Greinasafn fyrir merki: friður

Frið á Gaza

Í þessari viku eru fimm mánuðir liðnir síðan Hamas liðar réðust á íbúa Ísraels og her Ísraels hóf hernaðaraðgerðir á Gaza landsvæðinu.

Frá og með 7. október hafa ótal mannslíf glatast. Einnig hafa mun fleiri meiðst, innviðir skemmst og fólk hrakist í miklum mæli frá heimilum sínum. Enginn árangur hefur náðst í viðræðum um vopnahlé eða hvort gíslar Hamas-liða verði látnir lausir. Eftir að stríðið braust út hafa aðstæður á Gaza svæðinu verið skelfilegar fyrir öll þau sem þar lifa og versnar enn. Nú berast fregnir af því að börn þar deyja vegna hungurs og vökvaskorts. Sjúkdómar breiðast út, ekki síst vegna þess að hernaðaraðgerðir hafa beinst að heilbrigðis- og sjúkrahússtarfsemi. 

Við ítrekum mikilvægi þess að yfirstandandi friðarviðræður beinist að því að fá gísla Hamas-liða látna lausa og að stríðsaðgerðum á Gaza ljúki í anda mannúðar og í þágu mannlífs á svæðinu. Ákvarðanir og aðgerðir þarf til að tryggja frið og öryggi fólks. Stríðandi aðilar og fjölþjóðlegir aðilar verða að leysa átökin.

Lútherska heimssambandið lýsir yfir þungum áhyggjum yfir hve stríðið á Gaza hefur magnað flokkadrætti og aukið fordóma um allan heim sem beinast bæði að Gyðingum og Palestínufólki. Lútherska samfélagið heldur áfram að biðja fyrir öllum þeim sem þjást vegna stríðsins í Landinu helga og heldur áfram að standa með kristinni nærveru og samfélagi þar. Lútherska heimssambandið stendur með og styður aðildarkirkjuna sína á landsvæðinu, The Evangelical Lutheran Church in Jordan and the Holy Land, starfsfólki sínu í Jerúsalem og öllum þeim sem er þjónað í þessum erfiðu aðstæðum.

 Samþykkt Lútherska heimssambandsins í byrjun mars 2024.

Myndina tók ég af teikningu barns sem ég rakst á í borginni Jaffa í Ísrael, norðan við Gaza.

 

Blómstrandi stríðsmenn

Verk Steinunnar Þórarinsdóttur á Hallgrímstorgi vekja athygli allra sem fara í kirkjuna. Margir stilla sér upp við fígúrurnar, snerta þær eða faðma. Sum taka sjálfur eða einhver ferðafélaganna smellir af. Steinunn stillti upp pörum á torginu. Á móti nöktum, kynlausum og varnarlausum verum eru brynjaðar verur sem eru tákn stríðsmanna allra alda. Spennan er áþreifanleg. Brynjuð mennin verða líka táknmyndir árásarþjóða sem stríða gegn vanmáttugri nágrönnum. Margir nefna Rússa og Úkraínu.

Brynjur vekja viðbrögð. Sýningin er í hugum margra ávirk þátttökusýning um stríð og frið, mennsku og ofbeldi og andstæður í lífi manna, hópa og þjóða. Það eru þó ekki aðeins tilfinningar og hugsanir sem vakna. Nokkur vildu bæta við listaverkin! Viðbætur eru tjáning. Í vikunni voru stríðsmennirnir allt í einu komnir með blóm í hendur og fang. Gróðurinn fór þeim mun betur en vopnin. Það var sem friðspillarnir vildu allt í einu gefa nöktum nágrönnum sínum blóm fremur en mæta þeim í herklæðum. Friðarblóm? Segðu það með blómum, var slagorð fyrir áratugum. Er ekki gæfulegra að blómstra en beita vopnum? Hernaður deyðir en gróandinn er tákn lífs. Á torginu fyrir framan Hallgrímskirkju verða gjörningar alla dag og suma daga blómstra stríðsmennirnir.

Sóttvarnir og engill í húsi

Handaþvottur og sprittun, bil á milli fólks og lokanir fyrirtækja eru til að tryggja sem besta sjúkdómavörn. Þetta er tími varna gegn vírusnum. Við vöndum okkur í samskiptum. Hvaða varnir eru mikilvægar og hver eru grunnatriðin?

Börnin mín og fjölskyldur þeirra eru dýrmæti lífsins. Þegar yngstu drengir mínir, tvíburar, fæddust uppgötvaði ég að börn breyta heiminum. Fyrstu vikurnar eftir fæðingu þeirra hleyptum við, eldra fólkið á heimilinu, engri streitu að okkur. Váleg tíðindi og vondum fréttum var haldið utan húss. Löngunin að kveikja á sjónvarpsfréttum þvarr og útvarpsfréttir hljómuðu lágstemmt. Það var helst að ég fletti netmiðlum á skjánum til að skima yfir fréttayfirlitin, þó ekki væri nema til að fylgjast með gengi minna manna í boltanum.

Magnea Þorkelsdóttir var helg kona. Hún kom í mitt hús til að fagna nýfæddum drengjum og blessa þá. Hún sagði þessa setningu: „Þar sem er engill í húsi er ekki hægt að hugsa neitt vont.“ Þessi kyrrláta speki hefur lifað með mér æ síðan. Hið vonda og skelfilega fær ekki sama aðgang að lífi manna þegar englar búa í húsi. Þau, sem eiga að vernda aðra, verða að hafa hlutverk sitt á hreinu og vera heil í afstöðu verndarinnar. Illar hugsanir, ill tíðindi og streituvaldar eiga ekki að ná til barna. Raunar erum við öll börn hið innra og höfum sömu grunnþarfir. Við njótum hins hreina og friðsamlega. Á máli trúarinnar heitir það helgi eða heilagleiki.

Í ævintýrum er oft sagt frá álögum í tengslum við smábörn. Til að forðast ill álög þarf að rækta innri mann. Trú hefur um aldir verið besta heimavörnin í þeim efnum. Grikkir töluðu forðum um kaþarsis, sem varðar hreinsun og tæmingu. Í trúræktarsamhengi er kaþarsis þegar einstaklingur losnar undan álögum, illvilja, vondum minningum og illum hugsunum. Tvíburarnir mínir urðu mér tilefni tæmingar og endurmats. Að baki var og er þrá að vanda umönnun hins unga lífs, að leyfa ekki vonsku að seytla um sálir heimilisfólksins, síast í sængurföt barna og spilla lífi þeirra.

Litlum börnum fylgja vitaskuld álag, missvefn og oft áhyggjur. Altækt varnarleysi barna brýnir okkur, sem eldri erum, að gæta að hreinlæti og sóttvörnum. Hindra að félagsleg, líkamleg og tilfinningaleg mengun komist inn á heimilið og í fólkið í fjölskyldunni. Fjölþættar sóttvarnir eru til verndar hinu varnarlitla lífi.

Börn koma, vaxa, þroskast og fara síðan út í heim. En lífshvatar þeirra mega lifa í öllum húsum. Tilveran með engil í húsi er afstaða þroskans. Vitundin um átök lífsins hverfur ekki, heldur aðeins streitan. Nú sinnum við ytri sóttvörnum, en þurfum líka að sinna andlegum sóttvörnum. Engill í húsi er eftirsóknarverður og englar í húsum eru guðsgjöf. Handspritt notum við og virðum góðar samskiptareglur. En grunnvörn okkar varðar frið, öryggi og trú.

Íhugun, birtist í Morgunblaðinu 1. apríl, 2020. Myndskeið með sama efni er að baki þessari smellu

 

Dyggðir og lestir – Siena

Öld frá stríðslokum fyrri heimsstyjaldar. 9 milljónir hermanna féllu – eða 6000 hermenn hvern einasta dag stríðsins, eða eins og allir íbúar í Hallgrímssókn! Tugir milljóna annarra féllu eða urðu fyrir stórfelldu tjóni í átökunum eða vegna þeirra. Svo hélt hryllingurinn áfram tveimur áratugum síðan. Sú styrjöld var enn grimmilegri og lífsfrekari. Þau eru dæmd til hryllingsverka sem ekki læra af sögunni. Friður eða stríð, blóð eða réttlæti. Hvernig eflum við frið og sköpum réttlátan frið? Hvernig getum við gengið erinda friðar himins og jarðar? Lagt lífinu lið? Nært elskuna – verið fulltrúar Jesús Krists? Á þessum tímamótum flaug hugur minn suður til Toskana og til Siena sem er mér kær.

Friðarsalurinn í ráðhúsi borgarinnar er áhrifaríkur. Þar eru ávirkar myndskreytingar sem sýna áhorfendum hvernig góð stjórn kemur góðu til leiðar og hvernig og ill stjórn spillir. Í kirkjum miðalda var almenningi kennd hin kristnu fræði með orðum en einnig með myndum. Myndskreytingar helgistaðanna voru Biblía hinum ólesandi. Þær voru Biblia pauperum. Borgaryfirvöldin í Siena skildu, að myndverk gætu þjónað líka borgaralegum tilgangi ekki síður en andlegum og kristilegum. Þau fengu listamenn til að uppteikna vanda og vegsemd hins góða borgarlífs. En einnig hins illa, sem stjórnvöld geta valdið borgurunum. Skömmu fyrir 1340 réðu borgaryfirvöld Ambrosíus Lorenzetti til að skreyta borgarstjórnarsalinn í ráðhúsinu fagra Siena, þar sem hinir níu borgarstjórnarmenn hittust. Freskumyndir Lorenzettis sýna hið góða og illa og hvernig mismunandi stjórnhættir hafa áhrif. Það er ástæða til að fara af hörputorginu inn í ráðhúsið og íhuga viskuna.

Mynd hinnar góðu stjórnar (allegorie del Buon Governo) sýnir skeggprúðan stjórnanda í miðju myndar og í svörtum og hvítum kyrtli. Við fætur honum er úlfynjan sem fóstraði Rómulus og Remus, en þeir koma við sögu Sienaborgar og er víða í borginni að finna af þeim myndir sem og fósturmóður þeirra. Á báðar hendur stjórnvaldi sitja hinar klassísku eða borgaralegu dyggðir (virtu civili). Yfir svífa hinar trúarlegu eða kristilegu dyggðir, Trú von og kærleikur (Fede, Speranza e Caritá). Hinar borgaralegu dyggðir er Friður, Kappsemi, Hugrekki, Göfuglyndi, Hófstilling og Réttlæti (Pace, Fortezza, Prudenza, Magnamita, Temperenza, Giustizia). Sýnu lötust og afslöppuðust er Pace, friðarengillinn eða gyðjan. Það er svo mikil værð yfir henni að einna líkast er að hún sé að leka út af. Er það húmor eða er það svo að friðurinn er óttalaus þegar stjórn er góð? Réttlætið nýtur sérstakrar áherslu myndarinnar. Yfir réttlætisgyðjunni svífur viskan, sapienza. En réttlætið kemur fram í tveimur útgáfum, sekt og sakleysi (sýknandi réttlæti en einnig refsandi réttlæti, aftaka). Á neðri hluta myndarinnar eru hermenn með fanga á ferð en á hinum neðri hlutanum eru 24 borgarar sem koma fram saman og samstiga. Fyrir framan þá eru tveir höfðingjar sem vilja afhenda ríki og kastala til hinnar góðu borgarstjórnar.

Nærri freskunni af hinni góðu ríkistjórn er sýnt hvernig afleiðingar eru fyrir borgarlífið; friður, hamingja, vinnusemi, ríkuleg uppskera landbunaðar, árangursrík verslun, öryggi og árgæska. Á hinum veggnum er sýnt hvernig vond stjórn er. Verurnar, sem birtast í líki stjórnherra, eru dýrslegar ásýndum. Þær eru harðstjórn, grimmd, blekking, fals, reiði, óeining og illska. Réttlætið er hamið og í fjötrum hlekkja og niðurtroðið af illskupúkum. Afleiðingarnar eru einnig sýndar í mynd stríðs, akrar og atvinnutæki brunnin eða í rúst, fólk í fangelsum, rænt,  nauðgað eða drepið. Ógnin, Terrore, ríkir. Hvort er nú betra? Friður eða stríð, góð stjórn eða ill? Almenningur í Siena hafði fyrir augum stöðuga áminningu um að valið, en stjórnendur höfðu einnig fyrir augum áminngu um að þeirra var að velja rétt.

Enn í dag eru sömu lögmál við landsstjórn, stjórn fyrirtækja, allra félaga. Okkar er valið. Hundrað ár frá fyrri heimstyrjöld en ótrúleg stríð hafa verið háð síðan. Að rækta frið er verkefni allra daga.

… og allar deilur hætta

Einu sinni sat lærimeistari með nemahóp hjá sér og spurði: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Það er þegar nógu bjart er til að greina milli ólífutrés og fíkjutrés.“

Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki þau réttu. Svarið er: Þegar ókunnur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Shimon Perez, einn af áhugaverðustu stjórnmálamönnum Ísraelsríkis frá upphafi sagði þessa sögu á leiðtogafundi í Davos. Sagan er úr gyðinglegri spekihefð og er reyndar til í ýmsum útgáfum, merkileg saga margsögð meðal fólks af þjóð sem hefur verið ofsótt og drepið fyrir það eitt að vera af gyðinglegum kynþætti. Viskusaga úr ófsóknarhefð, saga um líf gegn dauða, viska gegn heimsku. Hvernig á að bregðast við vonskunni og illsku?

Nótt lýkur og dagur hefst þegar við sjáum ókunnan mann verða að systur eða bróður og deilur hætta. Það er hægt að nota allar stundir sólarhringsins til að gera fólk að óvinum. Glæpamenn reyna að magna ófrið milli fólks, milli menningarhópa, milli vestrænna þjóða sem kristni hefur mótað og þjóða sem Islam hefur mótað og milli trúarhópa. Þegar tekst að gera komumenn að óvinum dimmir í heimi. En þá fyrst dagar þegar fólk sér hvert í öðru manneskjur en ekki hugsanlega óvini.

Aðventan er hafin og við undirbúum komu jólanna. Og þau eru friðarhátíð. Eðli trúarinnar varðar friðarræktun. Það er óhugsandi kristnum trúmönnum að réttlæta manndráp og stríð með skírskotun til kristinnar trúar, trúar á elskuríkan Guð.

Nýtum aðventu til að skoða fólk með jákvæðum hætti. Við erum kölluð til ljóss, til bjartsýnnar trúar og friðariðju gegn öllu myrkri. Við getum með afstöðu okkar, orðum og gerðum lagt til réttsýni í rökkri dagrenningar.

 

Hvernig sér Guð þig og fólk? Hvað viltu sjá, rökkur eða ljós, myrkaverur eða ljóssins börn? Ljósið kemur. Hvenær endar nóttin  – og hvenær dagar?