Greinasafn fyrir merki: Estonia

Forseti Eistlands í Hallgrímskirkju

Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands er á Íslandi á þingi stjórnmálakvenna. Hún hefur áður komið til Íslands og þekkir Reykjavík. Svo sagði hún Íslendingunum í gærkvöldi að hana langaði að heimsækja Hallgrímskirkju. Ragnar Þorsteinsson, starfsmaður utanríkisráðuneytisins, hafði samband og þar sem við þjónum fólki sagði ég að sjálfsagt væri að taka á móti henni. Nokkrum mínútum eftir  settan tíma kom forsetinn gangandi, í fylgd starfsfólks og öryggisvarða. Hún vildi fremur ganga frá Hörpunni en aka.

Kersti Kaljulaid brosti þegar hún kom að kirkjunni. „Ég hef verið hér áður,“ sagði hún og við gengum inn. Það var margmenni í kirkjunni. „Það er dásamlegt að upplifa ljósið“ bætti hún við og gekk rösklega fram að kórtröppum. Fylgdarfólkið stoppaði við fremstu bekki. Það varð enginn fyrirlestur yfir hópi heldur töluðum við, fjarri hinum, um söng og frelsi, kirkju og mannlíf. Ég hreifst af því á sínum tíma að Eistar sungu sig til frelsis og gaf forsetanum frelsissöngva íslensku þjóðarinnar, Passíusálmana. „Takk, takk“ og hún skoðaði bókina með áhuga. Svo fórum við yfir sameiginlega reynslu af Rússum. „Það herti okkur að þurfa að glíma við þá.“ Þegar við vorum búin að ræða um ljós og birtu arkitektúrs, dást að orgelhljómi kirkjunnar vildi hún fara upp í turninn. “Hálfa leið til himins og til baka?“spurði ég. „Já, og endilega til baka líka.“ Svo hleypti amerískt par okkur fremst í röðina og fylgdarfólk og tveir íslenskir öryggisverðir fórum í lyftunni upp. Eistarnir voru kátir, voru þakklátir fyrir að móttakan var afslöppuð, hlógu hjartanlega í lyftunni enda tekur svolítinn tíma að fara hálfa leið til himins. Forsetinn leit yfir borgina og dáðist að útsýninu. „En gaman að sjá borgina frá þessum sjónarhól.“ Svo var farið niður að nýju. Ekki hægt að láta forseta Íslands bíða.“ Kvaddi með virktum. „Þetta var gaman, en allt of stutt heimsókn,“ sagði hún. „En þá kemur þú aftur“ svarði ég. „Já, svo sannarlega. Þið Íslendingar eigið svo mikið í okkur, það er svo gott á milli þjóða okkar. Og takk fyrir að taka svona vel á móti okkur,“ sagði Kersti Kaljulaid. Opinberar heimsóknir eru oftast ánægjulegar en þessi var sérlega skemmtileg. Stíft form er stundum til hjálpar en  Eistar og Íslendingar þora oftast að fara út fyrir rammann. Takk fyrir mig líka.