Greinasafn fyrir merki: þrenning

Tveir metrar – minna eða meira?

Hvað megum við hleypa fólki nærri okkur á þessu COVID-tíma? Hversu mikil má nándin vera? Þessa dagana ríkir óvissa um hvernig fólk á að heilsast og kveðja. En við erum flest hætt að rjúka á fólk til að faðma og kyssa. Og við reynum að halda tveggja metra fjarlægð. En svo er fjarlægðarreglan að linast. Margir stökkva óhikað í kösina í heitu pottunum. En þrátt fyrir þennan slaka gildir fjarlægðarreglan þó enn þar sem líf liggur við, t.d. í lyfjabúðum og lífshúsum kirkjunnar. Við Hallgrímskirkjufólk reynum að tryggja að þau geti komið til kirkju sem vilja og líka verið viss um að geta haldið sig í tryggri fjarlægð frá öðrum.

En hin menska tveggja metra regla er eitt, en svo er nánd Guðs allt annað. Guð er ekki háður reglum almannavarna. Guð er ekki langt í burtu heldur innan tveggja metranna, innan við skinnið á okkur, líka innan við líffæri, hugsanir og tilfinningar. Guð er innar en innræti okkar, nær okkur en bæði meðvitund og undirmeðvitund. Guð er hin eiginlega nánd. Guð smitar ekki heldur er uppspretta lífsins.

Sannleiksandinn og huggarinn

Textar dagsins er um náin tengsl Guðs og manna. Til að skýra merkingu nándar talar Jesús um Anda Guðs. En hvers konar andi er það? Jesús kallar hann sannleiksanda og segist senda hann. Hann bætir við, að hann sendi hann frá föðurnum. Hver eru þá tengsl Jesú Krists og Guðs föður? Hvernig hugsaði Jesús um samband þeirra? Væru þeir eitt? Já, en hvað merkir það?

Jesús kallar Andann líka huggara. Hvað merkir það hugtak? Gríska orðið að baki er parakletos(παράκλητος). Það þýðir m.a. verjandi, sbr. lögmaður fyrir rétti sem ver sakborning. Þess vegna segja amerískir prestar gjarnan lögfræðingabrandara í prédikun út af texta dagsins. Svo getur orðið parakletos líka merkt leiðtoga, slíkan aðila sem blæs hug og þori í brjóst þeirra sem eru í sama liði. Slíkur er eins og fyrirliði eða leiðtogi, sem eflir liðsandann, kallar til fylgis og árangurs. Andinn er því bæði í sókn og vörn – og alltaf til sigurs fyrir líf og fólk.

Fólk segir stundum: „Ég trúi á Guð en skil ekki þetta með þrenninguna.“ Vissulega eru hugmyndir aldanna um þrenninguna flóknar. Og stundum hefur þrenningarkenningin verið svo nördalega túlkuð, að fólki hefur þótt kenningarnar bara flækjast fyrir aðalmálinu, guðsnándinnni, trúnni. Þegar mest hefur gengið á hafa sprottið fram hreyfingar í kristninni vegna mismunandi túlkunar guðseigindanna. Sumir hafa jafnvel talið, að Jesús talaði um Heilagan anda sem Jesú nr 2, sem myndi koma á eftir númer 1. Og slíkar túlkanir teygja sig yfir í Islam. Múslimar kenna t.d. að huggarinn sé annar fulltrúi Jesú, sem þeir síðan tengja við spámanninn Múhammeð.

Birting og þrenning

En kristnir menn hafa aldrei talið, að huggarinn yrði guðsbirtingur, avatar, einn af mörgum guðsfulltrúum, né heldur að nýir frelsarar kæmu, nýir Jesúsar. Í kristninni er ekki trúarlegur glundroði varðandi Jesú. Hann er einstakur, Andinn er einstakur, faðirinn er einstakur og tengsl þeirra væru best túlkuð sem eining.

Auðvitað vöknuðu spurningar um röðun, mikilvægi, jöfnuð eða valdskiptingu vídda Guðs. Til að skýra innri tengsl guðdóms kristninnar var notað leikhúsmál. Guð væri einn, en kæmi fram með mismunandi hætti, setti upp mismunandi grímur sbr. það sem gert var í leikhúsum til forna. Í þeim leikhúsheimi táknuðu grímur persónur, enda var heitið persona notað um þessar andlitsskýlur. Og vitundin um eitthvað framan í fólki skerpist svo sannarlega á þessum tíma þegar andlitsgrímur eru að verða staðalbúnaður. Á miðöldum þurfti að þýða þessa grímu-persónu-túlkun úr grísku og latínu vestrænnar kristni og yfir á þjóðtungur. Þá var t.d. orðið persona þýtt á íslensku með orðinu grein. Þess vegna segir um guðdóminn í helgikvæðinu Lilju: „Eining sönn í þrennum greinum.“ Einn Guð, en í mismunandi persónum. Guð væri eining en kæmi fram í mismunandi birtingarmyndum.

Mismunandi tíðir og þarfir hafa sem sé leitt fram mismunandi túlkanir. En guðshugtak kristninnar er breitt, hátt og djúpt. Hið ríkulega guðshugtak kristninnar er ekki til óþurftar, heldur hefur það merkingarplúsa, dýptir sem hafa komið til móts við þarfir hvers tíma. Guð er alltaf meira en það sem skerðingar manna benda til.

Í langan tíma hafa nýjar þarfir og áherslur verið að þroskast í heimsbyggðinni. Einhæfingar fjölmiðlunar og yfirborðsleg auglýsingamennska nútímasamfélaga þjóna ekki vel djúpþörfum fólks. Í guðfræði, kirkjulífi og lífi heims er kallað á návist og tilfinningu fyrir tilgangi og merkingardýpt, sem ég túlka sem þörf fyrir návist Guðs. Og íslenskur almenningur er opinn fyrir að túlka reynslu í náttúrunni sem merkingarbæra, trúarlega reynslu. Fólk segir stundum við okkur prestana að það hafi farið í náttúrukirkjuna. Fundið fyrir Guði í grjóti og titrandi, tárvotum smáblómum háfjallanna. Sem sé Guð sé í gaddavírnum og klettakirkjum rétt eins og í kirkjuhúsunum.

Það er mikilvægt að opna fyrir, að Andi Guðs sé alls staðar. Heilagur andi tengist ekki aðeins tilfinningum, reynslu í helgihaldi eða hrifningu einstaklinga á listviðburðum, heldur er Andinn nærri þegar við verðum fyrir sterkri reynslu í samskiptum við fólk eða hefjum augu til fjalla, jökla, fossa eða skynjum leik birtu. Andi Guðs er öko-andi. Jesús er parakletos allrar náttúruverndar. Andinn vekur reynslu og eflir fólk til að græða sár náttúrunnar. Margir kristnir eru ekki aðeins sannfærðir um að náttúran sé heilög, heldur sé best að tala um hina sköpuðu veröld sem líkama Guðs. Sem sé, heilags-anda-guðfræði varði ekki bara persónulíf okkar hið innra, heldur líka náttúruvernd, pólitík, samfélagsþróun og blómstrandi kirkjulíf – af því allt er í Guði.

Breytingarskeið

Erindi kirkju og guðfræði er að mæta djúpþörfunum og túlka nánd Guðs í splundruðum og ráðvilltum heimi. Áföll í samfélögum manna, náttúrumengun og aukin vitund um getuleysi ráðakerfa heimsins er að ala af sér nýtt skeið í menningu veraldar. Á breytingatíð megum við að þora að stækka alla okkar trúaríhugun. Kirkjulíf heimsins er að breytast og guðfræði er þróast. Stóru kirjudeildirnar sem leggja áherslu á form hafa veiklast og eru að tæmast. Kall fólks varðar inntak, merkingu og nánd. Kirkjan, guðfræði og prédikun sem og starfshættir eiga að svara raunverulegum þörfum fólks sem og málum menningar og náttúru. Þegar fjarlægð vex á milli fólks, tortryggni vex í menningu og samskiptum vex skynjunin um Guð sem hina hreinu nánd.

Merkir þetta, að við þurfum að breyta kirkjustarfi okkar til að svara kalli tímans og líka svara kalli Anda Guðs? Já. Boðskapur og erindi dagsins er að Jesús Kristur sendir huggarann, anda sannleikans, nánd Guðs. Guð er í sókn og vörn. Við þurfum að gæta að metrum og heilbrigði, en Guð er komin lengra og kallar okkur til starfa í lífsvinsamlegu guðsríki.

Amen.

Prédikun á 6. sunnudegi eftir páska, 24. maí, 2020

Textaröð:  A

Lexía:  Esk 37.26-28

Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

Pistill:  1Pét 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall:  Jóh 15.26-16.4

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi. Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.

Dansandi Guð

Vegna prestsstarfanna hitti ég margt fólk, sem segir mér sögu sína. Enginn hefur sagt mér, að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin, sem skiptu mestu máli á æfi þeirra. Ég hef ekki hitt neinn, sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Margir hafa reyndar sagt að það hafi verið í átökum og sorgardölum sem viskan hafi vaxið. Sigurður Nordal óskaði ungu fólki baráttulífs. Ég tala við fólk þegar það kemur með börnin sín til skírnar, hitti fólk á krossgötum lífsins sem þarf að vinna með áföll eða þegar eitthvað bjátar á, þegar það er undirbýr athafnir stórviðburða lífsins og þegar það kveður ástvini. Það er heillandi að heyra sögur fólksins. Og því oftar sem ég horfi í augu þeirra sem segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég um, að þær eru ástarsögur. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. Fá þeirra hafa sloppið við mikil áföll. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Aðeins þau er elska geta syrgt. Ekkert okkar sleppur við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð. Hvað er það sem gefur lífinu merkingu og gerir það þess virði að lifa því? Svarið er: Ástin – kærleikurinn. Við þörfnumst þess að vera séð, metin og elskuð.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef fólk lifir stutt, kannski aðeins til unglingsára er þá líf þessara unglinga lítils virði? Er stutt líf svo lítils virði að best hefði verið að barnið eða unglingurinn hefði aldrei lifað? Hvað þarftu að að reyna í lífinu til að vera sáttur eða sátt við líf þitt? Er langt líf meira virði en stutt? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk glímt við þessar spurningar. Aristóteles og sjáendur Gamla testamentisins einnig. Nikódemus spurði. Jesús Kristur talaði um þá spurningu og svaraði með ýmsu móti. Og við komust ekki undan því að bregðast við henni, jafnvel þó við reynum okkar að forðast hana.

Guðsástin

Í tilfinningum og sögum manna getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En í þeim getum við líka séð meira. Ef við setjum upp trúargleraugun getum við greint ljósbrot þeirra geisla sem Guð sendir um veröldina. Í ástaratolotum manna og orðum eru brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð. Við erum elskuð.

Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg. En við megum gjarnan stækka þá spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almenna guðsmynd heldur líka setja inn þarfir Guðs, tilfinningar og verðandi Guðs. Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Það er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?

Elskuþrennnan

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum ekki né megnum að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn, gleðitjáning eða ástarjátning.

Hinar fornu trúarjátningar tjá, að guðdómur kristinna manna sé þrenning, þrjár verur í einingu, faðir, sonur og heilagur andi. Mismunandi tímar hafa lagt í þær persónur mismunandi skilning og mismunandi hlutverk. Þessa kosningahelgi finnum við til að við tilheyrum samfélagi. Við erum í tengslum. Og eins er það með hið guðlega. Guð er Guð samfélags, Guð félagsfjölbreytni, lifandi samfélag persóna í elskuríkri sambúð, í skapandi dansi kærleikans. Faðir, sonur og heilagur andi lifa í hver öðrum, sem sjálfstæðar og frjálsar verur, en þó sameinaðar í elsku og þar með á dýptina. Til forna var dans talinn best tjá innra líf Guðs og samskipti vera guðdómsins. Það er heillandi að leyfa danstaktinum að einkenna trúarlíf nútíma. Við þurfum meiri dans í trú fólks og líf kirkjunnar.

Af hverju varð Guð maður? Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt, hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli eilífðar? Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú ert í blindgötu? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei, heldur opnar, hrífst, leitar tengsla, viðfangs og faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni og dansi samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar.

Þegar við rýnum í rit Biblíunnar er þar sögð saga um guðselskuna, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Ástarsaga Guðs. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem stórkostlega ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegum dansi? Í öllu getum við greint – ef við þorum að horfa róttækt – ást. Við megum sjá Guð í ástarsögum heimsins, þinni ástarsögu líka. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Hvað gerir líf þitt þess virði að lifa því? Kemur Guð við þá ástarsögu? Ástin Guðs föður, kærleikskraftur Sonarins og lífsmáttur Heilags Anda sé með þér. Amen.

A summary of the sense of the sermon. What does make the life worth living. One of the benefits of being a pastor is being close to people and I hear a lot of stories, lifestories. The more I hear I do interpret the stories as love-stories. The conclusion of all the listening is that we human beings are love beings. If we use that insight into thinking about God we may comprehend that God enters into this corner of the cosmos because of love. Christians in earlier ages wondered what image of the godhead would be a fitting one. They thought of dance as the best one. If God is love and dance is the best image that also helps us to to grasp the meaning of our own being and love-story. Are you willing to open up to a dancing and loving God? Are you willing to open up closed corners of your love-life? Are you a member of the love story of the world?

Hallgrímskirkja, trinitatis, 27. maí, 2018.