Greinasafn fyrir merki: jól

Jólakertið

Vilhjálmur Eyjólfsson á Hnausum í Meðallandi skrifaði æviminningar Einars Einarssonar, oddhags völundar og djákna í Grímsey. Vilhjálmur var vinur minn og ég tölvusetti handrit hans sem var síðar prentað í Dynskógum, héraðsriti Skaftfellinga. Þessar minningar eru hinar merkustu og vænst þykir mér um jólaminningu Einars djákna. Hún er hér að neðan. Nú erum við samverkamenn í Hallgrímskirkju, við Grétar Einarsson, sem er sonur djáknans, mikill dug- hug- og öndvegismaður. 

Jólakertið

eftir Einar Einarsson, djákna.

Það var aðfangadagskvöld jóla og ég hef líklega verið fimm eða sex ára. Það var gott veður og tungsljós, en all mikið frost. Foreldrar mínir höfðu lokið útiverkum. Þetta voru ekki mikil útiverk því skepnurnar voru fáar. Faðir minn gaf kindunum en mamma hrossunum, sem voru aðeins tvö. Og hún var búin að sjóða hangiketið. Búin að baka flatbrauð, steikja kleinur og vinna fleiri eldhúsverk, sem hátíðinni heyrðu til, steypa tólgarkerti og brjóta spýtur í eldinn, til að þurfa ekki að gera það á jóladag. Þá var barið að dyrum og mamma fór til dyra. En gesturinn var góðkunningi okkar, sem átti heima í sveitinni, ekki langt frá okkur og var nú að fara heim til sín. Í hægri hendi hélt hann á einhverju, sem var vafið inn í gljápappír. Ég varð allur að augum og eyrum og gesturinn rétti mér pakkann. „Þú verður að fara vel með þetta,“ sagði gesturinn. „Það má ekki detta. Það getur verið brothætt. Þetta er gjöf, jólagjöf til þín frá huldukonu.“ Ég stóð þarna með pakkann í höndunum, hissa og hálfhræddur. Oft hafði ég heyrt um huldufólk og vissi, að það var gott fólk, en það varð að umgangast það með sérstakri góðvild, annars gat maður haft verra af. Það mátti ekki kasta steinum út í lofið eða einhverjum hlutum, án þess að vita hvað fyrir væri. Þetta gilti auðvitað gagnvart öllum lifandi verum. En okkur var sagt, að forðast þetta vegna huldufólksins. Það mun hafa verið áhrifameira. Í syðri hluta baðstofunnar voru sauðkindurnar og kýrin, værðarleg og jótrandi. Þeim hafði verið gefið betra hey en vanalega og bráðum mundu þau fara að sofa eins og við. Þrátt fyrir jólagjafirnar gaf ég mér tíma til að koma til dýranna og gæla við þau. Ekki gleymdi ég vini mínum, gamla hrútnum. Ég hafði fengið að gefa honum tuggu af góðu heyi og nú vildi hann láta klóra sér. Ég gerði það eins vel og ég gat og svo sagði ég við hann „gleðileg jól.“

Hátíðin nálgast og við erum búin að skipta um föt. Í baðstofunni loguðu 3 ljós, tveir lýsislampar og einn olíulampi, táknmál heilagrar þrenningar. Svo kemur mamma með matinn og hann er betri en venjulega. Og skepnurnar fengu líka betra hey þetta kvöld. Eftir kvöldmatinn var húslesturinn lesinn. Var það jólapredikun úr Vídalínspostillu. Ég sat á vinstra hnénu á pabba og fletti fyrir hann blöðunum, um leið og hann las. Eitt sálmavers var sungið á undan og eftir, pabbi gerði það. Hann hafði mikinn róm og sterkan. Og nú var auðvitað sjálfsagt að skoða jólagjöfina frá huldukonunni. Auðvitað trúði ég þessu, sem hann Eyvi sagði, vinnumaður Stefáns á Hnausum. En seinna komst nú upp, að jólagjöfin var frá Guðlaugu í Króki. Hann Eyvi hafði alltaf gaman að einhverju smáskrítnu. Þegar ég hafði tekið gljápappírinn utanaf kom í ljós stórt og fallegt kerti. Það var gulbrúnt með stórri gylltri rós og úr vaxi, ekki tólg eins og ég var vanastur. Svo fékk ég fleiri gjafir frá nágrönnunum. Og auðvitað varð að kveikja á kertinu undir eins. Ég horfði hugfanginn á ljósið, það var fallegra en á tólgarkerti. Samt gaf ég mér tíma til að koma til vinar míns gamla hrútsins. Ég hafði fengið að gefa honum tuggu af góðu heyi um kvöldið. Nú varð ég aðeins að klóra honum og segja við hann „gleðileg jól.“ Svo fór ég að horfa á kertið mitt. Það var siður, að hafa allt sem rólegast á aðfangadagskvöld. Menn töluðu saman eða lásu í bókum hver fyrir sig. Og svo var einnig heima. Og friður jólanna lagðist yfir gömlu baðstofuna mína, þar sem menn og dýr lögðust til svefns á sömu hæð, aðeins smáhindrun að dýrin kæmust ekki til okkar. Pabbi gekk betur frá kertinu, að það dytti ekki og þau fóru að sofa, en ég vakti og horfði á kertaljósið.

Tíminn leið og ég lá á koddanum og starði á kertið mitt og dýrðina úti fyrir. Jólanóttin var björt en öðru hvoru svifu snjóflugur hægt til jarðar. Tungsljósið glitraði í frostrósum á glugganum og það grillti í puntinn, sem var fyrir utan gluggann. Oft hef ég séð jólaskraut, en alltaf finnst mér, að þetta hafi verið fegurst. Smátt og smátt fannst mér ljósið á kertinu verða skærara og verða eina ljósið og mér fannst punturinn og frostrósirnar breytast í skóg. Það voru grænir grasfletir milli trjánna og þarna milli trjánna svifu litlar hvítar verur. Þær bentu mér til sín og mér fannst, að þær gætu náð mér til sín á þennan hátt. Ég heyrði undurfagran söng, svo fagran, að slíkan söng hef ég aldrei heyrt hvorki fyrr né síðar. Það var ekki venjulegur söngur, orðaskil greindust ekki. þetta voru hljómar án orða, eða var það söngvar lífsins, tónar eilífðarinnar. Ég þokast að glugganum og svo er ég kominn út í græna jörð. Ég er á milli trjánna hjá litlu hvítu verunum. Svo man ég ekki meira. Ég gleymdi stund og stað. Þegar ég vaknaði um morguninn var kominn bjartur dagur. Kertið mitt var auðvitað löngu útbrunnið. Aðeins kveikurinn lá enn samanhringaður í skálinni, sem kertið var sett í. Síðan þetta gerðist er langur tími liðinn, margir tugir ára. Samt man ég þetta eins og það hefði skeð í gær. Og enn í dag finnst mér eins og að aldrei hafi slokknað á þessu dásamlega kerti, jólakertinu mínu, sem huldukonan gaf mér. Svo bjartur getur helgidómur góðra minninga orðið. Og þegar ég ætla að fara að sofa á aðfangadagskvöld, þá finnst mér ennþá, að nú sé kertið mitt komið, stóra gulbrúna kertið með fallegu rósinni.

Ástareldur

Jólaminningar bernskunnar hafa vitjað mín síðustu vikur og ég hef verið að segja ungviðinu á heimilinu frá. Og klementínuflóðið á heimilinu hafa minnt mig á hvernig ávextir voru stórkostleg áminning um að jólahátíðin var að nálgast.

Þegar appelsínurnar komu í Árnabúð og KRON á Grímsstaðaholtinu vissu allir í hverfinu og fundu á lyktinni að jólin væru að koma. Ég man hve stórkostlegt var að rogast með heilan appesínukassa – og svo annan með eplum – upp tröppurnar heima. Hátíðarilmur fyllti vitin, fjölskyldan safnaðist saman og hlátur hljómaði. Síðan eru appelsínur, mandarínur og klementínur mér tákn um dásemd lífsins og vekja tilfinningu um lífsunað – það besta sem til er.

Og nú eru jólin komin. Jól eru ekki aðeins tilefni til að hvílast. Jólin varða hamingju og líf fólks. Hvað er mikilvægt? Hvað er þér mikilvægast í lífinu? Við þurfum ekki að spyrja ástfangið fólk sem kom með Elvu Björku til skírna í kirkjunni í dag. Þau eiga undur lífs í huga og höndum. Hvað blasir við þessari ungu stúlku, hvernig verður líf hennar?

Hvað gerir mannlíf þess virði að lifa því? Og svo er til önnur tengd spurning, sem þó er meiri. Hvað er það sem gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Í faðmlögum fjölskylduboðanna og augnatillitum hinna ástföngnu eru kannski vísbendingar um svör við báðum spurningum.

Tengsl og líf

Norski rithöfundurinn og lífsspekingurinn Jostein Gaarder skrifaði dásamlega bók sem heitir Appelsínustelpan. Í sögunni er sagt frá Georg, fimmtán ára dreng. Einn daginn fékk hann bréf og það var ekkert venjulegt bréf eða tölvupóstur heldur bréf sem látinn faðir hans skrifaði. Pabbinn hafði dáið mörgum árum áður. Pabbabréfið og viðbrögð drengsins eru uppistaðan í sögu um ástina, lífið og þá dásamlegu veröld sem við öll byggjum. 

Sagan er ástarsaga og fjallar um mann, sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur þegar hann sá hana fyrst. Appelsínuburðurinn átti sér eðlilegar skýringar og margt er ofið inn í söguna um þann merka ávöxt.

Stúlkan og maðurinn áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó fyrir Georg, drenginn þeirra. Enginn vissi um, að maðurinn var dauðsjúkur þegar hann ritaði þetta opinskáa og tilfinningaþrungna bréf til drengsins því hann faldi það. En svo fannst það ellefu árum síðar, þegar Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi. Hin áleitna meginspurning, sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um – og höfundurinn beinir að lesendum að íhuga – er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti. Við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni, jafnvel þó við flýjum eða viljum ekki horfast í augu við hana. Við svörum með atferli, vinnu, tómstundum, hugðarefnum – og líka hvernig við strjúkum og föðmum ástvini okkar – eða látum það vera.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef lífið er stutt er það ekki líf sem vert er að lifa? Hvað þarf maður, að hafa lifað til að vera sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því?

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, norður á Íslandi, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka vegna ástvina okkar. Við missum ástvini og syrgjum þá. Öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Jólaboðskapurinn

Í tilfinningum og ástarsögum manna getum við séð speglast ástleitni Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, Guð réttir hjálparhönd. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku ávöxt himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum elskuð.

Guð og barn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður, en eru þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára geimsins, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu eigin jólaboði í eilífðinni, heldur tekur eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, finnur til með sjúkum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og kemur til þín þegar þú ert komin-n í öngstræti? Það er vegna þess, að Guð er guð elskunnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur heldur stór og útleitandi í ástalífi sínu. Guð er ríkur og fangvíður. Sagan af Guði er ástarsaga – stórkostleg ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama? Ef þú ert reiðubúin-n til slíks nálgast þú veröld Guðs.

Saga þín er merkileg saga. Og þú ert einstakur og einstök og þið eruð elskuð. Saga appelsínustelpunnar staldrar við lífsmálin og hjálpar okkur að horfa elskulega á fólkið okkar. Mest er ástarsaga Guðs, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Í ástarsögum heimsins sjáum við Guð. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást, Guðsástinni meðal mannanna.

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu…

Amen

Hugleiðing jóladag.

Undur lífsins

Gleðileg jól. Nú opnum við vitund okkar gagnvart jólasögunni. Í helgileik í skóla var átta ára drengur að leika í fæðingarsögu Jesú. Hann lék harðlyndan hóteleiganda, sem ekki vildi leyfa óléttri konu að komast í skjól. Meðan drengurinn beið eftir að María og Jósef kæmu að dyrum hans velti hann vöngum yfir hlutverki sínu. Að hurðarbaki dagaði á hann, að hótelkarlinn væri verulega vondur. Hvaða góður maður sendir burt konu sem væri komin að fæðingu? Gat hann leikið svona hrotta? Á jólunum ættu allir að vera góðir. Allt í einu var drengurinn kominn í bullandi siðklemmu.

Meðan hann var að hugsa sinn gang kom að þeim dramatíska hápunkti, að hjónaleysin í jólasögunni börðu að dyrum. Drengurinn lauk upp og örvæntingarfull spurning hljómaði. „Er eitthvert pláss fyrir okkur í gistihúsinu?“ Drengurinn hikaði og svaraði ekki strax en allir þekktu framhaldið, leikarar og tilheyrendur. Þegar hann svaraði loks sagði hann skýrt en óvænt:

„Já, hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin og látið fara vel um ykkur!“

Hvíslarinn í leikritinu glennti upp augun og hálfkallaði til stráksins: “Nei, hér er ekkert pláss.” Og hann endurtók setninguna: “Nei, ekkert pláss.” Nokkrir leikaranna flissuðu í stresskasti, en önnur fölnuðu. Leikstjórinn fórnaði höndum og svo hló einhver. Kennararnir sprungu úr hlátri og að lokum hló allur salurinn hömlulaust.

Þetta er jólasaga um hið óvænta, sem öllu breytir. “Já, hjá mér er nóg pláss.” Hér var öllu snúið við og mannvonskan varð að góðmennsku. Slæmar fréttir urðu góðar. Og þannig er raunar sagan um komu Jesú. Stundum þarf að vitja sögu með nýjum hætti til að skilja hana. Stundum þarf róttæka hliðrun til að viskan dagi á menn og kátínan sömuleiðis.

Sögur – mismunandi nálgun

Jólasagan um komu Jesúbarnsins er sögð ár eftir ár, leikin, túlkuð, endursögð og prédikuð. Við leyfum henni að seitla inn í okkur því hún varðar það mennskasta af öllu mennsku, fæðingu barns.

Jólasagan er grunnsaga. Svona helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þær eru ekki á yfirborðinu – heldur dýptina. Þær skiljast ekki með einföldum hætti, heldur eiga sér plús eða ábót, sem ekki birtist nema með því að lúta að sögunni, upplifa hana – eða breyta henni.

Plússaga fyrir líf þitt

Ár eftir ár heyrum við söguna um Jesúbarnið sem kemur. Ár eftir ár leggjum við eitthvað inn í þá sögu eða fáum út úr henni. Ár eftir ár komum við að sömu atburðum. En við heyrum hana og skiljum mismunandi allt eftir því hvernig okkur líður, í hverju við höfum lent og í hverju áhyggja eða gleði okkar er fólgin. Við heyrum söng englanna ef við erum ástfangin og fagnandi. Við skynjum höfnun gistihússkarlsins ef við erum í kreppu og höfum reynt höfnun. Við skiljum angist Jósefs ef við höfum verið kokkáluð eða lent í erfiðum aðstæðum.

Við erum á stöðugri hringferð ársins og í spíral tímans. Við eldumst og þroskumst, ávinnum og missum, gleðjumst og hryggjumst, náum heilsu eða töpum henni, vinnum í lotteríum lífsins eða töpum öllu.

Allt hefur þetta áhrif á vísitölu gleðinnar eða stuðul hryggðarinnar í lífinu. Og við gerum best að læra að lifa í spíral þroskans og ná að koma að áningarstöðum árs og lífs með nýjum hætti og vilja til visku.

Hvernig skilur eða skynjar þú jólasöguna? Helgisaga af slíkri ofurstærð eins og frumsagan um fæðingu Jesú skyldi ekki vanmeta sem glimmersögu eða glanssögu, sem aðeins gagnast börnum.

Allar stóru helgisögur mannkyns eru sögur á mörgum plönum og með mörgum túlkunarvíddum. Þær eru klassík, sögur, sem alltaf megna að bæta við og segja eitthvað nýtt. Þær lifa af strauma tímanna, kröfur þeirra einnig. Þær sigla heilar yfir öldufalda fordóma og smekkbreytinga. Þetta eru sögur, sem eiga sér dýpt og ábót. Þetta eru plússögur, sem menn græða alltaf á, en aðeins ef staldrað er við til að hlusta, skoða, nema og skilja.

Plús Guðs

Drengurinn í helgileiknum skildi allt í einu, að hótelstjórinn gerði rangt. Krísan varð tækifæri. Þannig er það líka í þínu lífi. Það er ekkert sjálfsagt, að þú haldir jól með gömlu móti, gömlum hugsunum, sem þjóna lífsgæðum þínum ekki lengur. Það getur verið, að þú hafir lent í einhverju á árinu, sem hefur breytt lífi þínu. Það getur verið, að eitthvað hafi kallað til þín, en þú hafir ekki sinnt því. Það getur verið, að þú alir með þér þrá hið innra, sem ýtir við þér. Þá máttu spyrja hvort þú eigir að leika hlutverkið samkvæmt gömlu handriti, eins og alltaf hefur verið gert og allir ætlast til af þér? Getur verið að þú megir hlusta á klemmu þína og opna hjartað að nýju. Verður þú að hjakka í sama gamla farinu – eða er pláss hjá þér fyrir nýjung lífsins?

Jólasagan er ekki um fortíð heldur líf okkar í nútíð. Sagan virkar enn og á sér alls konar útgáfur og tilbrigði líka um þessi jól. Það var undursamleg tilkynning sem birtist á facebook fyrir nokkrum dögum. Kona sem á íbúð í miðbænum í Reykjavík – í nágrenni Hallgrímskirkju – tilkynnti að hún myndi ekki nota íbúðina sína yfir jólin og ef einhvern vantaði húsaskjól vildi hún lána íbúðina. Ekki fyrir gjald – heldur ókeypis þeim sem þyrftu. Eina skilyrðið var að nágrannar yrðu ekki fyrir ónæði. Hvílík gjafmildi, traust og elskusemi. Og margir hrifust af. „Já hjá mér er nóg pláss. Verið velkomin.“ Rétti jólaandinn.

Jólin – tími fyrir hið stóra

Áramót eru fín til endurmats, en jólin eru ekki síðri. Við áramót eru skil tímabúta, en á jólum kemur eilífðin inn í tíma, Guð inn í heim manna. Undrið verður þvert á hversdagsleikann. Allt, sem er útflatt í lífi þínu má breytast. Allt, sem er orðið slitið og gamalt, má endurnýja. Gömlu handritin þín eru kannski alveg úrelt. Og mestur er plúsinn um Guð, sagan um, að Guð elskar svo óendanlega, að jafnvel fúlir hótelhaldarar geta séð, að lífið er að fæðast. Guð kallar til manna í iðju lífsins, kallar til þín.

Megum við gista hér, er pláss hjá þér? Drengurinn opnaði upp á gátt og sagði: “Já, hjá mér er nóg pláss.” Konan í miðbænum líka. Og nú er komið að þér. Eru föstu liðirnir eins og venjulega óumbreytanlegar skorður – eða má bjóða þér að upplifa undur lífsins?

Verið velkomin er erindi jólanna, þegar allt verður nýtt, spuni lífsins verður eins og hann á að vera og hlátur og gleði berst um sal og heim. Það eru gleðileg jól, sem Guð vill gefa þér.

Amen

Hallgrímskirkja, jólanótt.

Bæn

Dýrð sé þér Guð í upphæðum,

sem komst til manna á jólum.

Við bjóðum þig velkominn til þinna – fögnum þér.

Þökk fyrir að þú varðst maður,

barn meðal okkar, fyrir okkur.

Þú ert eilífð í tíma, opnar nýjar víddir öllum.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum.

 

Blessa þau sem líða, eru sjúk og aðþrengd.

Við nefnum nöfn þeirra í huga okkar.

Vitja þeirra Guð.

Blessaðu fólkið okkar, þau sem sitja við hlið okkar, þau sem eru heima, þau sem eru fjarri okkur, þau sem við vildum vera nánari.

Vitja hinna fátæku, þau sem eru á flótta undan stríðum, hin kúguðu og rétt hlut þeirra. Kenn okkur ábyrgð í verki, að opna dyr okkar og segja: Já, nóg pláss, verið velkomin.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu meðal allra manna.

Í Jesú nafni – amen

Ógnar pólitísk rétthugsun jólum?

img_1621

Er það hlutverk sveitarstjórna, skólastjóra, kennara, stjórnmálamanna og fyrirtækja aðbreyta ferlum og mannfundum til að móðga ekki einhverja, sem eru ekki hrifnir af kristnum siðum og venjum? Á Bretlandseyjum hefur ekki lánast að byggja menningarbrýr sem hafa þjónað fjölbreytnisamfélaginu. Það var niðurstaða nefndar á vegum enskra stjórnvalda og var birt í The Sunday Telegraph og fleiri miðlum. Að skera kristin gildi, heiti, venjur og hefðir út úr opinberu menningarlífi, t.d. jólahaldi, hefur ekki orðið til að skapa opið samstöðu-samfélag sem hinir pólitískt rétttrúðu væntu. Af ótta við að særa brugðust yfirvöld og vel meint kurteisin var kjánaleg í ýmsum tilvikum. Lög voru jafnvel ekki virt. Í sumum innflytjenda-gettóum var ekki tekið á ofbeldi, s.s. misnotkun barna og kynferðisglæpum gegn konum. Spennan vex í bresku samfélagi og Brexit er m.a. niðurstaðan af vaxandi pirringi.

Boðskapur skýrsluhöfunda á vegum Cameron og May er að nú sé komið að menningarlegum viðsnúningi. Jólatrén á ekki lengur að kalla “hátíðartré” heldur Christmas tree. Skólayfirvöld, sveitarstjórnir, ráð samfélags og viðskiptalífs eiga að virða að samfélög hafa gildi, hefðir og venjur sem þarf að viðhalda og rækta. Verja þarf fólk gegn hvers konar ofbeldi.

Niðurstaða ensku skýrslunnar er að mestu mistökin hafi verið að halda ekki í grunngildi, grunnlög og grunnhefðir til að þau sem fluttu inn gætu aðlagast bresku samfélagi. Til að samfélag sé opið og vel virkt þarf að gæta inntaks menningar. Trú og hefðir eru veigamiklir þættir heilbrigðs siðar en einfeldningsleg pólitík er engum til gagns.

Við Íslendingar megum gjarnan læra af mistökum granna okkar. Miklu skiptir að halda vörð um gildi og siði sem þjóna fólki, gefa samhengi, tjá menningu, styrkja samfélag og auðga andlegt líf fólks. Kristnir menn eiga alltaf að styðja það sem eflir andlegt heilbrigði. Trú, gildi og gefandi hefðir lífga og efla. Ræktum hið góða á aðventu og Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.

Fréttablaðið 19. desember, 2016. 

Ég elska þig

IMG_8904Guð gefi þér gleðileg jól. Og jólagleðin má berast á milli fólksins hér í kirkjunni. Gerðu svo vel að rétta fólkinu sem situr við hlið þér í bekjunum hendina og bjóða gleðileg jól!

Já, gleðileg jól eru komin, undrið er loksins orðið. Í kyrru þessa hliðs himins máttu láta fara vel um þig og hugsa: Hvað skipir þig mestu máli á þessum jólum?

Fyrst um pakkana: Á mörgum heimilum er á þessari stundu verið að rífa upp fyrsta pakkann núna, svona til að róa ungviði og kannski einstaka eldri, sem ekki ráða við sig! Hvað mun koma upp úr pökkunum þínum? Nýturðu hlýjunnar að baki gjöfunum? Eru einhverjir skyldugjafir – án hjartahlýju? Færðu kannski pakka sem kosta lítið en snerta þig þó djúpt og verða þér mikils virði af því þeir tjá ást og alúð? Pakkar eru mismunandi og gildi þeirra líka. En hvaða gjöf dreymir þig um?

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Útilokunaraðferðin getur stundum gagnast. Hugsaðu um hvað þú mátt missa. Hvað má hverfa? Eru það hlutirnir þínir, vinnan eða er það fólkið þitt? Hvað er það, sem þú getur alls ekki án verið?

Vegna starfa minna á ég trúnað margra og ég sperri eyru þegar fólk er á krossgötum lífsins – og stundum við ævilok – gerir upp og talar um stóru málin. Hvað skiptir fólk máli þegar allt er skoðað? Það er lifandi fólk, maki, börn, ástvinir – ekki dótið. Og oft er stærsta sorgin við lífslok að hafa ekki haft meira næði til að vera með ástvinunum.

Bestur

Pakkarnir þínir – hvernig verða þeir? Þegar drengirnir mínir voru litlir skrifuðu þeir orð á blað, og líka setningar frá hjartanu, áhrifaríkar tilkynningar með stórum og barnslegum stöfum. Á blöðunum stóð: “Pappi er bestur” eða “Mamma er best í heiminum.” Þetta voru ekki lýsingar á staðreyndum, sem allir eru sammála um, heldur fremur tjáningar á tilfinningum, afstöðu og trausti. En við, sem fengum svona ástarbréf glöddumst. Á einum sneplinum stóð: “Ég elska þig, pabbi.” Þessi setning varðar lífshamingju mína. Þegar maður er búinn upplifa margt og sjá flest sem þessi veröld býður og sjá inn í lífskima þúsunda fólks, þá veit maður að það er þetta sem skiptir öllu máli. Ég elska þig – þetta undur að fá að elska og vera elskaður. Það er það sker úr um líf og hamingju. Miðinn sem drengurinn minn skrifaði  – Ég elska þig, pabbi – verður ekki  metinn til margra króna, en varð mér óendanlega dýrmætur.

Elskar þig einhver?

Um hvað er jólaboðskapurinn? 

Og þá erum við komin að erindi jólanna. Hverju leyfum við að komast að okkur? Erum við til í að opna tilfinningapakkann líka? Jólasagan, helgisagan í Lúkasarguðspjalli, varðar það mál. Hvernig eigum við að bregðast við þessari upphöfnu sögu um hirða, engla og ungt par á ferð og í miklum vandræðum. Það er engin ástæða til að taka skynsemi og sjálf úr sambandi þótt þú njótir jólanna. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu, ekki heldur um vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Allt þetta kemur við sögu, en þau mál eru fremur rammi en meginmál. Erindi jólanna er ekki heldur um hvort Jesús Kristur fæddist árið 1, eða árið 0, eða 4 árum eða 6 fyrir tímatal okkar, sem er vissulega kennt við Kristsburð.

Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Trúin varðar ekki bókstaf sögunnar heldur inntak hennar, sem er persónulegt og raunar persóna.

Jólaboðskapurinn er um að Guð elskar og elskar ákaft – af ástríðu. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins bréflega eða í bók heldur kemur í persónu. Er þetta ekki að skræla jólaboðskapin um of? Nei, vegna þess að efni og form helgisögu þjónar ákveðnum tilgangi – að sýna hið guðlega samhengi, hina persónulegu nálgun. Hið ytra þjónar hinu innra. Aðferð helgisögunnar er að nota stef, ímyndir og minni, sem þjóna boðskap eða skilaboðum. Við megum alveg skræla burt það, sem ekki hefur lengur skiljanlega skírskotun til að taka eftir hinu guðlega.

Kraftaverk voru á fyrri öldum tákn um Guðsnánd, en eru það varla lengur, jafnvel hindrun trúar. Vitringar þjónuðu ákveðnu hlutverki til forna til að tjá mikilvægi. Svo var þjóðmenning og þjóðarhefð að baki í Biblíunni, sem var eins og stýrikerfi, sem stjórnaði hvaða atriði urðu að vera í sögunni til að merkjakerfið og sagan gengi upp og hvernig átti að segja hlutina til að samhengi og algert mikilvægi væri ljóst. Þetta var túlkunarrammi helgisögunnar.

Með hjartanu

Í spekibókinni Litla Prinsinum (eftir Antoine de Saint-Exupéry) segir refurinn við drenginn að skilnaði þessi merkilegu orð: “Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: maður sér ekki vel nema með hjartanu.”

Við þurfum ekki að leggja augu og eyru við öllu eða taka allt bókstaflega. En við ættum að leggja okkur eftir inntaki fremur en umbúnaði, merkingu en ekki ásýnd, persónu fremur en sögu.

Jólajafir eru jafnan í umbúðum. Svo er einnig með jólasöguna en þegar búið er að taka umbúðir helgisögunnar burtu kemur gjöfin í ljós, það sem máli skiptir. Stærsta gjöf jólanna, sem við getum öðlast og opnað, er lífsundrið, að tilvera þín er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða. Þvert á móti – nóttin er rofin með gráti Guðsbarnsins, sem er ljóssveinn og merkingarvaki allrar veraldar. Þú mátt taka upp lífspakkann og munt uppgötva að alla tíð þráði persónudjúp þitt svörun.

Dýpstu sannindi lífsins eru með þeim hætti að hvert barn getur skilið og með hjartanu. Stærsta lífsgjöfin er “Ég elska þig.”

Guð er elskhugi, ástmögur, sem elskar ákaft og tjáir þér alltaf – á öllum stundum lífsins, á álagstundum, á hátíðum, með börnum, í fangi ástvina og alls staðar: “Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.”

Njóttu gjafanna þinna í kvöld, efnislegra og óefnislegra, horfðu í augun á fólkinu þínu og sjáðu í þeim undur lífsins. Gjöf lífsins er að Guð sér þig, gefur þér jólagjöf í ár og segir við þig:

„Ég elska þig.“

Amen. – í Jesú nafni.

Bæn.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna. Við fögnum þér.

Kenn okkur að njóta lífsgjafanna sem þú gefur

og heyra og skynja að þú elskar og kemur til okkar sjálfur.

Blessa þau sem eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar. ——— Umvef þau – Guð.

Vitja fjölskyldna okkar og okkar allra sem erum í þínum helgidómi.

Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.

Íhugun og bæn – aftansöngur á aðfangadagskvöldi, 2015. Sigurður Árni Þórðarson.

Lexía:  Mík 5.1-3

En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.
Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.

Guðspjall:  Lúk 2.1-14

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.