Greinasafn fyrir merki: Helga Guðmundsdóttir

Helga Guðmundsdóttir +

„Og svo dönsum við dátt þá er gaman meðan dagur í austrinu rís. Og svo leiðumst við syngjandi saman út í sumarsins paradís.“

Þeir eru fallegir verðlaunaskildirnir sem Helga fékk fyrir dans. Og hún var góður og alhliða dansari. Hún kunni vel samkvæmisdansa og fékk verðlaun fyrir. Og svo voru suður-amerísku dansarnir. Hún kunni cha cha cha, rúmbu, samba og salsa. En svo kunni Helga líka tango sem er ekki á allra færi að útfæra með stæl. En hún fór yfir dansgólfið með þokka og lagði sitt til dansstjórnarinnar. Það þarf fimi, tilfinningu, góða líkamsvitund og vilja til að dansa vel. Helga hafði í sér getuna til að æfa sporin, þola æfingarnar og opna tilveruna fyrir takti, sveiflum, hljómum og öllum hinum sem voru á gólfinu. Og hún hélt áfram að bæta við og hafði gaman af ýmsum dansstílum, líka línudans, dansinum sem gengur víða undir nafninu square dance. Helga var m.a.s. í hópi sem dansaði þennan skemmtilega dans í kvikmyndinni Fúsi. Hún á sér því líka framhaldslíf í heimi kvikmynda.

Dans í lífinu. Líf með hreyfingu, líkamsfærni, fegurð hreyfingar, samstilling margra á stóru sviði fótmenntarinnar. Dans er eins og tákn fyrir allt hið fjölþætta sem við menn gerum. Við erum einstaklingar í hóp. Við verðum að taka tillit til annarra svo við hvorki rekumst á eða stígum ofan á tær eða fætur annarra. Það er eittvað heillandi við hinar öguðu hreyfingar og samhæfingu allrar manneskjunnar í flæði fjöldans. Við erum ekki aðeins stór efnishlunkur heldur verur margra vídda, með heyrn, sjón, tilfinningar og útlimi sem þarfnast samhæfingar. En svo eru alltaf einhver mörk á takti, rými, möguleikum, skynjun og færni. Hvað svo? Hvað er meira, hver er merking alls þess sem við gerum, erum, iðjum og hugsum? Þar mætum við stóru spurningum lífsins.

Jesús svaraði spurningum Tómasar um veginn og lífsferðina: „Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið.“ Þar var taktur lífsins skilgreindur, samhengi og hvernig má vera og lifa. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Ævistiklur

Helga var fædd í Reykjavík 23. febrúar árið 1942. Hún var eina barn hjónanna Guðrúnar Guðmundsdóttur (1920 – 2003) og Guðmundar Gestssonar (1914-93). Mamman var af Snæfellsnesi, frá Efri-Hlíð í Helgafellssveit, en pabbinn frá Miðdalskoti í Kjós. Móðir Helgu var heimavinnandi og Guðmundur var bifreiðastjóri. Helga átti annað nafn framan við Helgunafnið. Hún var nefnd og skírð Sigríður Helga en notaði Helgunafnið.

Helga var Reykjavíkurdama. Hún ólst upp í foreldrahúsum í Skipasundi, sem þá var líflegt og barnmargt úthverfi Reykjavíkur. Síðar fluttu þau í Hlíðargerði í Smáíbúðahverfi og þar var Helga á unglingsárunum. Helga bjó í foreldrahúsum við skýran og ákveðinn aga. Helgu gekk vel í skóla enda vel gerð, vel gefin, iðjusöm og ákveðin. Þegar hún hafði lokið skólagöngu fór hún að svipast um eftir vinnu. Að ráði varð að hún réðist til Mjölkursamsölunnar. Hún vissi að þar væri góður vinnumórall því faðir hennar vann hjá fyrirtækinu. Helgu leið vel á vinnustað og Mjólkursamsalan var vinnustaður hennar í mörg ár. Vinnufélagarnir voru glaðværir og gott samstarfsfólk. En svo langaði Helgu að breyta til og fór til sælgætisgerðarinnar Nóa-Síríus. Þar vann hún síðan í nokkur ár. Eftir það lá leið hennar aftur til baka til Mjólkursamsölunnar og vann m.a. lengi í ísgerð Samsölunnar. Helga vann svo á síðari árum einnig við þrif á skólahúsnæði Framtíðarinnar sem heitir Framvegis, miðstöð símenntunar.

Svo kom Guðmundur Vilbergsson hlaupandi inn í líf Helgu. Hún hafði farið með Þóru, vinkonu sinni á ball í bænum og þær voru á leið heim. Þær ætluðu að ná í leigubíl og sáu bíl álengdar í miðbænum. En svo vildi til að Guðmundur og Eggert Ólafsson, vinur hans, höfðu líka verið á balli og voru á heimleið. Og Guðmundur tók á rás til að ná leigubílnum og Eggert kom skokkandi á eftir. Svo þegar Guðmundur var búinn að festa sér bílinn komu stúlkurnar  – fremur brúnaþungar yfir þessum skorti á herramensku þeirra félaga. En á henni var þó enginn þurrð því þeir buðu dömunum að láta aka þeim heim. Og bílferðin var skemmtileg, þær heilluðust og létti reiðin yfir Guðmundarhlaupinu. Þær gerðu sér grein fyrir að þessum körlum var ekki alls varnað. Og svo urðu þau vinir, síðan pör og svo hjón.

Guðmundur var glæsilegur tveggja metra maður. Þau Helga voru flott par, bæði hávaxin og vel að manni. Þau gengu í hjónaband 11. apríl árið 1970. Guðmundur var rafvélavirkjameistari og rak með bræðrum sínum fyrirtækin Segul og Skipaljós. Þau Helga og Guðmundur bjuggu fyrstu árin í Vesturbænum, á Kaplaskjólsvegi og héldu svo enn vestar og keyptu hús á Bollagörðum á Seltjarnarnesi. Helga bjó þeim Guðmundi stílhreint og fagurt heimili. Síðar, þegar Helga var orðin ekkja, flutti hún í Tjarnarmýri, sem er líka á Nesinu. Og síðustu árin bjó hún við Dalbraut. Þeim Helgu og Guðmundi varð ekki barna auðið, en fyrir hjónaband átti Guðmundur einn son, Hans Vilberg.

Þau Helga og Guðmundur studdu hvort annað, fóru víða, höfðu ánægju af ferðalögum innan lands sem utan. Þau nutu samvistanna við fólkið þeirra. Helga hafði samband við ættmenni sín. Og svo fór hún með Guðmundi sínum í margar ferðir norður á Skaga. Þar áttu Guðmundur og bræður hans jörðina Foss í Skefilsstaðahreppi, stunduðu þar veiðar og nutu unaðar norðlenskrar sumarbirtu og fagnaðar stórfjölskyldunnar. Bræður Guðmundar og fjölskyldur þeirra urðu Helgu mikilvægir. Þökk sé þeim, frænkum og ættmennum Helgu, sem og vinum þeirra fyrir alúð þeirra í garð Helgu fyrr og síðar – ekki síst þegar hún var orðin ekkja. Guðmundur var vinamargur og Helgu lét vel að vera með vinum hans og taka þátt í félagslífinu sem þeim tengdist. Guðmundur varð fyrir heilablóðfalli á miðjum aldri og féll frá fyrir 23 árum, eftir alvarleg veikindi. Fráfall hans var æviskuggi Helgu síðan. Ljósið féll aldrei yfir allan skuggann. 

Minningarnar um Helgu

Og svo eru minningarnar. Hvernig manstu Helgu? Sástu hana dansa? Manstu fatastílinn hennar Helgu? Manstu að hún hugsaði vel um móður sína sem bjó hjá henni síðustu árin? Og vissir þú að hún var náin föður sínum? Manstu hve umtalsfróm Helga var? En hún gat líka alveg sagt skoðun sína? Hún hafði skýrar hugmyndir um margt og sagði óhikað hug sinn ef sá gállinn var á henni: „Ég hefði nú haft þetta öðru vísi.“ Helga hafði áhuga á fólki og spurði um hagi þess og hvað væri að frétta ef hún átti tal við ættingja. Hún fylgdist vel með og hafði jafnan góða yfirsýn varðandi ættfólk sitt. En svo var Helga einnig hlédræg um eigin líðan og hugsanir og fáir áttu greiða leið að innstu tilfinningum hennar eða þönkum. Hún var tengd en líka utan seilingar. Það kom einnig fram í félagstengslum hennar. Hún vildi ekki lokast inni eða vera lengi á hverjum stað. Best lét henni að stjórna eigin ferðum, geta verið ef henni þótti svo, en geta líka farið af stað ef hún fékk útþrá. Helga var sjálfstæð, gat alveg dansað í takt við alla í kringum sig. En hún vildi líka geta ákveðið sinn eigin danstakt, farið sinna eigin ferða, verið eins og hún vildi. Hún var sjálfstæð, þorði, gat og vildi.

Manstu spilakonuna Helgu? Hún hafði mikla ánægju af spilamennsku. Hún var öflugur vistspilari og sótti gjarnan þangað sem fólk kom saman til að spila. Og félagsvistin var góð félagsleg viðbót við dansinn og reyndi vel á heilann. Það þarf útsjónarsemi, félagslegt innsæi og snerpu til að vera leikinn vistspilari.

Og manstu að hún vildi hafa líf sitt og fjármál á hreinu og í góðri reglu? Og manstu hvað hún gat hlustað vel? Manstu hve Helga hafði gaman af að klæða sig upp?

Himininn

En nú er Helga farin. Hún fær sér ekki framar nýjan bíl sem örugglega hefur varadekk. Hún ekur ekki hingað og þangað til að hitta sitt fólk. Hún dansar ekki línudans í kvikmynd og gerir enga slemmu framar. 23 ára aðskilnaði þeirra Guðmundar er lokið. Vegurinn, sannleikurinn og lífið – og himininn er opinn. Nú hefur Helga dansað veginn inn í eilífðina – til fundar við fólkið sem hún elskaði. Henni er fagnað og boðið strax á stóra dansgólf himinsins. Nú sveiflast hún í tangó eilífðar með Guðmundi sínum. Og það er gott. „Og svo leiðumst við syngjandi saman út í sumarsins paradís.“

Guð geymi Helgu og Guð geymi þig.

Amen.

Björk og Jón Arnar geta ekki verið við þessa útför og hafa beðið fyrir kveðjur til ykkar sem hér eruð í dag og kveðjið Helgu.

Minningarorð við útför Helgu í Fossvogskirkju 8. desember, 2017. Kistulagning og útför sama dag. Erfidrykkja í Perlunni. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.