Greinasafn fyrir merki: trú

Núvitund trúarinnar

Biblían er mögnuð og mikilvægt að virða sérleik hennar. Við ættum ekki að lesa Biblíuna eins og lögbók eða náttúrufræði, heldur sem stórbók um lífið, allar víddir þess og bylgjur. Við ættum að reyna að forðast að láta eigin fordóma eða forsendur stýra hvernig við lesum eða nálgust frásögur og viðfangsefni Biblíunnar, heldur leyfa þessu mikla lífslistasafni að tala við okkur og inn í okkar aðstæður. Og sögur Biblíunnar eru um allt sem fólk er að hugsa og reyna, um áhyggjur, vonir, þrá, hatur og ást, dauða og líf. Ekkert í heimi okkar manna fellur utan Biblíuviskunnar því í henni eru allar tilfinningar manna. En Biblían er ekki bara um sigra og sorgir mannlífs eða liti og form náttúrunnar. Biblían er líka um Guð, sem elskar fólk og veröldina sem við lifum í. Í Biblíunni hvíslar Guð til okkar sem viljum heyra. Og sögurnar sem sagðar eru í þessu mikla ritasafni eru um lífið, hvað við megum gera og hvernig við megum vera. Saga dagsins er ein af þessum kjarnmiklu sögum um leit fólks. Þetta er saga um mikinn lífskraft en líka mikil vonbrigði. Í henni eru margir plúsar, alls konar bónusar, sem við megum nýta okkur til velfarnaðar því saga er um okkur. Og endursögn dagsins er svona:

Guðspjallið

Strákur kom hlaupandi til Jesú. Hann var ekki úr hópnum, sem fylgdi honum jafnan. En hann hafði heyrt um, að Jesús væri snjall og var tilbúinn til að hlusta. Og nú kom hann til meistarans til að fá ráð. Beiðnin var einlæg: Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn – til að öðlast eilíft líf?

Hvað á ég að gera? Það var spurningin. Einlæg og heiðarleg spurning. Svo beið hann eftir svari og stefnu. Jesús þekkti spurningarnar og fór í rólegheitum yfir námsefnið, rétt eins og hann væri kennari með nemendur í tíma. Hver er góður? Já, alveg rétt: Það er Guð. Svo fór Jesús yfir efnið sem allir Gyðingar þurftu að þekkja og skilja: Þú kannt boðorðin, þetta með bannið við manndrápum, framhjáhaldi, að stela ekki og að svindla ekki á öðrum. Við eigum líka að virða ástvinina. Maðurinn kunni þetta auðvitað allt vel og sagði sannfærður: “Ég hef gætt alls þessa.” Jesús horfði á hann og var sannfærður um að maðurinn væri aðgætinn, nákvæmur, vandvirkur og heiðarlegur. Og svo bætti Jesús við og þar kom Salómonsdómurinn: Bara eitt sem vantar upp á hjá þér. Farðu og losaðu þig við eigur þínar, húseignirnar, peningana, hlutina, allt og gefðu andvirðið fátækum – og komdu svo. Þá muntu eignast meira en allar jarðnesku eigurnar.

Var þetta bara smáatriði, eitthvað sem auðvelt væri að gera? Hljóp eignamaðurinn burt til að gera það sem Jesús bauð honum? Nei, hann varð fyrir fullkomnu áfalli – og guðspjallið skýrir þetta með því að hann hafi átt miklar eignir. Þetta er sagan um að snúa sér að því sem skiptir öllu máli.

Hvernig get ég komist inn?

Hvað á ég að gera? Hvernig get ég fengið inngang í eilífðina, fengið að lifa áfram alltaf, vinna öll lottó tíma og eilífðar? Hvert er notendanafnið og lykilorðið að himnaríki? Hvernig get ég komist inn? Segðu mér það Jesús. Hvað á ég að gera? Ég skal fara að öllum fyrirmælunum. Þetta var erindi mannsins. Og Jesús horfði á þennan heiðarlega, elskulega auðmann og benti á eina veikleika hans, sem hindraði að hann hakaði í öll box. Losaðu þig við allt sem þú átt. Losaðu þig við eigurnar – allt sem hemur þig. Þær eru eina hindrun þess að þú náir því sem þú þráir.

Af hverju sagði Jesús þetta? Var hann á móti eignasöfnun? Var hann á móti peningafólki, bisnissnillingum? Nei, svo sannarlega ekki. Hann vildi aðeins, að við iðkuðum hamingjuna og létum ekkert hindra. Verkefni manna er stöðugt að greina hvað þvælist fyrir, hindrar fólk á veginum, þvælist fyrir svo fólk kemst ekki á leiðarenda?

Og hvernig eigum við að skilja þennan texta. Er þetta bara spurning um ríkidæmi og peninga. Nei, Jesús var að tala um gildi og það sem er innan í okkur og klúðrar málum okkar og veldur vanlíðan. Er eitthvað sem þú þarft að losa þig við, sem mengar lífsgleði þína. Það er í lagi að breytast. Við megum þora að breytast. Allt tekur breytingum, líka tilfinningar okkar og jafnvel trúarefnni. Ef eitthvað heldur þér niðri eða stoppar þig þarftu að skoða málin. Er það fíkn, einhver reynsla sem hefur sest að þér, misnotkun, einhver kvíði, eitthvað sem þú þráast við að sleppa? Þetta veit AA-fólkið og öll þau sem hafa lifað af þrátt fyrir að skalla botninn.

Ef eitthvað heldur fast í þig og þú þroskast ekki þarftu að sleppa, til að geta verið í sambandi við sjálfa þig og sjálfan þig. Þú getur aldrei verið Guðs í gegnum aðra. Vertu til að vera Guðs, lifa Guði, vera í sambandi við Jesú.

Hvað á ég að gera? spurði maðurinn. Jesús svarar: Þú átt ekki að gera – heldur vera. Það er boðskapur dagsins. Vera og gera svo.

Biðja – iðja 

Við vinnum mikið til að skapa okkur og fjölskyldum okkar góðan ramma. Við bisum við að koma okkur upp góðum aðstæðum og uppgötvum okkur til talsverðar furðu, að börnin okkar vilja mun frekar eiga gæðastund með pabba eða mömmu en glás af peningum eða stórkostlegar aðstæður. Við puðum en gleymum kannski hinu mikilvæga – að vera.

Hvað viljum við? Viljum við kannski hafa veröldina eins og búð og stingum í körfu okkar því, sem okkur líkar best við. Jesús minnir á, að vera er það að vera vinur hans, eiga gott samband við hann og treysta trúnaðarbandið við hann. Viljum við það?

Ora et labora var sagt á miðöldum – biðja og iðja. Að vera í Jesúskilningi er það að innlifast Guði og afleiðingar af því eru altækar. Gera eða að vera? Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um. Hann hafnaði algerlega, að maðurinn þyrfti að gera þetta og hitt til að Guð elskaði fólk og opnaði himindyrnar. En skiptir þá engu hvað við gerum? Jú svo sannarlega. En röðin er þessi: Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er síðan að gera vel. Vertu og gerðu síðan. En ekki öfugt.

Að vera er að vera í essinu sínu, vera með sjálfum sér, tengja við lífið, opna fyrir undrum augnabliksins. Og þessi djúpa núvitund varðar helst og best að vera í góðu sambandi við Guð. Að vera Guðs er að vera sítengdur eilífðaranetinu. Þá fer lífið raunverulega í samband – ekki í samband við sýndarveruleika heldur við raunveruleikann, sem við lifum í og erum af. Þá er lífið gott og við berum ávöxt í lífi okkar. Afstaða elur siðferði. Vera fyrst og gera svo.

Amen.

Hallgrímskirkja 20. október, 2019.

Textaröð:  B

Lexía:  5Mós 10.12-14

Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.

Pistill:  1Jóh 2.7-11

Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Guðspjall:  Mrk 10.17-27

Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“

 

 

Ég um mig frá mér til mín

„Nei, ég trúi bara á sjálfa mig. Ég trúi ekki á neitt, sem er meira en ég sjálf.“ Hópur fólks var að ræða um trú og trúariðkun og ein spurningin var: „Trúir þú á Guð?“ Svarið var nei. Trúarafstaða fólks er með ýmsu móti en róttækust þegar fólk trúir bara á sjálft sig og ekkert stærra eða meira. Mörk trúar skipta máli. Líka á hvað við festum traust okkar og hvort eðlileg sjálfsást útiloki það sem er stærra en eigið egó. Ég um mig frá mér til mín.

Að trúa bara á sjálfan sig er afmarkandi afstaða og útilokar veruleika Guðs og lífs eftir dauða. Þetta er merkilega skýrt og afgerandi svar þeirrar lífsafstöðu, sem hríslast um allan hinn vestræna heim og er að eðlisbreyta hinni litríku og lífselsku veraldarnálgun hins kristna heims í allt annað en mannvinsamlega menningu. Því ég-menningin raðar gildum skýrt og klárt. Ekkert er einstaklingnum æðra, engin gildi sem þarf að taka mið af sem ekki varða “mig” eða “mitt”. Ég-menning er vefur einstaklingshyggju. Ég-menningin er skeytingarlaus um stórgildi sögu eða þarfa annarra. Guð er þessu fólki dauður, trúin óþörf, sem og listin og allt hitt sem einstaklingurinn kann ekki við eða speglast vel í prívatspegli sjálfsdýrkunarinnar. Viðmiðið er skýrt: Ég um mig frá mér til mín. Annað er plat, fake newseða óþarft.

Sjálfurnar

Fyrir nokkrun áratugun voru þau talin kjánar, sem voru bara upptekin af sjálfum sér. Að taka myndir af sér var talið skrítið. En nú eru selfie-stangirnar staðalbúnaður ferðafólks. Það sjáum við vel í og við Hallgrímskirkju. Sjálfufólkið tekur myndir af sér með kirkju, orgel eða altari í baksýn. Ferðalög margra eru eðins ferðir sjálfsins og umhverfið er fremur bakgrunnur en meginmyndefnið. Myndasmiðurinn er ekki lengur á bak við vélina heldur framan við og fremstur á myndinni. Ljósmyndarinn er í fókus og veröldin er í bakgrunni.

 Í textagerð er hliðstæð þróun. Þegar fólk skrifaði greinar í blöð eða tjáði sig opinberlega fyrir hálfri öld var sjaldgæft að fólk bæri einkamál á torg. Orðið ég mátti helst ekki koma fyrir í textum. En nú er það ég einstaklinganna, sem lætur gamminn geysa á samfélagssíðunum, í fjölmiðlum og í opinberri orðræðu. Til að segja sögu er ekki nóg að skrifa litríkan texta um eitthvað utan eigin ramma heldur er áherslan á eigin lífsreynslu og stýrir hvernig efni eru kynnt, hvernig efni er raðað og ritsmíð lokið. Ég um mig frá mér til mín.  

Lúkkið

Strákarnir – ekki síður en stelpurnar – standa við spegla heimsins og dást að sér og skoða lúkkið. Á heimilinum eru háð neyslustríð. Unga kynslóðin verður að kaupa nýju skóna, nýjastu búningana og vera á öldufaldi tískunnar. Annars er hætt við að þau falli gagnvart grimmu alvaldi einhverrar sjálskipaðrar tískulöggu, sem ekki leyfir neitt eldra en tveggja mánaða. Eldri kynslóðin tekur líka þátt í neyslu ég-menningarinnar. Spegill, spegill herm þú mér – er ég ekki flottur – er ég ekki smart? Útlit er sjálfufólkinu mikilvægara en innræti. Og því eru allar þessar umbreytingar á fólki, fegrunaraðgerðir og svo eru sýndartjöld sett upp á heimilum og í lífsferðum fólks. Sjálfhverfingin stýrir.

Narcissus

Fólk hefur um allar aldir verið upp tekið af sjálfu sér og misst sjónar á samhengi sínum, gildum og samfélagi. Grikkir sögðu t.d. sögu um Narcissus sem tákngerving sjálfsástarfólks heimsins. Örlög hans voru að elska aðeins sjálfan sig og engan annan eða aðra. Ég um mig frá mér til mín. Narcissus var svo hrifinn af spegilmynd sinni, að hann gat ekki slitið sig frá henni, verslaðist upp og dó. Vegna sjálfumgleði fólks í samtíma okkar og þar með skertrar samkenndar hefur uppvaxandi kynslóð verið kölluð narkissa-kynslóðin, sjálfukynslóðin. Vissulega hafa egóistarnir alltaf verið til, fólk sem þjónar helst eigin duttlungum og hagsmunum. Hin siðblindu eru verstu fulltrúar sjálfhverfunnar. Þegar menning Vesturlanda tekur sjálfhverfa u-beygju veiklast samfélagsgildin. Ég-menningin setur viðmið. Sannleikur er ekki lengur hlutlægur veruleiki þeim sem hugsa þröngt frá eigin sjónarhóli, heldur eitthvað sem þarfir einstaklinganna kalla á. Pólitískir loddarar halda fram að satt sé lygi og fake-news. Aukinn stuðningur við pólitíska öfgaflokka er einn liður þessarar þróunar. Guðstrú og trúarafstaða fólks breytist einnig. Það, sem ekki þjónar sjálfinu og uppfyllir einkaþarfir, er látið gossa. Sjálfusóttin getur verið jafn skefljalaus og fíkn og hefur líka skelfilegar afleiðingar í fjölskyldum þeirra, sem eru kengbogin inn í sjálf sig. Trúarstofnanir og menningarstofnanir lenda í svelg og týnast í glatkistu sögunnar.

Tengslin?

Ef fólk afneitar því sem er stærra en það sjálft tapast Guðstengingunni og heimsmyndin breytist. Að vera trúlaus er ekki það að efast, vera veikur í trúnni eða reiður Guði, þegar sorgin nístir og allt virðist mótdrægt. Nei, trúleysi er sú afstaða að maður sjálfur sé nafli heimsins, miðja alls sem er. Það er trúleysi að hafna að Guð sé Guð. Broddurinn í allri ræðu Jesú er: Hverju trúir þú? Heldur þú framhjá Guði með því að dýrka þig?”

Ég eða Guð

Hvar stendur þú og hvert stefnir þú? Trú er ekki aðeins mál framtíðar eða elliára heldur varðar núið. Guð er innan í þér, í náttúrunni, í fegurðinni, ástinni, lofsöngvum kristninnar, kærleiksverkum veraldar. Fyrir framan öllsem horfa í spegla heimsins og dýrka eigið sjálfer Guð sem horfir og elskar þetta fólk sem speglar sig. En Guð neyðir engan til gæfuríks lífs, opnar ekki framtíð og eilífð nema fólk virðiað lífið er meira en eigin nafli – og opni eigið sjálf. Maðursem er kengboginn inn í sjálfan sig og fókuserar bara á sjálfan sigsér ekki samhengi lífsins. Ég-menningin er menning andlegrar fátæktar og samfélagslegrar upplausnar. Ég um mig frá mér til mín er hraðvirkasta leið dauðans í þessum heimi.

Við erum mikilvæg í hinu stóra

Hver er grunngerð okkar? Allt fólk er hamingjusækið. Okkur dreymir um að fá að njóta lífsins. En til að draumurinn rætist verðum við að sjá okkur sjálf, kosti okkar og galla. Óraunsæ aðdáun á eigin snilli og lúkki er ekki nóg. Við þurfum þroskaða visku og agað raunsæi til að við öðlumst heilbrigða sjálfsmynd. Þroskuð manneskja hugsar um fleira en eigin þarfir. Tilveran er stærri en spegilsalur sjálfsins.

Kirkjan í heiminum er speglasalur himinsins. Guð horfir á okkur og vill okkur vel, gefur gildi og samhengi, lærdóm, list og fegurð til að njóta og samfélag til að lifa í og þjóna. Stærstu og glæsilegustu draumarnir eru í vitund Guðs, sem dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi söfnuður fólks njóti lífsins. Ég-menningin hrynur því hún er sjálfhverf fíknarmenning. En veröld trúarinnar varðar sannleika lífsins. Í veröld trúarinnar tekur fólk þátt í hinum raunverulega draumi Guðs um elskuna, um hamingjuna, vonina og lífið. Þar ertu elskaður og elskuð. Þar ertu raunverulega til og í raunverulegum tengslum. Ég um okkur frá veröld til Guðs.

Vegir Drottins

Hvað er trú og hvernig kemur hún fram? Hvernig er Guð? Hefur guðstrú einhver áhrif á siðferði fólks? Og ef svo er hvað gerir trúað fólk og hvernig bregst það við lífskreppum? Getur verið að trú sé stundum hindrum í samskiptum? Eða eru kreppur fólks fremur tengdar geðrænum sveiflum fólks en hugmyndum þess eða lífsskoðun? Það eru svona spurningar sem eru að baki þáttaröðinni, sem sýnd var í ríkissjónvarpsstöðum Norðurlanda haustið 2018. Sýndir voru tíu þættir í fyrri umferð, en sú seinni enn ekki verið sýnd á Íslandi, hvað sem verður.

Í Vegir Drottins er fylgst með litríkri en furðulegri prestsfjölskyldu í Danmörku. Ég þekki margar prestsfjölskyldur, íslenskar sem erlendar. Sumar eru skrítnar – en þessi prestsfjölskylda í Kaupmannahöfn er ólík öllum þeim, sem ég þekki. En dramatíkin verður nú að hafa eitthvað til að vinna með. Góð saga á ekki að líða fyrir sannleikann eða jafnvel trúverðuleikann. Og Vegir Drottins er ekki um raunverulega fjölskyldu og ekki heldur um danskt kirkjulíf. Heldur hvað?

Flest fer úrskeiðis í lífi Jóhannesar prests, fjölskyldu hans og söfnuði. Lestir mannanna eru fyrirferðarmiklir og talsverður skortur er á dyggðum. Fjölskyldufaðirinn er drykkjurútur, litrík týpa en bæði nærsýnn og þröngsýnn í guðfræði. Svo heldur þessi íhaldsami og sjálfumglaði karl framhjá konunni sinni. Þau eiga tvo syni sem eru ólíkir. Sá yngri er hlýðinn gæðadrengur sem tapar áttum, viti, ráði og rænu eftir að hann varð konu að bana í herþjónustu erlendis. Og hann deyr í lok tíunda þáttar, verður fyrir bíl og helst að skilja að sektin, sem hann bar, hafi orðið honum til dauða. Eldri sonurinn er vargur í samskiptum, en tekur þó sönsum þegar hann fer út fyrir kassa fjölskyldulífsins og opnar fyrir visku og húmor austursins. Svo er það mamman, sem hefur þjónað karli sínum og kerfum hans alla tíð. Hún hefur ekki hlustað vel á sjálfa sig fyrr en norsk tónlistarkona spilar upp tilfinningar hennar. Það dagar á prestsfrúna, að hún hafi bælt hneigðir sínar. Í dramatískri flækju þáttanna gerist margt og hraðinn er mikill. Stóru spurningar um lífið þyrlast upp. Hver er tilgangur með þessu lífi? Hvernig eigum við að lifa sem manneskjur? Hver eru tengsl mín við aðra? Hvað með Guð? Er Guð farinn, dáinn, úreltur? Eru vegir Guðs órannsakanlegir, þ.e. ófærir eða kannski óvæntir?

Um valdið sem brotnar

Í þáttunum verðum við vitni að því þegar djúptækar breytingar verða og gamall heimur hrynur. Jóhannes, fjölskyldufaðirinn, er tákn fyrir úrelt karla-valdakerfi. Það stenst ekki lífið, menningarlegan fjölbreytileika, breytt samfélag, innflytjendastraum og breytt samfélagsviðmið. Gamli presturinn stenst ekki siðferðilega, guðfræðilega eða félagslega. Hann bregst öllu og öllum, sjálfum sér, konu sinni, sonum og þar með Guði, sem hann notar sem einhvers konar vonaregó sjálfs sín. Og Jóhannes prestur er æpandi tákn, um úrelta valdastofnun trúmála og þegar dýpst er skoðað valdastofnanir almennt.

Trú?

Eru þættirnir um trú og Guð? Nei, ekki sérstaklega. En kirkja og trú kemur oft við sögu vegna þess að það er prestsfjölskylda en ekki forstjórafjölskylda sem er notuð til að tala um samfélagsbreytingar, gildaþróun og breytt lífsmynstur fólks, sem reynir á samskipti og tengsl. Þættirnir Vegir Drottins eru minna um Guð og trú en um fordóma og úrelt gildi, sem leiða fólk í ógöngur, siðferðiskrísur og samslátt gilda og hugmynda á breytingatímum vestrænna samfélaga. Stofnanir, og þar með talin kirkjustofnun, höndla illa að þjóna fólki í kreppum og á hraðferð í tilraunum með gildi. Tröppustofnanir þjóna oft fremur þörfum stjórnenda og eigenda en þörfum fólks. Kirkjur í hinum vestræna heimi mega gjarnan muna að yfirmenn, kirkjueigendur, hafa tilhneigingu til að nota stofnun í eigin þágu. Í þáttunum er trú túlkuð, sem flótti frá lífinu fremur en aflvaki lífs fólks í lífsbaráttu. Trú í þessum þáttum aðskilur fólk frekar en tengir saman í samfélag, sem er skilgreining kirkju. Trú í þessum þáttum lengir bil milli fólks og skaðar hið mannlega, sem er andstæða klassísks trúarskilnings kristninnar.

Aðalpersónan hefur einfeldningslega afstöðu til trúar, siðferðis og lífs. Hann lifir í aðskildum siðferðisheimum. Á góðum dögum getur Jóhannes prestur haldið smellnar ræður, en svo lemur hann fólk óhikað með þröngsýnum boðskap lífsfjarlægrar bókstafshyggu. Hann réttlætir alls konar bresti og eigin óra með trú og guðstengslum. Trúartúlkun þáttanna er því fremur sjúkleg en heilbrigð. Í prestsfjölskyldunni eru blóðböndin sterk þó allt sé í rugli. Allir hafa sínar þarfir og upplifanir, sem þó er ekki unnið úr. Þar er hreyfikraftur þáttanna. Þetta er lemstruð fjölskylda, sem passar að ræða ekki erfiðu málin og tabúin. Og kannski eru margar nútímafjölskyldur þannig. Fólk vill vel, vill vera gott við hvert annað, stendur saman á tímum áfalla en á erfitt með að höndla aðalmál lífsins og vinna í gegnum vandamálin.

Skíthælar

Vegir Drottins fjalla sýna hve fólk getur verið miklir skíthælar. Söguhetjur þáttanna eru sjúkar. Annar sonurinn, sem virðist góður, er morðingi. Hann deyr að lokum vegna brots, sem ekki var unnið með. Áföll í lífinu deyða. Hinn sonurinn snýr baki við trú og siðferði og verður sjálfhverfur notandi fólks. Honum er þó ekki alls varnað fremur en mörgum dólgum heims. Þættirnir fjalla um spillt vald, valdastofnanir og frekju fremur en um kærleika. Þó prestakraginn hafi verið hengdur á þessa þætti eru þeir um hið sammannlega en ekki sérkirkjulega.

Sýndarlíf og völd

Vegir Drottins sýna okkur sýndarmennsku marga í samfélagi okkar. Leikrit fólks, sýndargerningar, gagnvart öllum öðrum verða að halda áfram. Allir eiga og verða að leika sitt hlutverk samkvæmt stýrikerfi hins drottnandi stjórnanda. Og þegar þarfir vanhæfs stjórnanda og spilltrar stjórnar stýrir ferð fer illa. Vont vald spillir. Hið illa veldur böli og dauða. Fjölskyldan í þáttunum gæti verið hvaða valdafjölskylda sem er, peningafólk, eigendur fyrirtækis með marga í vinnu, pólitísk valdafjölskylda. Staða og vald spilla þegar eftirlit og ganrýni fær ekki að hreinsa vitleysu og spillingu. Prestar eiga trúnaðarsamtöl við fólk á ögurstundum lífs og vita að í öllum fjölskyldum er eitthvað rotið í pokahorninu. Margir burðast með stór og óuppgerð mál, sem grátið er yfir þegar mismikið elskaðir fjölskyldumeðlimir deyja.

Elskan mest?

Hver elskar mest? Það er eiginlega mamman. Hún elskar karlinn sem er ómögulegur, drengina sína sem eru um margt mjög misheppnaðir, hún elskar líka norsku vinkonu sína. Hún talar ekki stöðugt um Guð en þjónar í kærleika.

Sonurinn Ágúst er einfeldningurinn. Hann vill vel og hegðar sér vel. Reynir að þóknast en er veikur í ósjálfstæði sínu. Hann höndlar ekki sekt og vinnur ekki úr. Í þúsundasta lið… sekt kynslóðanna kemur fram í honum og á honum. Hann deyr vegna sektar sinnar en kannski annarra líka. Getur einn dáið fyrir marga? Ágúst er sem fulltrúi ungs fólks. Hann leitar að hlutverki en misskilur sjálfan sig, stöðu sína og hlutverk, og stendur utan við líf fólks.

Húmor og leikur

Mér hefur lengi þótt húmor fléttast um allt hið danska samfélag. Og hlýja kímni hefur oftast liðast inn í danskar kvikmyndir og þætti. En furðulegt nokk, það vantar alveg húmor í Vegi Drottins. Í starfi presta sem eru alltaf við mörkin, dauða og fæðingu, kreppur og stórhátíðr er hláturinn eins eðlilegur og hinn djúpi grátur. Samtöl verða því gjarnan snarpdjúp. Í kviku fólks er myrkur og ljós, reiði og hlátur. En í samtölunum í þáttunum eru flest samtöl yfirborðsleg og án sveiflu, dýptar og húmors. Það eru fáir prestar sem eru svoleiðis. Í þessum þáttum er heilmikið talað um Guð en mjög lítið um hvernig trú hefur áhrif á gott líf. Fjölskyldudramað stýrir öllu og svo er trú og Guð eins og uppfylliefni.

Þættirnir eru sjónræn veisla. Myndatakan er flott, myndmálið kraftmikið og flæðandi táknmálið vekur marga þanka. Stjörnufans danskra leikara kemur fram. Lars Mikkelsen er frábær leikari, en karlinn, sem hann leikur verður heldur leiðigjarn þegar á líður. Ann Elenora Jörgensen túlkar prestsfrúna vel á leið hennar út úr meðvirkni og til sjálfsvirðingar. Simon Sears er skemmtilega frakkur og sveiflar sér milli andstæðna manns í leit að sjálfi, heilbrigði og trú. Adam Price er óumdeilanlega meistari. 

 

Nr. 1 fyrsta boðorðið

Ef einhver brýtur af sér eða verður fyrir stórkostlegu áfalli – hvað er þá hægt að gera? Hvernig á að bregðast við ef allt fer í rugl á heimilum? Hvað er hægt að gera þegar hrun verður í þjóðfélagi? Hvað er vænlegast ef kreppur trylla stórar hreyfingar eða félög? Hvað gerir þú þegar eitthvað mikið gerist í lífi þínu? Þá þarf að stoppa, bregðast við af raunsæi og finna bestu útleiðina. Stundum þarf að taka u-beygju, viðurkenna vandann, iðrast og setja nýjar reglur.

Í stað þess að leggja út af guðspjalli dagsins munum við, prestar Hallgrímskirkju, íhuga boðorðin næstu vikurnar. Boðorðin eru einstök. Þau hafa verið milljörðum manna leiðbeiningar í þúsundir ára. Þau hafa verið kölluð umferðarreglur lífsins. Boðorðin eru dýrmæti – ekki aðeins trúmönnum, heldur eru þau líka þættir í siðfræði og siðferði heimsbyggðarinnar. Andi þeirra hefur mótað mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og haft áhrif á löggjöf, mannskilning, hugmyndir um réttindi og réttlæti og hvernig við skiljum rétt og rangt. Boðorðin hafa verið eins konar vegprestar við lagagerð og samtal um hið réttláta þjóðfélag. En hvert er gildi þeirra nú? Hafa þau gildi í nútímasamfélagi?

Fleiri lög eða innræti?

Í miðju efnahagshruninu fyrir rúmum áratug urðu deilur um leiðir út úr vandanum. Margir töldu, að skerpa yrði löggjöf og gera nýja stjórnarskrá til að fyrirbyggja hörmungar í framtíð. Jón Sigurðsson, sem um tíma var formaður Framsóknarflokksins, sagði þá að endurskoðun laga væri ekki sjálfgefin lausn vandans, en það myndi hjálpa ef fólk færi bara eftir boðorðunum! Það er þörf ábending. Það er ekki nóg að setja góð lög ef fólk er ósammála anda þeirra og fer ekki eftir þeim.

Hvaða skoðun hefur þú á boðorðunum? Telur þú, að ef fólk lifir í anda boðorðanna megi vænta góðra mannasiða og blómstrandi þjóðfélags?

Manstu fimmta boðorðið og manstu kannski alla röðina? Fyrstu þrjú boðorðin varða afstöðu manna til hins guðlega, en sjö seinni orðin eru um mannheim. Boðorðin eru í heild á tveimur stöðum í Biblíunni, í annari Mósebók tuttugasta kafla og síðan í fimmtu Mósebók í fimmta kafla. Og kaflarnir eru ólíkir.

Boðorðin eru sett inn í söguframvindu eyðimerkurgöngunnar, en þau endurspegla lífshætti borgarsamfélags en ekki siðfræði og siðferði umreiknandi hirðingjaflokks. Boðin eru hluti af regluverki þjóðar og eins og við vitum þarf heilbrigt þjóðfélag samfélagssáttmála, leikreglur um samskipti og úrlausn mála. Þessi fáu boðorð eru aðeins nokkur af miklum reglubálki hebresku þjóðarinnar. Og reglurnar, sem þeir settu sér, eru raunar mörg þúsund. Það er ekki aðalatriði, að þú munir hvort bann við morðum sé á undan eða eftir banni við hjúskaparbrotum. Það er ekki aðalatriði að þú þekkir, munir eða skiljir þessi boð, heldur að andi þeirra móti til góðs og verði innræti þitt.

Kristnir menn hafa um aldir kennt, að boðorðin séu mikilvæg en þó ekki skuldbindandi reglur. Lög, boð og skyldur eru ekki miðja eða höfuðatriði kristins átrúnaðar heldur Guð. En gruflandi trúmaður spyr hins vegar um afleiður sambandsins við þennan Guð, sem alltaf er túlkaður sem guð réttlætis og umhyggju. Trú er tengsl við heimshönnuðin og því er eðlilegt að spurt sé hvernig kerfið, sem þessi Guð hefur skapað, virki best. Trú er aldrei tæki í þágu eigin dýrðar, heldur samband við Guð. Guð er ekki sjálfhverfur heldur tengslavera, sem elskar. Þar með er gefið, að trú mótar siðferði, trú hvetur til réttlætis og trú kallar á siðfræði. Trú varðar allt líf einstaklings, þjóðfélags og náttúru, stjórnmál, samskipti á heimili, uppeldi og skólamál. Trú er ekki sprikl í mórölskum möskvum, heldur afstaða sem elur af sér mannskilning, heimsskilning, náttúrusýn, friðarsýn og allt mögulegt annað varðandi tengsl við fólk og gildir einu hvaða trú eða kynhenigð það hefur eða hvernig það er á litinn. Auðvitað er atferli trúmanna með ýmsu móti og ekki allt gott. En trúin verður ekki dæmd af mistökum, frekar en góð löggjöf af glæpamönnum, eldur af brennuvörgum eða þjóðir af áföllum. Afstaða Jesú til boðorðanna er til fyrirmyndar.

Jesús Kristur hafði afslappaða frelsisafstöðu gagnvart reglum. Jesús benti á, að lífið þjónar ekki reglum heldur þjóna reglur lífinu. Þannig ætti að nálgast lög, form og kerfi manna, líka boðorðin. Jesús áleit, að aðalreglurnar væru um mannvirðingu og Guð. Hann bjó til tvöfalda kærleiksboðið, sem er eiginlega samþjöppun hans á öllum boðorðunum. Hvernig er það nú aftur? Tvöfalda kærleiksboðið fjallar um að elska Guð og elska fólk og það hljóðar svo: “Elska skalt þú, Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, og öllum huga þínum. … og náunga þinn eins og sjálfan þig.”

Þetta er hin elskulega útgáfa og túlkun Jesú á boðorðunum. Annars vegar uppstefnan og hins vegar þverstefnan. Krossinn er tákn þessa boðs. Elska til Guðs er himinstefna og himintenging hins trúaða eins og langtréð eða uppstólpinn. En trúin er einskis virði nema að hún bæti líf og hamingju fólks, einstaklinga og samfélags. Það er þvertréð á krossinum. Og í samtíð okkar hefur komið í ljós að ef við erum ekki rótfest í heilnæmri náttúrutengingu förum við villur vega, mengum og deyðum. Trú, sem aðeins varðar stefnu inn í eilífð, er á villigötum. Trú, sem aðeins sér menn, hefur tapað áttum. Guð og fólk, Guð og veröld – allt í senn og samfléttað. Þegar þú sérð kross + máttu muna Guð, menn, nátttúru og að Guð elskar þig og alla veröldina. Og andsvar þitt við þeirri elsku er, að þú mátt elska Guð, veröldina og mennina þar með.

Guðselska eða I-god

Hvernig var aftur fyrsta boðorðið? Það hljóðar svo: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þetta hljómar einfalt, en er þó snúið. Letingjar veraldar forðast alltaf þetta boðorð. Ísraelar bjuggu til gullkálf og allir menn hafa tilhneigingu til að búa sér til sinn eigin smáguð, sitt eigið guðsríki. Sumir trúa blint á flokkinn sinn, aðrir lúta fíknarguðinum. Fæðufíkn, neyslufíkn nær tökum á mörgum. Margir óttast svo yfirmenn sína, flokksræðið og alls konar harðstjórnir, að menn tapa áttum, hugrekki og heilindum og litlir hjáguðir verða einræðisherrar. Síðan er sjálfsdýrkun í ótal útgáfum, sem er algengasta hjáguðadýrkun í okkar heimshluta.

Það er I-godeða ég-um-mig-frá mér-til-mín-afstaðan, sem á sér síðan ótal spilingarútgáfur. Þessi smáguðaafstaða er það, sem er drifkraftur spillingar í vestrænum samfélögum. Stærsta hrun síðustu ára Íslands er ekki fjármálahrun eða bankahrun heldur siðferðishrun. Það hrun er einstaklingum, félögum og samfélagi eins og illvígt innanmein, sem hefur búið um sig í leynum og lengi, menningarmein sem dregur til dauða ekki bara fólk heldur líka lífríki náttúrunnar.

Ef við, sem einstaklingar, komumst ekki út úr okkar eigin smáveröld verðum við sjálfsblekkingu að bráð og sérstaklega um eigið ágæti og eigin snilli. Og sjáum þá ekki að veröldin er stærri en mannheimur og við höfum stærra og merkilegra hlutverki að gegna en bara í okkar smáheimi. Hlutverk okkar er að þjóna, ekki bara að sjálfum okkur – heldur líka öðrum. Fyrsta boðorðið merkir, að ég verði ekki raunverulegt ég nema Guð sé þar, fái aðgang að sjálfinu og hjáguðirnir fari úr hásætinu. Viskan er: Ef litlu guðirnir fá of mikið vægi veiklast líf og lífsgæðin spillast. En ef Guð fær að vera miðja sjálfs og lífs þá getur sjálfið lifað vel, guðsflæðið virkað rétt og samfélag manna, þjóðfélagið, græðir stórlega. Guð og gildi fara saman.

Öll könnuðumst við að hafa ruglast á röð boðorðanna. Það er í góðu lagi því það er andi boðorðanna sem er aðalmálið. Takmarkið er, að þau verði okkur töm, að við temjum okkur inntak þeirra, þau verði innræti okkar, mynstur sálarinnar, sem stýrir viðbrögðum okkar í lífinu.

Mannasiðir

Hvaða grunn þörfnumst við undir byggingu samfélags, menningar og samskipta? Hvers konar leikreglur þarf að setja? Hvaða gildi viljum við að stofnanir og skólar þjóðarinnar hafi? Þegar dýpst er skoðað – hvers konar gildi viljum við og hvers konar mannasiði? Fyrsta orðið er upp, þvert og niður. Nær til alls sem er í þessari veröld og er til góðs. „Ég er Drottinn Guð þinn … þú skalt ekki aðra Guði hafa.“  

(Myndina sem fylgir tók ég á Jakobsveginum – á leiðinni til Santiago de Compostella. Vegvísarnir eru margvíslegir. Þessi vegprestur var fagur og boðorðin eru fögur. )

 

Af hverju er Guð ekki í tísku?

Ég talaði við vinkonu mína í vikunni. Hún sagði mér að hún hefði farið að bera kross um hálsinn og hefði fengið harkaleg viðbrögð við þessum krossburði. Nánast verið skömmuð, eins og hún hefði gert eitthvað rangt! Viðbrögðin hefðu verið slík að hún hefði farið yfir mörk vina sinna. Kross hennar vekti álíka viðbrögð eins og hún væri múslimakona með búrku! Kross, sem tákn, allt í einu óleyfilegur? Er trú jaðarsett? Er fólk sem staðsetur sig innan kristinnar trúarhefðar allt í einu orðið geislavirkt – menningarlega hættulegt? Trú sem nútíma líkþrá? Eru syndir klerka og trúmanna slíkar að vinsældir Guðs hafi hrapað og fólk, sem merkir sig sama trúartákni og er í þjóðfánanum sé jaðarsett? Vinkona mín brást við áreitninni með því setja á sig annan kross í viðbót. Hún ber því tvo krossa!

Merkingarferð í opnu rými

Eitt er trú einstaklings og annað opinber staður. Hallgrímskirkja er ekki á jaðrinum heldur í miðju borgarlífs og líka logó Reykjavíkur og túrisma. Kirkjuturninn er táknmynd um uppstefnu alls sem íslenskt er. Á hverjum degi kemur fjöldi fólks í kirkjuna, raunar þúsundir. Þetta fólk kemur ekki aðeins af því kirkjan er ferðamannastaður, ljóshús eða hreinn helgidómur með bjartan hljóm. Það kemur ekki aðeins af því að hér eru listaverk, gott orgel og fínn útsýnisstaður. Flestir koma vegna þess að þetta fólk er á ferðalagi – á lífsleið hamingjunnar. Og slíkt ferðalag varðar ekki aðeins skemmtilegar upplifanir eða fallegt umhverfi, heldur það sem rímar við djúpa þrá hið innra. Þetta sem trúmenn hafa kallað hið heilaga og aðrir merkingu eða tilgang lífsins.

Á hverjum degi sest fólk niður í kirkjunni til að njóta kyrrðarstundar. Margir íhuga og biðja, flestir hugsa um líf sitt og sinna. Margir fara svo og kveikja á kerti, koma fyrir á ljósberanum og biðja bæn. Hallgrímskirkja er eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heimsins er mat the Guardian. Hér er gott samband – í allar áttir, til hliða, inn á við og út á við. Og við trúmenn vitum að hér er ekki aðeins gott samband við innri mann heldur frábært samband við Guð. Þetta er heilagur staður.  

Hvað er heilagt?

Hvaða hugmyndir eða skoðanir sem við höfum um Guð og trúarefni eigum við öll löngun til þess sem er heilt, friðsamlegt, viturlegt og lífgefandi. Það er þráin eftir hinu heilaga. Þar hittir Guð okkur.

Ég hef mætur á rithöfundinum Karen Armstrong sem hefur skrifað af viti og þekkingu um trúarbrögð, vanda þeirra og vegsemd. Í bókinni Jerusalem, one city, three faiths ræðir hún m.a. um að meðal okkar, Vesturlandabúa, sé Guð kominn úr tísku. Af hverju? Jú, í viðbót við makræðið og efnishyggjuna hafi of margir trúmenn verið slæmir fulltrúar Guðs, notað Guð til að réttlæta eigin geðþótta, eigin vilja, þarfir, pólitík og hernað. Reynt að hagnýta sér Guð. Trúmenn hafi komið óorði á Guð. Þeirra vegna hafi Guð hrapað á vinsældalistanum. Og við getum bætt við – vegna frétta liðinna vikna – að prestar og áhrifamenn í menningarlífi – hafa gerst sekir um skelfilega glæpi, m.a. ofbeldi gegn börnum. Þeir hafa komið óorði á Guð, átrúnað og trúfélög. En þrátt fyrir að spilltir prestar séu til, illskan teygi sig víða og Guð fari úr tísku heldur manneskjan þó áfram að leita að hinu heilaga.

Armstrong bendir á, að allir menn leiti að hinu stórkostlega í lífinu. Margir reyna eitthvað einstakt í náttúrunni, aðrir eigi sínar stærstu stundir í faðmi ástvina. Listin er mörgum uppspretta unaðar. Allir leita að samhengi, sátt, að því sem sefar dýpstu þrá hjartans og veitir samhengi fyrir líf, þerrar sorgartárin og veitir tilgang. Þetta er það sem margir kalla hið heilaga.

Og hvernig sem trúfélögum reiðir af og Guð fellur á vinsældakvarðanum geta menn aldrei slitið þörfina fyrir heilagleikann úr sálinni, eytt strikamerki hins heilaga úr anda sínum. Ef myndin af Guði hefur orðið smærri í samtímanum vegna mannlegrar spillingar brýtur mannsandinn þó ávallt af sér fjötra og leitar hins stórkostlega. Við leitum alltaf út fyrir mörk og skorður. Við þolum ekki fangelsi hins lágkúrulega, segir Armstrong. Og þetta heillar guðfræðinginn í mér: Hið heilaga er heillandi. Við megum gjarnan spyrja okkur gagnrýnið: Er Guðsmynd okkar of smá? Eru kreddur okkar til hindrunar? Erum við of lítillar trúar? Viljum við frekar hafa Guð í vasanum, en að opna fyrir stórkostlegum Guði, sem gæti ógnað eða sprengt heimatilbúið öryggi okkar og smáþarfir?

Guð á ferð

Efasemdarmenn aldanna hafa haft nokkuð til síns máls. Við náum aldrei að galopna sálar- og lífsgáttir okkar nægilega mikið gagnvart veru og merkingu Guðs. Mál okkar megnar ekki að lýsa Guði nema með líkingamáli sem stækkar skynjun, en nær þó aldrei að lýsa fullkomlega hinu guðlega. Engin kirkja, kirkjudeild eða átrúnaður megnar að umfaðma algerlega hið heilaga. Hið heilaga er alltaf meira, hið heilaga er alltaf í plús. Kannski er erindi okkar trúmanna hvað brýnast að fara að baki Guði – þ.e. okkar eigin túlkunum og til hins heilaga? Það merkir að fara að baki einföldum hugmyndum og kenningum og opna – svo hinn heilagi fái að snerta okkur í líkþrá huga eða líkama okkar. Og Heilagleiki Guðs færir sig um set þegar trúmenn bregðast og spilling læðist inn í huga fólks og musteri. Guð er ekki fasteign kirkjunnar – heldur Guð á ferð, lifandi Guð.

Og nú ert þú á ferð? Hvað er þér heilagt? Og hver er vandi þinn? Meistari, miskunna þú oss kölluðu hin sjúku í texta dagsins. Þegar þú biður um hjálp, leitar að merkingu, opnar og kallar í djúpum sálar þinnar ertu á heilögum stað, í heilögum sporum. Krossar eða ekki krossar, kirkjur eða ekki kirkjur, gamlar hugmyndir eða nýjar – Guð er þar sem fólk er, púls sköpunarverksins. Heilagleiki Guðs hríslast um veröldina, guðlaus maður nær líka sambandi. Vinsældafall Guðs hefur ekkert með Guð að gera heldur fremur flekkun manna. Guð er ekki fortíð og stofnun heldur framtíð og líf. Það erum við, sem köllum á hjálp en ekki Guð. Guð er ekki háður mönnum heldur menn Guði. Erindi Jesú varðar mannelsku, að Guð elskar, styður, hjálpar. Guð er alltaf lífsmegin – nærri okkur öllum.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 2. sept. 2018. Norrænar Maríusystur í kirkju ásamt söfnuði.