Greinasafn fyrir merki: kjúklingalundir

Trans-vegan kjúlli

Við hjónin vorum á leiðinni úr vegan-skeiði og Elín mín hvíslaði á koddanum að hana langaði svo í kjúlla „annað kvöld, einhverja óvænta útgáfu“ bætti hún við. Og þá var ekki annað í boði en að finna það sem gæti hugnast henni. Ég fletti og fann uppskrift í ljómandi riti Úlfars Finnbjörnssonar, sem heitir Stóra Alifuglabókin. Klettakálspestóið var gert skv. tillögu hans en ég bætti reyndar basiliku við. Ég mæli þó frekar með venjulegu pestói – það er fínlegra en rúkkóla-pestó. Fimm stjörnur var stjörnugjöfin – svo ég held áfram að taka við pöntunum á koddanum. Það er gott að elda fyrir mitt fólk. Það tekur vel við og kann að þakka með fögrum umsögnum og mörgum stjörnum. Hið hnyttna heiti “trans-vegan” kemur frá  Sigrúnu Óskarsdóttur. Hér er svo uppskriftin í minni útgáfu.

Steiktar kjúklingalundir

Með pestó, spínati og pasta. Fyrir 4.

600 gr kjúklinglundir

2 msk olía

1 kúrbítur

30 snjóbaunir

salt og pipar

1 poki spínat

600 gr soðið pasta

furuhnetur sem má sleppa

Parmesanostur – rifinn sem má líka sleppa

Klettakálspestó

1 poki klettakál

2 msk furuhnetur

2 msk parmesanostur

3 hvítlauksgeirar

1-2 msk ljóst balsamikedik

1-2 msk sítrónusafi

1 msk agavesíróp

salt og pipar

1 ½ dl olía

Aðferð

Kjúklingalundirnar steiktar á pönnu þar til þær eru brúnar. Kúrbítstrimlum og snjóbaunum bætt við og stekt áfram ca 2 mínútur. Bragðbætt með salti og pipar. Ég þurfti að hella ofurlitlu vatni af sem kom frá kúrbítnum. Nokkrum skeiðum af pestó – skv smekk – yfir kjöt og grænmeti á pönnunni og hrært í til að dreifa vel pestóinu. Spínatblöð og volgt pasta á fat og síðan allt af pönnunni yfir pastað. Skreyta með furhnetum og parmesan.

Pestógerðin

Öll hráefnin i matvinnsluvél og maukað vel.

Varðandi pasta

Notaði Thai Rice Noodles sem er glútenlaust og “no cholesterol.” Eftir suðu smelltum við sesamolíu og tamarisósu út í pastað. Það gefur yndislegt bragð og fallegan lit.

Borðbæn

Allt sem í dag er borið borði

blessaðu nú með þínu orði,

eilífi Drottinn; þelið þitt

þvoi og lýsi’ upp hjarta mitt.

(þessa borðbæn samdi Sigurður Ægisson)