Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Vel gert – já takk fyrir

Þau þrjú, sem svo vel hafa stýrt íslenskum sóttvörnum liðinna vikna, hafa verið dugleg að hrósa. Það hefur verið hvetjandi að heyra jákvæðnina og hve fallega þau tala um fólk og það sem vel er gert. Hrósið fer hjá þeim á undan því erfiða og þungbæra. Þau hafa verið til fyrirmyndar og markað stefnu jákvæðni í niðurdrepandi aðstæðum. Vitið hefur stýrt en ekki vald, jákvæðni en ekki fúllyndi eða hræðsla. Vel gert, takk fyrir.

Fyrir nokkrum árum fórum við fjölskylda mín til Ameríku. Við lentum í Seattle og ég átti von á hefðbundinni stórflugvallafýlu starfsmanna, sem tækju út pirring sinn á okkur ferðalöngum. Nei, ónei. Elskulegt fólk mætti þreyttum útlendingum. Einn sagði með hlýju í augum “verið velkomin” og annar sagði “njótið verunnar í Bandaríkjunum.” Takk, þetta var óvænt móttaka. Börnin sem voru með í för fengu líka sinn skammt af elskulegum viðbrögðum: “Fínn hattur” og “falleg peysa.” Jákvæðnin var skýr og almenn.

Svo héldum við áfram og enduðum suður við landamæri Mexíkó og bleyttum tærnar í Kyrrahafinu. Herra Fúll og frú Fýla virtust gersamlega týnd. Var eitthvað að? Fólk hafði getu til að sjá, virða og hrósa. Jafnvel í atinu í Disneylandi og Legolandi tjáðu vandalausir ef eitthvað hreif. Svo vorum við boðin inn á heimili vina okkar og eflingarorðin flugu.

Þessi áberandi jákvæðni og hrós urðu mér íhugunarefni. Fúll og Fýla lauma sér ótrúlega oft og fljótt í umræðu fólks. En þó margt sé okkur mótdrægt er óþarfi að temja sér neikvæðni í tengslum við fólk. Börnin hafa þörf fyrir að við sjáum þau og við bregðumst við þegar þau gera vel og vinna sigra í smáu eða stóru. Nábíturinn má aldrei yfirtaka atvinnulíf, stofnanir, fjölmiðla og samfélag okkar, ekki heldur í aðkrepptum aðstæðum. Við megum og þurfum að tjá fólki, að það og verk þess veki hrifningu og gleði. Ástvinir okkar þarfnast að við sjáum þau. Fólk við búðarkassa tekur jafnan vel við þegar hlý orð falla í þess garð.

Hrós varðar ekki málæði og yfirborðstjáningu, heldur að temja sér ákveðna afstöðu til annarra og lífsins. Fólk er einstakt, dýrmæti. Allir þarfnast orða. Við lifum í krafti tengsla, höfum þörf fyrir að vera séð, að lífshættir, hæfileikar, eigindir og verk séu færð í tal með jákvæðum hætti. Öllum verður gott af því, sem hefur verið kallað H-vítamín – hrós. Það er trúverðug lífsleikni að næra aðra með orðum þegar vert er og er ástæða til. Jesús Kristur kenndi okkur þessa mannvinsamlegu nálgun. Hann hafði alltaf áhuga á fólki og sá í öllum eilíft gildi og gæði. Við þig segir hann með jákvæðum hætti og eins og satt er. „Þú ert frábær!“

Er einhver nálægt þér, sem þarfnast þess að heyra eitthvað jákvætt? Hrós er blóm allra daga.

Brauð, bikar og gjörningar

Ég stóð við dómkirkjuna í Sansepolcro í austurhluta Toscana á Ítalíu. Íbygginn unglingsstrákur krítaði gamla götusteina fyrir framan kirkjuna. Nærri honum voru pappakassar. Í einum var mikið magn af gulum krónublöðum einhverrar fífiltegundar, sem var íslenskum flórukarli framandi. Í öðrum voru blóm af smágerðri baldursbrá og í þeim þriðja blá blóm. Hvað var strákurinn að gera? Ótrúlegt magn af krónublöðum. Þvílíkur vinnuvilji og puð að klippa þessa tugi þúsunda blóma!

Eitthvað var í bígerð, en hvað? Drengurinn fyllti lófana af blómum og lét falla á götuna og úðaði svo vatni yfir. Gul breiðan virtist ætla að verða í mynd faðmandi veru. Eða var það bikar? Svo gerði hann stóran baug með hvítu blómunum ofan við þau gulu. Gjörningurinn átti sér einhverja merkingu og var ætlað að tala til þeirra, sem áttu leið að kirkjunni. En hver var meiningin?

Karlar báru stórkostlegan vínrauðan vefnað út úr kirkju heilags Jóhannesar. Í hann var ofin dagsetningin 1760. Þeir hengdu klæðið á virðulegt hús við kirkjuna. Svo komu góðlátlegir og skríkjandi hringjararnir með stóra kertastjaka úr kirkjunni og komu þeim fyrir á borði á upphækkuðum tröppum, nærri klæðinu góða. Prestur kom með nokkra hökla. Það var hátíðisdagur í borg hinnar heilögu grafar. Klukkuómar úr turninum bárust letilega út í daginn og kölluðu fólk úr síestunni. Krónublaðadrengurinn hélt áfram að úthella örlæti Guðs og auðæfum sínum á strætið. Nú var búið að bæta við stöfum ofan í hvítan hringinn. Hin kirkjulega merking var að birtast: IHS. Það er skammstöfun Jesú, sem er í mörgum Jesúmyndum heimsins, líka á Íslandi. Iesus Hominum Salvator – Jesús frelsari mannkyns.

Svo bættust við geislar í götumyndina. Forvitinn vegfarandi spurði hvað þetta væri. Án þess að líta upp svaraði blómadrengurinn stuttaralega: Hostia – Brauð. Þá var allt skýrt. Brauð lífsins og svo var það líka bikar lífsins. Allt frá Guði, allt í táknrænni mynd, en í raunveruleika og skuggsjá strætisins. Kirkja í borg hinnar heilögu grafar til nota fyrir hinn góða boðskap. Strætið helgað með gerningi til að túlka hver merking lífsins er, hvaðan allt er og til hvers.

Á þessum tíma erum við minnt á að lífheimurinn er einn. Allt er tengt og smáveira getur umturnað stórkerfum mannkynsins. En líf er aldrei sjálfgefið. Lífi er alltaf ógnað. En allt er tengt þeim sem kallar fram líf – Guði. Gegn voða, vá, dauða og heimsfaraldri er boðskapurinn um, að dauðinn dó og lífið lifir. Drengur í Sansepolcro og við öll lesum blóm á göngum okkar og gjörningarnir lita veröldina. Hostia á götu, gæskuverk manna, bros og vonarorð eru líka brauð Guðs og bikar lífsins. Djúpmerking í viðburðum heimsins er lífgjöf Guðs, sem gefur, verndar og blessar. Yfir, með og undir er andi Guðs í brauði og víni, fyrir heim, fyrir líf og til lífs.

Lífið er svo hlykkjótt – Kristín Sigurðardóttir og lífsafstaðan

Hvað gerist þegar við erum slegin niður, verðum fyrir áfalli eða slysi? Krist­ín Sig­urðardótt­ir, slysa- og bráðalæknir, er fyrirmynd um skapandi lífsleikni. Hún hef­ur starfað sem slysa- og bráðalækn­ir. Hún hefur búið og unnið í Bretlandi, á Kana­ríeyj­um og á Íslandi. En allt í einu varð Kristín fyrir áfalli. Hún þoldi ekki mygluna á Landspítalanum. Eins og margt starfsfólk spítalans varð hún að hætta vinnu þar vegna veik­inda sem rakaskemmdir ollu. Þessi kraftmikla og heilsuhrausta kona hrundi heilsufarslega. Í heilt ár var hún að gera sér grein fyrir að ytri aðstæður á vinnstað hennar ollu heilsubresti hennar. Átti hún að reyna að þrauka til að vinna við það sem henni þótti mikilvægt og skemmtilegt? Valið stóð hjá henni, eins og svo fjölmörgum öðrum, milli heilsu og vinnu. Hún valdi heilsuna, skráði sig í leiðsögumannanám og hóf störf í nýjum greinum. Niðurstaða hennar er að lífið sé hlykkjótt.

Hvað gerist þegar fólk lendir í áfalli. Margir verða reiðir og finna sökudólgana í kringum sig, festast reiðinni. En Kristín sagði: „Ég er svo mik­il Pol­lý­anna í mér að ég hef ekki lagst í reiði. Ég meira að segja neita að hugsa um mig sem veika, held­ur segi ég bara eins og er, að ég þoli ekki sumt hús­næði. Þá forðast ég það bara og geri allt sem ég get til að halda mér hraustri. Ég var líka lán­söm að áður en ég veikt­ist var ég rosa­lega hraust og gat hlaupið upp hvaða fjall sem er. Fyrst var ég mjög svekkt og sorg­mædd að hafa misst þessa hreysti mína. En það breytt­ist og seinna varð ég þakk­lát fyr­ir að hafa í raun verið svona hraust áður, því það hef­ur hjálpað mér að þola veik­ind­in bet­ur. Ég horfi á það sem ég hef og er þakk­lát fyr­ir að vera með svona góða fjöl­skyldu og vini, hreyfigetu og að geta stundað úti­vist.“

Lífsafstaða skiptir máli. Við veljum fæst af áföllum okkar eða slysum. En við höfum alltaf val um hvernig við bregðumst við þeim. Það er þungbært að hrekjast úr vinnu sinni. En þegar valið stendur milli heilsu og vinnu er mikilvægt að flýja ekki heldur horfast í augu við vandann. En í kreppum eru líka tækifæri. Kristín var opin fyrir hlykkjóttum leiðum lífsins. Þakklæti fyrir styrkleikana hjálpar við að bregðast við kreppunum. Þannig opnast framtíð.

Takk fyrir Kristín Sigurðardóttir.

Viðtal við Kristínu í sunnu­dags­blaði Mbl, 3. maí 2020. Ásdís Ásgeirsdóttir. Meðfylgjandi mynd er einnig tekin af Ásdísi, sem er frábær ljósmyndari og líka penni. Takk Ásdís. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/05/03/lifid_er_svo_hlykkjott/

 

Lambakjöt – kúla með ítalskri fyllingu

Ísland-Ítalía í algerum toppklassa. Það var gaman að draga fram íbjúga fótboltaviðgerðarnál bernskunnar, þræða hana með seglgarni og sauma úrbeinað læri upp í kúlu. Lærisvöðvinn umbreyttur í stóra kúlu er mikið augnayndi og svo er bragðið kraftaverk.

1 lambalæri, má vera smátt
50 g hráskinka, skorin í ræmur
6-8 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 msk pestósósa
2 tsk ítölsk kryddjurtablanda, gríska kryddjurtablandan frá Pottagöldrum er ágæt líka
pipar, nýmalaður
salt
2 msk olía
800 ml lambasoð (sjá hér á eftir)

Í sósuna fer td. gorganzolaostur, sulta rifs eða bláberja og maísmjöl til þykkingar. 

Lærið úrbeinað, skorið með beittum hníf hringin með beini báðum megin. Beini smokrað úr (Melabúðarmenn úrbeina líka). Skinku, tómötum, hvítlauk, pestósósu, 1 teskeið af kryddjurtablöndu og pipar blandað saman í skál, blöndunni dreift á kjötið, það vafið utan um og saumað með seglgarni. Það er flott. Ef engin er fótboltanálin er hægt að binda allt saman, en það er ekki flott. Afganginum af kryddjurtablöndunn nuddað utan á lærið ásamt pipar og salti. Látið liggja við stofuhita í tvær klst. Á meðan er tilvalið að sjóða soð af beinunum. Ofninn er svo hitaður í 225 gráður.

Olíunni hellt í steikarfat eða ofnskúffu, lærið lagt í hana og sett í ofninn í um 20 mínútur. Þá er helmingnum af soðinu hellt í fatið, hitinn lækkaður í 170 gráður og kjötið steikt áfram í 45-60 mínútur. Soði bætt í skúffuna einu sinni eða tvisvar á steikingartímanum en ekki ausið yfir kjötið. Kjötið er svo tekið út og látið standa í a.m.k. 15 mínútur áður en það er borið fram og á meðan er steikarsoðinu hellt í pott, það hitað að suðu, smakkað til og sósan síðan þykkt með maísmjöli hrærðu út í svolitlu köldu vatni.

Einfalt lambasoð má gera með því að setja beinin úr lærinu í pott ásamt 1-2 söxuðum gulrótum, 1 lauk, skornum í bita (óþarfi að afhýða hann), e.t.v. sellerístöngli, lárviðarlaufi, timíani, piparkornum og ögn af salti, hella yfir köldu vatni svo að vel fljóti yfir, hita að suðu og láta malla í opnum potti í um 2 klst. Þá er soðið síað.

Það er líka ljómandi að steikja sveppi í smjöri, kanski svolítið af lauk með og hella soðinu svo yfir og láta sjóða í nokkrar mínútur, bæta út í klípu af gorganzolaosti, rjómaslettu eða kókosmjólk, rauðvíni fyrir þau sem það vilja, ribssultu eða hlaupi og þykkja sósuna.

Meðlæti t.d. kúskús eða perlubygg, raða því í kring um kúluna og skreyta með með einhverju rauðu, t.d. skornum paprikum! Bara til að fá hátíðablæinn!

Ástin í sóttinni

Hvernig líður þér á þessum COVID-tíma? Hefur þessi tími reynt á þig, dregið þig niður eða hvílt? Líður þér verr eða betur? Og hvaða hugsar þú? Hvernig er hægt að bregaðst við í þessum aðstæðum?

Ég gekk meðfram bókahyllunum mínum og dró fram bækur um farsóttir fortíðar. Þá rakst ég bók, sem ég stalst í á unglingsárunum. Það var bókin Decamerone sem heitir Tídægra á íslenskunni  – pestarbók, sem segir frá fólki í nágrenni Flórence í kólerufaraldri. Þau fara að segja hverju öðru sögur, flestar merkilegar og sumar ansi safaríkar. Svo rakst ég á aðra eftirminnilega sögu um hræðilega sótt. Og dró hana fram úr hyllunni. Það er La Peste – Plágan, bók Albert Camus, sem var í bókaskáp foreldra minna rétt hjá Tídægru. Ég man að ég las hana á sínum tíma af áfergju bernskunnar. Tilfinningar og viðbrögð fólks í hinni lokuðu borg Oran í Alsír höfðu djúp áhrif. Yfirvöldin voru í afneitun og áttu erfitt með að viðurkenna vandann. En læknirinn Bernhard Reiux var meðvitaður um hlutverk sitt og annars hjúkrunarfólks í farsóttinni. Hann vissi ekki frekar en annað samstarfsfólk hvað biði hans. Myndi hann veikjast og deyja? En hann axlaði ábyrgð, mætti verkefnum af skyldurækni og sinnti hinum sjúku. Og mér fannst erindi bókarinnar vera að miðla að öllum mönnum væri sameiginlegt að þrá ást. Margir nytu hennar en allir þráðu hana. Hvað skiptir okkur mestu máli? Það er fólk, tengsl, kærleikur. Ástarþörfin hríslast í okkur og magnast á tíma plágunnar. Kunnuglegt! „All you need is love“ sungu Bítlarnir og það er söngur kristninnar líka.

Viðbrögð í farsóttinni

Hvernig getum við brugðist við kreppum? Saga Íslands er áfallasaga. Hafís, eldgos, uppblástur, snjóflóð, sóttir, barnadauði, mannskaðar á sjó og landi. Áföllin eru í menningunni, hafa litað ljóð, mótað sögur, uppeldi, hlutverk, menningarefnið og jafnvel læðst inn í í genamengi okkar Íslendinga. Við fæðumst nakin og menningin færir okkur í föt, sem halda frá okkur sálarkulda. Hvernig gat fólk túlkað sögu sína svo myrkrið, kuldinn og sorgin linaðist? Við greinum hinar andlegu almannavarnir í bókmenntum þjóðarinnar og sérstaklega í trúarritunum. Þar er spekin, lífsleikni þjóðarinnar í aðkrepptum aðstæðum. Engar plágur og dauðsföll gætu eyðilagt galdur lífsins. Það er boðskapur trúarritanna. Ástin er alvöru.

Ástarasagan

Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar um aldir. Hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.

Lífið í passíunni

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma, sem ég dró líka fram úr bókaskápnum. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.

Erkisagan um okkur

Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa undarlega tíma? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. Og kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Ég kippti Biblíunni úr hyllunni með hinum bókunum. Þar eru allar farsóttir og kreppur heimsins saman komnar. En þar er líka meira en bara sögur fyrir innilokað fólk. Jú, margar safaríkar sögur. Þar er efni um óábyrga en líka ábyrgt fólk sem axlar ábyrgð. Þar er boðskapur um að flýja ekki heldur mæta. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum er mætt. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig.

Íhugun í heimahelgistund. Visir 26. apríl, 2020. Upptaka, Studíó Sýrland, Gestur Sveinsson og Sveinn Kjartansson. Félagar í Mótettukór Hallgrímskirkju og Hörður Áskelsson. 

Bæn: 

Lífsins Guð

Lof sé þér fyrir skínandi sól; fugla í ástaleik, golu á kinn, alla sprotana sem gæjast upp úr moldinni, glaðar öldur og daggardropa sem vökva. Við þökkum fyrir hina dásamlegu sköpun, sem þú gefur líf. 

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Þú lausnari heimsins

Þú veltir burt hindrunum á leið okkar til lífs og gleði. Lof sé þér fyrir að þú lætur ekki dauðann sigra heldur ruddir lífinu braut. Leið okkur út úr kvíum einsemdar og sjúkleika. Leyf okkur að lifa í vori og sumri upprisu þinnar. Styrk þau og lækna sem eru sjúk og vonlítil. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði…….  Ver með fjölskyldum þeirra.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

 Þú andi lífs

Við biðjum þig að blessa öll þau er ganga erinda lífsins, hjúkrunarfólk, kirkjufólk, uppalendur, þjóna almennings. Veit sköpunargleði í atvinnulíf okkar. Blessa þau sem dæma, stjórna og marka löggjöf. Farsæl líf og atvinnulíf samfélags okkar. Ver með þeim sem útbreiða frið þinn, boða orð þitt, þjóna að altari þínu, hlúa að æsku og mennta fólk og efla til lífsleikni. Gef vitur ráð í þjónustu við þig. Allt skapar þú Guð, allt leysir þú, allt lífgar þú.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Allar bænir felum við í bæn Jesú og segjum saman:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.