Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Í kossi, hrósi, beinum, skírn og tölvu

IMG_8904Hvað er heilagur andi, hvar og til hvers? Er sá andi eitthvað sem er bara til í áhrifaríkum kirkjum í Barcelona, Róm eða París. Og eru íslenskar sveitakirkjur sérstakir uppáhaldsstaðir Guðs?

Öll bernskuár mín var ég í sveit í Svarfaðardal. Sauðfé var rekið á fjall og sótti upp í hlíðar. Á þeim tíma var til siðs að smala fé í júlíbyrjun og rýja. Ég fór í slíka smalamennsku í mörg ár. Fjallgeimurinn var ofast undursamlegur. Mér er minnisstætt eitt sumarið að ég hljóp í þúsund metra hæð milli snjóskafla. Milli morkinna fanna var jörðin svört, vatnssósa og sterklyktandi. Engin gróður var sjáanlegur – allt virtist dautt.

En skyndilega sá ég líf. Agnarlítið háfjallablóm breiddi út blöð sín og sperrti skærrauða krónu mót himni og sól. Þetta smáa blómundur virtist svo umkomulaust en jafnframt grípandi fagurt í þessum blauta, svarta og hvíta risaramma. Eina lífsmarkið í tröllageimi, titrandi í næðingnum, speglaði og braut sólargeislana þúsundfalt í daggardropum krónunnar. Ég man að ég gat ekki annað kropið og lotið þessu lífsmarki og skildi, að það var helgidómur, eilífðarblómstur. Síðan hef ég skilið hvað sr. Matthías átti við með eilífðarsmáblómi þjóðsöngsins.

Allt er gleymt frá þessum degi, öll hlaup á eftir erfiðum rollum, áreynsla, skriður, klettar og klunguhlaup. Aðeins rjóð jurtin lifir í minninu. Hvað þýðir svona upplifun? Er þetta reynsla af heilögum anda? Já.

Hefur þú gengið einhvern tíma á hátt fjall? Reynt á þig, runnið til baka í brattanum, hræðst, haft mikið fyrir, en að lokum komist á toppinn, fengið útsýn til annarra fjalla í öðrum sýslum og jafnvel séð jökla í öðrum landshlutum? Það getur verið áhrifaríkt að lifa slíkt. Vissulega hjálpar efnabúskapur líkamans, endorfínið. En er slík reynsla af heilögum anda? Já.

Við Íslendingar vitum vel – vegna nándar við náttúruna og ferða okkar í rosalegu landi – að náttúran er ekki líflaus heldur ríkulegur veruleiki, sem hefur margvísleg áhrif á okkur. Náttúrusýn margra landa okkar er trúarlega lituð. Trúmaðurinn getur túlkað djúpa náttúrureynslu sem andlega og trúarlega merkingarbæra lifun. Náttúran er okkur mörgum sem helgidómur.

Andinn í listinni

Hefur þú staðið frammi fyrir stóru og miklu listaverki, heima eða erlendis, hrifist af formum eða litum, myndbyggingu, hugviti eða styrk einfaldleikans? Hefur þú starað á skúlptúr eða málverk í erlendri kirkju, sem hefur varpað þér í hæstu hæðir og veitt þér skynjun sem tekur flestu öðru fram? Hefur þú staðið frammi fyrir altaristöflunni í Skálholti, numið friðinn og blíðuna, þegar Jesús kemur inn úr bláma íslenskrar náttúru, með fangið opið? Er hægt að rekja reynsluna til heilags anda? Já.

Hefur þú einhvern tíma haldið á barni og fundið til svo ólýsanlegrar gleði, að allt annað hefur horfið í hrifningu stundarinnar? Hefur þú horft í djúp barnsaugna og fundið traustið og numið mikilvægi þitt? Hefur þú einhvern tíma haldið utan um maka eða ástvin og upplifað í þeim fangbrögðum svo djúpa fullnægju, að önnur gæði veraldar hafa bliknað í samanburðinum. Er slík ástarlifun af ætt heilags anda? Já

Hefur þú einhver tíma lent í siðklemmu, ekki vitað hvaða kostur væri hinn rétti, en síðan hefur ljósið runnið upp, rök og siðvit læðst í hugann? Er slíkt verk heilags anda? Já.

Andlegt smælki eða alls staðar?

Eru engin takmörk fyrir þessum Heilaga anda? Nei. Andinn er sá Guðsmáttur, sem gefur öllu líf, heldur grjóti, eðlislögmálum og þar með sólkerfum í skorðum, hindrar að efni þeirra hrynji saman í svarthol dauðans. Andinn er að starfi þegar fullorðinn segir barni sögur um lífið, ævintýri og undirbýr viskuna í brjósti uppvaxandi kynslóðar. Andinn er í kossi elskenda, hrósi vinar, í verki lækna og hjúkrunarfólks, í beinum sem gróa eftir brot, í starfi forritarans og rafvirkjans, í skírn og altarisgöngu, í jafnvægi krafta náttúrunnar, í tónlistargerningi kórsins, í uppgufun vatns og skýjamyndun og regni. Allt eru þetta verk anda Guðs.

Andinn kallar manninn til trúar, viðheldur samfélagi manna og eflir kirkjuna. Andinn upplýsir okkur, blæs okkur samvisku í brjóst, er rödd skynseminnar, helgar og leiðir, fullkomnar og styrkir. Andi Guðs er alls staðar að verki og kannski hvað augljósast þar sem barist er fyrir framgangi hins góða lífs og lífsgæði varin.

Guð kristninnar verður ekki afstúkaður í veröldinni í einhverjum kirkjukima. Sá Guð, sem ég þekki er alls staðar, sínálægur og sískapandi. Mína guðsafstöðu má m.a. útskýra með því sem hefur a gömlu fræðimáli verið kallað pan-en-teismi. Heitið, orðið, er af grískum uppruna og merkir einfaldlega, að Guð er alls staðar, í öllu og gegnsýrir allt. Því má alls ekki rugla saman við panteisma, sem kemur m.a. fram í indverskum átrúnaði og kennir að allt sé guðlegt. Að Guð sé í öllu og alls staðar merkir ekki að allt sé guðlegt. Við erum ekki guðir, þó Guð búi í okkur. Veröldin er ekki Guð og þar með ekki andlag tilbeiðslu þótt andi Guðs hríslist um hana og geri hana að farvegi andans.

Hvítasunna – 50hátíð

Nafnið hvítasunna er fallegt og tjáir hinn bjarta sólardag kristninnar. Á mörgum vestrænum tungumálum ber dagurinn nafn, sem komið er af gríska orðinu pentecoste og það merkir fimmtugasti og þá er miðað við fimmtíu daga eftir páska. Hátíðin er tengd páskum vegna þess, að hún er framhald, bætir við eða dýpkar þann veruleika, sem páskar tjá. Hvítasunnan er tengd jólum líka. Ef ekki væri Heilagur andi væri Jesús Kristur merkingarlaus og lífið tilgangslaust.

Vissulega hafa margir heldur óljósa mynd af hinum guðlega anda og til eru kristnir trúarhópar, sem hafa reynt að slá eign á þennan anda Guðs, en smætta þar með veru hans og virkni niður í sértækt starf tungutals, lækningar líkamans eða spádómssýn inn í framtíð. En Andi Guðs er meira en sértæk eign eða tæki safnaðar. Allt er eign Guðs en ekki öfugt.

Hvað er andinn? Andinn skapar veruleikann, náttúruna, er að verki í öllu því sem er til lífs. Andi Guðs er líka skapari trúarinnar. Það er Guðsandinn, sem hvíslar að þér þegar þú leitar Guðs, kennir þér að sjá Guðssoninn, kennir þér að sjá lífið nýjum augum, heyra músík veraldar sem himneska tónlist, kennir þér tala við Guð og að lokum kennir þér að skynja í öllu Guðsnávist, jafnvel í sorg, hörmung og dauða. Með slíka reynslu og afstöðu verður þú aldrei aftur ein eða einn. Alltaf verður nálægur þér sá andi, sá veruleiki, sem gefur öllu líf og er líka sjálft lífið í þér.

Alls staðar

Erlendur prédikari, sem heimsótti Ísland, fullyrti að Heilagur andi hafi ekki komið til Íslands fyrr en á tuttugustu öld! Hann átti auðvitað við, að Heilagur Andi hafi ekki átt erindi til landsins fyrr en söfnuður hans var stofnaður. Ég held hins vegar að Heilagur andi hafi verið hér áður en fyrsta Íslandshraunið sauð í sjónum, verið í flekahreyfingum, verið nærri í goti þorska og fjölgun krossfiska, verið nærri í sprengingum neðansjávargosa. Síðan hefur Andinn verið að verki og er enn að.

Ekkert er til án Guðsanda. En það er hins vegar hægt að sniðganga eða skeyta ekki um Andann, ef menn vilja ekki þiggja nema bara hluta virkninnar! Við getum valið að taka bara við nokkrum gjöfum, sem okkur berast en hirða ekki um aðrar og alls ekki um sendandann. Við getum valið að vera and-snauð. En á hvítasunnu ertu kallaður eða kölluð til dýpri skilnings og trúarskynjunar.

Ef þú ert í bústaðnum þínum, á ferð um landið, ferð í gönguferð eða faðmar fólkið þitt máttu vita að í lífi þínu er Guð nærri og andinn hríslast í öllu sem verður þér til lífs. Blómið á háfjallinu er sköpun Guðs og verk Andans. Elskendur eru sköpun Guðs og elska þeirra er verk Andans. Maðurinn er sköpun Guðs og trúin verður til við, að Guð elskaði, kom og kemur, umfaðmar sköpun sína með krossi sínum, hrífur allt líf með sér með lífgun sinni og úthellir endurnýjunaranda sínum yfir allt sem er til. Guð er alls staðar og í öllu. Við megum lifa í þeim Guðsanda, trúa lífinu og sjá þar með eilífð í öllu.

Amen.

Hallgrímskirkja, hvítasunnudag 2016. Útvarpsmessa RUV

Allir fingur upp til Guðs

fingur til GuðsÉg var með fjölskyldu minni í Kaupmannahöfn fyrir liðlega viku og við flugum heim í vikulok. Flugliðarnir í flugvélinni undruðust og höfðu orð á að vélin fylltist af Dönum á leið til Íslands. En skýringin er að fjórði föstudagur eftir páska er den store bededag og almennur frídagur í Danmörk. Margir Danir notuðu bænadaginn til Íslandsferðar. Bænadagur fyrir liðlega viku í Danmörk en svo er bænadagur á Íslandi í dag.

Og bænadagurinn á sér samiginlega sögu í Danmörk og á Íslandi því Kristján 5. fyrirskipaði á seinni hluta 17. aldar að almennur bænadagur skyldi vera á fjórða föstudegi eftir páska. Dagurinn var kallaður kóngsbænadagur af því það var kóngur en ekki kirkja sem ákvað bænaiðjuna. En margir héldu, að á þessum degi ætti að biðja sérstaklega fyrir kónginum en svo var ekki. Beðið var fyrir kóngi ekki bara einu sinni á ári heldur á öllum helgum dögum meðan Ísland var hluti Danaveldis, rétt eins og beðið hefur verið fyrir stjórnvöldum á lýðveldistímanum.

Og þótt Íslendingar segðu skilið við Dani héldu menn áfram að biðja og frá og með 1951 var haldinn bænadagur í kirkjum landsins – ekki á föstudegi heldur – á fimmta sunnudegi eftir páska. Og þessi sunnudagur er því bænadagur eins og verið hefur í sextíu og fimm ár í okkar kirkju. „Biðjið“ sagði Jesús. Já við ættum að biðja, biðja mikið.

Fingurnir

Bæn er ekki bara verk andans, n.k. andverk heldur jafnvel handverk líka. Í dag langar mig að spá í handverk bænarinnar og að bæn er handtak manns og Guðs. Fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill ræða við þig og heyra hvað þú hefur að segja en líka finna til veru þinnar. Og margt er hægt að nota til að styrkja bæn, jafnvel alla puttana. Það langar mig til að ræða um í dag.

Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar. Give me five!

Þegar við biðjum spennum við gjarnan greipar eða leggjum saman hendur. Hendur skipta miklu máli í lífinu – bænalífinu líka. Horfðu á hönd þína. Þú þekkir handarbakið sem blasir við þér, þekkir hvernig æðarnar hríslast. Svo er lófinn. Kannski hefur einhver spáð í líflínu og myndagátu lófans? Þegar ég kveð fólk við kirkjudyr finn ég vel hve ólíkar hendurnar eru og að þær tjá mjög mismunandi sögur og jafnvel atvinnu fólks.

Við tökum í hendur annarra, við heilsum og kveðjum gjarnan með handtaki. Við notum orðið handaband – það segir okkur að samskipti komast á, band verður milli þeirra sem takast í hendur. Handaband hefur á stundum verið ígildi undirskriftar. Handsal var gilding og við hjónavígslu er handsalið mikilvægt í stofnun hjúskaparins. Svo sláum við saman höndum í gleði. “Give me five” – og það eru allir puttarnir – gefðu mér alla hönd þína og gleðjumst saman.

Þegar við leggjum saman hendur verður það gjarnan til að kyrra huga. Og við getum líka notað hendurnar til stuðnings bænaiðju rétt eins og margir nota bænaband til að fara yfir ákveðnar bænir. Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar.

Þumall og styrkur

Þumalfingur eða þumalputti er jafnan sterkasti puttinn á fólki. Þegar við smellum þumlinum upp er það ekki aðeins merki um hrós heldur getum við þar með minnt okkur á ákveðið bænaefni. Hvað vegur þyngst, hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er ekki ástæða til að þakka Guði fyrir það? Hugsaðu nú um það hvað er mikilvægast. Er það ekki fólkið þitt, foreldrar, maki, börn, aðrir ástvinir og vinir? Er það heimili þitt og velgerðarmenn, sjúkrastofnun  – nú eða kirkjan þín? Er ekki gott að þakka Guði fyrir öll og allt sem styrkir þig í lífinu, gerir þig sterkari, eflir þig, varðveitir þig? Þumallinn sem bænafingur er táknfingur styrkleikans og minnir á stoðirnar þínar.

Vísifingur og vitringarnir

Svo er það næsti putti – vísifingur. Við notum hann til bendinga, við vísum til einhvers og bendum á. Hann gengur því líka undir nafninu bendifingur. Svo er vísifingur stundum sleikifingur af því börnin nota hann til að grafa í sultu, smjör, ís eða annað sem heillar og sleikja puttann svo. Börnin nota sleikifingur sem guðsgaffal, en við megum gjarnan skófla upp trúarlegri merkingu frekar en sætu í munninn.

Hverjir eru það sem vísa þér veg, benda þér áfram, hjálpa þér og ganga með þér veginn? Biddu fyrir þeim, sem eru svo leiðbeinandi í lífinu, vinum, kennurum, læknum, vitru fólki, spekingum, kirkjufólki, hjúkrunarfólki. Það er vert að þakka fyrir þetta fólk, biðja fyrir því, benda Guði á að það er að liðsinna og efla lífið.

Langatöng og leiðtogar

Lengsti fingurinn á flestum er langatöngin og til er lengra nafn þess putta – langastöng. Hvaða bænir minnir þessi lengsti putti á? Fyrir hverju biðjum við þegar við snertum löngutöng? Í kirkjum á Íslandi og meðal trúmanna um allan heim er beðið fyrir þeim sem eru leiðtogar. Við biðjum fyrir fólki í ábyrgðarstöðum, fyrir þjóðhöfðingja okkar, dómurum, fyrir alls konar stjórnvöldum og fyrirtækjum, fyrir þeim sem gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum, taka ákvarðanir sem geta orðið til mikils góðs eða valdið miklu tjóni. Langatöngin sem bænafingur minnir okkur á að biðja Guð að laða fram hið besta í langintesunum í hinum opinbera heimi. Leiðtogar eru ekki aðeins einstaklingar heldur hreyfingar, stofnanir, menningarfyrirbæri, vefur menningar og straumar hennar.

Baugfingur og hin veiku

Þá er það fjórði puttinn. Hvað einkennir baugfingur annað en það að á þann putta er gjarnan settur hringur, baugur? Þessi putti, sem líka gekk undir nafninu hringfingur og græðifingur, er gjarnan kraftminnsti puttinn. Hvað minnir máttleysi okkur á? Kannski þau, sem eru sjúk, hafa misst þrek og þor, vinnu, eru fjárlaus eða syrgjandi. Máttleysi minnir okkur líka á öll þau sem líða vegna einhverra vondra aðstæðna, nær og fjær. Þegar við snertum baugfingur megum við biðja fyrir þeim sem líða vegna rangra stjórnvalda, fyrir þeim sem eru kúguð, fyrir þeim sem eru hamin af félagslegum, líkamlegum eða pólitískum aðstæðum.

Litli fingur – þú og ég

Og þá er komið að litlaputta. Hvað er eftir á bænalistanum? Það ert þú. Litli puttinn er putti sjálfsins. Þegar kemur að litla fingri þá er komið að öllu því sem þú ert. Hvernig biður þú og hvernig viltu nota þenna guðsgaffal? Byrjaðu á þakkarefnum. Þakkaðu Guði fyrir allt það stórkostlega, sem þú hefur notið og er það ekki talsvert? Farðu yfir gleðiefnin þín, yfir það sem Guð gefur þér í líkama þínum, hjartsláttinn og blóðrennslið, að þú getur hreyft þig, hlegið, nærst og glaðst yfir. Allt, sem þú skynjar, er undur til að gleðjast yfir, litirnir, golan sem kyssir eyrnasnepla þína og kitlar þig í nefið. Já bækurnar sem þú lest, hugmyndir sem kvikna í þér, allt sem þú bragðar og er til góðs, tónlistin sem flæðir í huganum, ástin í brjósti þér, getan til að hrífast, frelsið og málið. Og svo er það líka hitt, sem hemur þig, er þér  erfitt og hvílir á þér. Við reynum að létta litla putta byrðar. Eins er það í bænunum. Byrjaðu á plúsunum og farðu svo í mínusana – en svo aftur í plús. Þannig er ölduhreyfing bænamálsins. Allt byrjar í Guði, dýfist síðan niður í mannlífsgleðina, fer alla leið niður á botn og svo upp aftur inn í eilífð ljóss og vona.

Fingurnir geta aðstoðað þig með þessu móti til bæna, til að leiðbeina þér við bænaiðjuna. “Give me five.”

Bæn hefur hendur til að starfa með og þjóna lífinu. „Biðjið“ segir Jesús. Bæn er handtak manns og Guðs, fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill alla fimm putta, samtal við þig og þér verður ekki sleppt.

Amen.

Þessi texti var til grundvöllunar hugleiðingu á bænadegi þjóðkirkjunnar, 1. maí.

Guð blessi Ísland

IMG_0055Hrunið dundi yfir árið 2008. „Guð blessi Ísland“ – var fróm ósk og viðeigandi niðurlag í sjónvarpsávarpi forsætisráðherrans. Sömu orð, sama bæn, kom í hugann þegar ég horfði á hinn dramatíska Kastljósþátt fyrir viku síðan. Svo skrifaði ég þau á facebook: „Guð blessi Ísland II.“ Vinur minn skrifaði strax og spurði á móti: „Heldurðu ekki að hann sé orðinn þreyttur á því?“ Góð spurning. Er Guð þreyttur á okkur Íslendingum og Íslandi? Erum við sveimhugar, verri viðureignar en aðrir? Verður Guð þreyttur á sumum og síður á öðrum? Gerir Guð sér mannamun og elskar Guð mismikið? Á gleðidögum, tímanum eftir páska er vert að spyrja: Af hverju deyr dauðinn og lífið lifir? Af því Guð er ekki lúinn, gefst ekki upp – elskar.

Mikil pólitísk tíðindi hafa orðið liðna daga. Flestir hafa einhverjar skoðanir á framvindu, skúrkum og hetjum. Óþægilegar spurningar vakna við vandann: Lauk Hruninu ekki á árunum eftir 2008? Getur verið að Hrunið hafi aðeins verið fyrsti hluti í lengri sögu okkar Íslendinga – kannski bara einn af milliköflunum í breytingasögu þjóðar og vestrænna samfélaga? Ég held að svo sé og held raunar að grunnur samfélagsins hafi gliðnað sem síðan veldur skjálftum m.a. í skattaskjólunum. Hin klassísku kristnu gildi, sem við þáðum í arf frá kynslóðum liðins tíma, hafa tapað samfélagslegri seltu sinni. Og ég fór – í fyrradag – að lesa Passíusálma og Vídalínspostillu til að rifja upp boðskap fortíðar. Það var eins og mig minnti um samfélagsmálin: Hallgrímur Pétursson og Jón Vídalín eru afar skýrir um getu manna til afbrota, um skyldur hins kristna, opinbert og prívat siðferði og skyldur valdamanna. Þar kemur fram að Guð blessar Ísland þegar fólk ræktar siðvit og setur sig í samband við það sem máli skiptir.

Hvernig tengir þú reynslu daganna við lífsafstöðu þína? Eru einhver sár eða reið meðal ástvina þinna eða vina? Sá fjöldi sem mætir til mótmælafunda er teikn um miklar skoðanir og tilfinningar. Samtöl við fólk í trúnaðarsamtölum prestsþjónustunnar sem og á vinnustöðum í borginni hefur staðfest að systurnar sorg og reiði fara víða. Og þær beina spjótum sínum að einstaklingum, hreyfingum, opinberum aðilum og félögum. Miklar tilfinningar þurfa að fá útrás. Ljós sannleikans – hversu ljótur sem hann er – þarf að skína í einstaklingum og samfélagi. Guð blessi Ísland.

Þegar systurnar sorg og reiði ganga um torgin gerist margt. Ekki er að undra að þegar mikið gengur á í þjóðfélaginu að þér líði einkennilega og jafnvel á skjön við upplifun annarra í kringum þig. Af hverju? Samfélagsmein hafa áhrif á einstaklinga. Samfélagsfár rífur gjarnan ofan af gömlum einkasárum. Í látum nútíðar rifjast upp áföll fortíðar og tilfinningar þeirra spretta fram. Sorg yfir ástvinamissi vitjar fólks í umbrotum þjóðfélagsins. Ef fólk hefur einhvern tíma orðið fyrir kúgun, einelti, óréttlæti eða öðrum áföllum koma tengdar tilfinningar gjarnan í ljós á álagstíma. Í sumum tilvikum opnar samfélagsfár sálarkassa í geymslum hugans. Það sem við héldum að væri unnið og grafið kemur óvænt upp. Hitinn í samfélaginu ýtir á leynitakka sálnanna og opnar lager eða safn sorgarefna. Í uppnámi samfélagsins slengist fortíð inn í samtíðina. Þegar fólk er slegið vegna pólitískra áfalla hitnar orðræðan. Sum fara á límingunum og „missa sig.“ Fólk sem lætur sig stjórnmál miklu varða er sumt tilfinningalega og félagslega laskað þessa dagana. Og fólk dettur í sinn gír, hvort sem það er meðvirkni, vörn, kvíði eða eitthvað annað. Tökum ekki þátt í hóphýðingum, gerum ekki grín að fólki í uppnámi. Það er þarft að muna að við megum hafa hlýtt hjarta en kaldan heila, umvefja fólk með kærleika en líka góðum rökum og skynsemd. Guð blessi Ísland.

Leiðtoginn

Textar dagsins fjalla um hinn góða hirði. Ísraelsþjóðin rauk út á sinn Austurvöll og spurði ákaft hvort yfirstjórn ríkisins væri góð og skilaði sínu hlutverki. Boðskapur spámannsins Ezekíels í lexíu dagsins, var að Guð myndi sjálfur ganga í verkið, safna hinum villuráfandi sauðum, hjálpa í vanda, græða sár, binda um brot  og tryggja góðar aðstæður til lífshamingju. Gamall boðskapur og fyrir rappið á Austurvelli. Jesús talar í guðspjalli dagsins um góða hirðinn og þar ýtir hann á gamlan takka í vitund þjóðar sinnar um leiðtoga og gildi. Góður stjórnandi er sá sem engin svik eru í. Og með öll stjórnvöld og alla málaliða í heiminum í huga bendir Jesús á hinn sviklausa sem er reiðubúinn að greiða hæsta gjaldið, allan skattinn, já lífið. Lífið er hæsta gjaldið. Trúmennskan er ekki innflutt, ekki útflutt í skjólin heldur, hún er heimaræktuð. Sá einn er alverðugur sem ekki flýr heldur stenst til enda. Texti dagsins fjallar ekki um pólitík heldur lífsafstöðu. Hvar er traust þitt og hvernig tengir þú gæði, gildi, lífshætti, siðferði og tengsl við fólk? Ertu sannur og sönn? Eða ertu aðeins málaliði sem lifir með eigin hag fyrir augum? Textar dagsins eru ekki um stjórnmál liðinnnar viku en eru þó fullkomlega hagnýtir til að dæma um hvernig við menn eigum að lifa í umróti og ringulreið daganna. Við erum Guðs og eigum að bregðast við með trúmennsku og í trú. Jesúpólitíkin er að samfélagsmálin eigi að vera bæði siðleg og lögleg. Innræti stjórnar siðferði, notkun fjármuna og valda. Guð blessi Ísland.

Gleðidagar

Þessir sumpart dapurlegu dagar eru gleðidagar. Tíminn eftir páska er tími til að fagna. Ekkert er svo slæmt og þungbært að sigur lífsins gildi ekki. Engin áföll í samfélagi eða sálarlífi þínu eru svo stór að ljós páskanna megi ekki lýsa yfir og gefa birtu.

Gleðidagar eftir páska geta verið mjög sorglegir, en hætta ekki við að vera gleðidagar þótt margt dapurlegt gerist. Sorg getur dunið yfir á gleðidögum, reiði getur blossað upp á lífsdögum. Systurnar reiði og sorg eru á kreiki alla daga og koma Guði við. Við megum gjarnan nýta gleðidaga til að ígrunda hvaða sorg, áföll, reiði og miklar tilfinningar vakna í þér. Þær varða sálarlíf þitt. Hvað getur þú gert til að grisja, hverju má leyfa að fara inn í endurvinnslu eilífðar? Hvað getur þú gert til að styrkja fólk í uppnámi? Hvað getur þú gert til að íslenskt samfélag megi njóta gilda og góðs lífs?

Viltu leyfa nánd Guðs að umlykja þig, gildum guðsríksins að vefjast inn í samfélag þitt og viltu vera ásjóna Jesú Krists gagnvart fólki í sorg og reiði. „Ég er góði hirðirinn“ segir Jesús Kristur. Guð blessi Ísland.

Amen

Stólræða í Hallgrímskirkju 10. apríl, 2016.

Textaröð: A

Lexía: Esk 34.11-16, 31

Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er. Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.

Pistill: 1Pét 2.21-25

Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Guðspjall: Jóh 10.11-16

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

Kristur er upprisinn

LífSprengjur sprungu í Belgíu í vikunni. Yfir þrjátíu létust og hundruð manna særðust. Myndirnar sem bárust með vefmiðlum heimsins voru hjartaslítandi. Drengirnir á mínu heimili voru heima í skólafríi og urðu varir við að dagskráin var rofin. Skyndifréttatími færði þeim vátíðindin og þeir hringdu í okkur foreldra sína til að ræða málin. Með sprengjurykinu þyrluðust spurningarnar upp. Koma þessir glæpamenn til okkar? Er hætta á að truflaðir sprengjumenn komi líka og ráðist á okkur? Við fórum yfir skelfingarefnin – og svipaðar spurningar og vöknuðu í tengslum við ofbeldisverkin í París í nóvember síðastliðnum. Brusselsprengjurnar voru ítrekun á voðaverkunum í Frakklandi. Og þar sem við fjölskyldan vorum nýlega á ferðinni í Evrópu og Afríku ræddum við ítarlega í tengslum við þá ferð um öryggi, líf, dauða, ofbeldi og hvernig við gætum brugðist við. Hvaða afstöðu temjum við okkur gagnvart því sem ógnar lífi og limum? Hvernig getum við brugðist sem best við?

Öryggi

Hvenær ertu örugg og öruggur? Í hverju eru hættur lífsins fólgnar? Það er ólíðandi að glæpalýður sem knúinn er af hatri og eyðingarfýsn nái að sprengja óttasprengjur sínar og skjóta skelfingarkúlum sínum í almannarými heimsins. En það eru ekki aðeins íbúar og ferðafólk í Brussel og París sem líða. Morðingjarnir í Sýrlandi hafa gert sig að óvinum okkar allra því þeir reyna að valda sem mestum ótta, raunum og skelfingum sem víðast. Og gleymum því ekki að milljónir Sýrlendinganna sem eru á flótta í og við Evrópu eru á flótta undan sömu sveitunum og sprengja í borgunum í nágrenni okkar.

Hvað ætlum við að hleypa þeim langt? Ætlum við að leyfa hatursflokkunum að sprengja óttasprengjur líka innan í okkur? Leyfum við soranum að síast inn í okkur og krydda hugsun okkar, móta innræti og magna okkur til andúðar og hræðsluviðbragða? Það væri að virða vald ofbeldissegjanna og játa mátt þeirra. Það er mál dauða og grafar.

Hátíð lífs

En nú er gröfin tóm. Páskar eru hátíð lífsins. Páskar eru dagar gleði, ljóss og fögnuðar því dauðinn dó en lífið lifir. Mál íslamska ríkisins er ekki mál páska heldur föstudagsins langa. Hverju trúum við og hvernig lifum við? Hvað temjum við okkur og hvaða lífsstefnu höfum við? Ertu föstudagskona eða föstudagskarl? Er í þér lífssafstaða föstudagsins langa? Leyfir þú ótta eða neikvæðni að ráða geðslagi þínu, hugsunum og tilfinningum? Bregstu við breytingum með neikvæðni, líka pólitískum tíðindum, listrænum gerningum eða alvarlegum heilsufarstíðindum? Hræðistu og ferð í bakkgírinn? Hvort ertu þá föstudagsvera eða páskakona eða páskakarl?

Kúbudeilan og móðursvör

Ég skildi vel spurningar drengjanna minna. Í bernsku minni varð Kúbudeilan að skelfingarviðburði í mínu lífi. Vegna fréttaflutningsins sannfærðist ég um að heimurinn væri á heljarþröm. Kennedy var kominn með puttann á kjarnorkutakkann og skuggi kjarnaoddana náði inn í barnssálina. Ég var svo sannfærður um vanda og endalok að ég tók ákvörðun um að ef heimurinn færist ekki á sjöunda áratugnum væri siðferðilega óábyrgt af mér að eignast börn því heimurinn hlyti að farast innan nokkurra áratuga. En móðir mín setti drenginn sinn á hné sér og minnti mig á að ef Guð væri til, páskarnir væru hátíð lífins, Jesús væri á lífi og Guð væri besti ferðafélagi mannsins væri ótti skiljanlegur en ætti þó ekki að fylla hugann og myrkva veröldina. Guð væri sterkari en brjálaðir karlar sem lékju sér að fjöreggjum heimsins. Þessi lífsviska ófst inn í trú mína og hefur síðan verið mér ljósgjafi í einkalífi og einnig forsenda í starfi mínu sem prests, frammi fyrir syrgjandi fólki og fórnarlömbum vonds kerfis eða spillts valds. Og svo eignaðist ég nú reyndar fimm börn sem er sterk tjáning á að Guð er gjafmildur og að lífið lifir!

Afstaða til lífsins

Trú er ekki bláeyg heldur skarpskyggn. Trú er ekki flótti frá lífinu heldur forsenda lífsstyrkjandi afstöðu. Páskarnir eru tjáning þess að líf, ást, gæði og hamingja eru sterkari og altækari en neikvæðni, hatur, eiturlyfjabyrlun, sérhyggja, vond stjórnmál, ástleysi, hatursorðræða, mengun, fyrirlitning – alls þess sem hindrar fólk í að njóta hins góða lífs. Páskarnir eru veruleiki og tjáning kraftaverksins – að lífið er gott, – að maðurinn er ekki einn. Páskarnir eru ekki aðeins dagur með boðskap heldur lífshvati að við stoppum aldrei á löngum föstudegi heldur höldum áfram, berjust gegn því sem hindrar fólk til hamingjulífs. Því varðar páskadagur flóttafólk frá Sýrlandi og hvernig eigi að bregðast við í trú og af ábyrgð. Páskar varða líka pólitík í okkar eigin landi. Páskarnir eru boðskapur um hvernig við eigum að nota og umgangast land, sjó og loft. Páskatrúin er kraftuppspretta og lífsmótandi fyrir tengsl okkar við fólk. Dauðinn dó og lífið lifir varðar hvort við hættum að fyrirlíta aðra og förum að sjá í þeim vini Guðs, stórvini Jesú Krists, já fulltrúa hans í heimi. Páskatrú varðar því félagsafstöðu, pólitík, umhverfismál, utanríkismál, hlutverk kirkju í heiminum og einkalíf þitt við eldhúsborð og páskatrúin á líka erindi inn í svefnherbergin! Hvort við erum föstudagsfólk eða páskafólk varðar hvort við sjáum tilgang í að vera góðir foreldrar eða ekki, blása bjartsýni í hrædda drengi og skelfdar dætur eða ekki. Páskatrú er afstaða til lífsins – að fara út úr skugga föstudagsins langa og inn í birtuskin hinnar dansandi sólar á páskum, standa alltaf lífsmegin.

Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Kannski er í þér blanda af báðum dögum. Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið? Ég heyrði um konu, sem alla ævi bjó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún átti sér orðtæki og sagði gjarnan: „Ég er svo heppin.“ Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi kominn var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni og verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauða var snúið í andhverfu sína og sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn er kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar. Því lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, ekki í Brussel, París, Sýrlandi eða í Reykajvík, að Guð geti ekki, megni ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði. Trúir þú því?

Kristur er upprisinn. Hann reis upp fyrir þig og þér til lífs. Amen.

Textaröð: A

Lexía: Slm 118.14-24

Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,

hann varð mér til hjálpræðis.

Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra:

„Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk,

hægri hönd Drottins er upphafin,

hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“

Ég mun eigi deyja heldur lifa

og kunngjöra dáðir Drottins.

Drottinn hefur hirt mig harðlega

en eigi ofurselt mig dauðanum.

Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins

að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.

Þetta er hlið Drottins,

réttlátir ganga þar inn.

Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig

og komst mér til hjálpar.

Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,

er orðinn að hyrningarsteini.

Að tilhlutan Drottins er þetta orðið,

það er dásamlegt í augum vorum.

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,

fögnum og verum glaðir á honum.

Pistill: 1Kor 5.7-8

Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Guðspjall: Mrk 16.1-7

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

Þinn Jesús?

táningurinn JesúsMenn hafa leitað að Jesú um aldir. Sumir hafa fundið Jesú en aðra hefur Jesús fundið. En allir sem verða vinir Jesú túlka samskiptin með einhverjum hugmyndum, lýsingum og nokkrir síðan með kenningum um hver hann sé og hafi verið. Og nálgun fólks og kenningar eru með ýmsum hætti og hver samtíð þráir og túlkar ákveðin tengsl í samræmi við þarfir. Eitt sinn var það ímyndin af siðvitringnum sem hreif. Í annan tíma var það kraftaverkamaðurinn eða orðsnillingurinn. Í sumum kirkjuhefðum var lögð áhersla á fórnarhlutverk og endurgjald hins krossfesta, í öðrum á upprisuljóma páskanna. Kristur, hinn stríðandi konungur, höfðar til sumra einstaklinga, hópa og tíma. Mjúklátur mildingurinn er öðrum nærstæðari. Stundum hefur Jesús verið í mynd andófsmannsins og sósíalistarnir sáu í honum fyrsta kommúnistann, jafnréttisaktívistar skapandi frelsispostula og bróður hinna kúguðu og fátæku. Ó, Jesú bróðir besti. Myndir Jesú Krists eru margar. Hver er mynd þín af Jesú? Hvers leitar þú? Hvað hefur áhrif á þína Jesúmynd? Eru það þarfir, samfélagsstraumar, menningarviðhorf eða eitthvað djúptækt í þér? Ertu til í að hitta hann?

Fermingarstrákurinn Jesús

Guðspjallstexti fyrsta sunnudags eftir þrettánda fjallar um leit, margþætta og margvíslega leit. Fyrir það fyrsta voru María og Jósef að leita að Jesú. Reyndar er kostulegt, að það hafi tekið þau a.m.k. heilan dag að uppgötva að hann væri týndur. Margar skýringar eru til um af hverju þau voru svona sein að átta sig á stöðunni. Var Jesús vanur að týnast og kom alltaf aftur? Þau sneru við og voru svo þrjá daga að leita að strák. Að finna Jesú getur verið tímafrekt!

Jesús var orðinn 12 ára og bar eins og jafnöldrum hans að fara til Jerúsalem til að taka þátt í manndómsathöfn, hliðstæðu fermingar í okkar hefð. Jórsalaferðin var undirbúin og farin. Jesúfjölskyldan komst klakklaust á leiðarenda og sveinninn hefur gengið í gegnum ritúalið.

Síðan heimferð, konur og börn fóru gjarnan á undan körlunum, hvort sem það hefur verið vegna þess að þeir fóru hraðar yfir – eða að þeir höfðu einhver aukahlutverk umfram hin. Kannski voru þeir bara að skemmta sér! Við getum ímyndað okkur, að foreldrar Jesú hafi treyst strák, hafa haldið, að hann væri á heimleið, allt þar til þau María og Jósef hittust á leiðinni. Þá kom í ljós að hann var týndur og þau neyddust til að snúa við. Leitin hófst.

Jesús týndur

Hvernig lýsir maður eftir drengnum Jesú þegar hann týndist? Hvað gæti best lýst honum svo þau sem hefðu séð til hans kveiktu á perunni og seegðu? „Já, það er einmitt strákurinn sem ég sá.“ Tólf ára gutti, engin barnastjarna í Palestínu og því algerlega óþekktur. Ekki hafa þau sagt, að hann væri frelsari heimsins eða að hann væri mannssonurinn. María hefur ekki vogað sér að segja frá, að þegar hann hafi fæðst hafi harðstjórinn Heródes orðið svo hræddur, að hann hafi látið deyða alla nýbura á svæðinu sunnan Jerúsalem. Ekki hafa þau sagt, að hann væri herkonungurinn Messías. Það hefði sent þau beina leið í fangelsi Rómverja.

Væntanlega hafa þau bara lýst venjulegum unglingsslána, íhugulum og spyrjandi. Þau hafa kannski óttast að búið væri að limlesta hann eða jafnvel myrða. Allir foreldrar geta sett sig í þeirra spor, ímyndað sér kvíðann. Í hverju hafði hann lent? Hvað hafði komið fyrir? Hafði hann gert eitthvað af sér?

Þau hafa farið á lögreglustöðina. Nei, enginn hafði rekist á hann. Þau þekktu leitandi hug hans og hafa vonast til, að hann kynni að laðast að guðsmönnunum og því farið í musterið. Viti menn, sat ekki Jesús þar eins og prútt fermingarbarn, spurði greindarlega, reyndi fræði þjóðar sinnar, ræddi álitaefni í trú og siðferði og vildi svör! Saga dagsins er því ekki morðsaga eða saga um aula vikunnar, heldur heillandi þroskasaga um skarpan ungling í leit að svörum við rosalegum spurningum. Hvað hann borðaði og hvar hann svaf vitum við ekki. Síðar minnti hann á, að matur hans var nú að gera vilja þess, sem sendi hann. Og mannsonurinn væri heimilislaus og ætti engan höfuðhvílustað.

Leit Jesú að eigin sjálfi

Hvað ræddi unglingurinn við fræðimennina? Hann vildi skýringar, ekki aðeins á pólitík eða menningarmálum, á trúarlegum skyldum, heldur á enn róttækari málum, hver hann sjálfur væri. Jesús óx örugglega ekki upp með einhverja barnatrúarvissu um, að hann væri Messías, frelsari heimsins, læknirinn besti, ljós heimsins, brauð veraldar o. s. frv. Hann bjó í smiðshúsi í Nasaret, reyndi að fá botn í hvað grunurinn í djúpum hugans merkti, hvað upphaf hann hefði og hvernig hann gæti brugðist rétt við í upplifunum, af hverju máttur hans stafaði og hvað hvötin merkti. Kannski hefur mamman talað við hann um reynslu sína og vangaveltur. Kannski hefur Jósef líka rætt málið og frændfólkið minnt á sérstakar aðstæður í frumbernsku. Svo hefur lífsreynslan bætt í sjóðinn.

Hann vildi svar við meginspurningunni: Hver er ég? Til hvers lifi ég og hvert er hlutverk mitt í lífinu? Guðsmennirnir gátu veitt honum sértæk svör um ákveðin atriði, en hann varð sjálfur að vinna úr efninu, og marka stefnu sem vörðuðu sjálf hans, þetta sem við getum kallað sjálfsskilning og þar með lífsstefnu. Jesús átti val, naut algers frelsis. Heillandi saga um ungan mann í leit að lífsstefnu.

Foreldrar fundu – en unglingur Guð

Meðan foreldrarnir leituðu að unglingnum var Jesús að leita að sjálfum sér. Þau fundu tryggan og góðan son, en hann fann Guð hið innra, í sjálfum sér. Svör hans við spurningum foreldranna virðast harkaleg en skiljanleg, þegar guðsvitund Jesú og vitund um hlutverk og köllun er höfð í huga. Nokkra þætti í sjálfsvitund Jesú getum við greint í ræðum hans. Á henni byggir síðan íhugun guðfræðinga og trúmanna um allar aldir.

Þegar við förum yfir guðspjöllin sjáum við, að sagan um unglinginn í musterinu er eina bernskufrásagan um Jesú. Engin önnur saga frá æsku Jesú og unglingsárum er til. Jólasöguna og upphafssöguna þekkjum við og næst á eftir henni kemur svo þessi musterisferð og leitin að Jesú. Síðan ekkert annað fyrr en meira en löngu síðar, þegar Jesús byrjaði starf sitt með formlegum hætti. Við eigum því enga ævisögu Jesú í guðspjöllunum. Til að fá fyllri mynd verður að leita í aðrar heimildir utan Biblíunnar, s.s. Tómasarguðspjall. En margir hafa efast um heimildagildi þess og annarra rita um Jesú, þ.e. utan Biblíunnar.

Jesúveruleikinn

Guðsvitund Jesú var ríkuleg, en hann hafði meiri áhuga á lífsiðkun en að skilgreina sjálfan sig fræðilega. Hann hafði minni áhuga en miðaldaguðfræðingar á frumspekilegum skilgreiningum. Við vitum ekki hvað María sagði honum. Enginn Biblíufræðingur mun halda fram að Betlehemsatburðirnir séu lýsandi sagnfræði. Allt er þetta á sviði táknmáls.

Sjálfsvitund helstu jöfra menningarsögunnar er eitt og hugmyndir fylgjenda stundum aðrar. Sjálfsvitund Jesú er um margt greinanleg, en þó er margt á huldu.

Björgin góða

Forsenda þess, að við getum gengið inn í guðsreynslu og innlífast guðsveru Jesú, er að við viðurkennum okkar eigin leit, sem er æviverk, förum í musterið með honum, göngum inn í angist hans og líka traust. Er Jesús forgöngumaður, vinur þinn, bróðir sem heldur í hendi þína?

Hver er Jesús? Jesús er í húsi föður síns. En finnur þú hann þar? Þú finnur hann ekki í fræðunum um hann. Ég get útlistað kenningarnar um hann, en aðeins þú getur farið og fundið hann, lifandi persónu. Að trúa er persónulegt mál, það að hitta Jesú og verða vinur hans. Það gerir enginn annar fyrir þig.

María og Jósef hlupu til Jerúsalem og leituðu að Jesú og höfðu sinn skilning. Við erum lík þeim, við leitum að ákveðnum Jesú, en svo mætir okkur annar. Þar er viskan, þegar við gerum okkur grein fyrir, að við finnum annan en við leitum að. Jesús er meira en ímynd okkar af honum, líka annað og meira en ímynd guðfræðinnar um aldir. Mannleg orðræða og lýsingar spanna aldrei það sem er guðlegt.

María og Jósef spurðu hvort menn hafi séð Jesú. Spurningin í nútíð okkar varðar ekki hvar hann er, heldur hvort og hvernig hann lifir meðal okkar og í okkur. Líf okkar varðar hvort við erum vinir Jesú Kristi og leyfum honum að vera Guð í okkur. Algert frelsi, algert val. Gildir fyrir alla, mig og þig.

Prédikun í Hallgrímskirkju 9. janúar, 2016.

Lexía: Slm 42.2-3

Eins og hindin þráir vatnslindir

þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði,

hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?

Pistill: Róm 12.1-5

Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi. Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

Fyrir þá náð sem mér er gefin segi ég ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum.

Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. 5Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.

Guðspjall: Lúk 2.41-52

Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“

Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.