Greinasafn fyrir merki: Svanfríður Kristjánsdóttir

Dýrustu kartöflur á Íslandi

Þjóðviljinn flutti eitt sinn þá frétt, að kona í Vesturbænum ræktaði dýrustu kartöflur á Íslandi. Konan var mamma og Þjóðviljinn birti mynd af garðinum á dýrmætri byggingarlóð. Verktakar og lóðaþurfandi framkvæmdamenn komu svo og vildu kaupa. Pabbi vísaði þeim brosandi á mömmu. Svo hringdu aðrir og spurðu hvort þeir gætu ekki fengið þessa óbyggðu lóð? Og enn vísaði pabbi á mömmu með kímni í augum. Þar fengu framkvæmdamenn heimsins fullkomlega skýr svör. Nei, þeir gætu ekki fengið þessa lóð af því að hún væri notuð til kartöflu- og kálræktar. „En hættið þið ekki bráðum þessari garðrækt?“ „Nei“ sagði mamma ákveðin. Það var alveg sama hvað skynsemi heimsins spurði um, hvað fjármálamennirnir buðu og hvað praktískt hyggjuvitið bar upp. Lóðin á Tómasarhaga 18 var ekki fyrir byggingu af steinsteypu og járni, heldur viðkvæmar byggingar jurta sem nutu verndar, athygli, ástúðar og elsku mömmu.

Nokkrir krakkar í götunni sögðu: „Mamma þín er skrítin því hún ræktar kartöflur. Getur hún ekki keypt þær úti í búð eins og mömmur okkar?“ Þegar við bárum upp þessi eineltisefni setti mamma son sinn og dóttur á stól og skýrði málið. Hún skýrði út að margt fólk héldi að moldarvinna væri ekki fín. En því miður hefði það bara ekki skilið meira eða betur en þetta. Hún væri að rækta því hún væri ræktunarkona. Hún hefði gaman af jurtunum og það væri gott fæði sem hún ræktaði. Þar að auki veldi hún sér sjálf atvinnu, sparaði heimilinu peninga, sem við gætum notað í eitthvað skemmtilegt í stað þess að kaupa kartöflur og kál. Mamma var græn í hugsun og svo var það auðvitað alveg sjálfgefið að Guð elskaði afstöðu hennar og starf. Kartöflurnar hennar voru betri en annarra, kálið hennar stórvaxnara og ljúffengara en í búðinni. Mamma var í leynibandalagi með Guði sem skapar og elskar fólk sem ræktar. Svo fengu nágrannarnir sendingu úr garðinum þegar haustaði af því maður deilir með öðrum gæðum garðs og heims.

Þegar mamma nálgaðist nírætt treysti hún sér ekki lengur að rækta í öllum 600 fermetrunum eins og áður. Hún seldi stóru lóðina en hélt áfram að rækta í þremur beðum til æviloka. Mamma miðlaði hollri lífsleikni og að grænt er sálarvænt.

Vísir

Útilega með mömmu

Mamma og pabbi höfðu gaman af tjaldferðum. Pabbi var fjallamaður og ferðakarl og var alla tíð Ferðafélagsmaður. Hann vildi skoða landið, sjá sem mest og skilja sem flest. Mamma hafði sértækari og ákveðnari tjaldbúðamarkmið. Hennar tjaldlíf var gjarnan undir merki kristninnar. Þau, foreldrar mínir, fóru reglulega í Vatnaskóg á almenn mót kristniboðssambandsins, sem haldin voru í júnílok. Ég fór gjarnan í sveit fyrir norðan. En ég fór tvisvar með þeim í Skóginn. Þau vildu helst vera á sama staðnum, í sama rjóðrinu ofan við lindina og styttuna af sr. Friðrik. Það var reyndar afar hagnýtt því samkomutjaldið stóra var nærri, vestur á flötinni.

Foreldrar mínir sóttu samkomurnar og höfðu gagn og gaman af. Ég naut hins vegar frjálsræðis og var á hlaupum í skóginum eða á bát úti á vatni. Þá var aðstaðan til smíða og dundurs ljómandi í bátaskýlinu. Ég bjó mér meira segja til spún til veiða, úr blikki úr niðursuðudós og með fínlegan nagla sem ég beygði til að eitthvað væri á veiðarfærinu sem fiskur gæti festst við. Svo hélt ég til veiðanna, en agnhaldið var lélegt og enginn var aflinn þó margir gripu í spúninn. Mamma fylgdist með þessum leikjum og hafði gaman af.

Þegar mótinu var lokið var veðurspáin góð. Það var úr að pabbi héldi í bæinn til vinnu sinnar, en ég héldi tjaldbúðalífinu áfram með mömmu. Það var spennandi og óvænt uppákoma. Spáin gekk eftir og veðrið var dásamlegt. Við elduðum saman, bröltum um hlíð og skóg, klifum kletta og fórum í langar rannsóknarferðir, lengri en ég hafði leyft mér meðan ég var einn á för. Þessar stundir notaði mamma til fræðslu. Ég lærði hvernig lyfjagras leit út, geldingahnappur og hófsóley. Hljóðdífur hrossagauksins talaði hún um og skýrði út hvernig vængfjaðrirnar mynduðu þessa skemmtilegu músík. Hún benti á sólstafina og skýrði þá út. Fjallahringinn talaði hún um og hvernig sjá mætti Skarðsheiðina úr Reykjavík.

Eitt kvöldið klifum við á öxlina sunnan við skóginn, upp í kvölskinið. Nóttinn læddist að, sumarnóttin með unað og kyrrð. Einstaka lóa söng um dýrð himins og jarðar, hrossagaukur söng með vængjunum um ástina, sólin skein á eggjar og inn í sálina. Mamma talaði um sólina og hvernig sólin væri tákn um Guð. Allt sem við nytum væri gæði, sem við mættum gleðjast yfir og njóta. En einn væri skaparinn, Skógurinn tæki hans, við mennirnir værum með erindi í heiminum. Mamma var góð að taka frá tíma, sem er helgur í huganum, tíma til að kenna, miðla og eiga stund með drengnum sínum. Minningin um tjaldbúðalífið er yfirskyggð af túlkun um að það var allt gott og rétt. Vatnaskógur varð í huga mér heilagur staður og mamma var eins og prestur við fræðslu.

Myndin hér að ofan er tekin á Brautarhóli nokkrum árum áður en við vorum í Skóginum. Ég hef líklega verið fjögurra ára. Við Kristín, systir, erum þarna á milli mömmu og ömmu Kristínar.

Þriggja blýanta stríð

Skólabjalla Melaskóla hljómar enn falskt en dugar til síns brúks. Hvað er kennt í skólanum og hvaða blýantastefnu skyldu kennarar Melaskóla hafa? Gamalt stríð sem háð var af einurð kemur í hugann. Ég lenti í skotlínu á milli kennara og mömmu. Bæði voru ákveðin. Jón Þorsteinsson, minn frábæri kennari í Melaskóla, setti ýmsar reglur og ein var ófrávíkjanleg. Nemendur í bekknum hans skyldu hefja skólagöngu með því að koma með þrjá nýja og vel yddaða blýanta. Styrjöld var háð vegna þessarar reglu.

Ég var sendur í skóla með þrjá blýanta og þeir voru vel yddaðir. En þeir voru ekki nýir og ekki allir jafn langir. Þegar Jón kennari sá skriffærin hóf hann þunga sókn. Hin eiginlega bakvörn var mamma sem réði því sem hún vildi í skólamálum mínum. Henni þóttu blýantarnir mínir góðir og fullboðlegir. Með það mat fór blýantaberinn í skóla að nýju. Jón þykktist við og setti í brýrnar. Þá var mér ljóst að ég væri peð á milli stórvelda. Stríð var hafið og ég undi stöðu minni illa.

Ekkert skólasystkina minna dirfðist að gera uppreisn gegn reglum hins ákveðna skólamanns sem hafði fullkomið vald í skólastofunni. Hann var dagfarsprúður og öflugur kennari og hafði gott lag í sinni stofu og á sínu fólki. Öllum kom hann til náms og nokkurs þroska. Ég hafði enga trú á að nokkuð gæti brotið þennan helsta kraftajötun íslensks skólakerfis. Þegar Jón hafði gert sér grein fyrir að Sigurður Árni væri ekki annað en málaliði í umboði Svanfríðar sendi hann móður minni beiðni um að finna sig. Ég kveið þeim fundi og var viss um að nú mundi móðir mín lenda í mannraunum. Ég fylgist með því þegar hún fór róleg en ákveðin. Hún kom heim klukkutíma seinna og var þá rjóð í kinnum og með glampa í augum. „Þú ferð með blýantana þína í skólann eins og ég hef áður sagt þér. Kennarinn þinn mun ekki gera fleiri athugasemdir,“ sagði hún. Þetta voru mikil tíðindi af vesturvígstöðvum Reykjavíkur.

Síðar sagði hún mér að þau hefðu tekist á. Jón hafði gert henni grein fyrir að það væri ekki hennar að ákveða skólastefnu hvorki í hans bekk né Melaskóla. Móðir mín hafði hins vegar gert honum jafn skýra grein fyrir eðli foreldraréttarins og að hún hefði skýra uppeldisstefnu gagnvart drengnum sínum. Hún hefði ekki hugsað sér að kenna honum að sóa verðmætum heldur að nota bæði blýanta og annað sem til væri með ábyrgð og nýtni að leiðarljósi. Hún gerði honum grein fyrir gildum, siðferði og stefnu ábyrgðarinnar. Jón náði engum tökum á móður minni enda deildi hann sömu gildum. Í þessari baráttu var mamma sigurvegarinn. Jón var sanngjarn og skildi viðmið mömmu

Eftir orustuna umgekkst Jón Þorsteinsson drenginn hennar Svanfríðar með nokkurri varfærni ekki síst þegar kom að útbúnaði í skólatöskunni. Hann hafði uppgötvað að hann hafði tapað þriggja blýanta stríðinu gegn Svanfríði. Það var ljóst að hann bar virðingu fyrir svo ákveðnum uppalanda. Ég uppgötvaði að mamma var jafnvel öflugri en menntunarhetjur Melaskóla. Síðar á ævinni uppgötvaði ég að ég hef aldrei átt í neinum erfiðleikum með öflugar konur. Þær hafa aldrei skapað með mér ónotatilfinningu. Þar nýt ég uppeldis og mótunar í foreldrahúsum sem ég þakka. Mamma var hugrökk og forðaðist stríð en flýði aldrei. Hún var mikil af sjálfri sér. Hún var stórveldi ástar og umhyggju. 

Kraftaverkið 1. maí

Dagur verkalýðsins, fyrsti maí, er í mínum huga dagur undra og stórmerkja. Kröfuspjöld, þungur göngutaktur eða hávaði ræðumanna eru ekki miðja minninga minna, heldur kaffipartí sem móðir mín og vinkonur hennar stóðu fyrir. Ilmur fyrsta maí er blanda af kaffikeim og kökulykt. Hljóð dagsins eru blanda af bollaglamri og hlýjum samræðum. Birtan, þessi dásamlega sólarbirta maíbyrjunar. Kraftaverkið varð í Betaníu, á horni Laufásvegar, þar sem nú er safnaðarheimili Fríkirkjunnar. 

Aðfangadagur fyrst maí

Seinni hluta apríl var mamma í önnum við bakstur, hringdi út og suður, talaði við félagskonurnar, vinkonur sínar í Kristniboðsfélagi kvenna. Að kvöldi 30. apríl fór öll fjölskyldan með alls konar varning niður í Betaníu. Kökur voru bornar inn, stólar færðir og borð dúkuð. Alltaf undraðist ég og laðaðist að hinum dularfullu og seiðmögnuðu myndverkum Betaníu. Þarna var stór mynd af litlum börnum, annað var hvítt, vestrænt og hitt kínverskt. Þau sátu á himnesku engi, með dásamleg hús í baksýn, og bentu á Jesúmynd. Þetta var merkileg mynd, með mynd í mynd, sem hafði að geyma predikun, sem Lúther hefði glaðst yfir, “bendir til Jesú.” Svo voru á ræðustólsveggnum líka einkennileg spjöld með kínversku letri, sem ég botnaði ekkert í. Ég var viss um að textinn væri hákristilegur.

Hið himneska hlé

Svo rann hasardagurinn upp. Mamma fór snemma og allar samstarfskonur hennar. Um tvöleytið fóru kristniboðsvinir að koma í kaffi. Betaníukaffið átti sér fasta og trygga aðdáendur, sem vissu vel að í upphafi var kökuúrvalið fullkomið. Svo voru auðvitað nokkur, sem komu snemma til að styrkja kristniboð, en vildu dreifa aðsókn. Þetta voru hinir praktísku en staðföstu kristniboðsvinir. Þegar nær dró kaffitíma fóru svo lúnir verkamenn úr göngunni að skjótast inn. Verkalýðsleiðtogarnir komu líka og ég skildi síðar, að þeir voru ekkert að gera sér rellu út af Marxískum kreddum um trúna sem ópíum fólksins. Verkalýðsbarátta, kristniboð, borgarastétt, kröfuspjöld og verkafólk. Allt var þetta í jafnvægi og í himnesku hléi í kristsniboðskaffi í Betaníu.

Kraftaverkakonur í Kristniboðsfélagi kvenna

Blessandi gjaldkeri og formaður

Mamma sat við dyrnar. Hún var gjaldkeri félagsins og það var hefð að slíkir sætu og tækju við greiðslu og ræddu við gesti á leið inn og út. Mamma hélt á brúnni smellutösku sem hún átti, setti borgun fyrir kaffið í töskuna. Margir greiddu margfalt. Þegar á leið voru gríðarlegir fjármunir komnir í töskuna. Ég man að hún hélt vel í töskuólina. Engum hefði tekist að hrifsa til sín fjárhirsluna og hlaupa með hana.

Öllum tók mamma vel, við alla átti hún orðastað. Síðar, þegar hún var formaður, færði hún sig fram í forstofu til að geta rætt við fólk. Hún blessaði alla fyrir framlög og þakkaði fyrir stuðninginn við kristniboðið. Við dyr og í forstofu var hún í essinu sínu, að þakka eða taka við greiðslu fyrir kaffi, sem var eiginlega meira en borgun. Það var framlag til að kristnir menn á Íslandi gætu staðið við boð Jesú Krists: “Farið og kristnið allar þjóðir…” Kristniboðskonurnar og mamma voru að vinna Guði gagn. Allir, sem komu, vissu að þeir ættu hlut í stórvirki og góðu verki.

Hið smáa verður stórt í Guðsríki

Pabbi sótti svo mömmu seint að kvöldi 1. maí. Þegar hún kom heim var hún alltaf steinuppgefin en þó alsæl. Alltaf unnu konurnar í kristniboðinu stórvirki fyrir Krist á þessum dögum. Öll, sem frá þeim fóru, voru með fullan maga af góðmeti og þakkarorð í eyra og blessun fyrir daga og vegi lífsins. Öll fundu til þess, sem fóru úr Betaníu, að þau höfðu gert mikið gott með komu sinni. Öll afrekuðu eitthvað fyrir Guð. Á þessum kaffidögum í Betaníu lærði ég að í hinu smáa er mannlegt framlag til Guðsríkisins. Kaffiundrið í Betaníu lifir í minningunni. Safnað var til kristniboðs í Eþíópu og sú kirkja er einhver mesta hraðvaxtarkirkja í heimi. Undrið heldur áfram. Starf Betaníukvenna bar árangur og ber enn ávöxt. Fólk í Afríku og Asíu fær menntun, nýtur heilsugæslu og fær að heyra góðar fréttir um að Guð elskar. Þannig er kristniboð.

(Meðfylgjandi myndir eru annars vegar af Brautarhólssystrum. Þær eru Lilja Sólveig, Filippía (sem notaði skáldanafnið Hugrún) og Svanfríður Guðný allar dægur Kristjáns Tryggva og Kristínar Sigfúsínu á Brautarhóli í Svarfaðardal. Hin myndin er af vinkonum í Kristniboðsfélaginu á sumarferð). Þar eru þær systur líka.

 

Ferming Svansí ömmu

Svanfríður Kristjánsdóttir fæddist á Brautarhóli í Svarfaðardal 22. mars 1910.  Í dag er því 107 ár frá fæðingu hennar. Þórður, sonarsonur hennar, tók þetta viðtal við hana árið 2003 þegar leið að fermingu hans. Og þau sátu saman, hún á tíræðisaldri og hann á leið inn í manndómsárin. Það var heillandi sýn. Í aðdraganda fermingar er merkilegt að strekkja tímann og sjá allt í stóra samhenginu. 

Svanfríður fermd á Völlum

Ég fermdist þegar ég var fjórtán ára.  Það voru nú allir fermdir á þeim aldri þá. Ég fæddist 1910 svo þetta hefur verið 1924. Ég var fermd á hvítasunnu. Ég hafði gengið til prestsins á Völlum fyrir ferminguna. Pretsturinn, sr. Stefán Kristinsson, spurði okkur út úr í kirkju og hlýddi okkur yfir. Ég kunni nú marga sálma, milli fjörutíu og fimmtíu sálma. En sumir krakkarnir kunnu fáa sálma. Flestir fermingarkrakkarnir höfðu metnað og vildu kunna sem flesta, því presturinn vildi það nú líka.

Fermingarmessurnar voru alltaf fjölmennar. En á þessum hvítasunnudegi var hríðarveður. Það var nú troðfull kirkja samt og þurfti að setja inn aukastóla. Börnin voru miklu fleiri í sveitinni þá en nú er orðið. Systkinin voru mörg á öllum bæjum.

Ég var í hvítum kjól og mér var kalt. Kjóllinn var svo þunnur og fínn. Ég átti ekki kjólinn og hann var fenginn að láni. Fermingarkjólarnir voru hvítir og ónothæfir fyrir aðra daga og voru því lánsföt. En ég fékk svo sparikjól fyrir önnur tilefni. Og þetta var áður en kyrtlarnir komu. Ég var í dönskum skóm, sem kallaðir voru. Þeir voru svartir og ágætir. Við fórum út að Völlum þar sem presturinn bjó og svo skiptum við stelpurnar um föt inn á kontór prestsins. Vinkona mín var með kyrtil og í skautbúning.

Þegar við vorum búin að fara í fermingarfötin gengum við út í kirkju með fjölskyldum okkar. En við fengum sérstakt sæti í messunni. Þegar stólræðan var búin var sunginn fermingarsálmur: “Lát þennan dag, ó Drottinn, nú.” Þá færðum við okkur upp að altarinu og settumst þar. Presturinn hélt ræðu númer tvö, fermingarræðuna, og talaði beint til okkar allra. Svo vorum við fermd. Við þurftum ekki að svara prestinum með öðru en jáyrði því yfirheyrslur voru búnar í spurningum. Svo tók presturinn í hönd okkar um leið og hann var búinn að ferma. Það var engin altarisganga í guðsþjónustunni, en svo var í vikunni á eftir gengið til altaris.

Þetta var eftirminnilegur dagur og ég tók ferminguna mjög alvarlega. Við vinkonurnar – og ég held allir krakkar á þessum tíma – tóku fermingarheitið alvarlega. Við vildum tilheyra Guði og vera hans. Það var engin veisla. En börnunum, sem fermdust, og foreldrum þeirra var boðið inn á prestssetrið. Svo þegar við vorum komin heim skipti ég um föt. Það var nú sauðburður á þeim tíma svo allir voru að sinna skepnunum. Ég fór að ná saman kindunum sem voru úti. Það var ekki vonskuveður en nauðsynlegt að koma skepnunum inn.

Það var ekki til siðs að gefa margar gjafir á þessum tíma. En ég fékk fermingarkort og Gísli bróðir hafði keypt notað úr, sem hann gaf mér. Pabbi og mamma gáfu mér kind. 

Já, hver er nú óskin til Þórðar? Jú ég vil að fermingardrengurinn haldi það sem hann lofar, haldi sér við Guð og verði góður og nýtur maður. Það er mest hamingjan að gera það.

Þórður Sigurðarson tók þetta viðtal við Svansí ömmu, 5. apríl, 2003, daginn fyrir fermingu hans. Hún var fermd á Völlum í Svarfaðardal og hann í Neskirkju í Reykjavík. Viðtalið var birt í minningabók um Svanfríði Kristjánsdóttur. Myndin af Þórði hér að ofan var tekin á gönguferð á  Rima, en amma hans hafði oft farið áður upp á þetta mikla fjall. Brosmyndin af mömmu er tekin sumarið 1953. Kristín, systir mín, stendur hjá móður sinni óléttri og fagnandi við Litlabæjarhlöðuna við hlið húss okkar við Tómasarhaga. Yfirlitsmyndin við upphaf greinar er af Rimum. Þar má sjá bæina sem tengjast fjölskyldu og sögu Svanfríðar, Brautarhól þar sem hún er fædd, Gröf, Skriðu, kirkjustaðinn Velli, næst utan við Brautarhól, Uppsali, Hánefsstaði og síðan aðra bæi utar í dalnum. Hinum megin ár glittir í Húsabakka og kirkjustaðinn Tjörn.