Greinasafn fyrir merki: lax

Lax og marðar kartöflur

Þessa dásamlegu laxuppskrift fann kona mín í færeysku heimilistímariti – Búumvel þeirra Færeyinga. Mér þótti skemmtilegt að lesa uppskriftina og meðlætið er knúst epli. Það eru ekki trjáepli heldur jarðepli sem eru notuð. Karföflurnar eru marðar lítillega þegar búið er að forsjóða þær.

Byrjið á kartöflusuðunni. Sjóðið í 10-15 mínútur allt eftir stærð kartaflanna . Kveikið á ofninum og stillið á 175°C. Vindið ykkur síðan í maukgerðina. Ég viðurkenni að ég íslenskaði uppskriftina lítillega að eigin geðþótta og kryddunarsmekk. 

Fyrir fjóra

4 laxastykki eða 800 gr – helst villtur lax

2 skalottulaukar

1 púrrulaukur

4 vorlaukar

3 hvítlauksrif

½-1 fennikel

300 gr rjómaostur

1 dl mjólk – eða matreiðslurjómi

1 msk sítrónusafi

1 dillbúnt

1 tsk salt

½ tsk nýmalaður pipar

1-2 tsk capers

Hreinsið fiskinn og skerið í stykki. Saxið púrrulaukinn, skalottulauk og vorlauk þokkalega fínt og hvítlauk fínt. Fennel skorið örþunnt. Steikja síðan allt hið skorna í olíu á pönnu í þrjár til fjórar mínútur. Færið síðan yfir á olíuborið og hitaþolið fat. Laxstykkjunum er komið fyrir ofan á lauk og fennel-maukinu. Sítrónusafinn fer yfir laxinn og síðan er saltað og piprað eða kryddað með uppáhalds laxkryddi kokksins. Saxið svo dillið. Hellið mjólkinni/rjómanum í matvinnsluvél og rjómaostinn. Setjið síðan megnið af dillinu út í en það sem eftir er af dillinu verður notað sem skreyting þegar maturinn verður borinn fram. Blandið saman og smyrjið síðan rjómaostblöndunni yfir fiskinn. Fatið er síðan sett í ofninn og steikt í ca. 15 mínútur. Skoðið þykkasta stykkið til að fylgjast með steikingunni og steikið hvorki of lítið né of mikið.

Marðar kartöflur

800 gr – 1 kg karföflur– helst litlar

100 gr smjör

möndlukurl eftir smekk

2 hvítlauksrif

Eftir suðu á kartöflunum eru þær færðar í smurt ofnfast fat. 100 gr smjör brætt á pönnu og tvö marin hvítlaukslauf sett út í. Þegar búið er að forsjóða kartöflurnar eru þær færðar í smurt ofnþolið fat og lítillega marðar. Þá saltaðar og kryddað ofurlítið og síðan er hvítlaukssmjörinu hellt yfir og möndlukurli líka. Þá er fatið með krömdu eplunum – kartöflunum – sett inn í ofninn síðustu tíu mínúturnar þegar laxinn er að steikjast. Svo eru lax og kartöflur sett á disk og dilli og capers dreift yfir fiskinn.

Bæn: Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu – og lof sé Færeyingum.

Lax, graslaukssósa og bygg

Uppskriftin er auðveld og hentar ágætlega bæði fyrir gestaboð sem og heimilismáltíð. Vert er að vinna sósuna nokkrum klukkutíum fyrir máltíð eða jafnvel deginum áður. 

Uppskrift ætluð 4

laxaflök, 800 gr, roðflett og beinlaus notið ekki sjóeldisfisk heldur fisk úr ám eða landeldisfisk) 
8 súrdeigsbrauðsneiðar
1 dl rifinn óðalsostur eða pizzuostur
1 tsk oreganó
1 tesk tímían
1 tsk salt
rifinn börkur af 2 limeávöxtum (þ.e. límónum)
safi úr 1 limeávexti
2 hvítlauksrif, pressuð
(150 g smjör – má sleppa)

Stillið ofninn á 200 gráður. Smyrjið stórt eldfast fat og leggið laxaflökin á fatið og saltið fiskinn. Setjið brauðsneiðarnar, ostinn, kryddið, börkinn og safann af limeávextinum og pressaðann hvítlaukinn í blandara og tætið vel í sundur. Látið vélina ekki ganga of lengi, þá verður brauðið blautt. Dreifið mylsnunni jafnt yfir laxaflökin. Bakið í 15 mínútur. Takið flakið úr ofninum og setjið smjör í litlum bitum ofan á – eða bræðið smjörið og hellið jafnt yfir.

Berið laxinn fram með graslaukssósunni, byggi, og uppáhaldssalati. Ég fer ýmsar leiðir bæði vegna bragðs og til að gefa liti á diskinn. 

Graslaukssósa
200 ml majones
200 ml sýrður rjómi
1 dl smátt klipptur eða saxaður graslaukur
2 msk smátt söxuð steinselja
1 tsk oreganó
ferskmalaður pipar og cayenne pipar á hnífsoddi
safi úr ½ limeávexti (þ.e. safi ur hálfri límónu)

Blandið öllu vel saman og kælið helst í a.m.k. 3 klst.

Sagan um fiskidráttinn mikla í fimmta kafla Lúkasarguðspjalls er mögnuð og verð íhugunar með fiskmeti. Fiskur er gamalt Kriststákn, sem kristnir menn frumkirkjunnar teiknuðu í sandinn til að tjá á hvern þeir tryðu. Kirkjan er kölluð til veiða í margvíslegum skilningi. Bragðgóður kirkjufiskur hentar í kirkjusamhengi og hefur í sér heilnæma merkingardýpt sem tjáir hlutverk kirkjunnar í veröldinni.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.

Myndin er af Ísak, syni mínum. Hann var kátur þegar hann veiddi sjóbirting í Eystri Rangá fyrir mörgum árum. Nýrunninn sjóbirtingur hentar ágætlega í þessum rétti. Fyrsti lax Þórðar, elsta sonar míns, sem hann veiddi í Bíldfellshylnum í Soginu fyrir enn fleiri árum, var eldaður skv. þessari uppskrift. Vinir okkar Elínar elduðu réttinn fyrir hjónavígsluveisluna okkar á aðfangadegi páska 2000. Þetta er því hjónahamingjuréttur og ekki einkennilegt að Elín biður stundum um hann í kvöldmatinn. Kokkur segir þá amen. 

Bleikja eða lax í tómata-appelsínu og kúrenusalsa

Enn einn dásemdarrétturinn úr Simple-bókinni hans Ottolenghi. Í upprunauppskriftinni er gert ráð fyrir að silungur sé notaður. En þar sem lax er kosinn af meirihlutanum á mínu heimili notaði ég hann. En ég hef hugsað mér að elda þennan rétt í sumar og nota þá sjógengna bleikju. En þetta reyndist ekki bara réttur fyrir mánudag heldur gersemi. Uppskriftin er miðuð við tvo.

Hráefni

150 gr smátómatar, piccolo eða kokteil – fjórðungaðir

1 appelsína – lífræn því börkurinn er raspaður af og síðan safinn krestur úr

2 límónur – safinn úr annari kreistur en hin er skorin til að skreyta.

1 ½ tsk hlynsýróp

1 ½ matskeið kúrenur  sem liggja í 1 msk sítrónusafa í hálftíma – í uppskriftinni er hin útgáfan að nota 1 ½ msk barberries – sem ég fann hvergi í borginni – krydd sem notað er í persneskri og oríentalskri matargerð.

1 tsk fennelfræ – mulið í mortéli

1 msk góð ólífuolía

70 gr ósalt smjör

2 hvítlauksrif – marin eða pressuð

500 gr lax eða bleikja

10 gr koríanderlauf – smásaxað

Salt, pipar að vild – ég notaði líka smávegis af chilliflögum.

Matargerðin

1 Hita ofninn – 200°C

2 Þegar búið er að fjórðunga – þe skera tómatana fjóra hluta– er þeim komið fyrir í skál. Appelsínusafinn, appelsínubörkurinn, límónusafinn, hlynsýrópið, kúrenur, fennelfræið, olían og smávegis af flögusalti yfir sem og nýmalaður pipar. Hræra til að blanda saman hráefnum. Þetta er salsað sem er svo notað til að setja yfir fiskinn þegar hann kemur úr ofninum og er borinn fram. 

3 Bræða smjörið á vægum hita og hvítlaukurinn út í. Þegar smörið er bráðið er slökkt undir. Fiskinum komið fyrir á olíubornu ofnföstu fati. Stráið salti yfir fiskinn. Smjörið fer svo yfir fiskinn. Fatið með fiskinum í sett í ofn og bakað í ca 15 mínútur. Ath að tímalengdin fer eftir hversu stór/þykkur fiskurinn er.

4 Setjið á disk. Setjið kóríanderlaufin niðurskornu í salsað og síðan er því ausið yfir fiskinn. Og svo er flott að skreyta með litfögrum límónum við hliðina. Og einhverjir vilja kreista þær yfir fiskinn.

Ég sauð núðlur með og saltaði og bragðstyrkti með tamarisósu.

Þökkum Drottni því að hann er góður.

Og miskunn hans varir að eilífu.

(tips: Hebreskt rím er m.a. inntaksrím: Gæska Guðs inntaksrímar við miskunn Guðs – og það er ofurkrydd með svona fínum mat).

Verði ykkur að góðu.

 

 

Lax Ottolenghi og Bridget Jones

Þetta var laxinn sem Bridget Jones var lofað frá Ottolenghi (í Bridget Jones’ baby). Var reyndar ekki á matseðlinum þegar myndin var gerð  en uppskriftin var bara búin til þegar myndin var sýnd; bragðgóður, heilsusamlegur og einfaldur réttur. Dásamlegur í andstæðum sínum. Eftir tvær ferðir á staði Ottolenghi-staði í London í októberbyrjun 2018 kíkti ég í Simple-bókina og eldaði þennan rétt fyrir mitt heimalið. Dásamlegur réttur og fékk mikið lof. Ég laga rétti að eigin bragði og fordómum og þetta er ekki alveg kórréttur Ottolengi heldur tilbrigði við uppskriftina í Simple. Perlubygg er ljómandi með þessum lukkurétti. 

Fyrir fjóra.

Hráefnið

100 gr kúrenur eða litlar rúsínur

4 laxaflök – ca 800 gr 

100 mk ólífuolía

4 sellerístönglar (laufið af þeim notað til skreytingar). Skorið í cm-langa bita.

30 gr furuhnetur grófsaxaðar

40 gr capers (og tvær matskeiðar af safanum)

40 gr grænar ólífur, saxaðar í ca 1 fersm smælki

Ofurlítið af saffran-þráðum (1/4 tsk) sett í 1 msk af heitu vatni

20 gr steinselja – grófsöxuð

1 sítróna, hluti saxaður til að fá 1 tsk og pressa safa í 1 tsk

Salt og pipar, limepipar

Matseldin

Setjið kúrínur/rúsínu í sjóðandi vatn og leyfið að vatnsmettast í amk tuttugu mínútur.

Setjið tvær teskeiðar af ólíuolíu, salt og pipar á flökin.

75 m af ólífuolíu í pönnu við háan hita. Sellerí og furuhnetur á pönnuna og steikja í 4-5 mínútur en ekki líta á annað, því allt gæti brunnið. Slökkva svo undir pönnunni.

Blanda saman kapers og capersvökvann, ólífurnar, saffran og saffranvatnið og slettu af salti. Þerra vatnið af kúrínunum/rúsínum og bæta þeim við, sem og steinselju, sítrónuvökvanum og niðursöxuðu sítrónunni.

Setja afganginn af olíunni (eða smjöri sem ég nota gjarnan til fisksteikingar) – á steikarpönnuna.  Þegar pannan er oðin heit er laxinn steiktur, fyrst í þrjár mín roðmegin. Minnka pönnuhitann og snúa flökunum og steikja 2-4 mínútur í viðbót. Taka af pönnunni.

Setja laxinn á diska og setja allt hráefnið yfir. Og skreyta með sellerílaufinu.

Verði ykkur að góðu. 

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen