Greinasafn fyrir merki: takk Íslendingar

Íslenskur ættarhringur og ástin sem lifir

Kona sem ég þekki var á leið í leigubíl frá Friðriksbergi í Kaupmannahöfn út á Kastrupflugvöll. Bílstjórinn spurði hvert hún væri að fara. „Ég er að fara til Íslands“ svarði hún. Þá sagði leigubílstjórinn og lagði tilfinningu í: „Ég á Íslendingum allt að þakka, hamingju mína.“ Svo sagði hann konunni á leið til Íslands sögu sína. Hann hafði komið til Danmerkur sem erlendur innflytjandi og kynnst innlendri stúlku sem var af “góðum” dönskum ættum. Þau urðu ástfangin en foreldrar hinnar dönsku konu höfðu ekki trú á sambandinu og gerðu unga fólkinu erfitt fyrir. Að lokum flýðu þau og tóku með sér tjald því þau höfðu ekki í nein hús að venda. Þau ákváðu að fara í rólegheitum yfir mál og möguleika. Þau reistu tjald sitt á tjaldstæðinu í Kolding. Þar voru þau þegar íslensk hjón gáfu sig að þeim og töluðu við þau. Unga parið treysti þeim og sagði þeim frá vanda sínum. Íslendingarnir hlustuðu og skildu kreppuna og að þau voru á flótta. Allt sem þau áttu var ást og von um að fá að lifa sem par. Á þriðja degi kom íslenska konan til að kveðja. Hún sagði þeim að hún hefði trú á þeim og ást þeirra og hún ætlaði að gefa þeim ættargrip sem væri heillagripur fjölskyldu hennar. Það væri hringur sem amma hennar á Íslandi hefði hefði átt. Svo dró hún þennan vonarbaug á hönd hinnar dönsku konu sem var djúpt snortin af þessari blessun og trú. Leigubílstjórinn sagði að þessi gjörningur og stuðningur hefði styrkt þau í trú á að ást þeirra gæti lifað þrátt fyrir mótlætið. Og þau væru nú búin að búa saman í tuttugu ár og eignast þrjú börn.

Þetta er ein af sögum heimsins, saga um ást, von og trú. Þetta er góð saga og minnir á samband Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur, saga um erfiðleika en líka lífsundur. Kristnin er átrúnaður hins jákvæða og að lokaðar dyr má opna. Sá Guð sem Jesús Kristur opinberaði er Guð hins góða og lausnar. Ástin tengir og trúin eflir. Koldingsagan minnir okkur á að loka ekki á “hina” og þau sem eru “óæskileg” heldur opna. Öll erum við jafngild og öll elskar Guð. Ömmuhringurinn frá Íslandi er enn á fingri hinnar dönsku konu.

Veistu hver þau voru, þetta gjafmilda íslenska par? Ef eitthvert ykkar veit um hvaða Íslendingar voru í Kolding og gáfu ungu ástföngnu fólki trú og von væri gaman að fá upplýsingar eða ábendingu.

Myndin (sem ég tók á safni í Þýskalandi) er af hring Katharinu von Bora, konu Marteins Lúthers. Þau eru eitt af mörgum pörum sem bundust ástarböndum þvert á vilja ráðandi aðila og kerfa.