Greinasafn fyrir merki: siðferði

Guð blessi Ísland

Textar þessa sunnudags eru áleitnir og tala beint inn í tíu ára afmæli bankahrunsins. Í guðspjallinu er sagt frá manni sem var í miklum vandkvæðum, en Jesús líknaði honum og reisti hann á fætur til nýs lífs. Pistillinn hvetur til endurnýjunar og í lexíunni segir: „Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja … Snúið við svo að þið lifið.“ Þetta er kjarnyrt samantekt á erindi kristninnar í veröldinni, verkefni hvers manns og orð í tíma töluð þegar hugað er að uppgjörum áfalla – já allra hruna heimsins.

Geir og Guð

Í gær voru rétt tíu ár frá því sá merki stjórmálamaður Geir Haarde, forsætisráðherra, flutti áhrifaríka ræðu 6. október árið 2008. Ræðan var öll birt á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Erindi hennar er skýrt og Geir endaði ræðu sína með því að segja: „Guð blessi Ísland.“ Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki ofnotað Guð í kveðjum. En það er skýr og jákvæð kveðja að biðja mönnum blessunar Guðs. Og hefur aldrei skaddað nokkurn mann – en alltaf bætt. Amma mín og móðir sögðu við alla, sem þær kvöddu: „Guð blessi þig.“ En þessi blessun Geirs Haarde varð eins og táknsetning um ótrúlega atburði þessara haustdaga fyrir tíu árum, þegar bankakerfi Íslands hrundi.

Ekki gjaldþrota á meðan

Stórar stundir brenna minningu í huga. Og Guð blessi Ísland – kveðja Geirs var „aha-stundin“ þegar raunveruleiki hrunsins dagaði á okkur og brenndist í vitund flestra. Mörg eigum við sterkar minningar, sem tengjast þessum tíma. Við kona mín vorum vorum á leið til útlandi og líka uggandi um stöðu bankamálanna. Og hún hringdi í starfsmann í þjónustudeild bankans og tjáði áhyggjurnar. Hann sagði við hana vinalega og hughreystandi: „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“

Þegar við lentum í Barcelona opnuðu margir símana sína á leiðinni út úr flugvélinni. Og það varð mikið uppnám í landgangnum, hróp og köll. Glitnir hafði fallið og ríkið tekið yfir reksturinn meðan við flugum í suðurátt yfir úthafið. Ræða Geirs Haarde hitti okkur og við fylgdumst með fréttum og svo féll Landsbankinn. Daginn, sem við fórum heim, féll Kaupþing. „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“ Jú, Kaupþing féll, allir stóru bankarnir féllu. Fjármálakerfi Íslands hrundi. Tugir þúsunda urðu fyrir fjárhagstjóni, samfélagið lemstraðist, stjórnálaumræðan eitraðist og þjóðin varð fyrir áfalli. Guð blessi Ísland.

Álagahamur peninganna

Og nú lítum við til baka og rifjum upp. Og það er mikilvægt að fara yfir tilfinningarnar, þó sumar séu sárar og íþyngjandi. Eins og mörg önnur hlustaði ég – fyrir hrun – á helstu fjármálasérfræðinga þjóðarinnar lofa getu, fjárfestingasnilld, íslenskra útrásarmanna. Flestar trommur voru slegnar til að magna trúna á velgengnina. Forsetaembættið var notað og stjórnmálamennirnir voru líka málaliðar. Blekkingarvefurinn varð álagahamur Íslands. Það var nístandi sárt þegar háskaleikurinn endaði með skelfingu og í ljós kom að fataskápar keisaranna voru tómir. Þeim, sem treyst var, brugðust, hvort sem það var með vilja eða vegna álaganna. Eldarnir loguðu, harmurinn var mörgum mjög þungur. Við prestarnir heyrðum margar sorgarsögur fólks í miklum vanda.

Hliðrun – veiklun

Vandinn var vissulega margþættur: Oflæti í fjárfestingum, getuleysi stjórnmálastéttarinnar, hræðsla embættismanna, háskólafólksins og líka kirkjunnar. Teflonhúðin var álagayfirborð stétta og hópa. Guð blessi Ísland. En gerðir eða getuskortur einstaklinga eða hópa er ekki eina ástæða hrunsins heldur fremur hliðrun í menningunni, sem stóð í langan tíma. Að fjármálamenn, stjórnmálamenn, embættismenn og við öll skyldum lenda í hruninu var niðurstaða þróunar í heila öld. Gamla Ísland var ekki fullkomið, en í menningu okkar hafði kristin mannsýn stýrt meðferð fjármuna. Raunsæji var um styrkleika, en líka breiskleika fólk. Fyrr og síðar hafði verið hamrað á í prédikun, bókum og stjórmálum, að menn væru samfélag en ekki samsafn einstaklinga, um mikilvægi þess að standa með náunganum og öðru fólki. Samstaðan var aðall menningar okkar. Um aldir var hamrað á, að peningar væru ekki markmið, heldur tæki til að þjóna öðrum. Gróði væri ekki í eigin þágu, heldur til að bæta líf heildar. Við erum ekki eyland fyrir okkur sjálf – eða fyrir fjölskyldu okkar og ættmenni. Við erum ábyrg fyrir velferð þeirra sem hafa lítið, þeirra sem eru líðandi – allra. Guð blessi þig merkti alltaf á fyrri tíð að Guð hefði áhuga á velferð allra. Það var þessi sýn og vitund, sem hafði spillst í vaxandi velsæld tuttugustu aldar Íslands. Hið trúarlega var alla liðna öld æ ákveðnar flæmt úr almannarýminu og lokað inn í kirkjuhúsunum og helst á skrifstofum prestanna. Íslensk þjóð gleymdi, að Guð blessar ekki bara þjóðkirkjuna, heldur vill efla uppeldi og blessa atvinnulíf, banka og móta útrásarvíkinga. Siðferðisveiklun samfélags er vond menningarhliðrun. Og þegar Geir Haarde sagði Guð blessi Ísland hljómaði það ekki eins og góð kveðja um að við öll nytum góðs, heldur fremur eins viðvörunaróp. „Nú er allt komið til fjandans og búið ykkur undir það versta.“

Blessun en frelsi manna

Við getum spurt: Blessaði Guð Ísland? Ég segi já. Guð var og er með. Við treystum frekt, gerðum mistök, fórum of hratt, trúðum bláeyg og hrundum öll. En alltaf var Guð þó með. Guð er alltaf nærri, Guð blessar einstaklinga, gefur líf, ljós, mat og drykk, vind og sól, veröld til að lifa í – og róttækt frelsi til starfa og að gera gott. En þótt Guð blessi allt og alla tekur Guð aldrei frá okkur ákvörðunarvaldið, hið rótttæka frelsi til að ákveða okkar stefnu, vinnu, fjárfestingar, líf og lífshætti. Við getum ákveðið, að halda í þau gildi sem hafa reynst vel í samfélagi manna um aldir. En við getum líka ákveðið að sleppa þeim og bara græða og grilla.

…svo að þið lifið

Geir Haarde sagði í ræðunni merku: „Ég hvet ykk­ur öll til að standa vörð um það sem skipt­ir mestu máli í lífi hvers ein­asta manns, standa vörð um þau lífs­gildi sem stand­ast það gjörn­inga­veður sem nú er að hefjast…  …Guð blessi Ísland.“

Bæn Geirs virkaði.  Björgunaraðgerðirnar skiluðu ótrúlegum árangri. Víða hefur verið tekið faglega og vel á málum. En við erum ekki búin að vinna grunnvinnuna við að ákveða hvað við ætlum að gera í siðferðisefnum okkar, menningarhliðrun og uppeldi barnanna. Guð blessi Ísland gekk eftir í flestu hinu ytra. En það er okkar að vinna með blessunina í okkar lífi og okkar menningu. Það varðar nýjan anda, nýtt hjarta.

Ég kalla eftir þeim nýja anda, því nýja hjarta. „Snúið við svo að þið lifið.“ Guð blessi Ísland og í Jesú nafni – Amen.

Hallgrímskirkja 7. október, 2018. 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Tíu ára afmæli hruns.

Lexía: Esk 18.29-32
En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.

Pistill: Ef 4.22-24
Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.

Guðspjall: Matt 9.1-8
Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“ En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Mennskan og bernskan

Eitt af bestu og litríkustu ævintýrum lífsins er að fylgjast með þroskaferli barna. Það er ekki aðeins skemmtilegt að vera með þeim heldur getum við lært margt af þeim því þau eru fundvís á aðalatriðin. Og börnin nærast af samskiptum, þau þrá samtöl og nánd og gefa mikið af sér. Það staðfesta væntanlega foreldrar og ástvinir fermingarungmennanna sem sögðu já áðan. Og flest hér í kirkjunni í dag hafa einhvern tíma hlegið með börnum og furðað sig á skerpu þeirra.

Spurningar og niðurstöður barna hafa löngum orðið mér íhugnarefni. Texti dagsins minnti mig á samtöl við drengina mína fyrir nokkrum árum. Þó ungir séu hafa þeir lengi fylgst með íþróttum og ofurhetjum íþróttanna. Fyrir nokkrum árum hófu þeir nákvæmar rannsóknir á öllum helstu hetjum knattspyrnuheimsins. Þegar þeir voru búnir að skoða boltatækni og youtube-klippurnar af Messi og Ronaldo vildu þeir ræða um hvernig þeir væru og hvað væri innan í þeim líka. Þeir spurðu mikilla spurninga: „Pabbi, er Messi góður maður?“ „Er Ronaldo góður maður?“ Og þar sem pabbinn var og er bæði hrifinn af fóbolta og stóru lífsspurningunum urðu umræðurnar fjörlegar. Við ræddum um hvað það væri að vera góður maður og um félagsþroska, hjúskaparstöðu og barnamál fótboltakarlanna. Hafa þeir bara töfra í tánum eða hafa þeir líka orðið góðir í samskiptum við annað fólk og sjálfa sig. Kunna þeir að nýta fjármuni fyrir fleira en spilakassa og dót? Í samtölunum kom fram að mínir drengir voru að máta sig, reyna að móta sér skoðanir um hvað væri eftirsóknarvert. Fyrirmyndin var metin til að móta eigið sjálf og markmið.

Hlutverk allra manna er að þroskast og verða að manni. Og siðfræðin er ekki aðeins fag nörda í heimspekideild og guðfræðideildum háskólanna heldur kemur við sögu snemma í bernsku flestra. Góður maður? hvað er það og til hvers? Er þetta mál og spurning sem varðar þig og þitt líf? Hefur þú þörf fyrir að íhuga stöðu þína og hvað þú ert og hvað þig langar til?

Lið Jesú
Lærisveinar voru fyrirmyndir frumkirkjunnar. Rit Nýja testamentisins veita innsýn í veröld þeirra. Á öllum öldum hafa síðan komið fram einstaklingar, konur og karlar, sem hafa þótt skara framúr í rækt og iðju trúarinnar. Þessir einstaklingar hafa verið fyrirmyndir. Um þau hafa verið sagðar sögur til að veita öðrum hugmynd um hvernig eigi og megi lifa og til að vel sé lifað. En dýrlingamyndir helgisóknar fyrri alda hafa misst samhengi. Og ef ofurhratt er farið í menningarsögu vesturlanda á tuttugustu öld þá féllu “heilagir sérvitringar“ úr tísku en aðrir tóku við. 

Á öllum tímum verða einhverjir í úrvali athyglinnar. Hetjurnar þjóna einhverju hlutverki, ef ekki siðferðilegu, þá þjóðernislegu eða peningalegu. Þegar ég var barn voru leikaramyndir algengar og við krakkarnir skiptumst á myndum af Brigitte Bardot, Roy Rodgers og Sophiu Loren rétt eins og síðar var skipst á myndum af knattspyrnugoðum. Dýrlingarmyndir miðalda fengu framhald í leikaramyndum og myndum af popgoðum. Íkónar samtímans eru fótboltakappar og aðrar ofurhetjur. Þegar íkónar himins hverfa verða til nýir himnar en þó innan þessa heims.

Í leit að mennsku

Börn leita þroska og við erum svo innréttuð að við leitum að merkingu og meiningu með lífinu. Allir krakkar og á öllum aldri þurfa eitthvað meira en ofurþjálfaða fótboltafætur. Allir leita hamingju og lífsfyllingar. Og hjörtun eru söm hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu – hjörtu okkar eru óró þar til þau hafa fundið hina dýpstu sælu sem seður sál og líf. Það er alveg sama hvað menn puða við að blekkja sig með ytri nautnum, ytri velsæld, völdum, sjálfsdýrkun og hossun eigin gildis. Allir leita merkingar og tilgangs í lífinu. Og fermingarungmennin sem sögðu já í dag vinna að hamingju sinni. Og við erum öll í sömu sporum og þau – alla daga.

Guðspjallið
Inntak guðspjalls dagsins varðar það mikla mál að vera manneskja. Jesús sagði snilldarsögur til að skerpa vitund fólks um hlutverk í lífinu. Og sagan er um að einn er skipaður fyrirliði og fær stjórnunarhlutverk. Og svo þegar viðkomandi eru orðinn stjóri þá vakna siðferðisspurningar og ýmsir möguleikar gefast til að misnota aðstöðu sína og stöðu. Hvernig er innrætið? Misnotar ekki fólk yfirleitt stöðu sína og vald? Alla vega þau, sem aldrei hafa fengið önnur skilaboð en þau, að markmið lífsins sé að afla sér mestra peninga, sinna hvötum þegar færi gefst og reyna að koma sér sem best fyrir án þess að vera gómaður. 

Jesús Kristur var mannþekkjari og sagði stundum sögur um sjálfhverfvert fólk. En Jesús þráði að við yrðum öll þroskaðir einstaklingar sem værum  ekki bara upptekin af sjálfum okkur heldur því að efla lífið í kringum okkur.  

Gildi einstaklinga er ekki einskorðað við innangildi heldur tengslagildi. Manneskjan er dásamleg sem einstaklingur en verður þó ekki til nema í tengslum. Þau tensl varða jafnvægistengsl hins andlega og líkamlega, einstaklings og hóps, manneskjulífs og lífs í náttúrunni. Og enginn verður alheill – skv. túlkun kristninnar – nema í heilum tengslum við lífgjafann sjálfan, Guð. Þetta er inntak lífslistarinnar. Guð elskar og við klúðrum öllu nema við lifum í því ljósi. Við græðum ekkert með því að hugsa aðeins um eigin hag heldur sjá okkur í heild, gegna stöðu okkar með stæl og njóta þess að þjóna. Og endanlega erum við tengd lífinu, gegnum ábyrgð og eigum ekki að drottna heldur vera í tengslum. Það er skikkanin og þannig fer best. Allt hitt eru misnotkun, ofbeldi, vonska. 

Aðalmálið er að vera góð manneskja. Það eru ekki aðeins litlir drengir sem spyrja stóru spurninganna. Hvað viltu? Hlutverk þitt er að hætta að lifa í sjálfhverfu núi, læra að njóta hins mikilvæga og axla ábyrgð og iðka lífsholla og lífseflandi ráðsmennsku. Í allri lífsreynslu og átökum hljóma spurningar sem þú mátt heyra og taka mark á: Ertu góð kona? Ertu góður karl? Þetta er sú spurning sem bæði fermingarungmenni og við hin líka þurfum að svara með einhverju móti alla daga ævi okkar. Og Guð heyrir og gleðst þegar við segjum já og tjáum fegurð í lífi okkar í tengslum.

Amen.  

Ég er Guð

storstavalt_logo_NY_130Hvernig er ellefta boðorðið? Eru einhver hér sem muna um hvað það er hvernig það hljómar? Dr. Þórir Kr. Þórðarson var guðfræðikennari og kom víða við og m.a. lagði grunn að félagsþjónustu Reykjavíkur. Hann mótaði prestastéttina því hann var frábær kennari og varpaði ljósi á torskilin mál. Einu sinni spurði hann í tíma guðfræðideildinni: Hvernig er ellefta boðorðið? Og þar sem við nemendur vorum heldur álkulegir svaraði hann sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðininleg!“ Ég er sammála og hef síðan kennt fermingarunmennum þessa mikilvægu viðbót. Hún er eðlileg túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra, sem er hver? Jú, á lífið. Við lifum í frelsi og megum velja. Hvort veljum við það sem verður til ills eða það sem verður til góðs? Að velja gleðina er ekki að velja aulahúmor heldur lífið, hamingjuna.

God’s chosen – God’s frozen

Lexía dagsins eru lífsorðin sem kölluð eru boðorðin tíu, viska hinna fornu hebrea sem hefur gagnast allri heimsbyggðinni við mótun samskiptareglna. Við Íslendingar höfum notað þessi speki í uppeldi einstaklinga um allar aldir og við menningargerð okkar. Orðin tíu eru byggingarefni löggjafar heimsins og hafa skilað sér í endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hefur skilað sér í gildandi mannréttindabálkum, sem varða vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.

Saga Íslendinga og Ísraela er ótrúlega lík. Löggjafarsaga þjóðanna er ekki bara áhugaverð og með ýmsum sameiginlegum einkennum. Báðar þjóðir einangruðust í baráttu aldanna frá öðrum þjóðum. Menning beggja varð einsleitt. Söguskema beggja er líkt. Flótti frá vondu yfirvaldi er upphaf sögu beggja þjóða. Á eftir kemur svo langvinn barátta. Byrjun löggjafar beggja er tengt undri, annars vegar á Sínaí og hins vegar á Þingvöllum, ekki síst tengt kristnitöku. Söguskemað segir frá landgjöf til ættbálks og hvernig stöðugt varð að berjast fyrir lífinu í rás tímans.

Báðar eru þjóðir bóka og menntunaráherslu. Þær eru söguelskar, ljóðrænar og dramatískar. Þær gengu báðar margar aldir afturábak inn í framtíðina og voru uppteknari af glæstri fortíð en opinni framtíð.

Margt líkt! Ég hitti einu sinni hinn heillandi stórpólitíkus Simon Perez, síðar forseta Ísraels, þegar hann var á ferð á Íslandi. Í ræðu sem var haldin honum til heiðurs kynnti forsætisráðherra Íslands mun þjóða Íslands og Ísraels og á ensku: „Israel is God’s chosen people but the Icelanders are God’s frozen people!” Guðs útvalda þjóð og hin freðna!

Orðin tíu

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi… Sem sé, Guð er Guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunveruleika þeirra. Og mörg okkar muna að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma, að hæðast ekki að hinu heilaga. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra um menn? Boðorðin eru eiginlega í tveimur hlutum. Fyrstu boðorðin fjalla um Guð og afgangurinn um mennina. Jesús var vel heima í lögum Ísraels. Hann var ekki fastur í formi eða smáatriðum heldur snillingur sannleikans, lífsstefnu. Jesús dró saman öll boðorðin og setti þau fram í tvöfalda kærleiksboðinu. Og hvernig er það? Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig. Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Seinni hluti boðorðanna fjallar síðan um mannvernd – að við virðum og elskum fólk – alla.

Svo minna allir krossar heimsins á þessar tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur á tengslin til Guðs annars. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Og ég minni á að náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið, ekki aðeins þig, heldur fólk, alla menn og lífríkið allt. Okkur er falið að vernda náttúruna sem djásn í sköpun Guðs.

Lögin verða til

Ég hafði í nokkur ár atvinnu af að fræða gesti á Þingvöllum. Á þeim tíma tók ég á móti þúsundum skólabarna og fræddi um sögu lands og þjóðar. Þegar börnin voru spurð um af hverju fornmenn hefðu farið um langan veg að heiman og þingað á Þingvöllum þá svöruðu þau eitthvað á þessa leið: Stundum förum að rífast. Við þurfum reglur til að lífið virki og hvernig eigi að leysa rifrildi. Svo bættu þau við að það væri svo fallegt á Þingvöllum og það væri gott að ræða um reglur á fallegum stað! Þér skuluð gæta að fegurð löggjafarinnar!

Fermingarungmenni Hallgrímskirkju hafa ljómandi regluvit. Í síðustu viku spurði ég þau hvað myndi gerast ef engar reglur væru í fótbolta? Svarið er einfalt þá yrði allt vitlaust og leikurinn myndi snúast upp í ofbeldi. En hvað myndi gerast ef engar reglur væru í þjóðfélaginu? Þá myndu frumskógarlögmálin taka yfir.

Ungt fólk á Íslandi skilur og veit að reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð fólks. Þau vita vel hvar mörkin liggja og að til eru grá svæði. Og það þarf þroska til að velja lífið.

Íslensk saga og orðin tíu

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til fjallsins Sínaí. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla 2. Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, gyðingdómi og Islam. Og þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Ekkert þjóðfélag er hlutleysisþjóðfélag vegna þess að hefðir eru menningarvefur sem hefur áhrif. Íslenska ríkið er bundið af stjórnarskrá, sem kveður á um, að evangelísk-lúthersk kirkja sé þjóðkirkja Íslands. Það ákvæði var ekki aðeins lögformlega ákeðið við stjórnarskrárgerð við lýðveldisstofnun heldur hefur nýlega verið stutt með miklum meirihluta í opinberri atkvæðagreiðslu þjóðarinnar. Áhersla stjórnarskrár er bindandi stefna og varðar hvaða siður og siðferði skuli gilda í samfélagi okkar. Stjórnarskrá ríkis er ekki puntplagg heldur varðar uppistöðu menningarinnar. Það er svo annað og mikilvægt mál hvernig við eigum að þróa samfélag okkar. Ég hef löngum verið efins um að eitt trúfélag eigi að tilgreinast í stjórnarskrá, en álít það hins vegar mikilvægt að hið opinbera styðji og verndi trúariðkun í landinu. Gildir einu hvort menn eru kristnir, trúlausir, múslimar eða búddistar. Í þeim efnum eigum við að vanda okkur og læra óhikað af mistökum nágrannaþjóða.

Fyrsta boðorðið er: “Ég er Drottinn guð þinn” er skemmtilegasta boðorðið því það varðar meginstefnu. Ellefta boðorðið er í hinu fyrsta. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er, líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við konu sína. “Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hvað segið þið um það?

Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí heldur vera Guðs, sem er mál fyrsta boðorðsins, og lifa með ábyrgð og iðka trú í samfélagi – leggja lífinu lið. Þú, Guð og náunginn. Bráðskemmtilegt, gott líf. Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 8. mars, 2015, 3. sunnudagur í föstu.