Greinasafn fyrir merki: Haukur Bergsteinsson

+ Haukur Bergsteinsson +

„80 ára og heldur uppá 1500 sjósund með því að synda sjósund við Nauthólsvík í Reykjavík.“ Þetta var yfirskriftin á fréttavef á vefnum fyrir einu og hálfu ári síðan. Haukur hafði að venju farið í Nauthólsvík, hitt félaga sína og vini. Svo fór hann í sjóinn og synti tvö hundruð metra. „Það er stórkostleg tilfinning“ sagði hann fréttamanninum og upplýsti að hann hefði byrjað sjósund vorið 2008. Hann hefði langað til að athuga hvort hann gæti farið í svo kaldan sjó og hefði byrjað á því að fara í sjóinn í eina mínútu. En svo hefði tíminn lengst og hann hefði farið að skrifa hjá sér þegar hann hefði farið í sjóinn og líka hvert hitastigið væri. Og svo var hann búinn að synda 1500 skipti þegar blaðamaðurinn ræddi við hann.[i]Já, Hauki fannst það dásamlegt tilfinning. Fjöldi Íslendinga og fólk um allan heim fer í kalt vatn, kaldan sjó, sér til heilsubótar.Og áður en yfir lauk hafði Haukur farið í sjóinn 1708 sinnum, fundið fyrir flæði adrenalínsins í líkamanum, fundið viðbrögðin, kuldan, en naut líka hinnar sterku upplifunar eftir sundið, þegar vellíðanin flæðir um æðar, vöðva, sinar og húð. Og samfélagið er glatt í lauginni.

Vatn fyrir lífið

Ylströndin og Nauthólsvík eru fyrir lífið og miðla lífsmætti og lífsnautn til notenda sinna. Og baðferðirnar eru til hressingar og gott samfélag verður í þeim hópi sem sækir í sjóinn. Og svo hefur verið um allar aldir að vatnið heillar, nærir, eflir, stælir og skapar tengsl og samfélag. Og vatn markar upphaf og endi. Meira segja Jesús Kristur sótti í vatn þegar hann byrjaði starfsferil sinn. Hann fór að ánni Jórdan. Jóhannes skírði hann og þar með hófst ferli eða vegferð sem hefur haft áhrif á heimsbyggðina síðan. Kristnum mönnum frumkirkjunnar þótti þessi vatnssókn Jesú merkileg og tóku mark á henni. Síðan eru skírnarlaugar í kirkjum heimsins. Við hliðina á kistunni hans Hauks er fagur skírnarfontur Leifs Breiðfjörð sem minnir á þessa vatnssókn kristinna manna um aldir. Og fontar kirknanna, líka þessarar kirkju, minna á að Guð nærir og elskar mennina, leyfir okkur að njóta vatnsins, gefur okkur vatn til að baða okkur í. Og við þiggjum lífið að gjöf frá Guði. Vatnið er ævarandi tákn um að við lifum, megum lifa, erum elskuð og getum elskað. Við erum lauguð, sækjum í laugun og svo megum við – þegar þar að kemur – njóta lífsins á Ylströnd eilífðar.

Upphafið

Haukur Bergsteinsson fæddist inn í vorið árið 1936. Hann fæddist 5. maí. Foreldar hans voru mikið dugnaðar- og afreksfólk. Móðir hans var Margrét Auðunsdóttir, verkakona og verkalýðsleiðtogi í Reykjavík. Faðirinn var Bergsteinn Kristjónsson, kennari á Laugarvatni. Bæði voru Sunnlendingar. Margrét var Skaftfellingur, frá Eystri-Dalbæ í Landbroti í Vestur Skaftafellssýslu. En Bergsteinn var Árnesingur, frá Útey við Laugarvatn. Þau Margrét og faðir Hauks bjuggu ekki saman og Haukur var eina barn Margrétar. Börn Bergsteins og yngri hálfsystkin Hauks eru eru: Sigríður, Hörður, Kristín, Áslaug og Ari.

Skóli, vinna, hjúskapur og dætur

Haukur sótti skóla í Austurbæjarskóla. Hann bjó í nágrenni Skólavörðuholtsins, við Barónsstíg og Bergþórugötu. Svo fylgdist með uppbyggingunni á Holtinu, líka hvernig sprengt var fyrir kirkjukjallaranum og síðan byggt. Hvernig herinn byggði í kapp við íbúana og tók yfir hluta Skólavörðuholtsins. Drengurinn óx til manns og þegar hann hafði aldur til fór hann í Iðnskólann hér á holtinu og lærði málmsteypu og vann við iðn sína um tíma. Haukur var alla tíð opinn og sótti í aukna menntun og reynslu. Og hann réð sig á norsk farskip og sigldi um öll heimsins höf og náði að skoða veröldina og kom í allar heimsálfur. Hann var kannski á undan sínum tíma því sum skipin sem hann var á voru farþegaskip og hann náði því að krúsa um heiminn. En þessar ferðir breyttu ekki aðeins heimssýn hans og afstöðu til veraldarinnar heldur einnig atvinnu því Haukur veiktist af berklum í Afríku. Hann kom heim og fór á Vífilsstaði sér til heilsubótar. Á hælinu kynntist hann fyrri konu sinni og eftir veruna þar breyttist atvinna hans. Haukur gekk að eiga Málfríði Steinsdóttir og eignaðist með henni dæturnar Margréti og Agnesi. Margrét var fædd 17. apríl árið 1964. Hún var barnlaus og lést árið 2010. Agnes fæddist nákvæmlega tveimur árum á eftir systur sinni, eða 17. apríl, 1966. Hennar maður erÞórir Borg Gunnarssyni. Börn Agnesar eru Sara Borg Þórisdóttir og Haukur Borg Þórisson. Haukur og Málfríður skildu.

Haukur var natinn faðir og sinnti dætrum sínum vel. Og svo var hann á Norðurlandaferð með dætrunum og Margréti móður sinni. Hún hafði samband við Landsýn og spurði hvort einhverjar norðurlandaferðir væru á dagskrá ferðaskrifstofunnar. Já, þá var Samkór trésmiðaað taka þátt í móti í Oslo og Haukur og fjölskylda gætu fengið að fara með. Svo fóru þau af stað í dásamlega ferð. Og í Samkórnum var Ragna Guðvarðardóttir, úr Fljótum í Skagafirði, Ragna gerði sér grein fyrir að þessi Haukur var góður við dætur og mömmu. En hún hugsaði svo ekki meira um hann. Síðar hittust þau og þá gerði hún sér grein fyrir að þessi Haukur var ekki eins mikið unglamb og hún hugði og þau felldu hugi saman, gengu í hjónaband og voru búin að búa saman í nær fjóra áratugi.

Haukur mat Rögnu sína mikils, vináttuna við hana, hæfileika hennar og getu, sem hann dáði. Og þökk sé Rögnu fyrir hve gott heimili hún bjó Hauki og virti þarfir hans og uppátæki. Og studdi hann og styrkti allt til enda.

Vinnan

Þegar Haukur hafði náð sér af berklunum á Vífilsstöðum varð hann að breyta um vinnu. Hann vann um tíma við bensínafgreiðslu en fór svo í skóla að nýju. Hann lærði tækniteiknun og síðar landmælingar í Tækniskólanum. Og þá opnuðust honum dyr hjá Vegagerðinni. Hann hóf störf þar árið 1973 og átti farsælan feril þar yfir þrjátíu ár. Haukur fór víða um land og mældi fyrir vegastæðum, hljóp um fjöll með tæki, setti niður punkta og mældi. Við breytingar hjá Vegagerðinni varð Haukur hluti af Reykjanes-teyminu og kom að öllum framkvæmdum á því svæði. Þegar hann hafði rétt til að láta af störfum hætti hann opinberum störfum, en var ekki tilbúinn að hætta allri vinnu og var ráðinn til Vífilfells. Ekki er nú víst að sykur og safinn sem framleiddur var hjá Vífilfelli hafi verið áhrifavaldur, en það var mikill kraftur í starfsmannafélaginu og m.a. voru stunduð hlaup. Haukur hafði gengið mikið en aldrei stundað regluleg hlaup. En þau urðu honum gleði- og hreystigjafi. Haukur tók þátt í ýmsum hlaupum og rann mislöng skeiðin, m.a. hálft maraþon árið 2008, þá á áttræðisaldri.

Sjósundið og heilsurækt
Hlaupin voru Hauki heilsurækt og lífgjafi þegar hann greindist með krabbamin árið 2005. En þegar hann fékk svo lungnamein varð Haukur að hætta að spretta úr spori. Þegar ein leið lokast geta aðrar opnast – ef fólk er opið og þorir að breytast. Haukur hafði fyrr orðið að breyta í lífinu, breyta um starfsvettvang og hafði glímt við breyttar hjúskaparaðstæður. Þegar lungun voru orðin veil vissi hann að hann yrði að bregðast við og vinna að heilsurækt sinni. Þá gerði hann tilraunina með sjóbað. Og böðin, trúin á gæði þeirra og góður félagsskapur varð honum til eflingar. Haukur var mikils metinn heiðursfélagi í söfnuði sjóðbaðsfólksins. Það var sérstök heiðursstaða hans að fá heitt súkkulaði í heita pottinn í dýrlegum glæsibolla sem bara útvaldir nutu. Morgunblaðið birti einu sinni mynd af Hauki vera skenkt í bolla og þið getið gúglað Hauk á vefnum og skoðað myndirnar – þá sjáið þið skemmtilegheitin.

Og ef sjóböðin minna á skírn minna þessar skenkingar á kirkjulega altarisgöngu. Þegar Haukur gat ekki lengur skokkað tók hann til við fjallgöngur. Hann gekk á Hvannadalshnúk þegar hann var sjötugur, sem tjáir hve vel hann var að manni þrátt fyrir rosalega krabbameinsmeðferð. Síðar gekk hann á Heklu, fór yfir Fimmvörðuháls og gekk Laugaveginn úr Landmannalaugum í Þórsmörk. Og oft fór hann á Esjuna og hundurinn Bubbi rölti stundum með honum. Og Haukur fór jafnvel einn á gamlárskvöldi til að geta – frá besta mögulega sjónarhorni – notið ljósadýrðar kvöldsins. Svo gekk hann á skíðum yfir Drangafjökul. Heilbrigð sál í hraustum líkama. Haukur vissi, að hann gat stuðlað að heilsubót og varð lengri og betri lífdaga auðið en annars hefði orðið. Haukur vissi um heilsumátt ofurfæðis og þau Ragna týndu á hverju hausti mikið af bláberjum til að eiga í heilsudrykki vetrarins, sem Haukur gerði af þekkingu og list.

Minningarnar

Félagarnir í sundinu sakna vinar síns. Og vogin sem hann gaf Nauthólsvík og Ylströndinni minnir nú alla á að heiðursfélaginn Haukur er farin í nýjar laugar. Nú eru skil, minningarnar mega gjarnan þyrlast upp í vitundina. Hvernig manstu Hauk Bergsteinsson. Manstu hve bóngóður hann var, greiðvikinn og umburðarlyndur? Keyrði hann þig einhvern tíma heim úr samkvæmi eða skaust með þig eitthvað? Manstu dansæfingar hans eða línudans? Manstu hve viljugur hann var að bæta við sig í námi eða sækja námskeið? Hann lærði skriðsund á síðari árum og bætti sig í öðrum greinum sunds. Hann var framúrskarandi í sínum aldurshópi og þegar hann keppti vann hann oftast til verðlauna (eins og sjá má á mynd í sálmaskránni). Haukur efldi tungumálakunnáttu sína og hikaði ekki við að læra nýtt tungumál. Hann fór á matreiðslunámskeið til að læra að elda handa elskunni sinni. Svo var hann allan daginn að búa til veislu og elda og Ragna beið uppi þar til henni var boðið til dýrlegrar máltíðar. Manstu hvað Haukur var opinn gagnvart nýungum t.d. í bílamálum. Hann keypti metagas-bíl og síðan rafmagnsbíl. Manstu hve þolinmóur og elskulegur hann var við ungviðið? Manstu reglusemi og vanafestu Hauks? Manstu allar húfurnar sem hann safnaði sér og hafði gaman af að hengja upp í forstofunni í Bræðratungunni? Og vissir þú að hann sá lengi um heimasíðuna sem Íþróttafélagsið Gló hélt úti? Manstu orðatiltækin hans? Manstu seigluna, nákvæmnina, vandvirknina og þolgæið? Og manstu hve umtalsfrómur hann var?

Dauðinn dó og lífið lifir. Nú er hann farinn, hann mælir ekki fyrir fleiri vegarstæðum, hleypur ekki á fjöll framar eða telur kjark í krabbameinssjúka. En minningin um hann lifir og fyrir honum er vel séð. Og himinvegurinn var vel mældur og frábærlega vel hannaður. Leið þess vegar var til lífs. Jesús sagði: Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið. Sú kristilega vegagerð var góð, sá sannleikur réttur og lífið gott. Nú er Haukur kominn alla leið og kannski farinn í sjósund eilífðar, á Ylströnd himinsins. Þú mátt leyfa honum að fara. Í þeirri dýrðarveröld er eitthvert himneskt stell borið fram og Hauki er boðið.

Guð geymi Hauk Bersteinsson í eilífð sinni, styrki Rögnu, Agnesi, Maríu, maka þeirra og afkomendur. Guð geymi þig í tíma og eilífð.

Amen.

Kistulagning í Hallgrímskirkju kl 11,30 – útför kl. 13 mánudaginn 16. júlí. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja í Nauthól að athöfn lokinni.

[i]