Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

+ Edda Sigrún Ólafsdóttir – minningarorð

„Edda var alltaf svo ofboðslega myndarleg og dugleg“ – sagði lögfræðingur við mig í vikunni. Og bætti við, að vinkonurnar í lagadeildinni hefðu rætt um hvort þær gætu komið að henni þegar hún væri hvorki búin að greiða sér eða snyrta sig. Svo töldu þær sig fá tækifærið þegar fyrsti tími féll niður. Þær ákáðu að skella sér heim til Eddu til að tékka á henni, koma henni á óvart og ófarðaðri. Og ekki þurfti lengi að bíða þegar þær hringdu dyrabjöllunni. Þarna stóð hún – hárið var óaðfinnanlegt. Hún var glæsilega klædd, brosti breitt og sagði geislandi kát: „En gaman, ég var að taka bollur út úr ofninum. Komið inn.“ Þær lærðu lexíuna og reyndu ekki aftur slíka hemsókn.

Edda Sigrún var alltaf tilbúin og flott. Hún var glæsileg og agaði sig til átaka við lífið – allt frá bernsku. Hún vakti aðdáun hvar sem hún fór, dreif verkin áfram og var alltaf á vaktinni. Hún gegndi fjölda hlutverka í lífinu, var fimm barna móðir, eiginkona og fyrirmynd, lögmaður, vinkona og aðveita jákvæðni og bjartsýni.

Og nú er eins og myndin sé fullkomin. Þau standa saman á opnu sálmaskrárinnar, Helgi og Edda, eins og þau stóðu saman í lífinu. Og svo er þarna turn kirkjunnar á milli og bendir upp. Nú stendur Helgi á tímamótum og er að láta allt frá sér úr búðinni á Skólavörðustígnum. Mikil saga er við lok. Og Edda er á uppleið, á leið í hvelfingu himinsins, inn í eilífðina.

Upphaf og fjölskyldan

Edda Sigrún Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 17. apríl árið 1936. Foreldrar hennar voru Ólafur Hafsteinn Einarsson, kennari og þýðandi, og Gréta Sigurborg Guðjónsdóttir, verslunarmaður. Systkini Eddu Sigrúnar voru Elín, Katrín og Guðjón. Elín er látin.

Uppvöxtur Eddu Sigrúnar var gæfulegur en flókinn. Pabbinn fékkst við kennslu og móðirin hélt heimilinu saman með mikilli kúnst. Og Edda tók stefnuna til lífs. Hún tók ákvörðun um að vera góð í öllu. Hún fékk ríkulegar gáfur og hæfni í vöggugjöf og nýtti vel. Þegar horft er til baka er eftirtektarvert að forkur og lærdómskappi sem Edda var að hún skyldi ekki ljúka menntaskólanámi strax. En hún fór gjarnan eigin leiðir í lífinu. Hún byrjaði í kvennavídd þess tíma og fór í húsmæðraskóla. Og allir sem kynntust Eddu eða komu á heimili hennar vissu að hún var snillingur í rekstri heimilis. Og svo varð glæsimennið Helgi á vegi hennar. Reyndar var hún ekki alveg viss um hann í byrjun – því hann var verulega óhreinn þegar hún sá hann fyrst. En svo þegar hann hafði farið í bað og hún sá þennan mikla sundmeistara hreinan og strokinn þá komu stjörnurnar í augu hennar. Og þau urðu par síðan – alla æfi – hvað sem á dundi og á daga dreif.

Þau Edda Sigrún og Helgi Hreiðar Sigurðsson bjuggu við barnalán og eignuðust fimm börn. Fjögur þeirra eru á lífi. Sigurður er elstur. Síðan kom Grétar í heiminn skömmu síðar en hann lést 24. desember síðastliðnum (2016). Nokkra ára hlé varð á barneignum en svo bættust í hópinn Helgi Hafsteinn, Edda Júlía og Sigrún Gréta. Sigurður er læknir á Hrafnistu, Grétar var úrsmiður að mennt og atvinnu. Helgi Hafsteinn starfar sem læknir í Hollandi, Edda Júlía er kennari og Sigrún Gréta er búfræðingur, íþróttakennari og er að ljúka námi sem lögildur fasteignasali. Edda Sigrún lætur eftir sig 14 barnabörn og fjögur barnabarnabörn. 

Helgi rak úraverkstæði sitt og verslun og Edda vaktaði allt sitt fólk. Hún breiddi út faðminn gagnvart stórfjölskyldunni. Þau sem þurftu aðstoð fengu hana hjá Eddu. Ef einhver var vegalaus var úrlausn að finna hjá henni. Og því var gjarnan mjög margmennt á heimilum þeirra Eddu og Helga.

Þau bjuggu víða. Það gegnir reyndar furðu hve mikill kraftur var í húsamálum og byggingamálum og Edda átti mikinn hlut í þeim framkvæmdum. Þau Edda byggðu fyrst í Rauðagerði, svo í Stóragerðinu og síðar í Hlyngerði. Helgi og Edda tóku líka til hendinni við húsbyggingar eða húsaviðgerðir á Stokkseyri, við Skerjafjörð, á Seltjarnarnesi og í Garðabæ. Að byggingaverkunum gekk hún með sama kraftinum og í húsmóðurstarfinu og lögmennskunni. Nætursvefninn varð stundum útundan hjá henni.

Eldri strákarnir uxu úr grasi. Edda kom öllu vel fyrir á heimaslóð og flest gekk fjölskyldunni í hag. Edda hafði metnað fyrir hönd barna sinna og hélt þeim til náms. Hún var samkvæm sjálfri sér. Þegar strákarnir hennar voru á leið í framhaldsskóla fór hún sjálf sama veg og fór í öldungadeild MH. Og Edda var hamhleypa í námi og glansaði á mettíma. Hún útskrifaðist með stúdentspróf og var meðal þeirra fyrstu sem luku öldungadeildinni. Og þá var stefnan sett á lögfræðina. Hún einhenti sér í það nám einnig. Meðan Edda Sigrún var í tíma hjá Sigurði Líndal eða Ármanni Snævarr voru yngri krakkarnir hennar stundum að leika sér á grasflötinni hjá styttunni af Sæmundi á selnum. Það var ekkert einfalt ferli fyrir konu með margvíslegar skyldur, kraftmikil börn og flókinn heimilisrekstur að vera á fullu í námi að auki. En Edda Sigrún var afrekskona og bakaði sínar bollur fyrir árrisular lagadömur, hélt stórboð fyrir tugi og jafnvel hundruð og átti ekki í neinum erfiðleikum með að skilja fons juris, muna lagagreinarnar og dómana. Og allt gerði hún með bjartsýni og bros á vör. Og svo þegar hún hafði skrifað lokaritgerðina útskrifaðist hún frá HÍ árið 1979. Þá tóku við störf á akri lögfræðinnar. Um tíma starfaði Edda Sigrún hjá ríkissaksóknara. Auk almennra lögmannsstarfa sérhæfði hún sig í sig slysabótum. Fjölskyldan varð vitni að því að hún var alltaf á vaktinni, gat aldrei sagt nei við þau sem áttu um sárt að binda og höfðu orðið fyrir áfalli. Í störfum dreif bjartsýnin Eddu áfram, óbilandi kraftur, þrautsegja og marksækni.

Minningar og eigindir

Hvernig manstu Eddu? Hún var sýnileg, ákveðin, áberandi og áhugaverð. Hún var gjarnan í miðju hringiðunnar. Manstu bleika varalitinn hennar? Hún fór ekki í hverfisátak eða fegrun götunnar án þess að vera almennilega máluð! Manstu neglurnar hennar? Fólk velti vöngum yfir hvort þær væru sterkari en annarra því hún gat puðað í mold í garðinum heilan dag án þess að þessar flottu, löngu neglur brotnuðu. Og hún dró aldrei af sér og notaði helst ekki hanska. Og garðurinn hennar varð fegursti garðurinn í Reykjavík.

Hún átti falleg og flott föt, var fagurkeri og leitaði í hið fagra og stórkostlega. Hún hafði áhuga á litum í lífinu og því voru fötin hennar ekki í grátónum heldur úr bjarta hluta listaskalans. Ung sjónvarpsstjarna bjargaði sér algerlega með því að fá aðgang að fataherberginu hennar Eddu. Og Edda sá gæðavörur á löngu færi. Hún rak með venslafólki sínu verslunina Kistuna sem seldi Laura Ashley-vörur.

Edda heimsótti þau sem áttu um sárt að binda, aðstoðaði þau sem voru í klípu. Hún tók þátt í félagsstarfi til styrktar fólki. Ef Edda Sigrún taldi að eitthvað á eigin heimili gæti nýst betur hjá skjólstæðingum hennar var ekki hikað. Teiknimyndasögur drengjanna hennar fengu nýtt líf á stofnunum og í athvörfum og í höndum þeirra sem Edda Sigrún vildi magna til lífs. Kraftmikil stuðningsaðgerð var stundum gerð án þess að allir aðilar væru spurðir leyfis. Edda Sigrún var um árabil í virkur liðsmaður í Kvenfélaginu Hringnum og í félagi Soroptimista.

Gestgjafinn Edda Sigrún var óbrigðul. Hún hélt stórkostlegar veislur fyrir fjölbreytilega hópa, kvennahópa, kvenlögfræðinga, sundfélaga Helga og stórfjölskylduna. Ekkert var óyfirstíganlegt í undirbúningi. Og það var stundum gott að hafa tvo bakaraofna á fullu í hálfan sólarhring. Veislurnar í kjölfarið urðu veglegar. Gestirnir voru ekki bara úr ákveðnum hópum heldur var biblíuaðferðin stundum notuð til að bjóða. Þau sem áttu um sárt að binda var boðið – líka á jólunum. Og minnstu bræður Jesú voru þar og þar með meistarinn sjálfur.

Manstu handavinnugetu hennar Eddu Sigrúnar? Hún saumaði á heilu sófasettinn, prjónaði ókjör. Var forkur í þeim verkum einnig.

Edda kallaði ekki til sín hreingerningarflokka til að halda heimilinu hreinu eða þrífa fyrir veislu. Heimilisfólkið gerði sitt og svo var Edda sjálf nákvæm hamhleypa sem mikið gekk undan. Því urðu til dýrlegir fagnaðir á heimili Eddu sem margir muna. Hún var drottning í eigin heimi og veislum. Og var tilbúin að leyfa öllum að njóta fagnaðarins.

Edda Sigrún var nákvæm með notkun íslensks máls. Og sú kunni að stafsetja.

Manstu natnina við fólkið hennar? Hún ákvað heimilsbrag og stefnu og Helgi og börnin náðu að lifa við hraðan takt húsmóðurinnar. Þegar eitthvað bjátaði á linnti Edda ekki látum fyrr en góðri niðurstöðu var náð. Þegar Edda yngri fékk krabbamein og íslenskir læknar voru strand fór Edda mamman af stað og fann úrræði í Lundi sem urðu til að dóttirin læknaðist. Þegar Edda tók stefnu í einhverjum málum voru nei ekki raunveruleg viðbrögð eða kostir. Nei var Eddu Sigrúnu tækifæri til viðbragðs. Nei var ekki stopp heldur eins konar hindrun til að komast hjá eða yfir. Þessi marksækni og stefnufesta var henni í merg runnin. Allt sem hún byrjaði á tók hún alla leið.

Edda Sigrún hafði djúpan áhuga á fólki, ekki aðeins þeim sem voru henni fjölskyldu- eða vinnutengd. Vinir barna og barnabarna hennar voru líka vinir hennar. Hún hafði áhuga á því sem þau voru að gera og færði þeim gjafir við barnsfæðingar, innflutning og útskriftir. Hún var stundum eins og yfirmamma í öllu hverfinu því börnin löðuðust að henni og kannski hefur ilmurinn úr eldhúsinu hjálpað til.

Manstu hve jákvæð Edda var? Edda líkti sér við Polyönnu og ákvað að vera sólarmegin í lífinu. Hún tók þá meðvituðu ákvörðun að láta ekki neikvæðni, ill tíðindi, veikindi eða áföll brjóta sig eða altaka. Hún stóð birtumegin, sótti inn í það góða, fagra og fullkomna. Henni var gefin ævintýralegur kraftur, dugur og nýtti gáfurnar vel í þágu þess sem skipti hana máli. Hún hvikaði ekki að þjóna fólki ef hún taldi að það væri rétt og styrkti til lífs. Og þegar á bjátaði og hún varð fyrir áföllum vann hún úr með bjartsýni og lífsvilja. Svo átti hún í vinum og vinkonum stuðning. Sigrún í Sæviðarsundi og Hildur Stefánsdóttir voru Eddu styrkar vinkonur. Þökk sé þeim.

Drama lífsins

Síðustu dagana hef ég setið og hlustað á sögur fjölskyldunnar. Tilfinningin sem situr eftir í mínum huga er að Edda hafi verið eins og kvikmyndastjarna, Hollywoodrottning, og líf hennar minnir mig helst á Hollyood-stórmynd. Og Helgi er flottur mótleikari í miklu drama Eddu Sigrúnar. Sagan Eddu hefur öll helstu einkenni klassískrar hetjusögu. Bernskuárin voru mótunarár sem reyndu á Eddu en stæltu hana einnig. Síðan komu góð tímabil en líka tímabil átaka og áfalla sem hún varð að fara í gegnum. Hún bognaði en brotnaði ekki. Hetjan sigrar alltaf í hetjusögunum og þannig er lífssaga Eddu Sigrúnar – mikið drama og hún var stjörnuleikari í eigin sögu. Hún er Eddan sjálf og héðan í frá mun ég alltaf hugsa um Eddu Sigrúnu Ólafsdóttur þegar Eddan verður afhent. Og fyrst hún fékk ekki Óskarinn formlega afhentan í lífinu þá getum við kannski skilið viðurkenningar í eilífð Guðs sem einhvers konar Eddur og Óskar í margfeldi?

Inn í eilífðina

Fyrir nokkrum árum sótti tengdadóttir Eddu Sigrúnu út á flugvöll í Hollandi. Þarna var hún komin – ungleg kona áttræðisaldri – glæsileg í rauðum stígvélum, í rauðri leðurkápu og með rauðar ferðatöskur. Og þannig finnst mér eins og Edda hljóti að hafa farið inn í himininn. Edda var trúuð og stefnuföst að auki. Innkoma hennar hefur örugglega verið flott og henni hefur verið fagnað. Mér finnst gott að hugsa um hana litríka á leið í gegnum gullna hliðið.

Hin bjarta afstaða hennar rímar vel við kristnina. Dauðinn dó en lífið lifir, ástin er sterkari en hatrið, birtan betri en myrkrið, gæðin eru fyrir alla en ekki fáa. Edda Sigrún er laus við veikindi og öldrun, doða og deyfingu. Hún er kraftsins megin. Og eilífðin er vettvangur mikillar sköpunar. Í orkubúi eilífðar er Eddukrafturinn virkjaður til góðs.

Guð geymi Eddu Sigrúnu Ólafsdóttur og Guð geymi þig.

Amen.

Kistulagning var í Fossvogskapellu 17. mars. Erfidrykkja á hótel Natura –  Loftleiðum. Jarðsett í Garðakirkjugarði.

+ Inga Bjarnason Cleaver – minningarorð

Það var eftirminnilegt að koma inn á heimili Ingu og Baldurs. Mér varð starsýnt á myndir, púða og öll handarverkin. Heimili Ingu var litríkt og fegrað með því sem hún hafði farið höndum um og skapað af listfengi. Stór og smá myndverk hennar prýða veggi. Og þegar lotið er að og grannt skoðað má sjá vandvirkni hinnar nálhögu Ingu, hve fallega hún vann myndirnar. Púðarnir eru fjölbreytilegir, ekki aðeins flottir krosssaums-púðar, sessur og stólbök, heldur einnig glæsilegar flatsaumsmyndir sem gleðja vegna góðrar formskynjunar, litagleði og húmors saumakonunnar. Svo þegar búið er að dást að öllu hinu sýnilega er hægt að fara inn í skápana. Þeir eru fullir af saumaskap hennar. Vinnuherbergið hennar og loftið geyma djásnin einnig. Inga var listamaður í höndum. Dýrmæti hennar lofa meistarann og nú skilur hún allt eftir í vörslu fjölskyldunnar sem fær að njóta með margvíslegum hætti þolinmæði og getu Ingu. Þetta eru tilfinningamunir sem miðla minningum.

Öllum er eitthvað sérstakt eða einstakt gefið. Líf Ingu var fjölbreytilegt eins og vinir og fjölskyldan veit. Fyrir trúarlega þenkjandi minnir Inga á skaparann sem aldrei hættir að þræða, hugsa form, velja saman liti, prufa ný mynstur, kanna möguleika og flétta það saman sem getur orðið til að skapa fjölbreytileika, ríkulega og unaðslega útkomu. Ástarsaga Biblíunnar byrjar strax á fyrstu versum Biblíunnar. Guðdómurinn er sem í mynd saumakonu sem áætlar form, tekur til efni, skipuleggur, leggur ljós að og svo hefst listgjörningur og úr verður líf, heimur, umhverfi og lifandi fólk sem fær frelsi í vöggugjöf og getu til að elska. Og síðan er hin mikla trúarsaga kristninnar og heimsins sögð á öllum blöðum Ritningarinnar þaðan í frá. Sú saga verður hvað fegurst uppteiknuð í lífi Jesú Krists sem sótti alltaf í veröld fegurðar, litríkis, mikilla sagna og drama lífsins. Ástarsaga Biblíunnar á sér síðan afleggjara í lífi manna. Sköpungleði Guðs átti sér litríka útgáfu í lífi Ingu Bjarnason Cleaver. Líf hennar má verða til að efla þig til lífs og skapandi gjörnings í þágu hamingju og fegurðar.

Ætt og uppruni

Inga fæddist þann 14. mars árið 1936. Móðir hennar var Guðrún Magnúsdóttir frá Bergstöðum við horn Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis. Og Bergstaðastræti er kennt við þann bæ. Guðrún var komin af Reykvíkingum, sem lögðu grunn að vaxandi þorpi, bæ og borg. Guðrún hafði atvinnu af afgreiðslu- og skrifstofustörfum. Hún fæddist 7. mars árið 1910 – og Inga er því jarðsungin á fæðingardegi Guðrúnar, móður hennar.

Faðir Ingu var Hákon Bjarnason sem var einn ötulasti frumkvöðull skógræktar á Íslandi í áratugi. Hann var sonur Ágústs H. Bjarnasonar prófessors og Sigríðar Jónsdóttur Ólafssonar ritstjóra og alþingismanns. Áhrif þessa fólks á þjóðina voru mikil og lifðu eftir að þau hurfu af sjónarsviði.

Guðrún og Hákon, foreldrar Ingu, nutu bæði menntunar í Danmörk. Guðrún lærði á Suhrs Höjskole sem var ætlað að efla gúrmetíska getu nemenda sinna. Guðrún hafði góða getu til að taka við og hafði alla tíð mikla sveiflu.

Og Hákon nam ræktunarfræðin í Landbúnaðarháskólanum. Ekki fer sögum af neinum samgangi þeirra í Höfn en þau urðu náin um miðjan fjórða áratuginn, gengu í hjónaband og Inga kom í heiminn árið 1936. Hákon var á fullu í ræktunarstörfum en sambandið trosnaði í litlu fjölskyldunni og að því kom að Hákon sagði skilið við konu sína og dótturina Ingu, sem þá var þriggja ára. Inga eignaðist síðar hálfsystkini, samfeðra, og þau eru Laufey, Ágúst, Björg, og Jón Hákon.

Eftir skilnaðinn flutti Guðrún aftur í foreldrahús, sem var þá á Skólavörðustíg 16. Svo kom ástin að nýju í líf Guðrúnar. Edward Brewster Cleaver hafði komið til Íslands með bandaríska hernum og hóf síðar störf fyrir bandaríska sendiráðið. Hann þurfti fyrir hönd þjóðar sinnar að fara reglulega á skrifstofu ríkisféhirðis og gat ekki annað en tekið eftir hinni skemmtilegu og fallegu Guðrúnu sem þar starfaði. Hún sá glæsimennið og þau tóku saman og gengu í hjónaband árið1944. Inga eignaðist í Edward natinn stjúpa sem gekk henni algerlega í föðurstað og var henni alla tíð náinn, vandaður og góður.

Þegar heimstyrkjöldinni lauk flutti litla fjölskyldan til Bandaríkjanna. Þau sigldu til Boston, fóru svo til Washington, voru um tíma í Joplin í Missouri og þar á eftir í Edmonton í Kanada þar sem Edward var ræðismaður. Inga sótti skóla á þessum stöðum, varð fullkomlega tvítyngd og lærði ameríska menningu og skildi lifnaðarhætti og hugsunarhátt vestan hafs.

Ísland seiddi og Eddie fékk vinnu við sendiráðið í Reykjavík. Þau Guðrún og Inga komu til baka upp úr 1950 og bjuggu fyrst á Keflavíkurflugvelli. Á þeim tíma tók Inga bíl í bæinn á hverjum degi og sótti Gaggó vest. Svo fluttu þau til Reykjavíkur og fengu íbúð við Hringbrautina. Þegar Inga hafði lokið skólagöngu fór hún að vinna í utanríkisráðuneytinu og kom við sögu í ýmsum deildum ráðuneytisins. Átján ára fór hún til New York og starfaði hjá sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Eftir störfin ytra kom Inga svo til starfa heima og hélt áfram að þjóna utanríkisráðuneytinu sem þá var að hluta til húsa í stjórnaráðshúsinu við Lækjartorg. Hún starfaði við hlið kollega í forsætisráðuneytinu og einnig starfsfólks embættis forseta Íslands. Og margt af þessu fólki varð kunningar og vinir hennar ævilangt. Inga vann að margvíslegum verkefnum á starfsferlinum, kom sér hvarvetna vel, naut virðingar og var treyst í vinnu.

Baldur, hjúskapur og börnin

Svo var það ástin. Baldur Berndsen Maríusson var jafnaldri Ingu og bjó líka við Hringbraut á unglingsárum eins og hún. Hann heillaðist af þessari fallegu og ævintýralegu stúlku sem kom eins og dís með heimsmenninguna frá Ameríku. Hann var alla ævi stefnufastur og rásfastur og í skólaferð upp í Borgarfjörð settist hann við hlið Ingu, notaði ferðina svo vel að þau urðu par. Hreðavatnsferðirnar hafa löngum kveikt ástina og kynnt undir. Þau Inga og Baldur fóru saman í bíó, dönsuðu mikið og voru flott par. Þau voru trúlofuð í fimm ár, voru ekkert að flýta sér í hjúskap “enda dekruð heima” sagði Inga. Þau byrjuðu búskap í íbúð niður við Ægissíðu. Neskirkjuprestur gifti þau við altarið hér í kirkjunni á fimmtudagsmorgni 31. júlí árið 1958. Sambandið dafnaði og var til allrar framtíðar. Inga var drottningin hans Baldurs alla tíð. Hjúskapur þeirra var farsæll.

Magnús Bjarni fæddist þeim Ingu og Baldri í febrúar 1961. Hann er landfræðingur, einnig menntaður í hagvísindum og starfar sem ráðgjafi. Guðrún Edda kom í heiminn í maí árið 1966. Hún er menntuð í hannyrðum og er einnig master í fullorðinsfræðum og starfar í sinni grein við fræðslustörf hjá Reykjavíkurborg.  Sigríður Erla fæddist í nóvember 1967. Hún er menntuð í listasafnafræðum og ljósmyndun. Hún býr í Boston og starfar sem miðill. Börn Magnúsar eru Baldur Karl og Elín Inga. Dóttir Guðrúnar er Edda Sólveig.

Inga og Baldur voru hagvön í Ameríku og höfðu áhuga á að vera vestra saman um tíma. Þegar Magnús var fæddur tóku þau sig upp og fóru til New York árið 1962. Baldur varð þá stöðvarstjóri Loftleiða vestra. Þetta voru uppgangstímar og gaman að lifa. Svo komu þau til baka með New York-lífið í blóðinu. Stelpurnar fæddust og Inga fór til starfa að nýju í utanríkisráðuneytinu sem varð hennar starfsvettvangur upp frá því. Hún lauk farsælum starfsferli sem deildarstjóri árið 2006.

Hvernig var Inga?

Hvernig manstu Ingu? Leyfðu þér að kalla fram mynd hennar í huga þinn. Hvað kemur fyrst upp í huga? Manstu eigindir hennar? Manstu hve þrautseig hún var? Jafnlynd, umburðarlynd og jákvæð. Hún þurfti snemma að glíma við breytingar, sviftingar, flutninga, litríka mömmu og fjölbreytileika manns sem þjónaði bandaríska heimsveldinu, ekki bara á einum stað heldur mörgum. Og svo var Baldur á ferð og flugi í þjónustu Loftleiða og því fjarri heimili. Inga varð því að sjá um heimilið og treysta sjálfri sér. Það var henni blessun að hún var í nábýli við móður og stjúpa sem bjuggu í sama húsi. Inga og börnin gátu því notið þeirra í daglega lífinu. Manstu hve ákveðin Inga var í að koma börnum sínum til náms og manns? Hún vildi að börnin hennar gætu valið og notið sín í lífinu og gerði sitt til þess.

Manstu hve amerísk Inga var? Hún hafði engan áhuga á þorramat og sótti fremur í amerískan kjúkling en sviðasultu og ekki verra ef Coke var  með kjúllanum. Og Inga kippti frekar frosnu grænmeti úr frystinum en að opna Oradósir. Þegar kakkarnir á Tómasarhaganum og Grímsstaðaholtinu komu í afmæli til barna Ingu gátu þau átt von á marsmellows, Baby Ruth butterfingers og öðru amerísku nammi. Svo voru bílar heimilisins gjarnan amerískir. Baldur deildi skoðunum með Ingu sinni og tók tillit til litasmekks hennar. Hann seldi bláa kaggan sem hann kom með frá Ameríku af því henni líkaði ekki liturinn.

Manstu dýravininn Ingu, hún átti hunda í bernsku og hélt hún hund til hinsta dags.

Svo saumaði hún. Fötin á börnin og svo var allur útsaumurinn. Efnin voru góð og þræðirnir ekta. Inga var ekta í öllu, hún vildi bómull, ull eða silki, en alls ekki gerviefni.

Inga var mikil ferðakona. Hún var ekki aðeins hagvön í Ameríku. Hún var – eins og hennar fólk – tengd Kaupmannahöfn og Danmörk. Henni fannst mjög gaman að vera við Eyrarsund. Hún ferðaðist um alla Evrópu og Baldur hafði gaman af akstri og vílaði ekki fyrir sér langkeyrslur – bæði í Evrópu og Ameríku. Og svo ferðuðust þau til Asíu og Inga vildi að börnin hennar fengju að ferðast einnig með þeim og sjá heiminn. Inga var heimsborgari.

Eilífðin

Nú er hún farin. Hún er farin inn í veröld hins mikla hönnuðar, með mörgum víddum og veröldum. „Í húsi föður míns eru margar vistarverur“ sagði Jesús. Þar er gaman að vera. Inga er farin inn í heim þar sem Baldur tekur á móti henni, fagnandi og hún hittir fyrir móður sína og fólkið sem hún elskaði. Pfaff-saumavélin hennar er þögnuð, nálarnar eru fallnar. Hún saumar ekki fleiri púða eða myndir – nú tekur hún þátt í saumaskap himinsins. Þessi veröld er skemmtileg en hin himneska þó toppurinn.

Guð geymi Ingu Bjarnason Cleaver.

Og Guð geymi þig í tíma og eilífð.

Amen.

Minningarorð flutt í Neskirkju 7. mars, 2017. Kistulagning kl. 11 sama dag, þ.e. 7. mars. Bálför, jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja eftir athöfn í safnaðarheimili Neskirkju.

Kristján Egilsson – minningarorð

Skiptir máli hver flugstjórinn er? Afstaða, mat og traust fólks er mismunandi og margir eru smeykir við flug. Ég heyrði umsögn víðföruls Íslendings sem sagði að þegar hann sá Kristján Egilsson ganga fram flugvélina og vissi að hann yrði í stjórnklefanum þann daginn hefði farið um hann öryggistilfinning. Kristján var þeirrar gerðar að þegar hann var við stýri var eins og tæki og stjórnandinn yrðu eitt. Það var ekki aðeins í flugi heldur líka í bílaumferðinni. Kristján Egilsson lagði sál í það sem hann gerði, var gerhugul alnálægð í því sem hann gat lagt til og því stýrði hann öllum fleyjum til farsæls enda og áfangastaða.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans

Í 139. Davíðssálmi er efnt til flugferðar. Þar er lífi og lífsleiðum manna lýst með leit að öryggi. Hvernig getum við fundið það sem máli skiptir, átt tryggt samhengi fyrir líf okkar, hugsanir, tilfinningar, tengsl og traust? Hið forna skáld Davíðssálmanna orðar þetta merkingarflug mannsins með þessum hendingum:          

Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,

þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það,

og alla vegu mína gjörþekkir þú.

5 Þú umlykur mig á bak og brjóst,

og hönd þína hefir þú lagt á mig.

 

Og svo bætir skáldið við og það er flugþol í hugsuninni:

 

8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,

þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans

og settist við hið ysta haf,

10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig

og hægri hönd þín halda mér.

Já, það er flug í þessum texta. Víddirnar eru hinar stærstu og mestu, veröldin öll er vettvangur ferðalangsins. Allt himinhvolfið – allir heimar. Og svo er þetta morgunfagnandi flugtak: Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf – einnig þar myndi hönd þín leiða mig.

Hvernig líður þér við flugtak? Hvernig líður þér á álagsstunum lífsins? Er allt tryggt og öruggt? Kristján Egilsson valdi sér flug að ævistarfi og valdi að eiga sér persónulegt athvarf í besta flugstjórnarkerfi alheimsins, Guði. Sú flugumsjón er víðtæk og varðar tíma og eilífð. Lendingakerfið á hinum endanum virkar frábærlega og enginn hörgull á varabrautum. Blindflugið enginn vandi, tímasetningar á komum ekki heldur og allt virkar.

Æviágrip

Kristján Egilsson fæddist í foreldrahúsum í Reykjavík á gamlársdag árið 1942. Og afmælishald hans hefur verið litríkt af öllum skoteldum þjóðarinnar. Foreldrar hans voru hjónin Egill Kristjánsson og Anna Margrjet Þuríður Ólafsdóttir Briem. Egill, faðir Kristjáns, fæddist á Hliði á Vatnsleysuströnd. Hann var verslunarmaður og stórkaupmaður. Margrét fæddist í Viðey og starfaði auk heimilsstarfa við verslun með manni sínum. Að baki foreldrunum voru styrkir ættstofnar sem teygja rætur víða um land. Bróðir Kristjáns er Ólafur, sendiherra. Hann er liðlega sex árum eldri og fæddist í ágúst árið 1936. Þeir bræður fengu vandað uppeldi sem skilaði í þeim ábyrgri afstöðu og virðingu í samskiptum við fólk. Með þeim bræðrum var alla tíð gott bræðraþel.

Bernskuheimili Kristjáns var á horni Baldursgötu og Lokastígs. Í flestum húsum hverfisins var fjöldi barna og margir möguleikar til leikja og götulífið fjölskrúðugt. Kristján var glaðvær drengur. Skólavörðuholtið gnæfði yfir, ennþá með braggahverfi og kirkju í byggingu. Svo var þar fótboltavöllur líka. Reykjavíkurflugvöllur var nærri einnig og flugumferðin fór ekki fram hjá drengnum. Flugið var að aukast fyrir framtak dugandi manna og mikilvægi þess fyrir þjóðina að vaxa. Við Sóleyjargötu 17 þar sem amman bjó var hægt að skoða hvernig flugmennirnir höguðu aðfluginu. Útþráin var vakin.

Kristján sótti skóla í Miðbæjarskóla og honum þótti betra að Ólafur bróðir fór með honum fyrsta daginn. Svo varð hann sjálfstæður og átti góða daga og skemmtilega í skólanum og krakkarnir í hverfinu urðu félagar hans og kunningar.

Fermingarmynd. Kristján Egilsson.

Þegar Kristján hafði lokið grunnnámi setti hann strax stefnu á flugnám. Hann kynntist verslunarstörfum í uppvexti, faðir hans vann í þeim geira og ýmis ættmenni í móðurlegg höfðu stundað verslun. Kristján ákvað fara í Verzlunarskólanum áður en sigldi upp í skýin. Hann var ekki fyrr búinn að læra credit og debit og annað það sem Verzlunarskólinn kenndi þegar hann byrjaði flugnámið. Meðfram flugskólanum starfaði Kristján á Reykjavíkurflugvelli og tók ekki aðeins til hendi og gekk í mörg störf flughafnar heldur náði með vinnulaunum sínum að kosta að fullu almenna flugnámið. Það var bara tekinn víxill fyrir blindfluginu.

Kristján lauk Verzlunarskóla Íslands árið 1961 og ári síðar hóf hann flugnám við Flugskólann Þyt. Hann lauk atvinnuflugmannsprófi 1964. Kristján var alla tíð ljúfur í samskiptum og góður fræðari og eftir að hann lauk prófi var hann fenginn til að vera flugmaður og flugkennari hjá Þyt hf. Og svo sótti hann um flugmannsstöðu og var ráðinn til Flugfélags Íslands frá ársbyrjun árið 1965. Svo varð hann flugmaður hjá Flugleiðum og flugstjóri frá 1981. Áður en yfir lauk var Kristján búinn að fljúga flestum helstu flugförum Íslendinga. Hann flaug þristinum (Douglas DC-3) Fokkernum, Douglas DC-6B og Boeing 727, 737 og 757 þotum. Og hann hafði einna mest gaman af að fljúga 727- vélinni. Já Kristján var góður flugmaður, sál hans og vit sameinaðist vélunum.

Félagsmál í flugi og kirkju

Og þá er komið að hinum margvíslegu félagsmálum sem Kristján lét sig varða. Hann vann annars vegar á Guðs vegum í safnaðarstarfi Neskirkju og svo hins vegar á vegum Félags Íslenskra Atvinnuflugmanna – sem er nú kannski líka á Guðs vegum. Kristján beitti sér fyrr og síðar fyrir að öll öryggismál væru höfð í hávegum og tryggt væri að allt væri vel unnið sem varðaði flug, flugmennina og skipulag flugsins. Kristján var formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) í fjölda ára frá 1979, endurkjörinn margsinnis, og hafði mikil og góð áhrif á kjör og starfsaðstæður stéttarinnar. Kristján þótti laginn málafylgjumaður í kjaraviðræðum og fékk sitt fram með hlýrri festu og traustum, sanngjörnum rökum.

Kristján sat í trúnaðarmannaráði og samninganefndum í fjölda ára, einnig starfsráði FÍA og Flugleiða, samstarfsnefndum sömu aðila og í Öryggisnefnd FÍA. Vegna farsælla starfa sinna var hann fulltrúi í Samtökum Evrópuflugmanna um nokkurra ára skeið. Hann sótti einnig nokkur ársþing Alþjóðasamtaka flugmannafélaga. Kristján var í Flugráði um skeið sem varamaður. Kristján var hann skipaður af ráðherra í nefnd til að ákvarða aðgerðir og varnir gegn flugránum. Þá vann hann einnig að tillögugerð um framkvæmdir í flugmálum. Og þegar Kristján hætti að fljúga lauk ekki félagsstörfum hans í þágu flugmanna. Hann var í stjórn Eftirlaunasjóðs atvinnuflugmanna til æviloka. Og svo var hann í stjórn söguritunar á vegum FÍA. Kristján var í stjórn Flugminjasafns Egils Ólafssonar að Hnjóti. Og ég kynntist svo Kristjáni þegar hann var í sóknarnefnd Neskirkju. Þar var hann eins og annars staðar ráðhollur, glöggur málafylgjumaður.

Margrét og dæturnar

Svo var það ástin. Þingvellir eru ekki bara sögustaður stjórnmála heldur örlagastaður í ástamálum þúsunda, líka Kristjáns og Margrétar Óskar Sigursteinsdóttur. Hún skrapp eftir vinnu með vinkonum sínum austur og þar var Kristján með sínum félögum. Þau sáu hvort annað, hlýnaði um hjartaræturnar og ástin kviknaði. Svo tóku við gönguferðir, bílferðir og dýpkandi samband. Þau Kristján og Margrét gengu í hjónaband hér í Neskirkju 4. september 1965. Þau hjónin eru því búin að ganga götuna saman frá þeim tíma, njóta samskiptanna, trausts og samstöðu. Margrét er menntaður barnakennari og starfaði við kennslu um árabil.

Kristján og Margrét eignuðust tvær dætur. Anna Sigríður fæddist í september árið 1967. Hún er viðskiptafræðingur og sambýlismaður hennar er Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri. Dætur Önnu eru Margrét Mist, Ragnheiður Sóllilja og Snæfríður Blær.

Ásta fæddist svo í maí árið 1971. Hún er lögfræðingur og sambýlismaður hennar Bragi Gunnarsson, lögfræðingur. Börn Ástu eru Kristján Eldur og Eva Sóldís.

Kristján vakti yfir velferð dætra sinna og vildi tryggja öryggi þeirra og allra afkomenda. Þegar Margrét lét af kennslu gætti hún barnabarnanna og kenndi þeim. Þau Kristján voru samhent í þjónustunni við stórfjölskylduna. Margrét reyndist manni sínum frábærlega vel og var honum dyggur lífsförunautur. Þegar Kristján veiktist af krabbameini vakti hún yfir velferð hans og á miklar þakkir skildar fyrir óhvikula alúð.

Eigindir

Hvernig maður var Kristján? Hvernig manstu hann? Leyfðu svipbrigðum, stemmingum og minningum að koma fram í hugann. Ég býst ekki við að Kristján hafi tekið ballettspor í flugstjórnarklefa eða á samningafundum um launakjör. En þessi stóri maður átti það til að hoppa upp og taka fjörleg ballettsport til að kæta ungviði og vekja hlátur.

Manstu hve nálægur Kristján var í kyrru sinni og áreitnisleysi? Hann var aldrei óðamála og reyndi aldrei að yfirgnæfa aðra, en átti heldur aldrei í vandræðum með að ljáta í ljós skoðun sína um það sem honum þótti máli skipta. Og Kristján var hreinskiptinn og velviljaður í ummælum sínum um mál, verk og fólk og vildi leyfa öllum að njóta sannmælis.

Kristján vildi alltaf láta gott af sér leiða bæði í störfum og félagsmálum. Fyrir honum var höfð rík ábyrgðartilfinning í foreldrahúsum og Kristján var síðan umhugað að skila því af sér sem honum hafði verið falið betra en hann hafði fengið í hendur. Hann vildi ekki eiga undir öðrum en sjálfum sér að fá framgang eða vegtyllur í starfi. Hann vildi aldrei að aðrir lyftu honum á annarra kostnað. Og hann vildi aldrei sýnast eða berast á. Kristján var mikill af sjálfum sér.

Manstu hve vandvirkur Kristján var? Í öllum efnum og málum. Hann hafði gaman af handverki. Kristján hafði litla gleði af búðaferðum almennt en þeim mun meira gaman af að fara í verkfæraverslanir til að kaupa sér vönduð verkfæri á verkstæðið heima. Hann var enginn merkjamaður í fatnaði en kunni hins vegar vel að meta góð verkfæri sem mætti grípa til viðgerða. Þau Margrét voru samhent við húsbætur heimila sinna og unnu saman. Og Kristján hikaði ekki þegar kom að smíðum, pípulögnum og reisa veggi. Dætur hans nutu föður síns fyrr og síðar þegar þær stóðu í hreiðurgerð og fegrun heimila sinna. Og þau Margrét lögðu gjörva hönd að byggingu sumarbústaðar þeirra við jaðar Hekluhrauns. Þar kom vel í ljós hve góður smiður Kristján var.

Svo var hann gjörhugull. Hann tók eftir fólki, var næmur á ýmis smáatriði, tók eftir því sem mætti honum í félagslífi og á götum mannlífsins. Því var hann ekki aðeins góður tæknimaður í fluginu heldur sá oft fyrir vanda sem varð áður en í óefni var komið.

Manstu músíkina í Kristjáni? Heyrðiru hann einhvern tíma spila eftir eyranu á hljómborð, jazz eða ljúfa ameríska músík?

Og svo var Kristján málsvari öryggis í öllum málum í fjölskyldu og félagsmálum. Öryggissýn Kristjáns skilaði mjög miklu í flugmálum Íslendinga og hann hefur því átt drjúgan þátt í tryggum verkferlum og starfsmannavernd sem hefur skilað farsælu flugi um áratugi. Hann naut mikils trausts í flugmannastéttinni og meðal flugfólksins í landinu.

Og nú er Kristján Egilsson farinn í sitt síðasta flug – inn í himininn – inn í morgunroða eilífðar. Hann dansar ekki lengur splittstökk fyrir ungviðið, leggur Lífeyrissjóði kolleganna lið eða tekur þátt í að skapa flugsöguna. Hann lýtur ekki að trjáplöntum framar eða heldur að unga fólkinu kjötbollum. Hann syngur aldrei aftur Shibaba, fer aldrei í köflótta, stutterma skyrtu aftur og dregur ekki klink upp úr vasa til að gauka að barnabörnum sínum.

Og við megum þakka ríkulega fyrir allt það sem hann var og gaf. Fyrir hönd Neskirkju og þjóðkirkjunnar ber ég fram þakkir. Hópur flugfólks sem hér er þakkar fyrir hönd okkar allra störf Kristjáns í flugmálum. Og ástvinir þakka. Kristján er farinn og lentur á stærsta og öruggasta vellinum. Þar eru engar veilur í stjórn lofhelgi eilífðar – Jesúavían er algerlega kvillalaus. Og þegar Kristján lyftist á vængjum morgunroðans heldur honum – eins og okkur öllum – hönd Guðs.

Nýtt ár er upp runnið – eilífðin umvefur hann.

Guð geymi Kristján Egilsson og Guð geymi þig.

Útför Kristjáns fór fram föstudaginn 13. janúar, frá Neskirkju við Hagatorg. Bálför.

 

+ Þorleifur Stefán Guðmunsson +

Þorleifur Stefán Guðmundsson

Allir fasteignasalar þekkja eða kannast við Þorleif á Eignamiðlun. Hann lagði grunn að vinnutóli fasteignasala, forritinu hefur verið notað við útreikning lána og við sölu. Þau sem hafa unnið í þessum geira samfélagsins vissu að Þorleifur var ábyrgur og natinn. Honum mátti treysta. Ég heyrði nýlega sögu um að fasteignasali var fenginn til að meta fasteign svo hægt væri að bera saman við mat Eignamiðlunar. Honum var sagt að það hefði verið Þorleifur Guðmundsson sem mat. Þá sagði hann. „Ef Þorleifur á Eignamiðlun er búinn að meta, þá verður engu bætt við. Honum má treysta.“ Þetta er fögur umsögn samkeppnisaðila en túlkar afstöðu kollega Leifa til hans. Matið hans Leifa var eins konar hæstiréttur.

Ætt og uppruni

Leifi Þorleifur Stefán Guðmundsson fæddist í Keflavík 1. febrúar árið 1957. Foreldrar hans voru Guðmundur Helgi Gíslason og Guðfinna Jónsdóttir. Bæði voru úr Garðinum á Reykjanesi. Þar bjó Leifi fyrstu árin í blíðviðri og veðurbáli.

Leifi var yngstur í systkinahópnum. Eldri eru Marta, Ingibjörg Jóhanna, Jón og Sigrún. Þau komu í heiminn á sjö árum. Það var því oft mikið fjör í bænum á bernskuárum Leifa. Svo var líka fjöldi barna í Garðinum og Leifi var leiðtogi í barnaskaranum.

Leifi sótti skóla í heimabyggð en eftir landspróf fór hann í Menntaskólann á Laugarvatni. Hann flutti þar með að heiman og varð að treysta sjálfum sér og flétta eigið líf. Honum leið vel á Laugarvatni og bar æ síðan góðan hug til ML en þaðan lauk hann stúdentsprófi árið 1977. Eins og Jón, stóri bróðir hans, hafði Leifi hug á raunvísindum og fór í líffræðina. Hann lauk B.Sc.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1981.

Líffræðin og Eignamiðlun

Leifi hafði burði, gáfur og getu til að verða góður líffræðingur. Og við hefðum alveg getað ímyndað okkur hann sem frábæran kennara eða öflugan rannsóknarmann í heimi fræðanna. En ævistarf hans varð á öðru sviði. Fyrst starfaði Þorleifur með námi hjá Íslenskum aðalverktökum. Svo hóf hann störf á fasteignasölunni Eignamiðlun í Reykjavík árið 1981 og starfaði við fasteignasölu óslitið til dauðadags. Leifi var sá lukkuhrólfur að vera sæll í starfi og vinnu alla tíð. Hann stóð alltaf með sínu liði í lífinu, í einkalífi, íþróttum og líka vinnulífi. Þegar hann hafði gengið til liðs við Eignamiðlun stóð hann með sínu fyrirtæki, vinnufélögum og verkefnum. Og alla daga var hann sæll í starfi og var í besta starfi í heiminum. Hann skemmti sér og vinnufélögunum með uppátækjum, en það var svona eins og að skilla á leiðinni að markinu, sækja fram og klára sölu. Og við sem fylgdumst með Leifa við að meta, sýna eða ráðleggja við fasteignaviðskipti gátum ekki annað en dáðst að honum. Hann var sérlega farsæll í starfi, kappsamur, marksækinn, ósérhlífinn, vinnusamur, glöggur, kátur og heillyndur. Hann var ávallt ákveðinn í að Eignamiðlun ætti alltaf að vera besta fasteignasalan á Íslandi. Því varð hann þessi frábæri fasteignasali og sómi Eignamiðlunar. Og við megum gjarnan muna að Leifi var á Eignamiðlun í liðlega 35 ár. Það er afar fátítt um menn af hans kynslóð og á hans aldri að hafa verið sælir á sama vinnustaðnum í svo langan tíma. Það sýnir festu hans, heillyndi og traust.

Leifi lauk námi til löggildingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala árið 2005 og kenndi nokkur misseri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hann lauk prófi frá Matsmannaskóla Íslands og sat í stjórn Matsmannafélags Íslands frá árinu 2004.

Félagsmálamaðurinn

Leifi var sérlega hæfur í mannlegum samskiptum. Hann sótti í glaðan félagsskap og kom víða við sögu. Hann var félagi í Oddfellow-reglunni. Í Leifa bjó líka músk og í tónlistinni varð hann músíkfræðingur á áhugasviðum sínum. Leifi gat haldið lærða fyrirlestra um Peter Gabriel, Genesis, Sigurrós eða einhverja aðra músíkdýrð. Og vinur hans minnist að hann hafi ekki látið trufla sig þó gjaldmælirinn tikkaði ef hann var komin á flug við áhugasaman og Gabrielþyrstan leigubílstjóra. Leifi, sem hafði byrjað tónlistarnám, lærði á fullorðinsaldri að meta sitt eigið raddhljóðfæri og söng í Karlakór Grafarvogs frá stofnun kórsins.

Íþróttamaðurinn

Leifi hafði hreyfiþörf. Strax í bernsku sótti hann í hreyfingu og hvers konar íþróttir. Hann varð snemma stór og kröftugur og þegar hann þurfti að flýta sér með félögum sínum í Garðinu, skellti hann jafnvel einum félaganna á bakið til að sá drægi ekki úr hraða og yfirferð. Leifi stundaði alls konar íþróttir um æfina. Hann var ekkert að sýta ef engir vildu leika. Hann fór bara út á tún og þjálfaði sjálfan sig í alls konar markmannsskutlum. Leifi var m.a. markvörður meistaraflokks knattspyrnufélagsins Víðis í Garði á árunum 1977-1984 og þrátt fyrir allar annir og ómegð skellti hann sér á æfingar suður eftir. Svo var hann liðtækur körfuknattleiksmaður og keppti í meistaraflokki Íþróttafélags stúdenta í mörg ár. Og Leifi hafði gaman af því að geta státað af því að hafa keppt við Barcelona. Það eru ekki margir Íslendingar sem geta laumað slíku inn í karlaraupið. En það var reyndar í körfu en ekki á Camp Nou. Síðari árin æfði hann badminton með börnum sínum og vinum sér til heilsubótar.43

Púlarar og og YNWA

Svo er nú Liverpool sérstakur kapítuli. Og segja verður hverja sögu eins og hún er. Leifi byrjaði sinn feril með því að fylgjast með skyttunum í London, Arsenal. En svo kom hann til sjálfs sín og varð alheill púlari, stuðningsmaður Liverpool. Það er gaman að koma sjónvarpsherbergi Leifa í kjallaranum í Jakaselinu. Það er eins og helgirými, kapella. Margar gerðir af Liverpooltreflum eru þar, bolir af ýmsum árgöngum og áhugavert Liverpooldót. Hann, félagarnir og fjölskyldan fóru í ferðir á Anfield til að hvetja sína menn, hafa gaman, æpa og faðma og kannski stundum tárast svolítið. Svo var stuðningsmannahópur púlara svo elskulegur og rausnarlegur að láta klappa nafnið hans Þorleifs á stein og koma fyrir á Anfiled. Þar á hann bautastein svo lengi sem Anfield lifir. Púlararnir standa saman og ganga auðvitað líka saman. Það er áhrifaríkt og raunar stórkostlegt að hlusta á eða syngja You never walk alone. Og skammtstöfunin YNWA fer á krossinn á leiðinu hans Leifa.

73Nú fer að rofa til, Liverpool lofar góðu. Klopp er maður kraftaverkanna og trúarinnar. Grínarar annarra liða munu ekki halda lengur fram að YNWA standi fyrir setninguna: You never win away! Nú er runnin upp ný tíð. Og við sem sjáum nú á bak Leifa megum trúa að lífið sé skemmtilegt, alltaf séu nýir möguleikar, líka í handaheimi Guðs. Leifi, sem alltaf var í Liverpooltreyju – eins og þið sjáið dæmi um í sálmaskránni – er vísast kominn í glitrandi treyju og farinn að verja mark með himneskum púlurum. Lífið er ríkulegt og undursamlegt þeim sem þora að sjá meira en efnið, hafa næmni fyrir himneskum húmor og trúa gleðifréttum Guðs. Þess vegna þori ég að sjá Leifa í ljósi eilífðar, í nýrri treyju, en ég held að hann þurfi engan trefil!

Inga og hamingjan

inga-og-leifi-2Leifi var láns- og hamingjumaður í einkalífi. Inga var honum dásamlegur maki sem hann gat alltaf treyst, hafði húmor fyrir honum, studdi hann og styrkti. Hún var tilbúin að reka hið stóra heimili þeirra og Leifi kunni að meta sína frú. Það var vermandi að heyra hvernig Leifi talaði um hana Ingu sína. Í því er hann fyrirmynd börnum sínum, vinum og öllum eiginmönnum um hvernig ræktuð ást er í framkvæmd.1

Þau Inga sáu hvort annað hjá vinum og það var ekki logandi ást við fyrstu sýn, en eitthvað gerðist við aðra sýn og því betur sem þau horfðu á hvort annað þeim mun betur sáu þau manngæðin sem rímuðu svo vel hjá þeim. Og eldurinn þeirra skíðlogaði til hinstu stundar. Þau Þorleifur og Ingibjörg Sigurðardóttir gengu í hjónaband 6. ágúst 1983 og bandið þeirra trosnaði aldrei. Fyrst bjuggu þau í kjallaranum við Flókagötu, hjá foreldrum Ingu, þeim Audrey og Sigurði. Svo fóru þau um tíma inn í Hlíðar, í Eskihlíð 11.

Engjaselið

Þar á eftir tóku við hamingjuár í Engjaselinu. Þau Inga bjuggu í einstöku samfélags- og kraftaverkahúsi ef trúa má frásögum Leifa. Það var og er gaman að hitta Engjaselsfólkið á heimili Ingu og Leifa, svo djúp vinátta bast milli þessara barnafjölskyldna á spírunartíma í lífi þeirra. Konurnar urðu vinkonur og þær Engjaselssystur hittast enn. Karlarnir léku saman við börnin úti og Leifi spilaði við íbúana körfu úti á flöt. Svo áttu karlarnir sér sameiginlegt fyrirtæki. Þeir komu sér niður á stórkostlegar aðferðir við að vinna í getraunum. Þeir hittust á fimmtudögum og skemmtu sér við að fylla út seðlana. Og þegar félagarnir í Tippmilljónafélaginu höfðu unnið allt sem hægt var að vinna með góðu móti héldu þeir áfram að grínast og glensast. Og börnin urðu félagar í þessu góða og gjöfula húsi.

Börnin og afkomendur

Börn Þorleifs og Ingibjargar eru fimm.

Elstur er Sigurður James sem kom í heiminn í desember árið 1980. Kona Sigurðar er Ólöf Birna Margrétardóttir. Börn þeirra eru Ingibjörg Soffía (2009), Stefán Daði (2011) og Margrét Birta (2013).

Elín, eina dóttirin í barnahópnum, fæddist í júlí árið 1984. Hennar maður er Pétur Rúnar Sverrisson. Þau eiga Ásdísi Ösp (2007) og Alexöndru Fjólu (2010).

Kári er tvíburabróðir Elínar. Bjarki er vormaðurinn í hópnum. Hann kom í heiminn í mars 1993. Og Bjartur rekur lestina. Hann er vetrarmaður eins og Sigurður og fæddist á nýju ári, í janúar, árið 1995.82

Þegar þessi stóri barnahópur Ingu og Leifa hafði sprengt af sér íbúðina í Engjaselinu festu þau kaup á Jakaseli 29 og fullgerðu. Þar varð mikil og góð mannlífshöll og miðstöð stórfjölskyldunnar. Þangað koma börnin frá útlöndum eða til fjölskyldufunda. Og þar ríkir andi Leifa og Ingu.63

Minningarnar um Leifa

Hvernig manstu svo Leifa? Manstu hve kátur hann var? Alltaf var stutt í sprellið. Í honum bjó elskulegur og áreitnislaus húmor. Hve mörg ykkar urðu fyrir glensi frá honum? Ég þori eiginlega ekki að biðja ykkur að rétta upp hendur – en margar gætu farið á loft!

Munið þið hve umtalsfrómur og tillitssamur Leifi var ávallt? Hann lagði gott til allra og hafð lag á að lægja öldur. Af því að hann var svo hlýr og góður fyrirgafst honum góðlátlegt símaat. Smáleikrit eða gleðisveifla varð til að efla vinnustaðamóralinn og hleypa kæti í vinahópinn og fjölskyldulífið.

Leifi efldi fólk. Hann hafði gott lag á börnum og hafði áhuga á fólki á öllum aldri. Mannvirðingin skilaði honum einstökum árangri í störfum í flókinni og krefjandi vinnu við fasteignakaup, þar sem höndlað er með æfitekjur fólks, lán þeirra eða ólán. Mannvirðing Leifa var ómetanlegur grunnur í starfi hans. Hann var alltaf ábyrgur, gerði eins vel og hann gat og vildi tryggja að fólk nyti réttra upplýsinga og kjara og gæti tekið upplýstar ákvarðnir í stóru málum lífsins.

Manstu eftir útvistarmanninum Leifa eða sumarbústaðakarlinum? Manstu eftir hve góður kennari hann var? Sérðu fyrir þér brosglottið hans Leifa? Manstu hve fljótur hann var að ljúka því sem hann vann við? Manstu hve gaman Leifi hafði af að taka hluti sundur, en kannski síður að setja saman þegar hann var búinn að skilja snilld gangverksins. Manstu eftir Leifa í miðahallæri í Liverpool? Manstu hve hugaður hann var? Manstu að Leifi sagði óhikað að hann hafði bestu vinnu í heimi? Manstu æðruleysi hans í lífinu og hvernig hann lengdi í lífi sínu með lífsafstöðu sinni? Manstu eftir hve snöggur Leifi var þegar fólk notaði málið markalaust? Að þau, sem sögðu að eitthvað væri ógeðslega gott, fengu strax spurningu hvort það væri virkilega svona vont! Manstu eftir Leifa á tónleikum og hve glaður hann gat orðið að fá óvænt miða á Peter Gabriel? Manstu hvað hann gat verið ráðagóður og ráðhollur? Jafnvel níu ára guttinn sagði örvæntingarfullri systur sem hafði lent í vondum málum: „Það er alltaf best að segja satt.“ Og það iðkaði hann síðan sjálfur.

Garðsmaraþonið og Guðsengið

Og nú er hann farinn. Þegar Leifi var strákur í Garðinum var hann fullur af hugmyndum um möguleika lífsins og hvað hann gæti gert og afrekað. Hann heillaðist af afreksmönnum, t.d. mönnum sem gátu hlaupið maraþon. Og Leifi gat allt sem hann ætlaði sér – næstum allt. Pabbi hans hafði slegið túnið og var búinn að raka í garða. Leifi, sem átti hjól með hraða- og lengdarmæli hljólaði ysta hringinn á túninu og mældi nákvæmlega vegalengdina. Svo reiknaði hann hvað þyrfti að hlaupa marga hringi kringum túnið til að ná að hlaupa alla 42195 maraþonmetrana. Og af því að Leifi var leiðtogi barnanna í Garðinum fór hópur af krökkum með honum til að hlaupa Garðsmaraþonið mikla og í boði Leifa. Svo hljóp hópurinn af stað en þeir taka í kílómetrarnir þegar búið er að hlaupa einn eða tvo klukkutíma. Svo var aðeins einn eftir – Leifi langhlaupari. Systur hans báru í hann vatn og næringu og áfram hélt hann. Hann hætti ekki fyrr en hann hafði hlaupið rúmlega 42 kólómetrana. Þannig var Leifi. Hann hljóp til enda. Og nú er þessi mikli maraþonmaður gæðanna hlaupinn inn í eilífðina. Alltof snemma, alltof hratt og við sjáum á eftir honum inn á Anfield eilífðar. Það er sóun að Leifi skuli vera farinn, mikið harmsefni öllum sem honum tengdust.

Inga hans, börnin, systkinin, barnabörnin og allir vinirnir eiga ekki lengur í honum styrk, gleði og stuðning. En trúmönnum er gott að vita hann er á góðum leik, á góðum velli og í góðum hóp. Leifi skilur eftir sig stórkostlegar minningar – hversu ljúf-sárar sem þær eru við skilin. Og hann verður þar ekki einn – hann gengur ekki einn – því Guð gengur með okkur. Og því getum við sagt og sungið að við munum aldrei ganga ein.

Guð geymi Leifa og varðveiti þig og hjálpi þér til að njóta hvers dags, því allt er að láni úr eilífiðinni. Amen

Óli Rúnar Ástþórsson getur ekki verið við þessa útför og biður fyrir kveðjur sínar. Sömuleiðis hefur mér verið falið að bera ykkur kveðju frá Sossu og Margréti Sif í Gautaborg.

Bálför. Jarðsett í Sóllandi. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.

+ Arthur Morthens +

HArthurver var eftirminnilegasta minningin um Arthur? Eitt svarið er: „Það var þegar hann kom í Kjósina frá Danmörku.“ Arthur var tvisvar á bernskuárum sendur til Danmerkur til lækninga. Þegar hann var tíu ára var hann ytra í marga mánuði. Hvorugt foreldranna gat verið hjá honum, en hann hafði stuðning af vænu dönsku hjúkrunarfólki og ættingjum í Höfn, sem töldu kjark í litla manninn. Allt varð Arthuri til náms og þroska. Ríkisspítalinn var honum ekki aðeins hjartalækningarstöð heldur fékk hann þar „krasskúrs“ í dönsku og varð að bjarga sér – engir túlkar voru á vakt. Loks var ferðalangsins að vænta heim eftir vel heppnaða dvöl. Foreldrarnir og strákarnir biðu í ofvæni eftir komu hans með betrumbætt hjarta. Hann átti að koma með áætlunarbílnum í Kjósina. Einn bræðranna hlakkaði svo til endurfundanna að hann hljóp á móti rútunni, sem stoppaði og sá stutti fékk að fara inn. Og hann sá Arthur eins og í upphöfnum ljóma – nálgaðist hann og fagnaði. En viti menn, Arthur var orðinn svo umbreyttur að hann talaði bara dönsku við bróður sinn. Reynslan var svo yfirþyrmandi að þetta var minningin sem hentist upp í vitundina þegar ég spurði um hvað væri eftirminnilegasta upplifunin um Arthur bróður. Það var þegar Arthur kom í Kjósina. Þetta er eiginlega himinmynd, Arthur farinn og kominn, umbreyttur, íslenskan farin en danskan komin, einhvers konar himneska sem hann talaði.

Í klassískum heimi var talað um hið mennska þroskaferli – exitus og reditus. Að fara – til að koma til baka með hið nýja, stóra og viskuna. Og nú er Arthur farinn, en kominn aftur með einhvers konar himnesku til okkar. Farinn inn í eilífðina – eins og af glettinni stríðni – undir dönskum himni en kominn með nýja skynjun til eflingar lífs okkar sem störum á bak honum. Til hvers lifir þú og hvernig?

Ævistiklur

Og þá er gott að rifja upp. Hvernig manstu Arthur? Hvað var hann, hvernig og af hverju? Hann var reykvískur – en líka danskur. Hann stundaði einnig nám í Noregi, var heimsborgari og fulltrúi mennskunnar í heiminum. Hann var nálægur en líka óræður, með sterkar festur en líka hreyfanlegur. Saga hans var margbrotin og í veru hans voru margir strengir ofnir.

Arthur fæddist í Reykjavík 27. janúar 1948 en lést í Fåborg í Danmörku 27. júlí síðastliðinn. Móðir hans hét Grethe Skotte. Hún hafði yfirgefið stríðshrjáða Danmörku strax eftir að hernáminu lauk – ung kona sem heillaðist af því Íslandi sem Gunnar Gunnarsson hafði með bókum sínum kynnt á meginlandi Evrópu. Hún yfirgaf Láland, Kaupmannahöfn og stríðsgrafirnar og lagði upp í lífsferð sína og leit aldrei til baka. Hún blikkaði Guðbrand Kristinn Morthens í Alþýðuhúskjallaranum og þau urðu ástríðupar og lifðu stormasömu en ávaxtaríku lífi. Kristinn var ellefu árum eldri en kona hans og lifði meira en tveimur áratugum lengur en hún. Hún var dönsk, hann var hálfnorskur. Í sögu þeirra og sögu drengjanna speglast  eftirstríðsárasaga Íslands. Í upphafi voru þau á húsnæðisflakki en risíbúð á Barónsstíg varð upphafsreitur Arthurs. Þar var fjölskyldan þröngbýl þéttbýlisfjölskylda og stutt á milli fjölskyldumeðlimanna. Svo lá leiðin upp í Gnoðarvog, mikla mannlífshöll sem varð heimili Arthurs á unglingsárum.

Arthur var elstur í albræðrahópnum en Kristinn átti þrjú börn fyrir. Hjördís Emma fæddist árið 1936, Ágúst Rósmann kom í heiminn árið 1942 og Ævar síðan 1946. Sveinn Allan fæddist tveimur og hálfu ári á eftir Arthuri, árið 1951. Tolli kom í heiminn 1953 og Bubbi fæddist árið 1956. Bergþór rak svo á happafjörur fjölskyldunnar 1961 en hann fæddist árið 1959. Hann var bróðursonur Kristins og þau Grethe tóku honum opnum örmum þegar hann þarfnaðist fjöskyldu.

Íslandseign

Strákahópurinn varð í fyllingu tímans eign Íslendinga, almenningseign – svo dugmiklir, gjöfulir, lit- og tónríkir hafa þeir verið. Við höfum fylgst með þeim, heyrt sögur þeirra, söngva og mál, hrifist af þeim, hræðst angist þeirra, grátið með þeim og dáðst að krafti þeirra. Af hverju urðu þeir svona máttugir? Þeir bjuggu við kröpp kjör og stundum ófrið. Hrammur áfengis varð löngum lamandi. Pabbinn var oft fjarverandi. Mamman mátti hafa sig alla við, seldi Lálandsdjásnin og sneri saumavélinni hratt til að fæða og klæða hópinn. Og af því þeir voru algerlega utan við ætta- og klíkusamfélag Íslands gengu þeir ekki að neinu gefnu, áttu engar silfur- eða gullskeiðar í munni og fengu ekkert ókeypis. En það var ekkert verra að vita að ættmenni þeirra erlendis voru ekki lyddur. Og Arthur og Morthens-strákarnir urðu stólpar í þjóðlífi Íslendinga. Þjóðareign er margvísleg.

Þú ert stór maður

Arthur var fyrirburi og heilsuveill alla tíð. Hann varð sjálfur að ákveða sig til lífs og beita sig n.k. Munchausentrixum, stundum að draga sig upp á hárinu. Mamman sagði við son sinn, fíngerðan, nettan og lágvaxinn: „Þú ert stór maður. Þú ert ekki lítill maður – þú ert stór maður.“ Það var brýningin, veganestið allt frá bernsku. Þessi smái maður borinn til stórvirkja. Og til loka lífs lifði hann þannig. Engir erfiðleikar voru of miklir að ekki mætti sigrast á þeim. Kröpp kjör eða fötlun neitaði hann ekki leyfa að hamla. Arthur neitaði að óréttlæti sigraði réttlæti, mennskan skyldi ekki lúta fyrir ómennskunni og ómenningunni. Erfiðleikar urðu honum tækifæri fremur en óyfirstíganleg hindrun og reglan var einföld að ef sverðið væri stutt skyldi ganga skrefinu lengra.

Arthur gerði ýmsar tilraunir í námi og lífi. Sumt var óvænt. Hann þótti ekki líklegur til hamars og nagla en svo skráði hann sig í smíðanám hér næsta húsi á Skólavörðuholtinu og þrælaðist m.a. í bryggjusmíði við Snæfjallaströnd – og kvartaði aldrei.

Fólkið hans studdi Arthur með magvíslegu móti. Bræður hans, Allan og Tolli, gáfu honum nýru sem björguðu honum og bættu lífskjörin. Þökk sé þeim.

Ég veit að Steinunn tryggði að Arthur nyti alls þess sem heilsa hans leyfði. Þökk sé henni. Og vert er að nefna „strákana“ – hóp kærleikskarla – sem sóttu Arthur í hádegismat og óku honum heim í hverri viku – og jafnvel oft í viku. Í þeim öfluga og glaðsinna hópi, sem var einn af þeim kátustu í bænum, naut Arthur sín. Þökk sé ykkur vinum Arthurs.

Sá elsti og fyrirmyndin

Sem elsti sonurinn í stórum strákahópi – og stundum pabbalausum – var hann oft í hlutverki fræðarans. Hann miðlaði músík, hafði áhrif á hvernig fyrstu gítargripin hans Bubba urðu, túlkaði átök, gæði, og skyldur fyrir strákunum, varð fyrirmynd á flestum sviðum, aðstoðarmaður mömmunnar, fulltrúi menningardeiglunnar, hippinn, pólitíkus og stríðsmaður réttlætisins. Hann gerði sér grein fyrir að hann ætlaði ekki að saga allt lífið eða moka á Miklubrautinni og kveikti á andans perum sínum í Kennaraskólanum. Þar kom hann til sjálfs sín og naut hæfileika sinna og náms. Lífið var litríkt innan sem utan skóla. Hann kynntist ástinni, lífsbaráttu og eignaðist félaga. Einn Þorláksmessudag kom hann heim alblóðugur og hafði lent í götubardaga þegar hann mótmælti framgöngu Kanans í Víetnam. Mamman bað hann blessaðan að vera heima, en hann rauk upp og niður í bæ aftur þegar tekist hafði að hreinsa sár og binda um. Byltingin og baráttan yrði ekki að honum fjarverandi. Litli maðurinn var stór og hikaði ekki að hjóla í risana í veröldinni.

Grethe fór til Danmerkur til náms og unglingurin Arthur var allt í einu alábyrgur fyrir eldri bræðrunum. Saman urðu þeir að afla fjár til matar og lífs. Það var ekkert mulið undir þá.

Arthur útskrifaðist frá Kennaraskólanum árið 1973. Hann langaði að fara í Háskólann en svo var hnippt í hann og hann var beðinn að kenna í Keflavík. Þar starfaði hann sem kennari til 1978. Hann bryddaði upp á nýungum, hikaði ekki við kennslufræðilegar tilraunir og sló í gegn. Ýmsir undruðust hvað hann væri að fletja sig út fyrir krakkana í Keflavík. Arthur var spurður af hverju hann væri að hafa fyrir þessu pakki! En hann raðaði ekki fólki í undir- og yfirflokka. Fólkið sem hann þjónaði var einfaldlega alls konar en þó jafngilt – og þyrfti alls konar aðstoð og líka fjölbreytilegar aðstæður. Hann stóð með mennskunni og vissi að hann gæti stutt þau sem voru smá en þó stór. Það er mikill Jesús í sögunum um Arthur frá þessum tíma. Svo sneri hann til baka í bæinn. Arthur fékk kennarastöðu í Árbæjarskóla og naut sín í kraftmiklum og samheldnum kennarahópi. Í Árbænum starfaði hann frá 1978 til 84.

Með kennslustörfum í áratug aflaði Arthur sér dýrmætrar reynslu og náði yfirsýn sem hann vann úr allar götur síðan. Hann gekkst við köllun sinni og hélt til náms í Osló í sérkennslufræðum. Arthur lauk sérkennaraprófi frá Statens Spesiallærerhøgskole í Ósló árið 1985 og kandídatsprófi frá sama skóla árið 1987. Með þroska og menntun var hann síðan ráðinn til skrifstofu fræðslumála í Reykjavík. Hann var sérkennslufulltrúi á árunum 1988 til 1991 og síðan forstöðumaður kennsludeildar til 1996. Þá voru málefni grunnskólans flutt til sveitarfélaganna og Arthur var ráðinn forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Því starfi gegndi hann næstu tíu árin og var síðan ráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar frá 2006 til 2012. Þau sem nutu þjónustu Arthurs muna og þakka lipurð, natni, áhuga og skapandi velvilja hans í störfum.

Vert er og að minna á og þakka fyrir félagsstörf Arthurs. Hann var einn af stofnendum Barnaheilla 1989 og var við stjórnvöl samtakanna árum saman. Hann hafði alla tíð sterkar skoðanir varðandi stjórnmál og þróun íslensks samfélags. Hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir stétt sína í Kennarafélaginu, var virkur í Alþýðubandalaginu, varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann og um tíma formaður stjórnar Strætisvagna Reykjavíkur.

Hjúskapur

Fyrri kona Arthurs var Sigríður Elín Ólafsdóttir, kennari. Þau kynntust í Kennaraskólnum, hófu hjúskap saman í Keflavík og gengu í gegnum súrt og sætt, í námi, störfum og lífi í meira en tvo áratugi. Þau skildu. Sigríður býr í Svíþjóð. Hún kvaddi Arthur í Danmörk í útförinni í Svendborg og biður fyrir kveðju til þessa safnaðar. Sonur þeirra Sigríðar og Arthurs er Ólafur Arnar. Hann starfar sem tölvunarfræðingur. Kona Ólafs er Halldóra Sigtryggsdóttir, leikskólakennari. Þau eiga þrjú börn: Petru Ósk, Harald Inga og Örnu Sigríði.

Eftirlifandi eiginkona Arthurs er Steinunn Stefánsdóttir, blaðamaður. Þau hófu sambúð árið 1997 og Arthur varð þremur dætrum hennar natinn stjúpi. Dæturnar eru Helga, Anna og Halla Tryggvadætur. Dætur Helgu og Jóns Þórs Péturssonar eru Rán og Saga. Synir Önnu eru Arnlaugur og Hallgrímur Guðmundarsynir. Halla á soninn Johann með sambýlismanni sínum, Frederik Anthonisen. Jón Þór, Pétur tengdafaðir Helgu, sem og Fredrik geta ekki verið við þessa athöfn. Þeir eru gæta smáfólksins erlendis en bera ykkur kveðjur sínar.

Arthur hafði alla tíð áhuga fólki. Hann fylgdist vel með ástvinum sínum, fagnaði með þeim, sótti skólaviðburði þeirra, vakti yfir lífi þeirra og framvindu fjölskyldunnar, lék við ungviðið, ræddi mál sem brunnu á þeim, datt í alls konar hlutverk skv. þörfum þeirra, hikaði ekki við leik og að spinna furðusögur, breytti jafnvel rúmi sínu í leiksvið ef kátínusækið barn hafði löngun til. Hann settist á gólf ef lítinn kút vantaði leikfélaga. Jafnvel máttfarinn afi hikaði ekki þegar líf smáfólksins krafði.

Ástvinirnir hafa misst mikið. Guð geymi þau í sorg þeirra og eftirsjá og styrki þau til að leyfa stórvirkjum Arthurs að lifa, til að lífið verði ríkulegt og stórt.

Mörgum hefur Arthur kynnst um æfina og mörg kveðja. Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá Hildi Ellertsdóttur í Svíþjóð.

Eilífðin

Nú Arthur er farinn inní eilífðina. Hann skilur eftir miklar sögur. Hann fór einn í skipi frá Íslandi til Danmerkur þegar hann var á fimmta ári. Hvernig var slík ferð tilfinningaríku barni? Stór, lítill maður. Fram fram um víða veröld. Hann ólst upp í þeytivindu Reykjavíkur og fjölskyldu Kristins og Grethe. Verkefnin voru mörg, að brotna ekki, halda stefnu, glíma við Bakkus, þora að setja tappann í. Þora að halda í festurnar, gildin, standa með því rétta til að sveigja kerfi í þágu fólks og gefa öllum möguleika. Aldrei á niðurleið. Arthur var alltaf á uppleið. Æfingar, heyrn, sjón, gleði – alltaf í plús jafnvel þótt fokið væri í flest skjól. Borinn til stórvirkja eins og allt hans fólk. Og við segjum takk. Takk Arthur fyrir að vera svona stór, glaður, kíminn, hugmyndaríkur, elskulegur og áhugasamur.

Hann er horfinn inní eilífðina. Já, kynslóðirnar koma og fara líka – við erum öll pílagrímar. Hvernig ætlar þú að verja lífinu? Hvað var það sem Arthur kenndi þér? Þitt hlutverk er að lifa vel – og lifa með öðrum og í þágu annarra – iðka hið góða líf. Það er gleðihljómur í grunni tilverunnar – sagan er saga til friðar. Boðskapur óspilltrar kristni er að við erum öll börn friðar og til þroska. Stór.

Guð geymi Arthur og Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð í Hallgrímskirkju 18. ágúst, 2016. Bálför. Duftker jarðsett í Sóllandi, Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.

Arthur Morthens fæddist í Reykjavík 27. janúar 1948. Hann lést í Faaborg í Danmörku 27. júlí 2016. Foreldrar Arthurs voru þau Grethe Skotte Morthens, f. 18.3. 1928 á Lálandi í Danmörku, d. 30.1. 1982 og Guðbrandur Kristinn Morthens, f. 18.10. 1917 í Reykjavík, d. 4. desember 2002. Systkini Arthurs eru Hjördís Emma Morthens, f. 26.10. 1936, Ágúst Rósmann Morthens, f. 7.1. 1942, Ævar Guðbrandsson, f. 28.9. 1946, Sveinn Allan Morthens, f. 10.6. 1951, Tolli Morthens, f. 3.10. 1953, Bubbi Morthens, f. 6.6. 1956 og Bergþór Morthens, f. 24.8. 1959.

Fyrri kona Arthurs var Sigríður Elín Ólafsdóttir kennari, f. 20.11. 1952. Sonur þeirra er Ólafur Arnar tölvunarfræðingur, f. 26.2. 1974. Kona hans er Halldóra Sigtryggsdóttir leikskólakennari, f. 28. 8. 1975. Þeirra börn eru Petra Ósk, f. 27.1. 1999, Haraldur Ingi, f. 4.6. 2003 og Arna Sigríður, f. 20.1 2006.

Eftirlifandi eiginkona Arthurs er Steinunn Stefánsdóttir blaðamaður, f. 26.5. 1961. Hennar dætur og fósturdætur Arthurs eru Helga Tryggvadóttir læknir, f. 21.7. 1982, gift Jóni Þór Péturssyni þjóðfræðingi, f. 27.11. 1979. Þeirra dætur eru Rán og Saga, f. 9.8. 2015. Anna Tryggvadóttir lögfræðingur, f. 24.11. 1984. Synir hennar og Guðmundar Arnlaugssonar eru Arnlaugur, f. 17.1. 2009 og Hallgrímur, f. 25.4. 2012. Halla Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 6.2. 1988, í sambúð með Frederik Anthonisen sjúkraflutningamanni, f. 28.12. 1986. Sonur þeirra er Johann, f. 6.10. 2015.

Arthur ólst upp í Reykjavík, fyrst á Barónsstíg og svo í Vogahverfinu. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973, sérkennaraprófi frá Statens Spesiallærerhøgskole í Ósló 1985 og Cand. Paed. Spes. frá sama skóla 1987.

Arthur kenndi við Barnaskóla Keflavíkur 1973 til 1978 og Árbæjarskóla 1978 til 1984. Hann var sérkennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur 1988 til 1991 og forstöðumaður kennsludeildar frá 1991 til 1996. Þegar málefni grunnskólans fluttust til sveitarfélaga árið 1996 varð Arthur forstöðumaður þjónustusviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Því starfi gegndi hann í tíu ár. Síðustu starfsárin var hann ráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar eða frá 2006 til 2012.

Arthur var einn af stofnendum Barnaheilla 1989, varaformaður samtakanna 1989 til 1991 og formaður frá 1991 til XXXX. Arthur var varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann og formaður stjórnar SVR frá 1994 til 1996. Þá gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir Kennarasamband Íslands og Alþýðubandalagið.

Bálför Arthurs fór fram í Svendborg í Danmörku 2. ágúst og útför hans var gerð frá Hallgrímskirkju 18. ágúst, 2016.