Greinasafn fyrir merki: Grímstaðaholt

Þriggja alda hús – Litlibær

 

LItlibær 1Keðja kynslóðanna er löng og gott þegar maður er rækilega minntur á hana með eigin íbúðarhúsi og umhverfi. Við njótum þeirrar einstöku blessunar að búa í húsi með sál og sögu. Það heitir Litlibær og er á Grímstaðaholti, Tómasarhaga 16b. Húsið var byggt í nokkrum áföngum. Fyrsti hlutinn, 10×8 álna steinbær, var reistur 1893 af Einari Gamalíelssyni. Þá reif hann torfbæ sem áður stóð á þessum stað. Í júní árið 1896 seldi Einar afa mínum, Halldóri Jónssyni, bæinn og hét hann þá Litlibær. Meðfylgjandi var lóð og kálgarður og einnig erfðafestuland, “þar hjáliggjandi.”“ Halldór og Guðbjörg amma, fengu síðan leyfi 26. júní 1909 til að byggja fjós og heyhús á lóðinni, 9×6 álnir. Hlaðan stendur enn og lifum við með bændastíl og anda í miðri Reykjavík. Leyfi fyrir viðbyggingu inngönguskúrs fengu gömlu hjónin 7.12. 1927. Þetta var bíslag, samtals 5,51 ferm.

Litlabæjarlandið var tekið eignarnámi á sjötta áratugnum. Lítill skiki fylgdi Litlabæ, liðlega 400 m2, enda var ætlunin að rífa húsið. Nú er land Litlabæjarbænda um 1400 fermetrar, sem er með því mesta í gamla hluta Reykjavíkur. Amma, síðan foreldrar mínir og við systkin höfum plantað trjám í tímans rás. Þau urðu skógur en af tillitssemi við nágranna hefur skógurinn verið grisjaður hressilega. Fjöldinn breytist á hverju ári, sum árin fellí ég mörg tré. Viðurinn sem til fellur nægir okkur, við kaupum aldrei arinvið og kveikjum þó oft upp.

Litlibær 2Bíslag Litlabæjar var rifið sumarið 1986 þegar nýbygging var reist. Kristín, systir mín, er mikil framkvæmdakona. Eftir japl, jaml og fuður tókst henni að fá borgaryfirvöld til að samþykkja að byggja mætti við steinbæinn, sem hún og gerði. Gunnar Bjarnason, völundur og smiður allra helstu tilgátuhúsa í landinu, var aðalsmiður og faðir hans, Bjarni Ólafsson, meistarinn. Með þeim var hópur af góðum mönnum að vinnu. Kristín bjó um tíma í húsinu ein. Skaftfellingar segja að tóftin afli trjánna og þegar húsið var komið kom prinsinn, Öyvind Kjelsvik. Þau hófu búskap og fyrr en varði voru þau flutt til hans heimalands, Noregs. Við Elín keyptum síðan húsið af þeim og bættum enn við það sumarið 2002. Enn var Gunnar yfirsmiður og synir fyrri smiða komu einnig við sögu. Litlibær er því þriggja alda hús, frá 19. 20. og 21. öldinni. Það hefur stækkað með nýjum kynslóðum. Um tíma bjuggu tólf í steinbænum! Þá var þröngt en nú er rúmt. En alltaf hefur öllum liðið vel í Litlabæ. Hér gott að vera og gott að búa.

Litlibær er friðað hús hið ytra og eigiendur hafa reyndar ákveðna stefnu að ekkert brjóti á góðri minjaverndarstefnu og allar lagfæringar eru unnar í samráði við yfirvöld þeirra mála.