Greinasafn fyrir merki: Lovísa Bergþórsdóttir

+ Lovísa Bergþórsdóttir +

Lovísa var traust og hlý. Þegar ég kynntist Lovísu, börnum hennar og fjölskyldu fylltist ég gleði og þakklæti yfir hlýjunni í samskiptum, virðingu í tengslum og samstöðu hennar með fólki og góðu mannlífi. Þegar maðurinn hennar Lovísu, Jón Pálmi Þorsteinsson, lést fyrir liðlega þremur árum íhuguðum við í útför hans trú og tengsl. Og traust eða skortur trausts er aðalmál í lífi allra, í samfélagi og í vef heimsbyggðarinnar. Einn merkasti sálfræðingur Bandaríkjamanna á tuttugustu öld, Erik Eriksson, setti fram merka kenningu um traust, og sú viska hafði mikil áhrif í fræðaheiminum og hafði áhrif á uppeldismál, skólaskipan, sálfræðimeðferð, kirkjustarf og aðrar greinar og víddir mannheima. Erikson dró saman efni úr umfangsmiklum rannsóknum og hélt fram að til að barn njóti eðlilegs þroska þurfi það að hafa tilfinningu fyrir að andlegum og líkamlegum þörfum þess sé fullnægt og að veröldin sé góður og viðfelldin staður. Þegar að þessara þátta er gætt getur orið til frumtraust – sem er afstaða til lífsins, fólks, veraldar og lífsins.

Manstu eftir hve Lovísu var annt um að öllu fólkinu hennar liði vel? Mannstu að henni var velferð fólks aðalmál? Hún vildi að líf ástvina hennar væri traust og hamingjuríkt. Traust er veigamikill þáttur í trú – og trú verður aldrei skilin, ræktuð eða þroskuð nema í anda trausts. Trú deyr í vantrausti. Og þegar dýpst er skoðað er mál Guðs að tryggja traust fólks til að lífið lifi og þroskist – að allir fái lifað við óbrenglaða hamingju. Það var erindi Jesú Krists í veröldinni að treysta grunn tilveru manna og alls lífs – að menn megi lifa sem börn í traustu samhengi.

Upphafið í Þingholtunum

Lovísa Bergþórsdóttir fæddist í Reykjavík inn í haustið þann 7. september, árið 1921. Og hún lést þann 14. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Bergþór Vigfússon húsasmíðameistari og Ólafía Guðrún Einarsdóttir, húsfreyja. Hún var nefnd Sigríður Lovísa við skírnina, en það voru svo margar Sigríðar fyrir í fjölskyldunni, að hún notaði helst Lovísunafnið. Sigríðarnafnið hvarf vegna notkunarleysis. Fjölskylda Lovísu bjó í húsinu nr. 12 við Þingholtsstræti, rétt hjá Menntaskólanum í Reykjavík og KFUM-og K. Bræður Lovísu voru: Sigursteinn, sem lést ungur, og Einar Sigursteinn, en hann lést fyrir þrjátíu árum. Einar var árinu eldri en Lovísa.

Miðbærinn og Þingholtin voru skemmtilegur uppvaxtarreitur á milli-stríðsárunum. Lovísa naut góðra uppvaxtarskilyrða, hlýju og kærleika. Hún fylgdist vel með umhyggju foreldranna fyrir samferðafólki og hve vökul móðir hennar var gagnvart kjörum og aðstöðu fólks. Og Lovísa lærði gjafmildi, umhyggju og ábyrgð í foreldrahúsum. Hún fór stundum með lokuð umslög út í bæ til aðkreppts fólks og vissi að í þessum umslögum voru peningar, sem móðir hennar sendi. Og alla tíð síðan vissi Lovísa að fjármunir væru til eflingar heildarinnar og vandi annarra væri ekki einkamál þeirra heldur samstöðumál og tilkall. Þökk sé Lovísu og hennar fólki fyrir lífsvörslu þeirra – trausta framgöngu í þágu lífsins.

Lovísa þurfti ekki langt til að sækja skóla. Miðbæjarskólinn var skammt frá og Lovísa skokkaði niður og suður götu. Hún var námfús og vildi læra meira en grunnskólinn gat veitt henni. Og þegar Lovísa hafði aldur til fékk hún inni í öðrum skóla í nágrenninu, Verslunarskóla Íslands. En þá urðu skil, sem höfðu afgerandi áhrif á skólagöngu Lovísu. Móðir hennar missti hægri handlegg vegna krabbameins og heimilis- og fjölskyldu-aðstæður urðu til þess að Lovísa sagði sig frá námi, tók við heimilinu og ýmsum verkefnum sem á hana voru lögð. Hún annaðist móður sína vel og til enda. Lífsverkefnin tóku við og veigamikill þáttur þeirra tengdust Jóni Pálma Þorsteinssyni. Og þá erum við komin að ástalífinu.

Jón Pálmi Þorsteinsson

Þau Lovísa og Jón sáumst ekki á rúntinum í Lækjargötu í Reykjavík eða á síldarplani norður á Siglufirði heldur á Oxfordstreet í London! Margir hafa farið á Oxfordstreet í verslunarerindum, en fáir hafa verið eins lánsöm og þau Lovísa og Jón að finna hvort annað á þeirri merku verslunargötu í heimsborginni.

Það var mjö gaman að sjá ljómann í augum Lovísu þegar hún sagði okkur söguna um fyrsta fund þeirra. Þau Jón voru á sama hóteli eins og ástmögurinn á himnum hefði laðað þau saman með snilldaráætlun. Og Lovísa mundi líka nákvæmlega hvernig Jón hafði verið klæddur og þekkti hann jafnvel á fötunum. Svo kynntust þau, fundu traustið, festuna, í hvoru öðru, ástin kviknaði og þau luku árinu 1950 með því að ganga í hjónaband, þann 30. desember. Síðan áttu þau stuðning og voru hvors annars í 65 ár. Það er ekki sjálfsögð gæfa eða blessun. En þau ræktuðu traustið og virðinguna og það er gæfulegt veganesti til langrar samfylgdar.

Þau Jón og Lovísa nutu láns í fjölskyldulífi sínu og eignuðust tvö börn og afkomendafjöldinn vex þessi misserin. Pálmi er eldri og fæddist í október árið 1952. Pálmi er læknir og prófessor í fræðum sínum. Kona Pálma er Þórunn Bára Björnsdóttir, myndlistarmaður. Þeirra börn eru Lilja Björnsdóttir, Jón Viðar, Vala Kolbrún og Björn Pálmi.

Lilja er læknir og hennar maður er Einar Kristjánsson hagfræðingur. Þau eiga börnin Kristján, son Einars af fyrra sambandi, Lilju Þórunni, Sóleyju Kristínu og Birtu Lovísu.

Jón Viðar er hagfræðingur og kona hans er Lára Kristín Pálsdóttir, sérfræðingur í stjórnarráðinu. Börn þeirra eru Björk, Freyja, Lilja Sól – af fyrra sambandi Láru – og Hallgerður Bára.

Eins og mörg önnur í fjölskyldunni er Vala Kolbrún læknir. Hennar maður er Jón Karl Sigurðsson, stærðfræðingur. Þau eiga Pálma Sigurð.

Björn Pálmi Pálmason er tónlistarmaður og tónsmíðameistari eins og kona hans einnig. Hún heitir Veronique Vaka Jacques.

Jóna Karen er yngra barn þeirra Jóns og Lovísu. Hún er vorkona, fæddist í maí 1955. Hún er hjúkrunarfræðingur. Hennar maður er Ólafur Kjartansson, læknir og prófessor. Þau eiga þrjú börn: Lovísu Björku, Kjartan og Davíð.

Lovísa Björk er læknir.

Kjartan er rafeinda- og verkfræðingur.

Davíð er læknir og kona hans er Ramona Lieder, líftæknifræðingur. Og það er ánægjulegt að segja frá því að þau eru nýgift og sögðu sín já í Þingvallakirkju á laugardaginn síðasta. Hjónavígsludag þeirra er alltaf hægt að muna – því hann er menningarnæturdagurinn, Reykjavíkurmaraþondagurinn. Börn þeirra Davíðs og Ramonu eru Anna Lovísa og Ólafur Baldvin.

Lovísa helgaði sig heimilinu og börnum sínum og velferð fjölskyldunnar var henni aðalmál. Þegar börnin voru fullorðin fór Lovísa að starfa utan heimilis, og þá við lyfjagerð og umbúðaframleiðslu. Eftir að eiginmaður hennar féll frá hugsaði Lovísa um sig sjálf þar til fyrir tæpu einu og hálfu ári að hún flutti frá Tjarnarstíg 3 og á hjúkrunarheimilið Sóltún og naut þar góðrar umönnunar, sem hér með er þökkuð.

Minningar

Við skil er mikilvægt að staldra við og íhuga. Við fráfall ástvinar er ráð að kveðja, að fara yfir þakkarefnin, rifja upp eigindir og segja eftirminnilegar sögur. Og varðveita svo í huga og lífi það sem við getum lært til góðs og miðla áfram í keðju kynslóðanna. Og það er svo margt sem Lovísa skildi eftir til góðs og í lífi fólksins hennar, ykkar sem hér eruð.

Manstu gæsku hennar? Hve kærleikur og umhyggja hennar var innileg? Lovísa var ástrík móðir, sem umvafði fólkið sitt og heimili kyrrlátum friði. Hún lagði börnum sínum í huga metnað, dug, vilja til náms, vinsemd til fólks og virðingu fyrir lífinu. Lovísa kenndi þeim visku – t.d. að ekki væri hægt að gera meiri kröfur til fólks en það stæði undir. Hver og einn yrði að gera eins hægt væri, en meira væri ekki hægt að krefjast.

Manstu hve fallega og vel Lovísa talaði til fólks og blessaði? Manstu hve Lovísa ávann sér virðingu? Og manstu að hún þorði og gat talað um tilfinningaefni og trúmál? Það er ekki öllum gefið og þakkarefni þegar fólk hefur í sér þroska til slíkra umræðna. Lovísa var óspör á að segja börnum sínum og ástvinum sögur frá fyrri tíð og var góð og gjöful sagnakona. Manstu skerpu Lovísu og greiningargetu hennar? Og svo var hún fjölhæf. Og Lovísa staðnaði ekki, hún hélt áfram að hugsa um þjóðmál og velferðarmál samfélagsins og varð róttækari með árunum. Mannvirðing bernskuheimilisins og umhyggja fyrir velferð fólks varð Lovísu leiðarvísir um hvað og hver gætu orðið fólki, menningu og þjóð til gagns.

Manstu hve skemmtileg Lovísa var? Hve bjartsýn og ljóssækin hún var? Svo hafði hún þokka, útgeislun, gætti vel að fötum sínum og klæðnaði. Og var afburða húsmóðir og rækti hlutverk sín og verkefni af alúð. Henni lánaðist að gera mikið úr takmörkuðum efnum. Og hún tók viðburðum lífsins með æðruleysi. Hún var góður kokkur. Lovísa talaði einhvern tíma um að hún sæi eftir að hafa ekki eignast börnin fyrr, til að hafa notið samvisanna enn lengur! En vísast hefði sagan þá orðið öðru vísi, og Jóna Karen og Pálmi ekki orðið til heldur eitthvað annað fólk! En hún naut samvistanna við fólkið sitt lengi og hlúði að því alla tíð.

Manstu dýravininn Lovísu? Þegar börnin hennar og fjölskyldur þeirra voru að flytja til útlanda fengu þau Jón hundinn Ponna að gjöf. Hann var nánast himingjöf. Og samstillt voru þau Lovísa um að gleðja Ponna og veita honum hið besta samhengi. Hann varð þeim líka góður heilsuvaki því þau stunduðu hundagöngur og fóru skemmtiferðir saman með Ponna.

Manstu lestrarkonuna sem fylgdist vel með? Hún las t.d. bók um Hillary Clinton og aðrar slíkar á ensku! Lovísa hafði áhyggjur af fátækt heimsins og stríðsrekstri og vildi leggja sitt af mörkum til að sem flestir nytu lífsgæða og friðar. Hún var friðarsinni og verndarsinni í afstöðu.

Inn í eilífðina

Nú eru skil. Leyfið myndunum að þyrlast upp í huga. Lovísa brosir ekki framar við þér, grennslast eftir líðan þinni eða fer út í garð til að lykta af angandi rósum. Hún fer ekki framar upp að Esjurótum til að hleypa hundi og tjáir þér ekki framar þakklæti. Lovísa átti gott og gjöfult líf, sem er þakkarvert. Nú er hún horfin inn í traustið sem ekki bregst, rósagarð himinsins. Hún fer blessuð og þakkir ykkar er ilmur eilífðar.

Guð geymi Lovísu og varðveiti um eilífð. Guð geymi þig og gefi þér traust og trú.

Amen.

Útför Lovísu var gerð í kyrrþey frá Fossvogskapellu fimmtudaginn, 23. ágúst, 2018. Bálför og því jarðsett síðar í duftgarðinum Sóllandi, K – 10 – 10. Erfidrykkja í Hótel Radisson Blu við Hagatorg.