Greinasafn fyrir merki: fagmennska

Fagmennska og mennska

Ég fór í frí en lenti í skóla. Og það sem ég lærði varðar fagmennsku og manndóm. Við fjöskyldan erum í sumarleyfi á Krít. Tilgangur ferðarinnar er að vera saman og kynna drengjunum okkar gríska menningu og skemmtilega eyju, sem við heimsóttum fyrir sautján árum. Nú var komið að því að drengirnir fengju líka að kynnast Miðjarðarhafsmenningu og jafnvel grísku eyjastolti. Það þarf mikið til að við förum á sama hótelið tvisvar, en í þetta skipti vorum við ekki í vafa. Við vildum aftur á sama hótelið. Svo góð hafði þjónustan þar verið á hinum dramatísku septemberdögum 2001 þegar ráðist var á tvíburaturnana. Við vorum að vísu smeyk um að hótelið hefði elst og þjónustan líka. En niðurstaðan er, að hótelið hefur batnað og þjónustan sé stórkostleg. Við hjónin erum bæði í þjónustustörfum og við tökum eftir hvernig unnið er.

Fagmennskan

Flest okkar viljum, að fólk sé fagmannlegt í því sem það gerir. Að það sinni störfum sínum í samræmi við eðli þeirra. Að það kunni sitt starf, beiti tækjum og tólum af þekkingu og í samræmi við reglur og staðla starfans. Og skili verki sínu óaðfinnanlegu. Það er metnaður okkar, að vera góð í því sem við höfum menntað okkur til og störfum við. Fagmaðurinn vill rísa undir væntingum og ljúka verki svo, að þau sem njóta eða kaupa þjónustuna séu ánægð og störfin séu helst umfram vætningar. En hvað er nóg? Getum við gert kröfu um að fagmennirnir séu skemmtilegir, fyndnir, hlýlegir og nærgætnir? Getum við gert kröfu um að auk góðrar vinnu sé fagmaðurinn líka nálægur og tillitssamur? Eiginlega ekki. Vissulega ætlumst við til að góður fagmaður sé ekki neikvæður, tuði ekki eða víbri af neikvæðni. Við væntum þess að fagmaður gæti að blanda ekki persónu sinni, heimilisvanda eða sérvisku inn í fagvinnu sína. Við viljum að mörk séu virt.

Nálægð – mennska

Og þá erum við aftur komin að hótelinu og starfsfólkinu þar. Öll eru þau einstaklega fagleg í þjónustu. Þau kunna verk sín, vinna af alúð, vanda sig og skila sínu. En hið einstæða er að þau eru ekki aðeins fagmannleg og hlutlaus, heldur nálæg og jákvæð. Öguð mennska er fléttuð í fagmennskuna. Langir vinnudagar breyta ekki nálgun þeirra. Þó ég hafi séð þau glöð að verki snemma dags kem ég að þeim að kvöldi jafn faglega einbeitt en líka nálæg og mennsk. Alltaf jafn örugg í starfi, vakandi yfir velferð fólksins sem þau þjóna, alltaf mild, til í glens, kunnáttusöm um mörk, aldrei ágeng, en þó föst fyrir þegar kemur að þjónustuþáttum og hlutverkum. Þetta eru hinir stórkostlegu plúsar í fagmennsku þessa fólks. Mikill lærdómur. Þau hafa dýpkað skilning minn á fagmennsku. Mennskan er eins mikilvæg og fagið í fagmennsku. Hús skipta máli, en fólkið í þeim er alltaf mikilvægast.

Fyrirmynd

Ég fór í frí en ég lærði mikið. Flest störf okkar í nútímasamfélagi eru þjónustustörf. Hvort sem við erum píparar, kennarar, ráðherrar eða þjónar störfum við fyrir fólk með beinum eða óbeinum hætti. Það er metnaðarmál fagmannsins að gera sem best, en það er hins vegar stórkostlegt þegar mennskan verður aðall fagmannsins. Þá er lengst náð. Þannig er það á hótelinu okkar. Og þannig vil ég helst vera í mínu þjónustustarfi sem prestur. Ég fór í frí og lærði mikið um mennskuna. Krítverjarnir eru mér skínandi fyrirmyndir um fagmennsku. Takk fyrir.

Hugleiðing 10. júní 2018.

Mynd hér að ofan er af nokkrum sem þjónuðu við matreiðslunámskeið einn daginn, kokkur, yfirkokkur og sommelier hótelsins. Allt skemmtilegir karlar, en konan sem stjórnaði var farin þegar náði mynd. Myndin af konum í viðburðastjórnun. Blómamyndin: Alla daga eru blóm sett í herbergi, aldrei eins svo það er alltaf einhver framvinda, enda mikill blómgróður á hótelsvæðinu.