Greinasafn fyrir merki: Magnús Jóhannsson

+ Magnús Jóhannsson +

Hvað fannst þér eftirminnilegast við Magnús Jóhannsson? Er það, sem hann gerði eða sagði? Áttu þér minningu um hann, sem hefur orðið þér svo mikils virði að þú hefur þroskast eða breytt einhverju í þínu lífi? Magnús umgekkst marga og hafði áhrif á líf fjölda fólks.

Brunnlokin

Sagan af brunnlokunum varð mér skilningslykill að mörgu í lífi Magnúsar. Og hvernig var sú saga? Magnús var alltaf með augun opin, fylgdist með þróun samfélagins, hlustaði á fréttir, fylgdist með verktakabransanum og hverjir gerðu hvað. Hann hafði tekið þátt í eða séð um margar stórframkvæmdir og vissi hverjir sáu um gerð holræsa og hvað mátti bæta. Svo kom auglýsing um útboð á brunnlokum. Og þar sem Magnús var sérfræðingur í holræsum – og hafði að fenginni reynslu miklar skoðanir á lokum þeirra – ,hugsaði hann hratt. Gat þetta verið raunverulegt útboð eða var það lagað að þörfum einhvers innflytjanda eða framleiðanda? Magnúsi sýndist að tímaramminn sem var gefinn í útboðinu, gæti verið nægur til að hann gæti lagt inn tilboð. Svo fór hann á netið, fann framleiðendur erlendis og hafði samband þá. Þegar hann hafði náð tengslum voru teikningar sendar út og svarið var að hægt væri að búa til lokin og á verði sem væri innan marka.

Magnús var vanur að meta verkhluta og greina tímaþætti. Svo áætlaði hann kostnaðarliði og fann út hvað heildartilboð yrði að vera hátt til að hann greiðslan yrði yfir núllinu. Svo sendi hann sveitarfélaginu tilboð sitt. Og Magnús var kallaður á fund til að ræða málið. Trúin á að hann gæti klárað alla útboðsþætti var kannski ekki mikil hjá kaupendunum og hann var því spurður hvort hann gæti skilað þessum tilskylda fjölda brunnloka eftir skamman tíma. En Magnús var með sitt á þurru. Af því hann var svo snöggur að plana og panta voru lokin komin til landsins. Já, já, svaraði Magnús. Þau væru tilbúin og það væri hægt að afhenda þau strax! Ég hefði gjarnan viljað vera á skrifstofu útboðsaðilanna og sjá furðusvipinn á andlitum þeirra þegar þeir gerðu sér grein fyrir að tilboð Magnúsar var alvöru tilboð. Hann hafði skoðað allt, farið bestu leiðina, fengið góð lok og á betra verði en aðrir gátu boðið. Magnús fékk því samninginn og varð einn aðalinnflytjanda brunnloka í landinu. Mörg, kannski flest lokin, sem við sjáum eða ökum yfir eru komin frá fyrirtæki þeirra hjóna, Magnúsar og Lovísu. Brunnlok varð alvörufyrirtæki af því getan var mikil, snerpan og áræðið.

Þessi saga er lykilsaga. Góður útreikningur, dugur, hugrekki og framsýni – allt einkennandi fyrir Magnús. Og nú er hann farinn inn í himininn. Þar ræður Guð ríkjum, sem kann að reikna, lætur ekki bilanir heimsins trufla sig, er áræðinn, hefur góða reynslu af framtíðinni og gerir okkur mönnum ótrúlegt tilboð. Viljum við taka því eða ætlum við bara að taka verri tilboðum og svíkja sjálf okkur og sannleikann? Magnús ætlaðist til að heiðarleiki ríkti. Hann er okkur fyrirmynd. Guð gefur okkur möguleika. Okkar er að svar tilboðinu!

Æviágrip og upphaf

Magnús Jóhannsson var alinn upp í Ólafsvík, en hann fæddist reyndar á Siglufirði 19. júní árið 1941. Hann var sonur hjónanna Jennýjar Magnúsdóttur og Jóhanns Þorgilssonar. Þau voru bæði frá Ólafsvík. Magnús var elstur fimm systkina. Bræðurnir voru fjórir en ein systir. Systkini Magnúsar eru Þorgils, Brynja, Viðar og Guðmundur Bjarni. Brynja og Guðmundur lifa systkini sín.

Lífið í Ólafsvík var skemmtilegt, nóg við að vera og leikjamöguleikarnir miklir fyrir tápmikinn dreng eins og Magnús. Hann var hugmyndaríkur leiðtogi og kom því í verk sem honum þótti fýsilegt. Ef krökkunum í Víkinni datt í hug að fara á sjó, en höfðu enga fleytu, smíðuðu þau hana. En fullorðna fólkinu þótti vissara að fylgjast með. Magnús mótaðist af heimabyggð sinni, atvinnuháttum og menningu. Hann naut góðrar skólagöngu og fékk Passíusálma í verðlaun fyrir góða kristinfræðiþekkingu. Magnús var góður íþróttamaður, spretthlaupari, kúluvarpari og góður langstökkvari.

Magnús fór snemma að vinna og leggja til heimilis síns. Í fiskiplássinu Ólafsvík fór hann á sjó þegar færi gafst. Svo vann hann í frystihúsinu. En aksturinn átti hug Magnúsar. Jóhann, faðir hans, rak vörubíl. Og Magnús lærði að keyra áður en hann náði niður á pedalana og svo þegar hann var nægilega langur til var hann kominn á fullt í akstri. Hann var í bíl með föður sínum ungur og keyrði þegar þurfti. Meira var spurt um getu en aldur á vegunum á Snæfellsnesi! En svo þegar Magnús hafði aldur til fékk hann hið formlega ökupróf og hafði atvinnu af akstri í áratugi. Og til viðbótar við rekstur vörubíls kom svo vélaútgerð. Magnús átti margar vélar um dagana og hann keypti og seldi allt eftir þörfum hvers tíma og umfangs þeirra verkefna sem hann sinnti. Og við höfum þessa dásamlegu mynd í sálmaskránni af nokkrum af vélum Magnúsar – og hann er sjálfur næsta smár hjá stórtækjunum. En hann hafði fulla stjórn á tækjunum.

Hjúskapur og barnalán

Svo var það Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir. Sumarið 1960 fór hún að vinna í Bjarkarlundi. Svo var haldið ball í Tjarnarlundi í Saurbænum. Nokkrir starfsmanna í Bjarkarlundi fengu frí og fóru til að dansa. En Lovísa, sem man að hún var í grænni peysu, dansaði ekki aðeins vals og ræl heldur fann manninn sinn. Magnús sá hana og hún hann. Svo kom hann svífandi, tók í hönd hennar og bauð henni upp. Hann var stefnufastur og vissi hvað hann vildi. Og Lovísa var varkár, skoðaði Ólsarann vel og notaði innsæið. Allt gekk upp. Þau dönsuðu sig til framtíðartengsla á þessu afdrifaríka balli í Saurbænum. Hún fór svo heim um kvöldið með stjörnur í augum og Magnús sveif heim með ástina í hjarta og símanúmer hennar á blaði. Svo hringdi hann í hana um haustið og þau hittust, sambandið byrjaði að fléttast. Svo ætlaði Magnús að koma suður um jólin. Og hann þurfti svo sannarlega að hafa fyrir að finna elskuna sína, því hann varð að ganga á undan rútunni yfir alla Fróðárheiði, svo dimmt var hríðarkófið! En alla leið komst hann og þau Lovísa settu upp hringana inn í herbergi hennar á æskuheimilinu í Keflavík. Svo komu þau fram og sýndu fingurgullin – og tengdaforeldrarnir fögnuðu. Magnús gekk síðan aldrei einn í hríðarkófum lífsins – þau gengu tvö saman – áttu alltaf stuðning í hvoru öðru.

Móðir Magnúsar veiktist um veturinn og hann skrifaði konuefni sínu og spurði hvort hún gæti komið til að bjarga heimilisrekstrinum í Ólafsvík. Lovísa fór vestur og þar með hófst hjúskapur þeirra og hefur staðið í meira en hálfa öld. Þau unnu líka saman, m.a. við Búlandshöfða þar sem hún sá um fæði fyrir vegagerðarmennina, en hann ók. Um tíma leigðu þau Magnús íbúð í Ólafsvík en svo ákváðu þau að flytja suður. Þau voru samstiga og komu sér upp húsnæði. Þau bjuggu í Kópavogi. En Magnús sá svo auglýsingu um hús og stóra landspildu á Hraðastöðum í Mosfellssveit. Hús og land freistuðu hans og hann gerði sér grein fyrir kostum þess að hafa pláss fyrir allar vélarnar heima við. Svo fóru þau og skoðuðu, Lovísa fór yfir alla þætti með honum og svo tóku þau stefnuna upp í sveit með barnahópinn sinn. Það var gæfuspor í lífi þeirra.

Og þau Magnús og Lovísa nutu barnaláns.

  1. Elstur er Guðmundur sem fæddist árið 1962. Guðmundur er bóndi í Káraneskoti í Kjós. Kona hans er Jóhanna Hreinsdóttir. Þau eiga Lovísu Ólöfu, Lísbet Dögg og Atla Snæ.
  2. Jenný fæddist árið 1965. Hún er ráðgjafi og maður hennar er Andrés Guðni Andrésson. Þau eiga þrjá syni: Magnús Óskar, Bergvin Gísla og Guðna Emil.
  3. Þriðji og yngstur barna Magnúsar og Lovísu er Benedikt Sævar. Hann fæddist árið 1971 og starfar sem tæknifræðingur. Kona hans er Sigrún Magnea Gunnarsdóttir. Þau eiga fjórar dætur. Þær eru Bergljót Soffía, Inga Birna, Freyja Dís og Lóa Mjöll.

Svo eru langaafabörn þeirra Magnúsar og Lovísu þrjú: Hrönn, Erna Jóhanna og Andrés Óskar.

Störf og verk

Magnús hafði löngum atvinnu af akstri og vélaútgerð. Hann bæði ók fyrir aðra og tók að sér alls konar verk, stór og smá. Víða kom Magnús við sögu. Margar götur og fráveitukerfi á suðvesturhorninu eru hans verk. En Magnús var meira en bílstjóri og vélamaður. Hann var stöðugt með augun opin fyrir nýjum möguleikum. Hann þorði að skoða tækifæri sem gáfust. Þau Lovísa stofnuðu rekstur um það sem þeim þótti fýsilegt. Magnús notaði þekkingu á vélum og kunnáttu við vélabreytingar til að þróa vélar, sem hann þurfti við smiðjur sem þau settu á fót.

Þar sem fjölskyldan átti oftast hesta gerði Magnús sér góða grein fyrir skeifum og notkun þeirra. Hann fékk hugmynd um kaldsmíðaðar skeifur og kom þeim í framleiðslu. Skeifurnar voru mikið notaðar vegna endingar. Þau seldu verksmiðjuna.

Þá stofnuðu og ráku þau hjón hellusteypu og notuðu vikur til gerðar á milliveggjahellum. Verksmiðjan var flutt í Gnúpverjahrepp og síðan seld.

Fyrirtækið um brunnlokin var svo það síðasta sem þau Magnús stofnuðu.

Minningarnar

Hvaða minningar áttu um Magnús? Manstu þolinmæði hans og skapstillingu? Manstu hvað hann gat verið þrautseigur við viðgerðir? Manstu hve gott yfirlit hann hafði við verk? Og manstu hve vélarnar entust hjá honum af því að hann fór vel með og hafði þrautþjálfað skynjun sína á hvað græjurnar þyldu og hvað mætti bjóða þeim? Manstu hve kjarkaður Magnús var, glöggur og útsjónarsamur? Manstu umhyggjusemi Magnúsar og að hann var alltaf viljugur til að styðja alla í fjölskyldu sinni ef honum fannst þörf á? Manstu hve örlátur hann var og bóngóður? Manstu persónustyrk hans, að hann gafst aldrei upp? Ræktaðu minningarnar um Magnús. Leyfðu þeim að næra vitund þína og líf. Og taktu mark á fyrirmyndinni Magnúsi. Vertu með vitund og vertu opinn fyrir framtíðinni.

Hin opna framtíð og himininn

Magnús og Lovísa keyptu landskika austur í Grímsnesi árið 2005. Þau vildu gjarnan skapa góða aðstöðu fyrir sig og sína. Magnús flutti tæki austur og fór að sinna landbótum, ýtti m.a. upp stórri skjólmön. Mönin sem hann ýtti upp er eins og spurningarmerki í laginu og svo stór að hún sést utan úr geimnum og á Google-map. Og innan hrings – við Magnúsartorgið – er góð aðstaða fyrir alla fjölskylduna og þar er bústaður þeirra Lovísu. Þessi aðstaða er ætluð fólkinu hans og er vitnisburður um vökula þjónustu við stórfjölskylduna. Magnús var stór í þjónustu sinni og verkum. Magnúsartorgið verður vitnisburður um þá opnu framtíð sem Magnús tók ávallt fagnandi. En nú er hann farinn og verkin hans og minningar lifa.
Magnús var trúaður og nú er hann farinn að skoða vegagerð, manir og brunnlok himins. Hann stofnar ekki fleiri fyrirtæki. Hann mun ekki búa til fjölnotaveiðitæki fyrir laxveiði á Íslandi eða aðrar nýjar græjur fyrir þessa veröld. Hann gaukar engu dýrmæti að þér framar til að tjá þér tilfinningar sínar eða afstöðu til þín. Magnús spilar ekki Aerosmith eða Eagles aftur í þessum heimi – eða Rachmaninov 2. Magnús átti margar vélar og bíla um ævina en kaupir ekki framar eða selur. Hann hefur látið af útgerð og hefur ráðið sig í útgerð á himnum þar sem ekkert bilar, allt gengur smurt og feilfrítt.

Guð geymi Magnús Jóhannsson – og Guð geymi þig.

Minningarorð í Mosfellskirkju, 22. nóvember, 2017. Jarðsett í Mosfellskirkjugarði. Erfidrykkja í safnaðarheimili Lágafellssóknar. Karlakór Kjalnesinga. Organisti Þórður Sigurðarson.