Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Helga Guðmundsdóttir +

„Og svo dönsum við dátt þá er gaman meðan dagur í austrinu rís. Og svo leiðumst við syngjandi saman út í sumarsins paradís.“

Þeir eru fallegir verðlaunaskildirnir sem Helga fékk fyrir dans. Og hún var góður og alhliða dansari. Hún kunni vel samkvæmisdansa og fékk verðlaun fyrir. Og svo voru suður-amerísku dansarnir. Hún kunni cha cha cha, rúmbu, samba og salsa. En svo kunni Helga líka tango sem er ekki á allra færi að útfæra með stæl. En hún fór yfir dansgólfið með þokka og lagði sitt til dansstjórnarinnar. Það þarf fimi, tilfinningu, góða líkamsvitund og vilja til að dansa vel. Helga hafði í sér getuna til að æfa sporin, þola æfingarnar og opna tilveruna fyrir takti, sveiflum, hljómum og öllum hinum sem voru á gólfinu. Og hún hélt áfram að bæta við og hafði gaman af ýmsum dansstílum, líka línudans, dansinum sem gengur víða undir nafninu square dance. Helga var m.a.s. í hópi sem dansaði þennan skemmtilega dans í kvikmyndinni Fúsi. Hún á sér því líka framhaldslíf í heimi kvikmynda.

Dans í lífinu. Líf með hreyfingu, líkamsfærni, fegurð hreyfingar, samstilling margra á stóru sviði fótmenntarinnar. Dans er eins og tákn fyrir allt hið fjölþætta sem við menn gerum. Við erum einstaklingar í hóp. Við verðum að taka tillit til annarra svo við hvorki rekumst á eða stígum ofan á tær eða fætur annarra. Það er eittvað heillandi við hinar öguðu hreyfingar og samhæfingu allrar manneskjunnar í flæði fjöldans. Við erum ekki aðeins stór efnishlunkur heldur verur margra vídda, með heyrn, sjón, tilfinningar og útlimi sem þarfnast samhæfingar. En svo eru alltaf einhver mörk á takti, rými, möguleikum, skynjun og færni. Hvað svo? Hvað er meira, hver er merking alls þess sem við gerum, erum, iðjum og hugsum? Þar mætum við stóru spurningum lífsins.

Jesús svaraði spurningum Tómasar um veginn og lífsferðina: „Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið.“ Þar var taktur lífsins skilgreindur, samhengi og hvernig má vera og lifa. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Ævistiklur

Helga var fædd í Reykjavík 23. febrúar árið 1942. Hún var eina barn hjónanna Guðrúnar Guðmundsdóttur (1920 – 2003) og Guðmundar Gestssonar (1914-93). Mamman var af Snæfellsnesi, frá Efri-Hlíð í Helgafellssveit, en pabbinn frá Miðdalskoti í Kjós. Móðir Helgu var heimavinnandi og Guðmundur var bifreiðastjóri. Helga átti annað nafn framan við Helgunafnið. Hún var nefnd og skírð Sigríður Helga en notaði Helgunafnið.

Helga var Reykjavíkurdama. Hún ólst upp í foreldrahúsum í Skipasundi, sem þá var líflegt og barnmargt úthverfi Reykjavíkur. Síðar fluttu þau í Hlíðargerði í Smáíbúðahverfi og þar var Helga á unglingsárunum. Helga bjó í foreldrahúsum við skýran og ákveðinn aga. Helgu gekk vel í skóla enda vel gerð, vel gefin, iðjusöm og ákveðin. Þegar hún hafði lokið skólagöngu fór hún að svipast um eftir vinnu. Að ráði varð að hún réðist til Mjölkursamsölunnar. Hún vissi að þar væri góður vinnumórall því faðir hennar vann hjá fyrirtækinu. Helgu leið vel á vinnustað og Mjólkursamsalan var vinnustaður hennar í mörg ár. Vinnufélagarnir voru glaðværir og gott samstarfsfólk. En svo langaði Helgu að breyta til og fór til sælgætisgerðarinnar Nóa-Síríus. Þar vann hún síðan í nokkur ár. Eftir það lá leið hennar aftur til baka til Mjólkursamsölunnar og vann m.a. lengi í ísgerð Samsölunnar. Helga vann svo á síðari árum einnig við þrif á skólahúsnæði Framtíðarinnar sem heitir Framvegis, miðstöð símenntunar.

Svo kom Guðmundur Vilbergsson hlaupandi inn í líf Helgu. Hún hafði farið með Þóru, vinkonu sinni á ball í bænum og þær voru á leið heim. Þær ætluðu að ná í leigubíl og sáu bíl álengdar í miðbænum. En svo vildi til að Guðmundur og Eggert Ólafsson, vinur hans, höfðu líka verið á balli og voru á heimleið. Og Guðmundur tók á rás til að ná leigubílnum og Eggert kom skokkandi á eftir. Svo þegar Guðmundur var búinn að festa sér bílinn komu stúlkurnar  – fremur brúnaþungar yfir þessum skorti á herramensku þeirra félaga. En á henni var þó enginn þurrð því þeir buðu dömunum að láta aka þeim heim. Og bílferðin var skemmtileg, þær heilluðust og létti reiðin yfir Guðmundarhlaupinu. Þær gerðu sér grein fyrir að þessum körlum var ekki alls varnað. Og svo urðu þau vinir, síðan pör og svo hjón.

Guðmundur var glæsilegur tveggja metra maður. Þau Helga voru flott par, bæði hávaxin og vel að manni. Þau gengu í hjónaband 11. apríl árið 1970. Guðmundur var rafvélavirkjameistari og rak með bræðrum sínum fyrirtækin Segul og Skipaljós. Þau Helga og Guðmundur bjuggu fyrstu árin í Vesturbænum, á Kaplaskjólsvegi og héldu svo enn vestar og keyptu hús á Bollagörðum á Seltjarnarnesi. Helga bjó þeim Guðmundi stílhreint og fagurt heimili. Síðar, þegar Helga var orðin ekkja, flutti hún í Tjarnarmýri, sem er líka á Nesinu. Og síðustu árin bjó hún við Dalbraut. Þeim Helgu og Guðmundi varð ekki barna auðið, en fyrir hjónaband átti Guðmundur einn son, Hans Vilberg.

Þau Helga og Guðmundur studdu hvort annað, fóru víða, höfðu ánægju af ferðalögum innan lands sem utan. Þau nutu samvistanna við fólkið þeirra. Helga hafði samband við ættmenni sín. Og svo fór hún með Guðmundi sínum í margar ferðir norður á Skaga. Þar áttu Guðmundur og bræður hans jörðina Foss í Skefilsstaðahreppi, stunduðu þar veiðar og nutu unaðar norðlenskrar sumarbirtu og fagnaðar stórfjölskyldunnar. Bræður Guðmundar og fjölskyldur þeirra urðu Helgu mikilvægir. Þökk sé þeim, frænkum og ættmennum Helgu, sem og vinum þeirra fyrir alúð þeirra í garð Helgu fyrr og síðar – ekki síst þegar hún var orðin ekkja. Guðmundur var vinamargur og Helgu lét vel að vera með vinum hans og taka þátt í félagslífinu sem þeim tengdist. Guðmundur varð fyrir heilablóðfalli á miðjum aldri og féll frá fyrir 23 árum, eftir alvarleg veikindi. Fráfall hans var æviskuggi Helgu síðan. Ljósið féll aldrei yfir allan skuggann. 

Minningarnar um Helgu

Og svo eru minningarnar. Hvernig manstu Helgu? Sástu hana dansa? Manstu fatastílinn hennar Helgu? Manstu að hún hugsaði vel um móður sína sem bjó hjá henni síðustu árin? Og vissir þú að hún var náin föður sínum? Manstu hve umtalsfróm Helga var? En hún gat líka alveg sagt skoðun sína? Hún hafði skýrar hugmyndir um margt og sagði óhikað hug sinn ef sá gállinn var á henni: „Ég hefði nú haft þetta öðru vísi.“ Helga hafði áhuga á fólki og spurði um hagi þess og hvað væri að frétta ef hún átti tal við ættingja. Hún fylgdist vel með og hafði jafnan góða yfirsýn varðandi ættfólk sitt. En svo var Helga einnig hlédræg um eigin líðan og hugsanir og fáir áttu greiða leið að innstu tilfinningum hennar eða þönkum. Hún var tengd en líka utan seilingar. Það kom einnig fram í félagstengslum hennar. Hún vildi ekki lokast inni eða vera lengi á hverjum stað. Best lét henni að stjórna eigin ferðum, geta verið ef henni þótti svo, en geta líka farið af stað ef hún fékk útþrá. Helga var sjálfstæð, gat alveg dansað í takt við alla í kringum sig. En hún vildi líka geta ákveðið sinn eigin danstakt, farið sinna eigin ferða, verið eins og hún vildi. Hún var sjálfstæð, þorði, gat og vildi.

Manstu spilakonuna Helgu? Hún hafði mikla ánægju af spilamennsku. Hún var öflugur vistspilari og sótti gjarnan þangað sem fólk kom saman til að spila. Og félagsvistin var góð félagsleg viðbót við dansinn og reyndi vel á heilann. Það þarf útsjónarsemi, félagslegt innsæi og snerpu til að vera leikinn vistspilari.

Og manstu að hún vildi hafa líf sitt og fjármál á hreinu og í góðri reglu? Og manstu hvað hún gat hlustað vel? Manstu hve Helga hafði gaman af að klæða sig upp?

Himininn

En nú er Helga farin. Hún fær sér ekki framar nýjan bíl sem örugglega hefur varadekk. Hún ekur ekki hingað og þangað til að hitta sitt fólk. Hún dansar ekki línudans í kvikmynd og gerir enga slemmu framar. 23 ára aðskilnaði þeirra Guðmundar er lokið. Vegurinn, sannleikurinn og lífið – og himininn er opinn. Nú hefur Helga dansað veginn inn í eilífðina – til fundar við fólkið sem hún elskaði. Henni er fagnað og boðið strax á stóra dansgólf himinsins. Nú sveiflast hún í tangó eilífðar með Guðmundi sínum. Og það er gott. „Og svo leiðumst við syngjandi saman út í sumarsins paradís.“

Guð geymi Helgu og Guð geymi þig.

Amen.

Björk og Jón Arnar geta ekki verið við þessa útför og hafa beðið fyrir kveðjur til ykkar sem hér eruð í dag og kveðjið Helgu.

Minningarorð við útför Helgu í Fossvogskirkju 8. desember, 2017. Kistulagning og útför sama dag. Erfidrykkja í Perlunni. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

+ Magnús Jóhannsson +

Hvað fannst þér eftirminnilegast við Magnús Jóhannsson? Er það, sem hann gerði eða sagði? Áttu þér minningu um hann, sem hefur orðið þér svo mikils virði að þú hefur þroskast eða breytt einhverju í þínu lífi? Magnús umgekkst marga og hafði áhrif á líf fjölda fólks.

Brunnlokin

Sagan af brunnlokunum varð mér skilningslykill að mörgu í lífi Magnúsar. Og hvernig var sú saga? Magnús var alltaf með augun opin, fylgdist með þróun samfélagins, hlustaði á fréttir, fylgdist með verktakabransanum og hverjir gerðu hvað. Hann hafði tekið þátt í eða séð um margar stórframkvæmdir og vissi hverjir sáu um gerð holræsa og hvað mátti bæta. Svo kom auglýsing um útboð á brunnlokum. Og þar sem Magnús var sérfræðingur í holræsum – og hafði að fenginni reynslu miklar skoðanir á lokum þeirra – ,hugsaði hann hratt. Gat þetta verið raunverulegt útboð eða var það lagað að þörfum einhvers innflytjanda eða framleiðanda? Magnúsi sýndist að tímaramminn sem var gefinn í útboðinu, gæti verið nægur til að hann gæti lagt inn tilboð. Svo fór hann á netið, fann framleiðendur erlendis og hafði samband þá. Þegar hann hafði náð tengslum voru teikningar sendar út og svarið var að hægt væri að búa til lokin og á verði sem væri innan marka.

Magnús var vanur að meta verkhluta og greina tímaþætti. Svo áætlaði hann kostnaðarliði og fann út hvað heildartilboð yrði að vera hátt til að hann greiðslan yrði yfir núllinu. Svo sendi hann sveitarfélaginu tilboð sitt. Og Magnús var kallaður á fund til að ræða málið. Trúin á að hann gæti klárað alla útboðsþætti var kannski ekki mikil hjá kaupendunum og hann var því spurður hvort hann gæti skilað þessum tilskylda fjölda brunnloka eftir skamman tíma. En Magnús var með sitt á þurru. Af því hann var svo snöggur að plana og panta voru lokin komin til landsins. Já, já, svaraði Magnús. Þau væru tilbúin og það væri hægt að afhenda þau strax! Ég hefði gjarnan viljað vera á skrifstofu útboðsaðilanna og sjá furðusvipinn á andlitum þeirra þegar þeir gerðu sér grein fyrir að tilboð Magnúsar var alvöru tilboð. Hann hafði skoðað allt, farið bestu leiðina, fengið góð lok og á betra verði en aðrir gátu boðið. Magnús fékk því samninginn og varð einn aðalinnflytjanda brunnloka í landinu. Mörg, kannski flest lokin, sem við sjáum eða ökum yfir eru komin frá fyrirtæki þeirra hjóna, Magnúsar og Lovísu. Brunnlok varð alvörufyrirtæki af því getan var mikil, snerpan og áræðið.

Þessi saga er lykilsaga. Góður útreikningur, dugur, hugrekki og framsýni – allt einkennandi fyrir Magnús. Og nú er hann farinn inn í himininn. Þar ræður Guð ríkjum, sem kann að reikna, lætur ekki bilanir heimsins trufla sig, er áræðinn, hefur góða reynslu af framtíðinni og gerir okkur mönnum ótrúlegt tilboð. Viljum við taka því eða ætlum við bara að taka verri tilboðum og svíkja sjálf okkur og sannleikann? Magnús ætlaðist til að heiðarleiki ríkti. Hann er okkur fyrirmynd. Guð gefur okkur möguleika. Okkar er að svar tilboðinu!

Æviágrip og upphaf

Magnús Jóhannsson var alinn upp í Ólafsvík, en hann fæddist reyndar á Siglufirði 19. júní árið 1941. Hann var sonur hjónanna Jennýjar Magnúsdóttur og Jóhanns Þorgilssonar. Þau voru bæði frá Ólafsvík. Magnús var elstur fimm systkina. Bræðurnir voru fjórir en ein systir. Systkini Magnúsar eru Þorgils, Brynja, Viðar og Guðmundur Bjarni. Brynja og Guðmundur lifa systkini sín.

Lífið í Ólafsvík var skemmtilegt, nóg við að vera og leikjamöguleikarnir miklir fyrir tápmikinn dreng eins og Magnús. Hann var hugmyndaríkur leiðtogi og kom því í verk sem honum þótti fýsilegt. Ef krökkunum í Víkinni datt í hug að fara á sjó, en höfðu enga fleytu, smíðuðu þau hana. En fullorðna fólkinu þótti vissara að fylgjast með. Magnús mótaðist af heimabyggð sinni, atvinnuháttum og menningu. Hann naut góðrar skólagöngu og fékk Passíusálma í verðlaun fyrir góða kristinfræðiþekkingu. Magnús var góður íþróttamaður, spretthlaupari, kúluvarpari og góður langstökkvari.

Magnús fór snemma að vinna og leggja til heimilis síns. Í fiskiplássinu Ólafsvík fór hann á sjó þegar færi gafst. Svo vann hann í frystihúsinu. En aksturinn átti hug Magnúsar. Jóhann, faðir hans, rak vörubíl. Og Magnús lærði að keyra áður en hann náði niður á pedalana og svo þegar hann var nægilega langur til var hann kominn á fullt í akstri. Hann var í bíl með föður sínum ungur og keyrði þegar þurfti. Meira var spurt um getu en aldur á vegunum á Snæfellsnesi! En svo þegar Magnús hafði aldur til fékk hann hið formlega ökupróf og hafði atvinnu af akstri í áratugi. Og til viðbótar við rekstur vörubíls kom svo vélaútgerð. Magnús átti margar vélar um dagana og hann keypti og seldi allt eftir þörfum hvers tíma og umfangs þeirra verkefna sem hann sinnti. Og við höfum þessa dásamlegu mynd í sálmaskránni af nokkrum af vélum Magnúsar – og hann er sjálfur næsta smár hjá stórtækjunum. En hann hafði fulla stjórn á tækjunum.

Hjúskapur og barnalán

Svo var það Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir. Sumarið 1960 fór hún að vinna í Bjarkarlundi. Svo var haldið ball í Tjarnarlundi í Saurbænum. Nokkrir starfsmanna í Bjarkarlundi fengu frí og fóru til að dansa. En Lovísa, sem man að hún var í grænni peysu, dansaði ekki aðeins vals og ræl heldur fann manninn sinn. Magnús sá hana og hún hann. Svo kom hann svífandi, tók í hönd hennar og bauð henni upp. Hann var stefnufastur og vissi hvað hann vildi. Og Lovísa var varkár, skoðaði Ólsarann vel og notaði innsæið. Allt gekk upp. Þau dönsuðu sig til framtíðartengsla á þessu afdrifaríka balli í Saurbænum. Hún fór svo heim um kvöldið með stjörnur í augum og Magnús sveif heim með ástina í hjarta og símanúmer hennar á blaði. Svo hringdi hann í hana um haustið og þau hittust, sambandið byrjaði að fléttast. Svo ætlaði Magnús að koma suður um jólin. Og hann þurfti svo sannarlega að hafa fyrir að finna elskuna sína, því hann varð að ganga á undan rútunni yfir alla Fróðárheiði, svo dimmt var hríðarkófið! En alla leið komst hann og þau Lovísa settu upp hringana inn í herbergi hennar á æskuheimilinu í Keflavík. Svo komu þau fram og sýndu fingurgullin – og tengdaforeldrarnir fögnuðu. Magnús gekk síðan aldrei einn í hríðarkófum lífsins – þau gengu tvö saman – áttu alltaf stuðning í hvoru öðru.

Móðir Magnúsar veiktist um veturinn og hann skrifaði konuefni sínu og spurði hvort hún gæti komið til að bjarga heimilisrekstrinum í Ólafsvík. Lovísa fór vestur og þar með hófst hjúskapur þeirra og hefur staðið í meira en hálfa öld. Þau unnu líka saman, m.a. við Búlandshöfða þar sem hún sá um fæði fyrir vegagerðarmennina, en hann ók. Um tíma leigðu þau Magnús íbúð í Ólafsvík en svo ákváðu þau að flytja suður. Þau voru samstiga og komu sér upp húsnæði. Þau bjuggu í Kópavogi. En Magnús sá svo auglýsingu um hús og stóra landspildu á Hraðastöðum í Mosfellssveit. Hús og land freistuðu hans og hann gerði sér grein fyrir kostum þess að hafa pláss fyrir allar vélarnar heima við. Svo fóru þau og skoðuðu, Lovísa fór yfir alla þætti með honum og svo tóku þau stefnuna upp í sveit með barnahópinn sinn. Það var gæfuspor í lífi þeirra.

Og þau Magnús og Lovísa nutu barnaláns.

  1. Elstur er Guðmundur sem fæddist árið 1962. Guðmundur er bóndi í Káraneskoti í Kjós. Kona hans er Jóhanna Hreinsdóttir. Þau eiga Lovísu Ólöfu, Lísbet Dögg og Atla Snæ.
  2. Jenný fæddist árið 1965. Hún er ráðgjafi og maður hennar er Andrés Guðni Andrésson. Þau eiga þrjá syni: Magnús Óskar, Bergvin Gísla og Guðna Emil.
  3. Þriðji og yngstur barna Magnúsar og Lovísu er Benedikt Sævar. Hann fæddist árið 1971 og starfar sem tæknifræðingur. Kona hans er Sigrún Magnea Gunnarsdóttir. Þau eiga fjórar dætur. Þær eru Bergljót Soffía, Inga Birna, Freyja Dís og Lóa Mjöll.

Svo eru langaafabörn þeirra Magnúsar og Lovísu þrjú: Hrönn, Erna Jóhanna og Andrés Óskar.

Störf og verk

Magnús hafði löngum atvinnu af akstri og vélaútgerð. Hann bæði ók fyrir aðra og tók að sér alls konar verk, stór og smá. Víða kom Magnús við sögu. Margar götur og fráveitukerfi á suðvesturhorninu eru hans verk. En Magnús var meira en bílstjóri og vélamaður. Hann var stöðugt með augun opin fyrir nýjum möguleikum. Hann þorði að skoða tækifæri sem gáfust. Þau Lovísa stofnuðu rekstur um það sem þeim þótti fýsilegt. Magnús notaði þekkingu á vélum og kunnáttu við vélabreytingar til að þróa vélar, sem hann þurfti við smiðjur sem þau settu á fót.

Þar sem fjölskyldan átti oftast hesta gerði Magnús sér góða grein fyrir skeifum og notkun þeirra. Hann fékk hugmynd um kaldsmíðaðar skeifur og kom þeim í framleiðslu. Skeifurnar voru mikið notaðar vegna endingar. Þau seldu verksmiðjuna.

Þá stofnuðu og ráku þau hjón hellusteypu og notuðu vikur til gerðar á milliveggjahellum. Verksmiðjan var flutt í Gnúpverjahrepp og síðan seld.

Fyrirtækið um brunnlokin var svo það síðasta sem þau Magnús stofnuðu.

Minningarnar

Hvaða minningar áttu um Magnús? Manstu þolinmæði hans og skapstillingu? Manstu hvað hann gat verið þrautseigur við viðgerðir? Manstu hve gott yfirlit hann hafði við verk? Og manstu hve vélarnar entust hjá honum af því að hann fór vel með og hafði þrautþjálfað skynjun sína á hvað græjurnar þyldu og hvað mætti bjóða þeim? Manstu hve kjarkaður Magnús var, glöggur og útsjónarsamur? Manstu umhyggjusemi Magnúsar og að hann var alltaf viljugur til að styðja alla í fjölskyldu sinni ef honum fannst þörf á? Manstu hve örlátur hann var og bóngóður? Manstu persónustyrk hans, að hann gafst aldrei upp? Ræktaðu minningarnar um Magnús. Leyfðu þeim að næra vitund þína og líf. Og taktu mark á fyrirmyndinni Magnúsi. Vertu með vitund og vertu opinn fyrir framtíðinni.

Hin opna framtíð og himininn

Magnús og Lovísa keyptu landskika austur í Grímsnesi árið 2005. Þau vildu gjarnan skapa góða aðstöðu fyrir sig og sína. Magnús flutti tæki austur og fór að sinna landbótum, ýtti m.a. upp stórri skjólmön. Mönin sem hann ýtti upp er eins og spurningarmerki í laginu og svo stór að hún sést utan úr geimnum og á Google-map. Og innan hrings – við Magnúsartorgið – er góð aðstaða fyrir alla fjölskylduna og þar er bústaður þeirra Lovísu. Þessi aðstaða er ætluð fólkinu hans og er vitnisburður um vökula þjónustu við stórfjölskylduna. Magnús var stór í þjónustu sinni og verkum. Magnúsartorgið verður vitnisburður um þá opnu framtíð sem Magnús tók ávallt fagnandi. En nú er hann farinn og verkin hans og minningar lifa.
Magnús var trúaður og nú er hann farinn að skoða vegagerð, manir og brunnlok himins. Hann stofnar ekki fleiri fyrirtæki. Hann mun ekki búa til fjölnotaveiðitæki fyrir laxveiði á Íslandi eða aðrar nýjar græjur fyrir þessa veröld. Hann gaukar engu dýrmæti að þér framar til að tjá þér tilfinningar sínar eða afstöðu til þín. Magnús spilar ekki Aerosmith eða Eagles aftur í þessum heimi – eða Rachmaninov 2. Magnús átti margar vélar og bíla um ævina en kaupir ekki framar eða selur. Hann hefur látið af útgerð og hefur ráðið sig í útgerð á himnum þar sem ekkert bilar, allt gengur smurt og feilfrítt.

Guð geymi Magnús Jóhannsson – og Guð geymi þig.

Minningarorð í Mosfellskirkju, 22. nóvember, 2017. Jarðsett í Mosfellskirkjugarði. Erfidrykkja í safnaðarheimili Lágafellssóknar. Karlakór Kjalnesinga. Organisti Þórður Sigurðarson.

+ Valdimar Hergeirsson +

Valdimar samdi mörg próf um dagana og var snjall prófamaður. Prófin sem hann samdi voru erfið en réttlát. Þau voru þeirrar gerðar, að nemendur urðu að hafa glímt við námsefnið, þurftu að kunna til að geta svarað flestum spurningunum. Og í prófunum var jafnan einhver undraspurning utan rammans, sem Valdimar lagði oft mikið á sig að búa til. Spurning, sem krefðist kunnáttu í námsefninu en líka skapandi hugsunar. Til að svara reyndi á hvort nemendur gætu gert meira en bara beita reglum. Svarið krafðist ekki bara þekkingar heldur skilnings. Valdimar vildi skapandi huga. Plús-spurningin leiddi í ljós þekkingu, getu og snilld. Hún var gullspurningin.

Er það ekki góð skólastefna að kenna ekki aðeins staðreyndir heldur opna fólki dyr til þroska? Valdimar fór hratt yfir í tímum, en líka djúpt. Hann skerpti skussana, kom mikilli þekkingu til skila á stuttum tíma og vildi koma öllum til nokkurs þroska. Kennarinn miðlaði þekkingu, en vildi að hugur nýttist handverkinu. Valdimar vildi að hans fólk nýtti þekkinguna til lausnar í óséðum dæmum, þyrði að hugsa. Það er gott að læra vel en handan hins venjulega er vonarland snilldar og sköpunar. Greind er ekki aðeins að greina að – heldur greina það sem tengja má saman. Af hverju skyldi fólkið hans Valdimars þora og geta?

Við getum túlkað gullspurninguna sem vott um víddir í persónu og lífi Valdimars. Hann vildi gjarnan læra hið hagnýta, tileinka sér þekkingu en svo vildi hann bæta við, opna fyrir það sem gæti eflt, dýpkað og glatt. Þetta sjáum við í kennslu hans, menntunarafstöðu, skólastefnu og líka í einkalífi. Hann vildi halda því til haga sem væri nýtanlegt og gott, en líka skoða og endurskoða til að leyfa hinu nýja að verða og þroskast.

Það er góð afstaða í þessari samþættingu. Öll þiggjum við fjölmargt í arf en hræðumst stundum eða lokum á það sem gæti orðið til góðs. Við þörfnumst tengingar við það sem gefið er, en megum þora að opna huga, samfélag, vísindi, fræði, fjölskyldur og líf. Hefð og nýung eru góðar systur. Skipan og nýsköpun. Fræði og framtíð líka. Þekking er mikilvæg, en miklu betri er hún í góðri sambúð við viskuna. Og þá erum við komin inn á svið mannsýnar klassískrar kristni sem kennir opnun, beinir til hins háleita, vísar til ljóss, máttar og hins stóra. Á tilbeiðslumáli kristninnar er þetta kallað dauðinn dó en lífið lifir. Þar er plús heimsins og alls lífs. Gullspurning opnar snilldarheima tíma og eilífðar.

Ævi, fjölskylda, nám og störf

Valdimar Þór Hergeirsson fæddist 9. ágúst 1930. Foreldrar hans voru Hergeir Kristján Elíasson, skipstjóri, og Ragnheiður Guðmunda Þórðardóttir, húsmóðir. Pabbinn var ættaður af Vestfjörðum en móðirin úr Borgarfirði. Valdimar er elstur systkina sinna. Hin eru Haukur, Herdís og Elías. Elías lifir systkini sín. Fyrstu árin bjó fjölskyldan á Kjalarnesi – í skjóli Guðmundu hálfsystur Ragnheiðar og Valdimars í Varmadal. Á Kjalarnesi var Valdimar til tíu ára aldurs, gekk í skóla og lærði líka að synda þar sem Pétur á Álafossi var svo framsýnn að stífla læk og koma sveitungum sínum til vitundar um mikilvægi góðrar sundaðstöðu. Valdimar synti alla ævi og við höfum m.a.s. flotta mynd af sundkappanum í sálmakránni og til eru tvö skemmtileg blaðaviðtöl við Valdimar um sundiðkun.

Þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur settist hún fyrst að á Framnesvegi og svo var fjölskylduhúsið á Kaplaskjólsvegi 5 byggt, þar sem nú er Víðimelur 74. Húsið var tilbúið í miðju stríðinu og þar var fjölskyldan síðan. Valdimar sótti skóla í Vesturbænum og fór svo í Verzlunarskólan sem þá var á Grundarstíg. Verzló og Valdimar áttu svo samleið í liðlega hálfa öld. Hann hóf nám árið 1945 og útskrifaðist sem stúdent vorið 1952.

Þá lá leiðin í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Valdimar lauk þaðan prófi árið 1956. Svo stundaði hann nám vetan hafs og austan. Átta árum eftir að Valdimar lauk námi í Verzló, árið 1960, var hann ráðinn til kennslu þar. Síðan starfaði hann sem kennari, yfirkennari og um tíma skólastjóri. Hann lét af störfum vegna aldurs sem yfirkennari árið 2000 en Verzló-fólkið sleppti honum ekki og Valdimar kenndi til ársins 2004.

Valdimar var stundakennari við viðskiptadeild Háskóla Íslands í tvo áratugi. Hann hafði alla tíð gleði af kennslu og kenndi mikið. Hann skrifaði líka kennslubækur í hagfræði og bókfærslu. Hann var félagslyndur og kunnáttusamur í félagsefnum. Þær gáfur nýttust vel í fararstjórn. Í mörg sumur – á 8. og 9. áratug síðustu aldar – var hann fararstjóri erlendis fyrir ferðaskrifstofurnar Sunnu og Samvinnuferðir.

Valdimar skrifaði margt og m.a. um tengsl sín og Verzlunarskólans. Í upphafi kom hann á reiðhjóli í skólann en var svo óheppinn að lykillinn að hjólinu týndist. Valdimar fór inn og bað um aðstoð. Skólastjórinn sagði spámannlega: „Kannski kemst þú ekkert héðan. Ætli við sitjum ekki bara uppi með þig!“ Svo varð og Valdimar var tengdur skólanum í meira en hálfa öld. En skólinn sat ekki upp með hann því hann lagði ávallt mikið til menntunar, stjórnunar og félagslífs skólans. Og ef einhverjir efast um breiddina í þjónustu hans skal það upplýst að á námsárum sínum sá Valdimar ekki aðeins um skólaskákmót og sat í ritnefnd skólablaðsins, heldur var einn helsti frömuður og kyndilberi bindindishreyfingar skólans. Hann sá til þess að bindindiserindrekar komu og töluðu um áfengisbölið við skólafélaga hans. Og Valdimar þakkaði bindindisafstöðunni að hann var þurr – fram að dimisjón! Þá gerðist eitthvað. Og bindindissemi Valdimars þróaðist svo hann hann vildi engan rudda, aðeins eðalkoníak og þokkalegt rauðvín. En Valdimar ólst við bindindi og bar í sér visku hófstillingarinnar síðan.

Valdimar lét ekki aðeins til sín taka í kennslunni í Verzló, heldur hafði umsjón með endurskoðun námsefnis og kennslu skólans. Valdimar beitti sér fyrir framsækinni skólastefnu og góðum fræðsluháttum og var í ljósi stefnu og árangurs fenginn af menntamálaráðuneyti til að bæta kennslu í framhaldsskólum.

Valdimar var dáður kennari og gerði kröfur til nemenda sinna. Þeir uppgötvuðu snarlega að betra væri að læra fyrir tíma. Vegna yfirferðarhraðans voru þeir óundirbúnum erfiðir en stórkostlegir ef heimalærdómurinn var góður. Sú saga var gjarnan sögð í skólanum að kraftur og hraði Valdimars hefði verið slíkur að hann hefði skrifað á töfluna með hægri hendi og þurrkað út jafnóðum með vinstri. Hann skrifaði af slíkri áfergju að krítin molnaði og brotin sáldruðust yfir gólf og krítarrykið rataði í vit læriföðurins. Og Valdimar varð jafnvel að nota fyrirbyggjandi aðgerðir svo hann missti ekki röddina af krítarkófinu! Hann var virtur og dáður sem skólamaður, bæði af samkennurum og lærisveinunum. Þar sem Valdimar var fljótur að greiða flækjur mannlífsins og hafði lag á samskiptum var hann gjarnan beðinn að vera farstjóri í nemendaferðum. Honum lánaðist gjarnan að slökkva elda og fyrirbyggja vandræði. Þegar stúdentafagnaðir voru haldnir var oft fyrsta spurningin hvort Valdimar mætti ekki. Hann var síðan umsetinn og hrókur fagnaðar.

Fyrir hönd Verzunarskólans eru hér með færðar þakkir fyrir þjónustu Valdimars í þágu nemenda og skóla.  

Og vinir Valdimars sem ekki geta verið við þessa útför hafa beðið fyrir kveðjur. Þau eru Börkur Hrafnsson og Elín Norðmann, einnig Bragi Björnsson og Ragna Björk Ragnarsdóttir. 

Fjölskyldan og ástvinir
Svo var það fjölskyldan og heimilislífið. Í einu af mörgum blaðaviðtölum um ævina var Valdimar spurður hvað skólastjóra Verzló þætti best. Honum þótti best að vera í faðmi fjölskyldunnar. Valdimar dansaði við Kristínu Þórunni Friðriksdóttur í Súlnasal Hótel Sögu. Þau sóttu danskvöldin á fimmtudögunum, voru bæði búsett í Vesturbænum og svo dönsuðu þau sig saman og voru góð í lífstaktinum allt þar til Kristín lést árið 1996. Í Kristínu átti Valdimar öflugan maka, ráðhollan vin og leiftrandi félaga. Vegna skerpunnar opnaði hún bónda sínum ýmsar gáttir skilnings. Og hann dáðist að konu sinni og mat mikils. Veislugetuna höfðu þau bæði og kunnu mörg dansspor við músík lífsins. En krabbinn tók hana – alltof snemma. Eftir voru sár og ör.

Valdimar bjó við barnalán. Stjúpdóttir Valdimars er Brynja Tomer sem Kristín átti áður en þau Valdimar tóku saman. Börn Brynju eru Anna Kristín Cartesegna, Sóley Ragna Ragnarsdóttir og Sæmundur Ragnarsson. Sonur Valdimars og Kirstenar Friðriksdóttur er Örn hagfræðingur. Kona hans er Aðalheiður Ósk Guðbjörnsdóttir, félagsráðgjafi. Börn þeirra eru Guðbjörn, Ársól, Friðrik Kári og Daníel Örn. Valdimar átti með eiginkonu sinni tvö börn: Ragnar Þór og Öldu Björk. Ragnar er tölvunarfræðingur og kona hans er Brynja Baldursdóttir, kennari. Þau eiga tvö börn: Silju Rós og Valdimar Þór. Alda Björk er dósent og maki hennar er Guðni Elísson prófessor. Þau eiga tvær dætur Steinunni Kristínu og Úlfhildi.

Eigindir

Og svo eru allar minningarnar og þær má blessa með ýmsu móti. Hvernig var Valdimar Hergeirsson? Það er gaman að hlusta fólk segja sögur af skólamanninum og fjölskyldumanninum. Valdimar hafði sterkan prófíl í störfum og lífi.

Hann var félagslyndur og skemmtilegur. Og spannaði kynslóðirnar vel, tengdi vel við eldri sem yngri í kennslu og almennum samskiptum. Og svo hafði hann áhuga á fólki, mundi eftir nemendum, lyndiseinkun þeirra og lífsafstöðu og svo auðvitað hvort þau leystu gullspurninguna. Og þar sem Valdimar var stuðlaði hann að jákvæðum tengslum við nágranna sína og samverkafólk.

Manstu hve vinnusamur Valdimar var? Hann vann alla tíð mikið, kenndi mikið og sló ekki slöku við þegar heim var komið. Oft sáu nágrannarnir sem voru að koma af skrallinu að Valdimar var enn að vinnu á skrifstofu sinni, við að undirbúa kennslu eða skrifa verkefni. 

Manstu eftir áhuga Valdimars á þróun skólastarfs og hve mikinn áhuga hann hafði á gæðum? Manstu tækniáhugann, tölvuvæðingu hans og hve hinn opni hugur sigldi á  ölduföldum tækninnar? Manstu metnaðinn og vandvirkni hans í öllu? Manstu örlæti Valdimars og hve veitull og gjöfull hann var? Svo var hann maður jöfnuðar, heiðarlegur og vandvirkur í samskiptum. Meira að segja gamalt hlutabréf sem hann erfði reyndist verðmætara en hann átti von á. Hann seldi það og skipti verðmætum milli systkinanna, sem sem sýndi bróðurþel hans og réttlætiskennd.

Já, Valdimar var skapstillingarmaður. En að baki jafnaðargeðinu var kvika hið innra sem hann varði vel. Hann agaði sig svo að tilfinningar leiddu hann ekki í neinar ógöngur. Og jafnan reyndi Valdimar að velta sér ekki upp úr tilfinningamálum heldur þótti mikilvægara að leyfa málefnum að ráða för. Valdimar var umtalsfrómur og varkár í dómum um menn og málefni. Hann hafði festu í dagsrytma sínum, rútínu sem hélt honum við efni lífsins.

Hann var ferðafrömuður. Í sálmaskránni er heillandi mynd af þeim Kristínu – geislandi – fyrir framan píramída í Egyptalandi. Valdimar þjónaði mörgum á erlendri ferðaslóð og opnaði Íslendingum heiminn. Af því Valdimar vildi þekkja og vita aflaði hann sér gagna og skoðaði til að geta frætt. Hann talaði við innfædda og miðlaði síðan til ferðafélaga sinna. Þekkingin en líka plúsinn sem Valdimar bætti við.

Manstu hve vel Valdimar var vel á sig kominn? Hann var vissulega matmaður, fór alls ekki ekki í sykurbindindi og mat rjómasósur mikils. En hann gætti vel að grömmum, synti og hreyfði sig.

Þegar hinn vinnusami Valdimar lét af störfum í Verzló var hann einn – og þá sneri hann athygli að hugðarefnum. Hann glímdi við gullspurningar lífsins. Og Valdimar opnaði og m.a. vildi hann læra betur tungumál sem honum voru töm en líka bæta við. Hann var maður þekkingarinnar en opnaði svo veru sína – þroskaður og fullorðinn – og leitaðist við að bæta málakunnáttu. Hann hlustaði og horfði á erlendar fréttir – bæði til að fylgjast með þróun heimsmála – en líka til að læra orð, byggja setningar á framandi tungum og nema blæ og hvísl menningarinnar. Valdimar var opinn fyrir plúsunum, gullinu í lífi heimsins.

Gullspurningin

Og nú er hann farinn, kaupir ekki fleiri páskaegg handa fólkinu sínu og tekur ekki blóðþrýstinginn. Hann kætir ekki framar húsvörðinn á Skúlagötunni, semur engar fleiri gullspurningar eða hlær með þér að gleðimálum þessarar veraldar. Valdimar notaði síðustu dagana til að kveðja vel. Svo er þessi útfarardagur á afmælisdegi móður hans sem hann mat svo mikils. Og við megum leyfa honum að fara inn í fagnað himins.

Gagnvart dauða og eilífð er alltaf plússpurning. Hvernig má leysa gátuna um dauða og sorg? Við úrlausn koma saman systurnar tími og eilífð, þekking og viska, skipan og nýung, dauði og líf. Boðskapur fortíðar um Jesú Krist kemur úr framtíð. Dauðinn dó en lífið lifir. Snilldin í prófúrlausn heimsins er að eilífðin er opnuð. Þú mátt sjá í skólamanninum, vini þínum og ástvini, Valdimari Þór Hergeirssyni, getuna til að opna svo lífsgáturnar megi sjá í nýju ljósi. Valdimar er í gullspurningunni – og vegna snilldar himinsins má hann upplifa gleði spurningar og úrlausnarinnar, sem er greindarleg. Guð, skólastjóri alheimsins, er alltaf sanngjarn og hefur gaman af þeim sem þora.

Guð geymi Valdimar og Guð geymi þig.

Minningarorð 10. nóv. 2017. Neskirkja. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í Neskirkju.

+ Edda Sigrún Ólafsdóttir – minningarorð

„Edda var alltaf svo ofboðslega myndarleg og dugleg“ – sagði lögfræðingur við mig í vikunni. Og bætti við, að vinkonurnar í lagadeildinni hefðu rætt um hvort þær gætu komið að henni þegar hún væri hvorki búin að greiða sér eða snyrta sig. Svo töldu þær sig fá tækifærið þegar fyrsti tími féll niður. Þær ákáðu að skella sér heim til Eddu til að tékka á henni, koma henni á óvart og ófarðaðri. Og ekki þurfti lengi að bíða þegar þær hringdu dyrabjöllunni. Þarna stóð hún – hárið var óaðfinnanlegt. Hún var glæsilega klædd, brosti breitt og sagði geislandi kát: „En gaman, ég var að taka bollur út úr ofninum. Komið inn.“ Þær lærðu lexíuna og reyndu ekki aftur slíka hemsókn.

Edda Sigrún var alltaf tilbúin og flott. Hún var glæsileg og agaði sig til átaka við lífið – allt frá bernsku. Hún vakti aðdáun hvar sem hún fór, dreif verkin áfram og var alltaf á vaktinni. Hún gegndi fjölda hlutverka í lífinu, var fimm barna móðir, eiginkona og fyrirmynd, lögmaður, vinkona og aðveita jákvæðni og bjartsýni.

Og nú er eins og myndin sé fullkomin. Þau standa saman á opnu sálmaskrárinnar, Helgi og Edda, eins og þau stóðu saman í lífinu. Og svo er þarna turn kirkjunnar á milli og bendir upp. Nú stendur Helgi á tímamótum og er að láta allt frá sér úr búðinni á Skólavörðustígnum. Mikil saga er við lok. Og Edda er á uppleið, á leið í hvelfingu himinsins, inn í eilífðina.

Upphaf og fjölskyldan

Edda Sigrún Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 17. apríl árið 1936. Foreldrar hennar voru Ólafur Hafsteinn Einarsson, kennari og þýðandi, og Gréta Sigurborg Guðjónsdóttir, verslunarmaður. Systkini Eddu Sigrúnar voru Elín, Katrín og Guðjón. Elín er látin.

Uppvöxtur Eddu Sigrúnar var gæfulegur en flókinn. Pabbinn fékkst við kennslu og móðirin hélt heimilinu saman með mikilli kúnst. Og Edda tók stefnuna til lífs. Hún tók ákvörðun um að vera góð í öllu. Hún fékk ríkulegar gáfur og hæfni í vöggugjöf og nýtti vel. Þegar horft er til baka er eftirtektarvert að forkur og lærdómskappi sem Edda var að hún skyldi ekki ljúka menntaskólanámi strax. En hún fór gjarnan eigin leiðir í lífinu. Hún byrjaði í kvennavídd þess tíma og fór í húsmæðraskóla. Og allir sem kynntust Eddu eða komu á heimili hennar vissu að hún var snillingur í rekstri heimilis. Og svo varð glæsimennið Helgi á vegi hennar. Reyndar var hún ekki alveg viss um hann í byrjun – því hann var verulega óhreinn þegar hún sá hann fyrst. En svo þegar hann hafði farið í bað og hún sá þennan mikla sundmeistara hreinan og strokinn þá komu stjörnurnar í augu hennar. Og þau urðu par síðan – alla æfi – hvað sem á dundi og á daga dreif.

Þau Edda Sigrún og Helgi Hreiðar Sigurðsson bjuggu við barnalán og eignuðust fimm börn. Fjögur þeirra eru á lífi. Sigurður er elstur. Síðan kom Grétar í heiminn skömmu síðar en hann lést 24. desember síðastliðnum (2016). Nokkra ára hlé varð á barneignum en svo bættust í hópinn Helgi Hafsteinn, Edda Júlía og Sigrún Gréta. Sigurður er læknir á Hrafnistu, Grétar var úrsmiður að mennt og atvinnu. Helgi Hafsteinn starfar sem læknir í Hollandi, Edda Júlía er kennari og Sigrún Gréta er búfræðingur, íþróttakennari og er að ljúka námi sem lögildur fasteignasali. Edda Sigrún lætur eftir sig 14 barnabörn og fjögur barnabarnabörn. 

Helgi rak úraverkstæði sitt og verslun og Edda vaktaði allt sitt fólk. Hún breiddi út faðminn gagnvart stórfjölskyldunni. Þau sem þurftu aðstoð fengu hana hjá Eddu. Ef einhver var vegalaus var úrlausn að finna hjá henni. Og því var gjarnan mjög margmennt á heimilum þeirra Eddu og Helga.

Þau bjuggu víða. Það gegnir reyndar furðu hve mikill kraftur var í húsamálum og byggingamálum og Edda átti mikinn hlut í þeim framkvæmdum. Þau Edda byggðu fyrst í Rauðagerði, svo í Stóragerðinu og síðar í Hlyngerði. Helgi og Edda tóku líka til hendinni við húsbyggingar eða húsaviðgerðir á Stokkseyri, við Skerjafjörð, á Seltjarnarnesi og í Garðabæ. Að byggingaverkunum gekk hún með sama kraftinum og í húsmóðurstarfinu og lögmennskunni. Nætursvefninn varð stundum útundan hjá henni.

Eldri strákarnir uxu úr grasi. Edda kom öllu vel fyrir á heimaslóð og flest gekk fjölskyldunni í hag. Edda hafði metnað fyrir hönd barna sinna og hélt þeim til náms. Hún var samkvæm sjálfri sér. Þegar strákarnir hennar voru á leið í framhaldsskóla fór hún sjálf sama veg og fór í öldungadeild MH. Og Edda var hamhleypa í námi og glansaði á mettíma. Hún útskrifaðist með stúdentspróf og var meðal þeirra fyrstu sem luku öldungadeildinni. Og þá var stefnan sett á lögfræðina. Hún einhenti sér í það nám einnig. Meðan Edda Sigrún var í tíma hjá Sigurði Líndal eða Ármanni Snævarr voru yngri krakkarnir hennar stundum að leika sér á grasflötinni hjá styttunni af Sæmundi á selnum. Það var ekkert einfalt ferli fyrir konu með margvíslegar skyldur, kraftmikil börn og flókinn heimilisrekstur að vera á fullu í námi að auki. En Edda Sigrún var afrekskona og bakaði sínar bollur fyrir árrisular lagadömur, hélt stórboð fyrir tugi og jafnvel hundruð og átti ekki í neinum erfiðleikum með að skilja fons juris, muna lagagreinarnar og dómana. Og allt gerði hún með bjartsýni og bros á vör. Og svo þegar hún hafði skrifað lokaritgerðina útskrifaðist hún frá HÍ árið 1979. Þá tóku við störf á akri lögfræðinnar. Um tíma starfaði Edda Sigrún hjá ríkissaksóknara. Auk almennra lögmannsstarfa sérhæfði hún sig í sig slysabótum. Fjölskyldan varð vitni að því að hún var alltaf á vaktinni, gat aldrei sagt nei við þau sem áttu um sárt að binda og höfðu orðið fyrir áfalli. Í störfum dreif bjartsýnin Eddu áfram, óbilandi kraftur, þrautsegja og marksækni.

Minningar og eigindir

Hvernig manstu Eddu? Hún var sýnileg, ákveðin, áberandi og áhugaverð. Hún var gjarnan í miðju hringiðunnar. Manstu bleika varalitinn hennar? Hún fór ekki í hverfisátak eða fegrun götunnar án þess að vera almennilega máluð! Manstu neglurnar hennar? Fólk velti vöngum yfir hvort þær væru sterkari en annarra því hún gat puðað í mold í garðinum heilan dag án þess að þessar flottu, löngu neglur brotnuðu. Og hún dró aldrei af sér og notaði helst ekki hanska. Og garðurinn hennar varð fegursti garðurinn í Reykjavík.

Hún átti falleg og flott föt, var fagurkeri og leitaði í hið fagra og stórkostlega. Hún hafði áhuga á litum í lífinu og því voru fötin hennar ekki í grátónum heldur úr bjarta hluta listaskalans. Ung sjónvarpsstjarna bjargaði sér algerlega með því að fá aðgang að fataherberginu hennar Eddu. Og Edda sá gæðavörur á löngu færi. Hún rak með venslafólki sínu verslunina Kistuna sem seldi Laura Ashley-vörur.

Edda heimsótti þau sem áttu um sárt að binda, aðstoðaði þau sem voru í klípu. Hún tók þátt í félagsstarfi til styrktar fólki. Ef Edda Sigrún taldi að eitthvað á eigin heimili gæti nýst betur hjá skjólstæðingum hennar var ekki hikað. Teiknimyndasögur drengjanna hennar fengu nýtt líf á stofnunum og í athvörfum og í höndum þeirra sem Edda Sigrún vildi magna til lífs. Kraftmikil stuðningsaðgerð var stundum gerð án þess að allir aðilar væru spurðir leyfis. Edda Sigrún var um árabil í virkur liðsmaður í Kvenfélaginu Hringnum og í félagi Soroptimista.

Gestgjafinn Edda Sigrún var óbrigðul. Hún hélt stórkostlegar veislur fyrir fjölbreytilega hópa, kvennahópa, kvenlögfræðinga, sundfélaga Helga og stórfjölskylduna. Ekkert var óyfirstíganlegt í undirbúningi. Og það var stundum gott að hafa tvo bakaraofna á fullu í hálfan sólarhring. Veislurnar í kjölfarið urðu veglegar. Gestirnir voru ekki bara úr ákveðnum hópum heldur var biblíuaðferðin stundum notuð til að bjóða. Þau sem áttu um sárt að binda var boðið – líka á jólunum. Og minnstu bræður Jesú voru þar og þar með meistarinn sjálfur.

Manstu handavinnugetu hennar Eddu Sigrúnar? Hún saumaði á heilu sófasettinn, prjónaði ókjör. Var forkur í þeim verkum einnig.

Edda kallaði ekki til sín hreingerningarflokka til að halda heimilinu hreinu eða þrífa fyrir veislu. Heimilisfólkið gerði sitt og svo var Edda sjálf nákvæm hamhleypa sem mikið gekk undan. Því urðu til dýrlegir fagnaðir á heimili Eddu sem margir muna. Hún var drottning í eigin heimi og veislum. Og var tilbúin að leyfa öllum að njóta fagnaðarins.

Edda Sigrún var nákvæm með notkun íslensks máls. Og sú kunni að stafsetja.

Manstu natnina við fólkið hennar? Hún ákvað heimilsbrag og stefnu og Helgi og börnin náðu að lifa við hraðan takt húsmóðurinnar. Þegar eitthvað bjátaði á linnti Edda ekki látum fyrr en góðri niðurstöðu var náð. Þegar Edda yngri fékk krabbamein og íslenskir læknar voru strand fór Edda mamman af stað og fann úrræði í Lundi sem urðu til að dóttirin læknaðist. Þegar Edda tók stefnu í einhverjum málum voru nei ekki raunveruleg viðbrögð eða kostir. Nei var Eddu Sigrúnu tækifæri til viðbragðs. Nei var ekki stopp heldur eins konar hindrun til að komast hjá eða yfir. Þessi marksækni og stefnufesta var henni í merg runnin. Allt sem hún byrjaði á tók hún alla leið.

Edda Sigrún hafði djúpan áhuga á fólki, ekki aðeins þeim sem voru henni fjölskyldu- eða vinnutengd. Vinir barna og barnabarna hennar voru líka vinir hennar. Hún hafði áhuga á því sem þau voru að gera og færði þeim gjafir við barnsfæðingar, innflutning og útskriftir. Hún var stundum eins og yfirmamma í öllu hverfinu því börnin löðuðust að henni og kannski hefur ilmurinn úr eldhúsinu hjálpað til.

Manstu hve jákvæð Edda var? Edda líkti sér við Polyönnu og ákvað að vera sólarmegin í lífinu. Hún tók þá meðvituðu ákvörðun að láta ekki neikvæðni, ill tíðindi, veikindi eða áföll brjóta sig eða altaka. Hún stóð birtumegin, sótti inn í það góða, fagra og fullkomna. Henni var gefin ævintýralegur kraftur, dugur og nýtti gáfurnar vel í þágu þess sem skipti hana máli. Hún hvikaði ekki að þjóna fólki ef hún taldi að það væri rétt og styrkti til lífs. Og þegar á bjátaði og hún varð fyrir áföllum vann hún úr með bjartsýni og lífsvilja. Svo átti hún í vinum og vinkonum stuðning. Sigrún í Sæviðarsundi og Hildur Stefánsdóttir voru Eddu styrkar vinkonur. Þökk sé þeim.

Drama lífsins

Síðustu dagana hef ég setið og hlustað á sögur fjölskyldunnar. Tilfinningin sem situr eftir í mínum huga er að Edda hafi verið eins og kvikmyndastjarna, Hollywoodrottning, og líf hennar minnir mig helst á Hollyood-stórmynd. Og Helgi er flottur mótleikari í miklu drama Eddu Sigrúnar. Sagan Eddu hefur öll helstu einkenni klassískrar hetjusögu. Bernskuárin voru mótunarár sem reyndu á Eddu en stæltu hana einnig. Síðan komu góð tímabil en líka tímabil átaka og áfalla sem hún varð að fara í gegnum. Hún bognaði en brotnaði ekki. Hetjan sigrar alltaf í hetjusögunum og þannig er lífssaga Eddu Sigrúnar – mikið drama og hún var stjörnuleikari í eigin sögu. Hún er Eddan sjálf og héðan í frá mun ég alltaf hugsa um Eddu Sigrúnu Ólafsdóttur þegar Eddan verður afhent. Og fyrst hún fékk ekki Óskarinn formlega afhentan í lífinu þá getum við kannski skilið viðurkenningar í eilífð Guðs sem einhvers konar Eddur og Óskar í margfeldi?

Inn í eilífðina

Fyrir nokkrum árum sótti tengdadóttir Eddu Sigrúnu út á flugvöll í Hollandi. Þarna var hún komin – ungleg kona áttræðisaldri – glæsileg í rauðum stígvélum, í rauðri leðurkápu og með rauðar ferðatöskur. Og þannig finnst mér eins og Edda hljóti að hafa farið inn í himininn. Edda var trúuð og stefnuföst að auki. Innkoma hennar hefur örugglega verið flott og henni hefur verið fagnað. Mér finnst gott að hugsa um hana litríka á leið í gegnum gullna hliðið.

Hin bjarta afstaða hennar rímar vel við kristnina. Dauðinn dó en lífið lifir, ástin er sterkari en hatrið, birtan betri en myrkrið, gæðin eru fyrir alla en ekki fáa. Edda Sigrún er laus við veikindi og öldrun, doða og deyfingu. Hún er kraftsins megin. Og eilífðin er vettvangur mikillar sköpunar. Í orkubúi eilífðar er Eddukrafturinn virkjaður til góðs.

Guð geymi Eddu Sigrúnu Ólafsdóttur og Guð geymi þig.

Amen.

Kistulagning var í Fossvogskapellu 17. mars. Erfidrykkja á hótel Natura –  Loftleiðum. Jarðsett í Garðakirkjugarði.

+ Inga Bjarnason Cleaver – minningarorð

Það var eftirminnilegt að koma inn á heimili Ingu og Baldurs. Mér varð starsýnt á myndir, púða og öll handarverkin. Heimili Ingu var litríkt og fegrað með því sem hún hafði farið höndum um og skapað af listfengi. Stór og smá myndverk hennar prýða veggi. Og þegar lotið er að og grannt skoðað má sjá vandvirkni hinnar nálhögu Ingu, hve fallega hún vann myndirnar. Púðarnir eru fjölbreytilegir, ekki aðeins flottir krosssaums-púðar, sessur og stólbök, heldur einnig glæsilegar flatsaumsmyndir sem gleðja vegna góðrar formskynjunar, litagleði og húmors saumakonunnar. Svo þegar búið er að dást að öllu hinu sýnilega er hægt að fara inn í skápana. Þeir eru fullir af saumaskap hennar. Vinnuherbergið hennar og loftið geyma djásnin einnig. Inga var listamaður í höndum. Dýrmæti hennar lofa meistarann og nú skilur hún allt eftir í vörslu fjölskyldunnar sem fær að njóta með margvíslegum hætti þolinmæði og getu Ingu. Þetta eru tilfinningamunir sem miðla minningum.

Öllum er eitthvað sérstakt eða einstakt gefið. Líf Ingu var fjölbreytilegt eins og vinir og fjölskyldan veit. Fyrir trúarlega þenkjandi minnir Inga á skaparann sem aldrei hættir að þræða, hugsa form, velja saman liti, prufa ný mynstur, kanna möguleika og flétta það saman sem getur orðið til að skapa fjölbreytileika, ríkulega og unaðslega útkomu. Ástarsaga Biblíunnar byrjar strax á fyrstu versum Biblíunnar. Guðdómurinn er sem í mynd saumakonu sem áætlar form, tekur til efni, skipuleggur, leggur ljós að og svo hefst listgjörningur og úr verður líf, heimur, umhverfi og lifandi fólk sem fær frelsi í vöggugjöf og getu til að elska. Og síðan er hin mikla trúarsaga kristninnar og heimsins sögð á öllum blöðum Ritningarinnar þaðan í frá. Sú saga verður hvað fegurst uppteiknuð í lífi Jesú Krists sem sótti alltaf í veröld fegurðar, litríkis, mikilla sagna og drama lífsins. Ástarsaga Biblíunnar á sér síðan afleggjara í lífi manna. Sköpungleði Guðs átti sér litríka útgáfu í lífi Ingu Bjarnason Cleaver. Líf hennar má verða til að efla þig til lífs og skapandi gjörnings í þágu hamingju og fegurðar.

Ætt og uppruni

Inga fæddist þann 14. mars árið 1936. Móðir hennar var Guðrún Magnúsdóttir frá Bergstöðum við horn Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis. Og Bergstaðastræti er kennt við þann bæ. Guðrún var komin af Reykvíkingum, sem lögðu grunn að vaxandi þorpi, bæ og borg. Guðrún hafði atvinnu af afgreiðslu- og skrifstofustörfum. Hún fæddist 7. mars árið 1910 – og Inga er því jarðsungin á fæðingardegi Guðrúnar, móður hennar.

Faðir Ingu var Hákon Bjarnason sem var einn ötulasti frumkvöðull skógræktar á Íslandi í áratugi. Hann var sonur Ágústs H. Bjarnasonar prófessors og Sigríðar Jónsdóttur Ólafssonar ritstjóra og alþingismanns. Áhrif þessa fólks á þjóðina voru mikil og lifðu eftir að þau hurfu af sjónarsviði.

Guðrún og Hákon, foreldrar Ingu, nutu bæði menntunar í Danmörk. Guðrún lærði á Suhrs Höjskole sem var ætlað að efla gúrmetíska getu nemenda sinna. Guðrún hafði góða getu til að taka við og hafði alla tíð mikla sveiflu.

Og Hákon nam ræktunarfræðin í Landbúnaðarháskólanum. Ekki fer sögum af neinum samgangi þeirra í Höfn en þau urðu náin um miðjan fjórða áratuginn, gengu í hjónaband og Inga kom í heiminn árið 1936. Hákon var á fullu í ræktunarstörfum en sambandið trosnaði í litlu fjölskyldunni og að því kom að Hákon sagði skilið við konu sína og dótturina Ingu, sem þá var þriggja ára. Inga eignaðist síðar hálfsystkini, samfeðra, og þau eru Laufey, Ágúst, Björg, og Jón Hákon.

Eftir skilnaðinn flutti Guðrún aftur í foreldrahús, sem var þá á Skólavörðustíg 16. Svo kom ástin að nýju í líf Guðrúnar. Edward Brewster Cleaver hafði komið til Íslands með bandaríska hernum og hóf síðar störf fyrir bandaríska sendiráðið. Hann þurfti fyrir hönd þjóðar sinnar að fara reglulega á skrifstofu ríkisféhirðis og gat ekki annað en tekið eftir hinni skemmtilegu og fallegu Guðrúnu sem þar starfaði. Hún sá glæsimennið og þau tóku saman og gengu í hjónaband árið1944. Inga eignaðist í Edward natinn stjúpa sem gekk henni algerlega í föðurstað og var henni alla tíð náinn, vandaður og góður.

Þegar heimstyrkjöldinni lauk flutti litla fjölskyldan til Bandaríkjanna. Þau sigldu til Boston, fóru svo til Washington, voru um tíma í Joplin í Missouri og þar á eftir í Edmonton í Kanada þar sem Edward var ræðismaður. Inga sótti skóla á þessum stöðum, varð fullkomlega tvítyngd og lærði ameríska menningu og skildi lifnaðarhætti og hugsunarhátt vestan hafs.

Ísland seiddi og Eddie fékk vinnu við sendiráðið í Reykjavík. Þau Guðrún og Inga komu til baka upp úr 1950 og bjuggu fyrst á Keflavíkurflugvelli. Á þeim tíma tók Inga bíl í bæinn á hverjum degi og sótti Gaggó vest. Svo fluttu þau til Reykjavíkur og fengu íbúð við Hringbrautina. Þegar Inga hafði lokið skólagöngu fór hún að vinna í utanríkisráðuneytinu og kom við sögu í ýmsum deildum ráðuneytisins. Átján ára fór hún til New York og starfaði hjá sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Eftir störfin ytra kom Inga svo til starfa heima og hélt áfram að þjóna utanríkisráðuneytinu sem þá var að hluta til húsa í stjórnaráðshúsinu við Lækjartorg. Hún starfaði við hlið kollega í forsætisráðuneytinu og einnig starfsfólks embættis forseta Íslands. Og margt af þessu fólki varð kunningar og vinir hennar ævilangt. Inga vann að margvíslegum verkefnum á starfsferlinum, kom sér hvarvetna vel, naut virðingar og var treyst í vinnu.

Baldur, hjúskapur og börnin

Svo var það ástin. Baldur Berndsen Maríusson var jafnaldri Ingu og bjó líka við Hringbraut á unglingsárum eins og hún. Hann heillaðist af þessari fallegu og ævintýralegu stúlku sem kom eins og dís með heimsmenninguna frá Ameríku. Hann var alla ævi stefnufastur og rásfastur og í skólaferð upp í Borgarfjörð settist hann við hlið Ingu, notaði ferðina svo vel að þau urðu par. Hreðavatnsferðirnar hafa löngum kveikt ástina og kynnt undir. Þau Inga og Baldur fóru saman í bíó, dönsuðu mikið og voru flott par. Þau voru trúlofuð í fimm ár, voru ekkert að flýta sér í hjúskap “enda dekruð heima” sagði Inga. Þau byrjuðu búskap í íbúð niður við Ægissíðu. Neskirkjuprestur gifti þau við altarið hér í kirkjunni á fimmtudagsmorgni 31. júlí árið 1958. Sambandið dafnaði og var til allrar framtíðar. Inga var drottningin hans Baldurs alla tíð. Hjúskapur þeirra var farsæll.

Magnús Bjarni fæddist þeim Ingu og Baldri í febrúar 1961. Hann er landfræðingur, einnig menntaður í hagvísindum og starfar sem ráðgjafi. Guðrún Edda kom í heiminn í maí árið 1966. Hún er menntuð í hannyrðum og er einnig master í fullorðinsfræðum og starfar í sinni grein við fræðslustörf hjá Reykjavíkurborg.  Sigríður Erla fæddist í nóvember 1967. Hún er menntuð í listasafnafræðum og ljósmyndun. Hún býr í Boston og starfar sem miðill. Börn Magnúsar eru Baldur Karl og Elín Inga. Dóttir Guðrúnar er Edda Sólveig.

Inga og Baldur voru hagvön í Ameríku og höfðu áhuga á að vera vestra saman um tíma. Þegar Magnús var fæddur tóku þau sig upp og fóru til New York árið 1962. Baldur varð þá stöðvarstjóri Loftleiða vestra. Þetta voru uppgangstímar og gaman að lifa. Svo komu þau til baka með New York-lífið í blóðinu. Stelpurnar fæddust og Inga fór til starfa að nýju í utanríkisráðuneytinu sem varð hennar starfsvettvangur upp frá því. Hún lauk farsælum starfsferli sem deildarstjóri árið 2006.

Hvernig var Inga?

Hvernig manstu Ingu? Leyfðu þér að kalla fram mynd hennar í huga þinn. Hvað kemur fyrst upp í huga? Manstu eigindir hennar? Manstu hve þrautseig hún var? Jafnlynd, umburðarlynd og jákvæð. Hún þurfti snemma að glíma við breytingar, sviftingar, flutninga, litríka mömmu og fjölbreytileika manns sem þjónaði bandaríska heimsveldinu, ekki bara á einum stað heldur mörgum. Og svo var Baldur á ferð og flugi í þjónustu Loftleiða og því fjarri heimili. Inga varð því að sjá um heimilið og treysta sjálfri sér. Það var henni blessun að hún var í nábýli við móður og stjúpa sem bjuggu í sama húsi. Inga og börnin gátu því notið þeirra í daglega lífinu. Manstu hve ákveðin Inga var í að koma börnum sínum til náms og manns? Hún vildi að börnin hennar gætu valið og notið sín í lífinu og gerði sitt til þess.

Manstu hve amerísk Inga var? Hún hafði engan áhuga á þorramat og sótti fremur í amerískan kjúkling en sviðasultu og ekki verra ef Coke var  með kjúllanum. Og Inga kippti frekar frosnu grænmeti úr frystinum en að opna Oradósir. Þegar kakkarnir á Tómasarhaganum og Grímsstaðaholtinu komu í afmæli til barna Ingu gátu þau átt von á marsmellows, Baby Ruth butterfingers og öðru amerísku nammi. Svo voru bílar heimilisins gjarnan amerískir. Baldur deildi skoðunum með Ingu sinni og tók tillit til litasmekks hennar. Hann seldi bláa kaggan sem hann kom með frá Ameríku af því henni líkaði ekki liturinn.

Manstu dýravininn Ingu, hún átti hunda í bernsku og hélt hún hund til hinsta dags.

Svo saumaði hún. Fötin á börnin og svo var allur útsaumurinn. Efnin voru góð og þræðirnir ekta. Inga var ekta í öllu, hún vildi bómull, ull eða silki, en alls ekki gerviefni.

Inga var mikil ferðakona. Hún var ekki aðeins hagvön í Ameríku. Hún var – eins og hennar fólk – tengd Kaupmannahöfn og Danmörk. Henni fannst mjög gaman að vera við Eyrarsund. Hún ferðaðist um alla Evrópu og Baldur hafði gaman af akstri og vílaði ekki fyrir sér langkeyrslur – bæði í Evrópu og Ameríku. Og svo ferðuðust þau til Asíu og Inga vildi að börnin hennar fengju að ferðast einnig með þeim og sjá heiminn. Inga var heimsborgari.

Eilífðin

Nú er hún farin. Hún er farin inn í veröld hins mikla hönnuðar, með mörgum víddum og veröldum. „Í húsi föður míns eru margar vistarverur“ sagði Jesús. Þar er gaman að vera. Inga er farin inn í heim þar sem Baldur tekur á móti henni, fagnandi og hún hittir fyrir móður sína og fólkið sem hún elskaði. Pfaff-saumavélin hennar er þögnuð, nálarnar eru fallnar. Hún saumar ekki fleiri púða eða myndir – nú tekur hún þátt í saumaskap himinsins. Þessi veröld er skemmtileg en hin himneska þó toppurinn.

Guð geymi Ingu Bjarnason Cleaver.

Og Guð geymi þig í tíma og eilífð.

Amen.

Minningarorð flutt í Neskirkju 7. mars, 2017. Kistulagning kl. 11 sama dag, þ.e. 7. mars. Bálför, jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja eftir athöfn í safnaðarheimili Neskirkju.