Greinasafn fyrir merki: Biblía

Sjónskerpa og Biblían

Nú er orðið hægt að kaupa nýja og bætta sjón. Mörg hafa kastað gleraugunum og sum endanlega, losnað við að hreinsa kámug glerin og sleppa við að fálma eftir gleraugunum í morgunmyrkrinu eða missa þau á mikilvægum stundum. Leysiaðgerðir hafa stórbætt sjón margra síðustu árin. Sögurnar um augnbætur sem ég hef heyrt eru kraftaverkasögur. Auðvitað eru mörg sem hafa ekki fengið þá sjón sem þau þráðu. En þó er árangur aðgerðanna augljós. En framfarir í augnlækningum eru miklar og margir njóta. Leysiaðgerðir byggja á tækni sem á sér langan aðdraganda í fræðaheiminum, ekki aðeins hinum læknisfræðilega heldur líka í eðlisfræði og verkfræði. Tæknilegar uppgötvanir hafa verið nýttar á sviði læknisfræði til að hægt verði að samtengja þekkingu og þar verður hinn nýji skilningur og þegar best lætur hin nýja sjón.

Í dag er Biblíudagur. Af hverju skyldi klerkur vera að tala um augnlækningar? Hvað hafa undur í læknisfræði að gera með slíkan dag? Jú, sjónbótatæknin er dæmi um hvernig þekking á einu sviði er færð yfir á annað og getur skapað nýja tilveru ef einstaklingurinn notar hana rétt. Rétt og góð fræði geta gert kraftaverk. Það er einmitt það sem gildir í biblíumálunum líka.

Árnalestur

Ég var svo lánsamur að kynnast manni í frumbernsku sem las Biblíuna sína reglulega og af alúð. Hann hét Árni Þorleifsson og bjó á Sjafnargötu hér sunnan kirkjunnar. Hann var vinur foreldra minna og vann við smíðar hjá föður mínum. Hann bað móður mína meira að segja að láta kútinn bera nafn hans þegar ég fæddist. Foreldrum mínum var annt um Árna og urðu við beiðni hans. Báðir afar mínir voru látnir þegar ég fæddist og hann kom í þeirra stað. Við urðum nánir og ég heimsótti hann reglulega. Þegar ég var komin á unglingsaldur missti hann sjónina og þar með gat hann ekki lengur smíðað, lesið blöð eða bækur og ekki heldur Biblíuna. En við sömdum um að ég skyldi verða honum augu. Ég fór til hans vikulega og las fyrir hann. Stundum vildi hann að ég læsi úr dagblöðum eða tímaritum en oftast að ég læsi upp úr Biblíunni. Þetta var ekki einhliða þjónustustarf gagn vart honum. Ég fékk innsýn í líf merkilegs manns og líka trúarlíf, afstöðu og biblíusýn hans. Þetta varð okkur báðum til góðs. Svo féll Árni frá og ég tapaði honum en áfram lifði vitundin um trúarlíf manns sem hafði mótast af glímunni við stórritningu veraldar. Hann hafði leyft Biblíunni að móta sig og ég fékk innsýn í að öflug glíma við Ritninguna getur áorkað miklu og mótað persónudýptir fólks. Árni var heilagur maður. Ég uppgötvaði að öflugur biblíulestur getur skapað engla.

Fjölbreytileiki Biblíu og lestrarlykill

Árni hafði lesið allar sextíu og sex bækur Biblíunnar margoft og skildi hversu ólíkar bókmenntir þær voru. Hann vissi að Biblían væri bókasafn, að ritin þjónuðu mörgum og mismunandi hlutverkum og að Biblían hefði sprottið úr og slípast í ólíku samhengi á nærri tvö þúsund árum. Hann leit ekki smáum augum á spádómsbók Habakúk eða Dómarabókina. Hann bað mig stundum að lesa úr Mósebókum eða Jesaja. En honum þótti vænna um Davíðssálmana en Orðskviðina. Helst vildi hann að ég læsi guðspjöllin því hann vildi vera sem næst Jesú. Ég lærði hjá Árna Jesúfestuna og skildi betur síðar að allir biblíulesarar eiga sér hlið og líka leið inn í ritasafn Biblíunnar. Allir eiga sér jafnframt ramma um túlkun og biblíunálgun sem er með mjög ólíku móti. Sumir leita að siðferðisboðskap í Biblíunni. Aðrir leita að huggunarorðum. Enn aðrir hrífast helst af spekinni og flestir hafa þörf fyrir bróður, vin og frelsara. Biblían er um allt fólk og hentar öllum en talar misjafnt til fólks.

Biblíusýn – túlkandi afstaða

Afstaða einstaklings eða hóps til hvernig lesa eigi Biblíuna hefur gjarnan verið kölluð bíblíusýn. Nálgun fólks er alltaf tengd forsendum. Skilningur er aldrei forsendulaus. Við skiljum aldrei án túlkunar. Forsendur eiga sér rætur t.d. í hugðarefnum, lífsafstöðu, aldri, reynslu, varnarháttum líka og í hvaða hefð eða menningu við lifum. Eitt er biblíutúlkun presta í einhverri kirkjunni og annað hvernig trúboðsstöð notar Ritninguna. Aðventistar túlka með einu móti, hvítasunnumenn öðru vísi og svo fræðimaður í Biblíufræðum með sínu móti. Því er þarft að staldra við og skoða hvað ræður afstöðu okkar til Biblíunnar og hvaða augu eða gleraugu við notum sem lestrarhjálp. Eru þau til hjálpar eða henta þau illa til að skilja Biblíuna?

Bókstafshyggjan

En fyrst um bókstafshyggju sem hefur breiðst út í nútímanum. Það er skaðlegur lesháttur gagnvart Biblíunni og vert er að vara við. Bókstafshyggjan leggur áherslu á einfaldan skilning á málum trúar og Biblíu. Bókstafshyggjan leitar ávallt að óskeikulli leiðsögn og hefur afar takmarkaðan áhuga á táknrænum boðskap. Bókstafshyggjan hefur skert umburðarlyndi gagnvart því að samfélag og gildi breytast og vill sjá í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma. Bókstafshyggjumenn halda fram ákveðnum hugmyndum, siðalögmálum, náttúrufræði og reglum sem þeir segja vera boðskap Biblíunnar. Þeir telja að Biblían sé óskeikul eða ákveðinn túlkunarháttur hennar sé hinn eini rétti. Þegar einhver dregur það í efa taka bókstafstrúarmennirnir það sem árás á trú og jafnvel Guð og bregðast ókvæða við og jafnvel með ofbeldi og stríðsaðgerðum. Bókstafstrúin er aldrei einföld eða augljós. Oftast er að baki henni ótti við þekkingu og rannsóknir og að einhver ógni leiðtoga eða stefnu samfélags. Þá óttast bókstafshyggjumenn fjölbreytni, ólíkar skoðanir og hugmyndir. Þeir óttast oft útlendinga og gera þá tortryggilega, hræðast rökræður, ósættanlegar kenningar og breytingar. Það sem bókstafstrúarmenn leggja til grundvallar túlkun Biblíunnar eru einhver grunnatriði sem á ensku eru gjarnan nefnd fundamentals hvort sem það er nú meyjarfæðing, ákveðin skýring á upprisunni, afstaða til hjúskaparstofnana eða kynlífs eða að Biblían sé vísindarit um sköpun heimsins.

Hvað sjón gefur bókstafshyggjan? Það er svart-hvít sjón. Hún er einföld, gjarnan einstaklingsbundin, þröngt menningarskilyrt og á kostnað fjölbreytni í mannlífi. Bókstafshyggjan er litblind í biblíutúlkuninni og sér bara svart, hvítt en stundum líka grátt. Bókstafshyggjan hefur haft gríðarleg og víða skelfileg áhrif í pólitík. En það er líka þarft að muna eftir að svipaðar áherslur og svipuð einhæfni er til í öllum kimum heimsins, meðal allra menningardeilda og átrúnaðar og líka trúleysi. Bókstafshyggjan tengist gjarnan hræðslu, valdabaráttu og jafnvel hernaði. Menn læsast í hinni litblindu heimssýn, lífs- eð trúar-afstöðu, öllum til ills, heimsbyggðinni til skelfingar, trú til skaða og Guði til djúprar hryggðar. Guðsríkið er litríkt en bókstafshyggja er litblind.

Þekkingarbreytingar – sjóntækjabreytingar

Bókstafshyggjan er úrelt sjóntruflandi lestrargleraugu sem við eigum að kasta. Háskólafræðin eru okkur í trúarlífinu sem leysiaðgerðir í sjónmálum. Við ættum að taka fagnandi því sem vísindin hafa opinberað og veita okkur varðandi biblíuskilning og lestrarhátt. Biblíufræði og öll þau fræði sem menn hafa stundað við rannsókn Biblíu og trúarlífs hafa fært okkur dásamleg tæki til skýringar á flestu í heimi Biblíunnar. Við vitum mun meira um gerð textanna og merkingarsvið þeirra en formæður og forfeður okkar og mun meira um félagslegar forsendur frumkristninnar og úr hvaða samhengi Davíðssálmar spruttu. Meira er vitað um félagslegt, menningarlegt og trúarlegt samhengi Jesú Krists nú en nokkru sinni áður. Rannsóknirnar hafa flísað niður einfeldningslegar hugmyndir um að bókasafnið Biblía sé rit sem eigi að trúa á bókstaflegan hátt og trúa á einn máta og túlka á einn veg. Mörgum biblíulesurum ógna þessi fræði. En trúðu mér hvorki kirkja né kristindómur þurfa að að óttast góð vísindi og gangrýna hugsun. Trúmaður þarf ekki að hneykslast þótt sögulegar rannsóknir sýni að það eru menn sem komu að gerð og skrifum Biblíunnar. Góð fræði ógna ekki Guði heldur aðeins ímyndum okkar um Guð, fordómum okkar og hugsanlega eigin sjálfsmynd. Fólk sem horfir með augum trúarinnar þarf æfa sig stöðugt í að spyrja um rök eigin skoðana, kirkju og trúfræði. Það er margt í arfinum sem veldur sjóntruflun í málum trúarinnar. Við megum muna að trú kristins manns beinist að Guði en ekki bók eða bókasafni Biblíunnar.Kristinn maður trúir á Guð en ekki á Biblíuna.

Hvernig getum við lesið Biblíuna?

Ef rannsóknir á Biblíunni hafa breytt sýn manna á uppruna, eðli og merkingu Biblíutextanna verðum við að spyrja hvort sýn okkar standist og það sem við sjáum sé sködduð mynd og molnuð Biblíumynd í þúsund brotum. Þegar sjónin breytist þarf auðvitað að fara horfa með nýjum hætti. Það tekur líka tíma að aðlagast betri sjón. Mér hefur lærst að það er hægt að lesa með nýjum hætti sem dýpkar og skerpir mynd hins guðlega. Góð saga grípur og verður oft til að hjálpa fólki við að endurskilja líf sitt og sjá það í nýju ljósi. Þær bókmenntir sem við köllum klassískar þjóna slíku hlutverki. Saga Guðs í samskiptum við fólk og glíma fólks við Guð hefur verið meginsaga í okkar menningarheimi í þúsundir ára. Einstaklingar og þjóðir hafa lesið sögu sína í þeim skjá, túlkað drauma, vonir og vonbrigði í þeim ramma. Sem slík er Biblían enn fullgild í dag. Saga Jesú verður það sem fólk getur séð sem erkisögu heims og manns og er hægt að nota til að túlka líf okkar manna á þessum tíma sem öðrum. Smásögur okkar verða hluti af stórsögu Jesú og sögu Guðs í heimi.

Hvernig er biblíusjón þín?

Það var einhvern tíma prestssonur sem var að horfa á pabba sinn skrifa prédikun og spurði hann hvernig hann vissi hvað hann ætti tala um í kirkjunni. Pabbinn svaraði að Heilagur Andi segði honum það. Strákurinn spurði þá að nýju: „En af hverju ertu alltaf að strika út það sem þú ert búinn að skrifa?” Guðs góði andi starfar í og með dómgreind okkar. Við þurfum stöðugt að skoða og endurskoða trúarefni og sjónarhól okkar. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við sjáum og hvort eitthvað sé missýn. Árni nafni minn og afi varð blindur en sá með innri augum. Hann hafði fullkomna sálarsýn til þess sem er miðjan í Biblíunni sem er Jesú Kristur. Hann gerði sér grein fyrir að hann gat sleppt gömlum gleraugum og jafnvel sjóninni og samt séð hið dýrmætasta í Ritningunni. Ertu háður eða háð gömlu gleraugunum? Geturðu ekkert lesið nema hafa þau á nefinu? Stýra fordómarnir þér? Biblían er heillandi heimur sem á í safni sínu mynd af þér og hinu góða lífi sem þú mátt njóta. Ný sýn er í boði, ný túlkun og ný biblíusjón. Má bjóða þér ný augu?

Biblíudagurinn. Jes. 55.6-13. 2Kor. 12.2-9. Lúk. 8.4-15.

 

Biblía í jólamatinn

Sæla jólanna kviknar í endurtekningunni. Eða hvað? Skiptir öllu máli að jólin byrji með líku móti og liðin ár, að jólamaturinn sé eins og við fengum í fyrra? Á allt að vera eins? Hverju breyta sóttvarnareglur COVID-jólanna? Eru þessi jól bara áfall eða kannski tækifæri til að skapa eitthvað nýtt og gera tilraunir?

Þetta árið eru kirkjuferðir bannaðar. Hvað er þá hægt að gera heima í stað jólastemningar í kirkjunni? Jól bernsku minnar voru dásamleg. Þegar allir voru komnir að veisluborðinu tók faðir minn Biblíu eða blátt Gideon-Nýja testamenti, fletti upp á öðrum kaflanum í Lúkasarguðspjalli og las svo jólaguðspjallið. Það er upphafin saga um par í ómögulegum aðstæðum, fæðingu barns í gripahúsi og um engla og vitringa. Mér finnst enn vera steikarilmur af þessum texta. Pabbalesturinn opnaði veislu himins og jarðar. Jólin byrjuðu og svo fórum við fjölskylda mín í kirkju um miðnættið.

Þegar ég stofnaði eigið heimili las ég guðspjallið fyrir mitt fólk eins og pabbi. Þegar börnin mín urðu stautfær fengu þau svo það verkefni að lesa. Þar sem engar verða kirkjuferðirnar þessi jólin legg ég til að fólk leggi Biblíu eða Nýja testamenti á jólaborðið. Þegar allir eru sestir getur einhver úr hópnum lesið versin í Lúkasarguðspjalli 2.1-14. „En það bar til um þessar mundir …. og velþóknun yfir mönnunum.“ Ef engin er Biblían á heimilinu er hægt að fletta upp á biblian.is. Þar er líka hljóðskrá, sem sé hægt að fá lesið fyrir sig. Síminn dugar ágætlega til svona upplestrar.

Helgihald Íslendinga tengist kirkjum en trúaruppeldi og mótun lífsafstöðu hefur farið fram á heimilum um aldir. Á COVID-jólum getum við gert eins og fólkið okkar hefur gert í margar kynslóðir, lesið jólaguðspjallið sjálf. Breyting á jólataktinum er ekki kreppa heldur tækifæri. Lesum sjálf jólaguðspjallið heima þessi jól og gerum það að hefð.

Árnabiblían

Ég hef aldrei keypt Biblíu handa sjálfum mér. Mér hefur þó aldrei verið Biblíuvant því ég hef verið svo lánsamur að hafa fengið margar Biblíur að gjöf. Ein af gjafabiblíunum rataði í hendur mínar síðla árs 2003. Hún er ekki aðeins falleg hið innra heldur líka hið ytra, bundin í skinn og silfurslegin. Það þarf engan bókelskling eða biblíuvitring til að sjá að þetta er mikið lesin bók.

Ég var settur til afleysingar í Hallgrímskirkju haustið 2003. Af því ég hafði sungið í einum kórnum þekkti ég marga í starfsliði kirkjunnar. Það var því ánægjulegt að koma til starfa fyrsta vinnudaginn. Eftir kaffibolla, hlátra og hlýjar móttökur héldu allir á sínar vinnustöðvar. Inn á skrifstofunni, sem mér var ætluð, var bókastafli á skjalaskápnum. Þarna voru gamlar bækur, Passíusálmar og guðsorðabækur. Þá sá ég kunnuglega Biblíu. Blóðið þaut fram í kinnar mínar. Ég þekkti hana því ég hafði svo oft handleikið hana í húsi við Sjafnargötu. Biblían var merkt Árna Þorleifssyni, sem hafði fengið hana að afmælisgjöf þegar hann varð sextugur árið 1937. Ég hafði ekki séð hana í meira en þrjátíu ár, þar til á þessum degi í Hallgrímskirkju.

Árni Þorleifsson var vinur foreldra minna og þau kynntust í hans skjóli. Þegar þeim fæddist drengur bað hann um að sá stutti fengi líka að bera nafn hans því hann átti ekki börn sjálfur. Ég heiti því Árni og þar sem ég var afalaus gekk hann mér í afa stað. Árni missti sjón á gamals aldri og bað mig um að lesa fyrir sig. Ég fór til hans í hverri viku öll unglingsárin. Hann gaf mér smjörköku eða vínarbrauð, við ræddum saman og svo bað hann mig oftast að lesa fyrir sig úr Biblíunni. Hann ákvað hvaða kaflar skyldu lesnir og ég tók bókina góðu og las upphátt. Við nutum samfélagsins og hann sá til þess að ég lærði að lesa í Biblíunni og skilja samhengi og dýrmæti. Síðan lést Árni og bækur hans og Biblíur hurfu mér einnig.

Svo varð samsláttur atburða í tíma. Nokkrum dögum áður en ég hóf störf var Biblían afhent kirkjunni að gjöf. Svo tók hún á móti mér. Hvaða verkfæri fær prestur betra en Biblíu við upphaf prestsstarfs? Tákn um ábyrgð prests að rannsaka ritningarnar og leyfa lífsorði Guðs að streyma um sig í menningu og kirkju. Í árslok 2003 var mér svo gefin þessi Árnabiblía. Síðan hefur hún fylgt mér.

Biblían kemur víða við sögu og flestir eiga sér einhverja persónulega minningu um hana. Persónur eða viðburðir Biblíunnar eiga sér afleggjara í bókmenntum, listum og sögu heimsins. Áhrifasaga Biblíunnar er mikilfengleg. En áherslur samfélaga breytast. Hvað í Biblíunni skiptir nútímafólk máli og hvað hefur hlutverki að gegna í menningu samtíðar? 

Á miðvikudögum í október og nóvember er á dagskrá í hádeginu í Hallgrímskirkju dagskrá um Biblíuna. Fyrirlesarar segja frá eftirminnilegum Biblíuviðburðum í lífi sínu og tala um hvað í Biblíunni skipti máli í menningunni eða eigin lífi. Biblíurnar koma til okkar með ýmsum hætti. 

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 20. október 2018. 

Er í lagi að drepa barn?

Hvernig líður föður sem skipað er að myrða son sinn? Getur nokkur heilbrigð manneskja tekið upp vopn og stungið afkvæmi sitt? Nei, það er óhugsandi. En í sögu dagsins, lexíunni, er þó sagt frá ótrúlegri mannraun sem endaði nærri með barnsmorði. Hvað eigum við að gera með slíkan texta í hinni helgu bók? Já hvað eigum við að gera með hryllingstextana?

Hvað myndum við gera í lífi okkar ef okkur væri fyrirskipað að aflífa barnið okkar? Og það sem verra er að skv. frásögunni í þessum biblíutexta er það Guð sem kemur Abraham, einni af ofurhetjum Biblíunnar, í klemmuna. Sagan um fórn Ísaks er hryllingssaga sem hefur skekið hugi margra um allar aldir. Réttlætir textinn barnaofbeldi? Hver er tilgangur hans? Er þessi texti vitnisburður um sturlun sem réttlætt er með vísun til æðri máttar? Er það skylda trúmanns að gera hvað sem er til að þóknast duttlungum Guðs? Vil ég trúa á Guð sem krefst þess að saklausu lífi sé eytt, að börn séu drepin? Getur þú trúað slíkum Guði?

Nei

Ég settist niður í byrjun vikunnar til að íhuga texta dagsins og m.a. lexíuna um  Abraham og Ísak. Ég uppgötvaði þá að ég hef aldrei – á öllum mínum prestsskaparferli – prédikað út af þessum texta (enda er á þessum 5. sunnudegi í föstu oftast boðunardagur Maríu sem er gleðidagur). Abraham og Sara, kona hans, hafa lengi verið mér hugstæð. Þegar við hjónin eignuðumst tvíbura las ég upphátt fyrir konu mína hina kátlegu sögu af því þegar háöldruð hjón eignuðust kraftaverkabarn sem fékk svo nafn sem merkir Guð hlær. Ísak var barn guðlegrar gleði. Drengirnir okkar eru kraftaverk fullorðinna foreldra og okkur þótti við hæfi að annar þeirra fengi og bæri þetta geðilega nafn Ísak. En á þessum tíma las ég ekki upphátt fyrir konu mína söguna af ferð þeirra feðga, Abrahams og Ísaks til Moríafjalls og hrikalegt inntak sögunnar veik.

Í kristninni hefur þessi frásögnin – í 22.  kafla fyrstu Mósebókar – verið túlkuð sem trúarraun Abrahams, manns sem var alltaf reiðubúinn að hlýða Guði í einu og öllu. Og af því sagan endar vel hefur gleymst hið dimma inntak sögunnar. Ég hef ekki sett mig í spor feðganna áður. Ég trúi á Guð  – en hvað gerði ég ef ég heyrði rödd af himni sem skipaði mér að leggja drenginn minn á eldiviðarstafla og skera hann á háls? Þegar ég setti mig í stöðu föðurins uppgötvaði ég viðbjóðinn. Í huga mér er djúpt og ákveðið NEI – ekki bara föður-nei heldur einnig trúar-nei. Ef Guð myndi skipa mér að skera son minn myndi ég hiklaust segja nei. Guð, sem krefðist slíks, er ekki traustsins verður. Ég trúi ekki á slíkan Guð. Sá Guð sem megnið af ritum Biblíunnar segir frá og Jesús Kristur opinberaði heiminum er ekki harðstjóri og krefst ekki mannfórna. En þessi Guð sem sagt er frá í sögunni um Abraham er öðru vísi  – fremur guð dauða en lífs. En það er aldrei í lagi að drepa barn.

Og hvað eigum við þá að gera við þessa sögu í byrjun Biblíunnar? Og hvernig eigum við að nálgast og skilja þessar sögur? Hvaða hlutverki þjóna þær? Eigum við ekki bara að skera þær úr helgiritum okkar og kasta þeim á bálkesti menningarinnar? Nei, biblíuritin í heild sinni eru raunsæisbókmenntir heimsins – í þeim er allt litróf mannlífs – allar tilfinningar – heilbrigði og líka hryllingur villimennskunnar. Þar eru líka mismunandi guðsmyndir sem hver maður þarf að glíma við og gera upp við. Klisjur í trúarefnum hjálpa ekki heldur það sem eflir raunsæi og vit til lífsverndar.

Katharina, Kant og Kierkegaard

Til er frásögn af Katharinu af Bora, konu Marteins Lúthers, sem hlustaði á mann sinn lesa 1. Mósebók upphátt fyrir fjölskylduna. Kata var klók, vel heima í guðfræði og rauk upp þegar hún heyrði þessa sögu um Abraham. Hún brást hart við, rauf lestur bónda síns og sagðist alls ekki trúa því að Guð myndi nokkrun tíma skipa manni að drepa eigin son. Ég er sammála guðfræði Katharinu.

Heimspekingurinn Immanúel Kant, sem ég hef miklar mætur á, minntist á þessa Abrahamssögu í riti sem hann skrifaði og gaf út skömmu fyrir aldamótin 1800. Kant var alla tíð umhugað um hlutverk, skyldu, siðalögmál og hvernig við eigum að hegða okkur. Hann kenndi að enginn maður geti nokkurn tíma aflífað saklausan son sinn. Krafan væri ósiðleg og í andstöðu við heilbrigða skynsemi manna. Svo væri raunar alltaf óljóst hvort Guð krefðist slíks því við menn gætum ekki með skynfærum okkar greint á milli réttra og rangra skilaboða að handan. Því ættu menn alls ekki að hlýða slíkum kröfum sem Abraham hefði talið sig fá. (Sören Kierkegaard var vel lesinn í Biblíunni og rakti síðar þræðina frá Kant í ritinu Uggur og ótti).

Ekki mann deyða

Siðfræðingarnir benda okkur á að krafan í Abrahamssögunni sé ósiðleg. Trúarheimspekin sýnir okkur að vitrun Abrahams hafi verið vafasöm. Við vitum að barnafórnir tíðkuðust meðal þjóðanna í nágrenni Ísraels. En hinir fornu hebrear fóru aðrar leiðir og stunduðu ekki mannfórnir (mér er bara kunnugt um eitt tilvik í þessu mikla ritasafni og þar er um skýrt frávik). Og við megum muna reglu hebreanna í fimmta boðorðinu: Þú skalt ekki mann deyða.

Sagan um fórn Ísaks er ekki lýsing á raunverulegum atburði heldur táknsaga. Helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Þessi saga er einhvers konar inntakssaga. Sumir fræðimenn telja að hún sé í raun andsaga, hlutverk hennar hafi verið að sýna þjóð og Guð hverfa frá fórnfæringu barna. Ísraelsmenn ættu að hegða sér öðru vísi en nágrannaþjóðir og láta af mannfórnum. En þetta “andhlutverk” er þó óljóst og ósannað. Sagan gæti líka verið táknsaga um að þeir feðgar hefðu staðist öll próf hversu hræðileg sem þau nú voru. Hetjur allra alda þurfa að undirgangast próf og standast til að ná þeim markmiðum sem hetjan á að ná. Þessi saga gæti jafnvel  hafa verið hluti af trúarleikhúsi Ísraelsþjóðarinnar til að miðla að Abraham og Ísak hefðu tekið út þroska og lært mikið – og að þeir brotnuðu ekki á leiðinni og voru því trúarjöfrar. Og svo má auðvitað lesa þessa sögu sem táknsögu um skelfingarmál í mörgum fjölskyldum heimsins. Stundum tryllast feður – einnig mæður og annað fólk í fjölskyldunum – og fremja illvirki. Á öllum öldum hefur verið til brjálað fólk sem þykist fá fyrirskipun úr æðri heimum um að það eigi að deyða börn sín. Á hverju ári eru slík illvirki framin einhvers staðar í heiminum og fjölmiðlarnir segja frá. Mín afstaða er eins og Kötu konu Lúthers. Það er aldrei hægt að réttlæta ofbeldi gegn saklausum börnum, saklausu fólki, með vísun til guðlegs boðs.  

Lífga heiminn

Og þá er komið að biblíutúlkun og þeim aðferðum sem við notum til að skilja texta Ritningarinnar. Biblían tjáir þróun hugmynda og því verður að vinsa úr það sem er þarft. Biblían er lagskipt. Í Biblíunni eru mishljómandi raddir og innbyrðis togstreita. Til að þess að sjá og finna hrútinn fastan á hornunum í runnanum, finna merkingu og greina samhengi í heildinni lagði Marteinn Lúther til túlkunarreglu við lestur Biblíunnar. Við ættum að skilja Biblíuna í ljósi Jesú Krists. Hver var mannsýn hans, veraldarsýn og trúarsýn? Jú, sá Guð sem hann tjáir er ekki guð hnífanna heldur skapandi, elskulegur og hlýr Guð sem kallar fram veröldina, mennina, lífið, samfélag og hið góða. Hefði Jesús einhvern tíma sett hníf að hálsi barns og skorið? Nei. Hann hefði frekar fórnað sjálfum sér ef hann hefði verið settur í þá skelfingaraðstöðu. Hann var ekki lagður á bálköstinn, hann gekk fram til að þyrma lífi.

Merkingardjásn Biblíunnar – í báðum testamentum – er að heimur Guðs er heimur elskunnar. Jesús Kristur opinberar þann Guð. Í þeim anda lifum við best í samtíð okkar. Kristnin varðar þó að vera tengdur Jesú Kristi og bæta heiminn með honum.

Guðstrúin

Í gær var ég að íhuga Ísakssöguna þegar Ísak sonur minn kom til mín. „Pabbi minn, ég elska þig,“ sagði hann. Mér hlýnaði um hjartarætur og hvíslaði til Abrahams í djúpi hugans. „Nei, ég mun aldrei fara upp á fjallið, mun aldrei neyða drenginn til að bera fórnarviðinn.“ Af hverju? Vegna þess að ég trúi ekki á Guð hnífanna. En ég veit þó vel að alvara sögunnar er að við getum öll tapað áttum. Við getum öll orðið Abraham – með hníf á lofti og jafnvel beitt honum og stungið. Líka í trúarefnum! En þegar menn stinga grætur Guð. Guð biður alltaf um að lífi sér þyrmt.

Við megum gjarnan leyfa lausnarerindi sögunnar að vitja okkar. Er eitthvað í þér sem meiðir og deyðir? Ertu í einhverri stöðu sem þú þarft að losna úr? Abraham og Ísak losnuðu. Þeir heyrðu kall til frelsis. Þú mátt heyra kall til lausnar, úr sorg, úr öllum festum þíns lífs. Guð hefur áhuga á lausn en ekki viðjum. Jesús Kristur breytti veröldinni með boðskap, afstöðu og elsku. Okkar er að leyfa Guði að endurskapa veröldina og líka okkur. Við þurfum engar fórnir heldur elsku. Guð vill hlægja en ekki gráta og við menn erum þeirrar guðsgerðar einnig. 

Ég trúi á Guð sem elskar, Guð sem leysir og Guð sem blessar.

Dýrð sé þeim Guði.

Amen í Jesú nafni.

Prédikun í Hallgrímskirkju 2. apríl, 2017. 5. sunnudagur í föst. B-textaröð kirkjuársins. Lagt út af lexíu dagsins. Þegar ég var búinn að skrifa fyrsta uppkast prédikunar var ég hugsi yfir túlkuninni. Og sendi til dr. Gunnlaugs A. Jónssonar, prófessors. Hann las yfir hratt og sendi mér á laugardagssíðdegi langan pistil og hugleiðingar. Ég breytti ýmsu til bóta í ljósi orða Gunnlaugs. Takk fyrir mig. 

Lexía: 1Mós 22.1-13
Eftir þessa atburði reyndi Guð Abraham. Hann mælti til hans: „Abraham.“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Hann sagði: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum sem brennifórn á því fjalli sem ég mun vísa þér á.“ Árla morguns söðlaði Abraham asna sinn, tók með sér tvo af sveinum sínum og Ísak son sinn, klauf við til brennifórnar, lagði síðan af stað og hélt til þess staðar sem Guð hafði sagt honum. Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. Hann sagði við sveina sína: „Bíðið hérna hjá asnanum en við drengurinn munum ganga þangað upp eftir til að biðjast fyrir og komum svo til ykkar aftur.“ Abraham tók nú brennifórnarviðinn og lagði Ísak syni sínum á herðar en eldinn og hnífinn tók hann sér í hönd. Og þeir gengu báðir saman. Þá sagði Ísak við Abraham föður sinn: „Faðir minn.“ Og hann svaraði: „Hér er ég, sonur minn.“ Ísak mælti: „Hér er eldurinn og viðurinn. En hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?“ Abraham svaraði: „Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnar, sonur minn.“ Og þeir gengu báðir saman. Nú komu þeir á staðinn sem Guð hafði talað um. Þar reisti Abraham altari, lagði viðinn á, batt Ísak son sinn og lagði hann á altarið ofan á viðinn. Þá tók Abraham hnífinn í hönd sér til þess að slátra syni sínum. En engill Drottins kallaði til hans af himni og mælti: „Abraham! Abraham!“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Engillinn sagði: „Leggðu ekki hönd á sveininn og gerðu honum ekkert því að nú veit ég að þú óttast Guð. Þú hefur jafnvel ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.“ Þá hóf Abraham upp augu sín og sá hvar hrútur var fastur á hornunum í greinaþykkni. Fór hann þangað, tók hrútinn og fórnaði honum sem brennifórn í stað sonar síns.

Pistill: Heb 13.12-13
Þess vegna leið Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.

Guðspjall: Mrk 10.35-45
Þá komu til Jesú Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: „Meistari, okkur langar að þú gerir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.“ Hann spurði þá: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“ Þeir svöruðu: „Veit okkur að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Jesús sagði við þá: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn sem ég skírist?“ Þeir sögðu við hann: „Það getum við.“ Jesús mælti: „Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka og þið munuð skírast þeirri skírn sem ég skírist. En ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem það er fyrirbúið.“ Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“

The Sermon

Today we will discuss the dramatic story of Abraham and Isaac in Genesis 22. What kind of God demands a father to kill his son? Can we believe in such a God? Is this a story of the worst possible child abuse? What to do with horror-stories of the Bible? Has the god of the Hebrews evolved from a tyrant demanding outrageous obedience into a totally different type of God – the God of Jesus Christ? What is the value of the story of a father ordered to slaughter his son Isaac (the name of the boy meaning laughter, indeed God’s laughter!). Take the time to think about your belief. What are your values and what are your limits? Do you obey in your life some faulty authorities you should say no to? Is this the time for reversal and a new beginning in your life?

Genesis 22 (NIV)

Sometime later God tested Abraham. He said to him, “Abraham!” “Here I am,” he replied. Then God said, “Take your son, your only son, whom you love—Isaac—and go to the region of Moriah. Sacrifice him there as a burnt offering on a mountain I will show you.” Early the next morning Abraham got up and loaded his donkey. He took with him two of his servants and his son Isaac. When he had cut enough wood for the burnt offering, he set out for the place God had told him about. On the third day Abraham looked up and saw the place in the distance. He said to his servants, “Stay here with the donkey while I and the boy go over there. We will worship and then we will come back to you.” Abraham took the wood for the burnt offering and placed it on his son Isaac, and he himself carried the fire and the knife. As the two of them went on together, Isaac spoke up and said to his father Abraham, “Father?” “Yes, my son?” Abraham replied. “The fire and wood are here,” Isaac said, “but where is the lamb for the burnt offering?” Abraham answered, “God himself will provide the lamb for the burnt offering, my son.” And the two of them went on together. When they reached the place God had told him about, Abraham built an altar there and arranged the wood on it. He bound his son Isaac and laid him on the altar, on top of the wood. Then he reached out his hand and took the knife to slay his son. But the angel of the Lord called out to him from heaven, “Abraham! Abraham!” “Here I am,” he replied. “Do not lay a hand on the boy,” he said. “Do not do anything to him. Now I know that you fear God, because you have not withheld from me your son, your only son.” Abraham looked up and there in a thicket he saw a ram[a] caught by its horns. He went over and took the ram and sacrificed it as a burnt offering instead of his son.