Kletturinn Alcatraz

 

Hvenær erum við innan hrings mennskunnar og hvenær utan hans? Hvenær erum við tengd öðrum og hvenær ekki? Hvernig líður manni, sem er greindur frá mannfélagi, kippt út úr menningunni og færður nauðugur út í eyju, sem enginn má heimsækja nema með sérstöku leyfi og undir ströngu eftirliti? Hvernig líður manni, sem fjölskylda hans segir skilið við vegna glæpa og er síðan einagraður með siðlausum morðingjum? 

Alcatraz-eyja er í San Francisco-flóa, einangruð en er þó fyrir allra augum. Eyjan blasir við af öllu flóasvæðinu. Hún sést vel frá austurlandinu, t.d. Berkeley. Þegar gengið er um hafnarsvæðið í San Francisco sést hún vel, enda aðeins um tveggja kílómetra fjarlægð frá landi. Og þegar maður röltir yfir Golden Gate-brúna – eða ekur yfir – horfir maður niður á hana. Fyrrum var eyjan fuglaparadís. Vegna einangrunar var svo farið að nota klettinn til að hýsa fanga. Á fjórða áratug tuttugustu aldar var byggt rammgert öryggisfangelsi til að hýsa hættulegustu fanga Bandaríkjanna. Reglan í bandarískum fangelsum var einföld: „Hegðaðu þér vel annars verðurðu sendur á Alcatraz.“ Þar var endastöðin, sem ekki var hægt að flýja (hugsanlega hafa þó þrír sloppið). Á sjöunda áratugnum ákvað Robert Kennedy að leggja fangelsið af.

Ég heimsótti Klettinn með þremur sonum mínum og konu minni. Við höfðum séð hasarkvikmyndir, sem áttu að gerast þar eða lesið um fjöldamorðingjana sem þar voru vistaðir. Við fórum frá bryggju 33 San Francisco-megin. Og það var eins og að fara um borð í flóabátinn Baldur. Það gustaði á leiðinni yfir sundið og hrollurinn leitaði í kroppinn. Þungur straumur var og er í sundinu og hann var ein af ástæðunum fyrir að setja fangelsi í eyjuna. Það var og er yfirmannleg þrekraun að synda til lands vegna strauma.

Við gengum upp í eyjuna. Mannvirkin voru stór en skemmd vegna viðhaldsleysis. Við heyrðum leiðsögumenn segja sögu þrenginga, sem var allt öðru vísi en saga lífseyja eins og Flateyjar, Hríseyjar eða Vestmannaeyja. Á Alcatraz var líf fólks í bið. Kletturinn var ekki fyrir mannlíf, heldur til að vernda mannlíf fyrir ólánsmönnum, sem voru færðir út úr lífinu af tillitssemi við hina. Þarna voru þeir úti, með byssur á sér, undir eftirliti og fjarri lífinu.

Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna stýrir heimsóknum í eyjuna og gerir vel. Eins og aðrir gestir fengum við heyrnartól fyrir leiðsögn og stýrðum sjálf hversu hratt eða hægt við fórum. Sögurnar um fanga og tilfinningar þeirra voru sterkastar. Við komumst að því að á hátíðadögum barst ómur frá skemmtunum frá landi. En þegar veröldin hló varð harmur fanganna þungur. Þegar glaumurinn í landi barst út og í eyrun skar í hjarta og einsemdin varð stingsár.

Einn fanginn sagði frá því, að fjölskyldan hafði algerlega snúið baki við honum. Hann hafði komið óorði á fókið sitt. Honum var útskúfað, hann var náðarlaust úrhrak. Hann var morðingi í versta fangelsi Bandaríkjanna. Hann var utan hrings mennskunnar. Öll tengsl við hann voru rofin, engin bréf bárust, engin símtöl heldur og engin kom. Náðarlaus maður vænti einskis en beið aðeins endisins. Honum brá því þegar honum var tilkynnt, að hann hefði fengið heimsókn og ætti að fara að glerinu. Þar var komin systir hans. Yfirgefinn maður og ósýnilegur sem enginn yrti á nema sem fanga til frambúðar. En allt í einu var honum kippt inn í hringinn. Systir kom út úr dimmu fjölskylduútskúfunnar, fór yfir sund, upp á klett, virti lánalausan bróður viðlits, sá hann og yrti á hann. Að einhver skyldi vitja hins útskúfaða var honum djúp upplifun og breytti lífi hans. Maðurinn var uppreistur í kröm sinni. Hans var vitjað. Náðin var ekki ekki horfin.

Hvnær ertu í sambandi og hvenær ertu einmana? Hvenær ertu innan hrings og hvenær utan? Við höfum þörf fyrir tengsl, að vera séð, heyrð og virt. Mennska okkar varðar tengsl við fólk. Við þörfnust frelsis, inn á við, meðal fólks og upp á við – andlega.

Kletturinn og öll fangelsi heimsins eru tákn um menn á nöfinni. Hvað er maðurinn og hver er mennskan. Ertu séð ertu virt? Sér þig einhver, metur þig og jafnvel elskar?

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri … “

Við erum á rófi einsemdarinnar. Við erum sandkorn á strönd eyjar í tíma. En þó við séum einmana, óséð og enginn mannvera hlusti – erum við samt dýrmæti, sem Guð man eftir, virðir og metur. Aldrei utan Guðshringsins.

Nr. 1 fyrsta boðorðið

Ef einhver brýtur af sér eða verður fyrir stórkostlegu áfalli – hvað er þá hægt að gera? Hvernig á að bregðast við ef allt fer í rugl á heimilum? Hvað er hægt að gera þegar hrun verður í þjóðfélagi? Hvað er vænlegast ef kreppur trylla stórar hreyfingar eða félög? Hvað gerir þú þegar eitthvað mikið gerist í lífi þínu? Þá þarf að stoppa, bregðast við af raunsæi og finna bestu útleiðina. Stundum þarf að taka u-beygju, viðurkenna vandann, iðrast og setja nýjar reglur.

Í stað þess að leggja út af guðspjalli dagsins munum við, prestar Hallgrímskirkju, íhuga boðorðin næstu vikurnar. Boðorðin eru einstök. Þau hafa verið milljörðum manna leiðbeiningar í þúsundir ára. Þau hafa verið kölluð umferðarreglur lífsins. Boðorðin eru dýrmæti – ekki aðeins trúmönnum, heldur eru þau líka þættir í siðfræði og siðferði heimsbyggðarinnar. Andi þeirra hefur mótað mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og haft áhrif á löggjöf, mannskilning, hugmyndir um réttindi og réttlæti og hvernig við skiljum rétt og rangt. Boðorðin hafa verið eins konar vegprestar við lagagerð og samtal um hið réttláta þjóðfélag. En hvert er gildi þeirra nú? Hafa þau gildi í nútímasamfélagi?

Fleiri lög eða innræti?

Í miðju efnahagshruninu fyrir rúmum áratug urðu deilur um leiðir út úr vandanum. Margir töldu, að skerpa yrði löggjöf og gera nýja stjórnarskrá til að fyrirbyggja hörmungar í framtíð. Jón Sigurðsson, sem um tíma var formaður Framsóknarflokksins, sagði þá að endurskoðun laga væri ekki sjálfgefin lausn vandans, en það myndi hjálpa ef fólk færi bara eftir boðorðunum! Það er þörf ábending. Það er ekki nóg að setja góð lög ef fólk er ósammála anda þeirra og fer ekki eftir þeim.

Hvaða skoðun hefur þú á boðorðunum? Telur þú, að ef fólk lifir í anda boðorðanna megi vænta góðra mannasiða og blómstrandi þjóðfélags?

Manstu fimmta boðorðið og manstu kannski alla röðina? Fyrstu þrjú boðorðin varða afstöðu manna til hins guðlega, en sjö seinni orðin eru um mannheim. Boðorðin eru í heild á tveimur stöðum í Biblíunni, í annari Mósebók tuttugasta kafla og síðan í fimmtu Mósebók í fimmta kafla. Og kaflarnir eru ólíkir.

Boðorðin eru sett inn í söguframvindu eyðimerkurgöngunnar, en þau endurspegla lífshætti borgarsamfélags en ekki siðfræði og siðferði umreiknandi hirðingjaflokks. Boðin eru hluti af regluverki þjóðar og eins og við vitum þarf heilbrigt þjóðfélag samfélagssáttmála, leikreglur um samskipti og úrlausn mála. Þessi fáu boðorð eru aðeins nokkur af miklum reglubálki hebresku þjóðarinnar. Og reglurnar, sem þeir settu sér, eru raunar mörg þúsund. Það er ekki aðalatriði, að þú munir hvort bann við morðum sé á undan eða eftir banni við hjúskaparbrotum. Það er ekki aðalatriði að þú þekkir, munir eða skiljir þessi boð, heldur að andi þeirra móti til góðs og verði innræti þitt.

Kristnir menn hafa um aldir kennt, að boðorðin séu mikilvæg en þó ekki skuldbindandi reglur. Lög, boð og skyldur eru ekki miðja eða höfuðatriði kristins átrúnaðar heldur Guð. En gruflandi trúmaður spyr hins vegar um afleiður sambandsins við þennan Guð, sem alltaf er túlkaður sem guð réttlætis og umhyggju. Trú er tengsl við heimshönnuðin og því er eðlilegt að spurt sé hvernig kerfið, sem þessi Guð hefur skapað, virki best. Trú er aldrei tæki í þágu eigin dýrðar, heldur samband við Guð. Guð er ekki sjálfhverfur heldur tengslavera, sem elskar. Þar með er gefið, að trú mótar siðferði, trú hvetur til réttlætis og trú kallar á siðfræði. Trú varðar allt líf einstaklings, þjóðfélags og náttúru, stjórnmál, samskipti á heimili, uppeldi og skólamál. Trú er ekki sprikl í mórölskum möskvum, heldur afstaða sem elur af sér mannskilning, heimsskilning, náttúrusýn, friðarsýn og allt mögulegt annað varðandi tengsl við fólk og gildir einu hvaða trú eða kynhenigð það hefur eða hvernig það er á litinn. Auðvitað er atferli trúmanna með ýmsu móti og ekki allt gott. En trúin verður ekki dæmd af mistökum, frekar en góð löggjöf af glæpamönnum, eldur af brennuvörgum eða þjóðir af áföllum. Afstaða Jesú til boðorðanna er til fyrirmyndar.

Jesús Kristur hafði afslappaða frelsisafstöðu gagnvart reglum. Jesús benti á, að lífið þjónar ekki reglum heldur þjóna reglur lífinu. Þannig ætti að nálgast lög, form og kerfi manna, líka boðorðin. Jesús áleit, að aðalreglurnar væru um mannvirðingu og Guð. Hann bjó til tvöfalda kærleiksboðið, sem er eiginlega samþjöppun hans á öllum boðorðunum. Hvernig er það nú aftur? Tvöfalda kærleiksboðið fjallar um að elska Guð og elska fólk og það hljóðar svo: “Elska skalt þú, Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, og öllum huga þínum. … og náunga þinn eins og sjálfan þig.”

Þetta er hin elskulega útgáfa og túlkun Jesú á boðorðunum. Annars vegar uppstefnan og hins vegar þverstefnan. Krossinn er tákn þessa boðs. Elska til Guðs er himinstefna og himintenging hins trúaða eins og langtréð eða uppstólpinn. En trúin er einskis virði nema að hún bæti líf og hamingju fólks, einstaklinga og samfélags. Það er þvertréð á krossinum. Og í samtíð okkar hefur komið í ljós að ef við erum ekki rótfest í heilnæmri náttúrutengingu förum við villur vega, mengum og deyðum. Trú, sem aðeins varðar stefnu inn í eilífð, er á villigötum. Trú, sem aðeins sér menn, hefur tapað áttum. Guð og fólk, Guð og veröld – allt í senn og samfléttað. Þegar þú sérð kross + máttu muna Guð, menn, nátttúru og að Guð elskar þig og alla veröldina. Og andsvar þitt við þeirri elsku er, að þú mátt elska Guð, veröldina og mennina þar með.

Guðselska eða I-god

Hvernig var aftur fyrsta boðorðið? Það hljóðar svo: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þetta hljómar einfalt, en er þó snúið. Letingjar veraldar forðast alltaf þetta boðorð. Ísraelar bjuggu til gullkálf og allir menn hafa tilhneigingu til að búa sér til sinn eigin smáguð, sitt eigið guðsríki. Sumir trúa blint á flokkinn sinn, aðrir lúta fíknarguðinum. Fæðufíkn, neyslufíkn nær tökum á mörgum. Margir óttast svo yfirmenn sína, flokksræðið og alls konar harðstjórnir, að menn tapa áttum, hugrekki og heilindum og litlir hjáguðir verða einræðisherrar. Síðan er sjálfsdýrkun í ótal útgáfum, sem er algengasta hjáguðadýrkun í okkar heimshluta.

Það er I-godeða ég-um-mig-frá mér-til-mín-afstaðan, sem á sér síðan ótal spilingarútgáfur. Þessi smáguðaafstaða er það, sem er drifkraftur spillingar í vestrænum samfélögum. Stærsta hrun síðustu ára Íslands er ekki fjármálahrun eða bankahrun heldur siðferðishrun. Það hrun er einstaklingum, félögum og samfélagi eins og illvígt innanmein, sem hefur búið um sig í leynum og lengi, menningarmein sem dregur til dauða ekki bara fólk heldur líka lífríki náttúrunnar.

Ef við, sem einstaklingar, komumst ekki út úr okkar eigin smáveröld verðum við sjálfsblekkingu að bráð og sérstaklega um eigið ágæti og eigin snilli. Og sjáum þá ekki að veröldin er stærri en mannheimur og við höfum stærra og merkilegra hlutverki að gegna en bara í okkar smáheimi. Hlutverk okkar er að þjóna, ekki bara að sjálfum okkur – heldur líka öðrum. Fyrsta boðorðið merkir, að ég verði ekki raunverulegt ég nema Guð sé þar, fái aðgang að sjálfinu og hjáguðirnir fari úr hásætinu. Viskan er: Ef litlu guðirnir fá of mikið vægi veiklast líf og lífsgæðin spillast. En ef Guð fær að vera miðja sjálfs og lífs þá getur sjálfið lifað vel, guðsflæðið virkað rétt og samfélag manna, þjóðfélagið, græðir stórlega. Guð og gildi fara saman.

Öll könnuðumst við að hafa ruglast á röð boðorðanna. Það er í góðu lagi því það er andi boðorðanna sem er aðalmálið. Takmarkið er, að þau verði okkur töm, að við temjum okkur inntak þeirra, þau verði innræti okkar, mynstur sálarinnar, sem stýrir viðbrögðum okkar í lífinu.

Mannasiðir

Hvaða grunn þörfnumst við undir byggingu samfélags, menningar og samskipta? Hvers konar leikreglur þarf að setja? Hvaða gildi viljum við að stofnanir og skólar þjóðarinnar hafi? Þegar dýpst er skoðað – hvers konar gildi viljum við og hvers konar mannasiði? Fyrsta orðið er upp, þvert og niður. Nær til alls sem er í þessari veröld og er til góðs. „Ég er Drottinn Guð þinn … þú skalt ekki aðra Guði hafa.“  

(Myndina sem fylgir tók ég á Jakobsveginum – á leiðinni til Santiago de Compostella. Vegvísarnir eru margvíslegir. Þessi vegprestur var fagur og boðorðin eru fögur. )

 

Klókir fuglar

Vinur minn sagði mér frá því að hann hefði séð máv fljúga með skel í kjaftinum og sleppa svo yfir fjörugrjótinu. Skelinn féll og brotnaði. Og það var það sem fuglinn vildi. Mér þótti þetta merkileg saga um klókindi svangs fugls sem ekki réð við að opna skel sem fiskurinn lokaði. Svo vorum við synir mínir á leið við vesturenda flugbrautarinnar Skerjafjarðarmegin. Þá sáum máv koma fljúgandi frá sjó með eitthvað í kjaftinum og stefna að flugbrautinni. Ég sagði mínum mönnum að fylgjast með fuglinum. Við sáum hann hækka sig þegar komið var yfir malbikið og svo sleppti hann. Já, mikið rétt það var skel sem maskaðist á flugbrautinni. Mávurinn flaug niður, settist að snæðingi og hóf sig svo til flugs heldur mettari. Þeir eru klókari mávarnir en ég hafði ímyndað mér í einfeldninni. Hefur þú orðið vitni að klókum mávi við skeljabrot?

Hve hratt er hægt að brjóta boðorðin?

Hefur einhver brotið öll boðorðin náast á sömu mínútunum? Flestir segja nei, það sé ekki mögulegt. Ísrael, þjóð Móse, gleymdi bæði Guði og mannasiðum við fjallsrætur Sínaí og dansaði í kringum gullkálfinn og þá molnuðu orðin tíu. Móses mölvaði báðar steintöflur boðorðanna og braut þar með öll boðorðin! En það eru ekki margir svo margbrotnir sem Móses. Öllum verður þó einhvern tíma hált á freistingasvellinu.

Á vefnum er til skondin stuttmynd, sem  fjallar um mann, sem tókst að brjóta öll boðorðin frá því að hann vaknaði og áður en hann var fullklæddur.  Maðurinn varð meira að segja öðrum manni að bana fyrir algera slysni, vegna þess að hann var á röngum stað. Eitt brot leiðir af öðru.  Þetta kostulalega myndband er að baki smellunni

Gildi Íslendinga og boðorðin

Hvernig er ellefta boðorðið? Dr. Þórir Kr. Þórðarson kenndi gamla testamenntisfræði í HÍ og spurði nemendur sína þessarar spurningar. Nemendurnir könnuðust ekki við neitt slíkt í Biblíunni svo Þórir svaraði sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðinleg!“ Og svarið og afstaðan er túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra á að lífið eigi að vera gott og skemmtilegt. Trúarhefð Gyðinga og síðan kristninnar er um gleðifréttir, fagnaðarerindi.

Eru boðorðin í Biblíunni gleðimál? Eru þau hagnýt fyrir lífið eða neikvæð bönn? Hafa fornir vegvísar Biblíunnar gildi fyrir allt fólk og á öllum tímum? Þetta eru spurningar sem við prestar Hallgrímskirkju tökum alvarlega. Við munum í prédikunum ræða um gildin í  samfélagi okkar og gildi boðorðanna í messum næstu vikurnar. 27. janúar verður fyrsta boðorðið íhugað og það síðasta í messunni 7. apríl. Verið velkomin í Hallgrímskirkju. Hvernig eru þín boðorð?

Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson, prestar Hallgrímskirkju