjan þarf á öflugum, hæfileikaríkum og sterkum trúarleiðtoga að halda. Hún þarf  líka leiðtoga sem hefur metnað til góðra verka og vilja til að laða fram það  besta úr þeim  mannauði sem í kirkjunni býr. Að mínu mati, hefur sr. Sigurður Árni þessa leiðtogahæfileika.

Ég styð sr. Sigurð Árna í embætti biskups Íslands, því ég trúi að viðmót hans, hæfileikar, orðsnilli, skilningur og metnaður skili þjóðkirkjunni því sem hún þarf til að vaxa og eflast um ókomna tíð.

Gunnar Sandholt, félagsmálastjóri

Við sem látum okkur annt um kirkjuna lítum nú til þess að tímar endurnýjunar eru framundan.  Kirkjan mun á næstunni velja sér biskup til forystu. Einvalalið lærðra og leikra hefur kosningarrétt , m.a. formenn sóknarnefnda sem fulltrúar okkar óbreyttra kirkjugesta, prestar og ýmsir aðrir starfsmenn kirkjunnar.

Við sem ekki erum á kjörskrá ættum samt að láta okkur málið varða, taka málefnalega afstöðu til frambjóðenda og segja kjörmönnunum okkar hug.

Sigurður Árni Þórðarson er sprenglærður í guðfræði og heimspeki, víðsýnn og vel að sér, málefnalegur og hneigður til samræðu frekar en kappræðu, með skemmtilegri ræðumönnum og góður sálusorgari. Hann hefur fitjað upp á margvíslegum nýjungum sem sóknarprestur og beitt sér fyrir breyttum starfsháttum kirkjunnar. Þeir sem vilja geta gengið úr skugga um ég fer ekki með neitt fleipur með því að lesa pistla hans í Fréttablaðinu og ýmis skrif hans á heimasíðu kirkjunnar.  Honum er lagið að gera flókna hluti einfalda og hefur þann kost að setja hugsun sína fram á mannamáli. Hann  hefur einnig verið í hópi guðfræðinga sem mjög hafa látið þjófélagsmál til sín taka í kjölfar bankahrunsins. Hann hefur einnig látið framtíð kirkjuskipunarinnar til sín taka og verið skeleggur fulltrúi á kirkjuþingi.

Gunnar M .Sandholt
Sauðárkróki

Melstaður, Skagaströnd, Löngumýri, Vestmannsvatn og Akureyrarkirkja!

Fundir framundan á Norðurlandi. Biskup Íslands verður kosinn í næsta mánuði. Nú er ráð að þau sem hafa kosningarétt komi saman til að tala um málefnin í því kjöri. Stuðningsfólk mitt býður til funda norðan heiða 16. – 19. febrúar.

Hverjir koma á svona fundi? Það er fólk, sem vill ræða um biskupskjör, stöðu kirkjunnar og framtíð. Fundarboðendur eru vissulega stuðningsfólk mitt og ég mun ræða um stefnu og áherslur mínar. En auk þess er tilgangur fundarins samtal um kirkjuna. Því eru allir velkomnir til fundar hvaða stefnu eða afstöðu sem menn hafa í biskupskjöri. Að sækja svona fund er ekki yfirlýsing um stuðning við biskupsefni heldur yfirlýsing um stuðning við kirkjuna.

Fundarstaðir eru fjórir þess daga.

Melstaður í Miðfirði, fimmtudaginn 16. febrúar kl. 17.

Skagaströnd – Hólaneskirkja – föstudaginn 17. febrúar kl. 12.

Löngumýri, föstudaginn 17. febrúar kl. 17.

Vestmannsvatn, laugardaginn 18. febrúar, kl. 13.

Akureyrarkirkja – safnaðarheimili, sunnudaginn 19. febrúar, kl. 13.

Ég mun prédika um hið lifandi vatn og skírn Jesú í Akureyrarkirkju þennan sunnudagsmorgun. Messan hefst kl. 11 og fundurinn verður kl. 13.

Stóru kirkjuvíddirnar

Á annadögum er mikilvægt að setjast niður, draga djúpt andann og lyfta sjónum. Það er líka gott að njóta samfélags viturs fólks. Þessa nýt ég í dag því ég tek þátt í ársfundi samkirkjunefndar og þar er mörgu miðlað sem varðar kirkjuna, starf hennar, hlutverk og sýn.

Kirknasamtök eru perlubönd kristninnar. Íslenska þjóðkirkjan er t.d. aðili að Heimsráði kirkna, Lútherska heimssambandinu, Kirknasambandi Evrópu og Porvoo-sambandinu. Þetta samstarf er mikilvægt fyrir kirkjuna því samskiptin eru gagnvirk og veita hugmyndum yfir mörk og mæri. Þær verða til hvatningar um starf, nýjar áherslur og þjónustu kirkjunnar. Afstaða okkar til hlutverks kirkju og kirkjusýnar verður fyrir áhrifum frá systurkirkjum og eflir sjálfsmynd kirkjunnar og þjóna hennar.

Það er magnað að hlusta á frásagnir um líf og starf þeirra kirkna og kirknahreyfinga, sem Íslendingar tengjast. Kirkjurnar í Afríku eru á fleygiferð og breytingaskeiði sem og samfélög þeirra. Smákirkjurnar í múslímska heiminum hafa margar misst vernd sína þegar ríkisstjórnum er steypt og arabíska vorið “skellur” á. Sagðar voru fréttir frá kirknasamtökum, hvernig kirkjur bregðast við breytingum, hvernig prests- og djáknaþjónustan er að breytast.

Erum við rík kirkja eða fátæk kirkja? Hvað eigum við að þiggja erlendis frá? Við höfum notið velvilja og alls konar stuðnings. En þrátt fyrir fjáreklu þjóðkirkjunnar þurfum ekki fé frá útlöndum. Miðlun hins djúptæka og óefnislega er mikilvægara. Mannauðurinn og andlegu dýrmætin eru mikilvægust. Þjóðkirkjan tók á fjárvana tímum ákvörðun um að vera grein á tré heimskirkjunnar. Og nú er kirkjan ekki rík en þó ekki svo snauð að fjármunum að hún geti ekki staðið við skuldbindingar sínar erlendis, t.d. að greiða árgjöld sín til kirknasamtakanna.

Oikoumene er grískt orð og merkti mannheimur í rómversku samhengi og hefur á síðari árum verið samheiti um heim kristinnar kirkju. Kristin kirkja varðar menn í nærsamfélagi og fjarsamfélagi. Að rækta tengsl við systur og bræður – fjölskyldukirkjur – er til bóta. Gott fjölskyldulíf er mikilvægt og þjóðkirkjan nýtur stórfjölskyldu kristninnar. Eflum samkirkjustarfið og allir styrkjast.