Spurningar frá organistum

1. Hvaða gildi telur þú að Tónskóli Þjóðkirkjunnar hafi fyrir þjóðkirkjuna og hvernig sérðu fyrir þér framtíð skólans?

Tónskólinn er eini skóli þjóðarinnar, sem menntar organista til starfa í þjóðkirkjunni og fríkirkjunum. Því er hann einstakur, einstæður og mikilvægur. Ég hef á kirkjuþingi barist einarðlega gegn skerðingum á framlögum kirkjunnar til skólans, enda er ég sannfærður um að hann gegnir lykilhlutverki í tónlistarmálum þjóðkirkjunnar. Því ber kirkjunni að varðveita skólann og styðja hann til átaka. Skólinn hefur verið vel rekinn og af miklum metnaði.

“Kirkjuþing 2011 felur kirkjuráði að fella ekki niður fjárframlag til Tónskóla þjóðkirkjunnar og til embættis söngmálastjóra því mikilvægt er að hlúa að tónlistar-starfi kirkjunnar.” Þetta er stefnumótandi samþykkt kirkjuþings. Ég fylgdi tillögunni eftir í allsherjarnefnd og þingið samþykkti hana. Ég tel að kirkjuráð sé bundið af henni.

Þjóðkirkjan hefur ekki efni á í fjárþrengingum sínum að farga lykilstofnunum. Tónskólinn er slík stofnun, sem við eigum að efla en ekki rýra eða skemma.

2. Hvaða gildi telur þú að embætti Söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar hafi fyrir þjóðkirkjuna og hvernig sérðu fyrir þér framtíð embættisins?

Mikill metnaður hefur verið í störfum embættis söngmálastjóra á liðnum árum. Mér þótti því harmsefni þegar Hörður Áskelsson sá sig tilneyddan að segja af sér vegna fjárskerðinga. Ég tel, að embætti söngmálastjóra verði að endurvekja til lífs og átaka að nýju. Þjóðkirkjan hefur á liðnum áratugum byggt upp metnaðarfullt tónlistarlíf, sem hefur verið kirkjulífi þjóðarinnar til blessunar. Svo á að verða áfram. Ég vona að snúið verði við af niðurfærslubraut liðinna missera.

3. Finnst þér breytinga þörf á sviði kirkjutónlistarmála? Ef svo er þá hvaða breytingar?

Kirkjutónlistarmál eru víðast í góðum farvegi í söfnuðum þjóðkirkjunnar. Almennur söngur er að aukast, sem er vel. Jafnvel í vel kóruðum útförum er almennur söngur að vaxa, sem er eftirsóknarvert. Auka þarf virkni allra aldurshópa í tónlistarstarfi kirkjunnar og leita þarf allra leiða að virkja sem flesta, t.d. barna og unglinga í tengslum við helgihald. Sérhæfing hefur orðið í starfsmannamálum safnaða í fjölmennu söfnuðunum og vert er að staldra við og skoða hvernig verkaskiptingar eru milli organista og annarra starfsmanna.

4. Finnst þér að það þurfi að endurskoða kirkjutónlistarstefnuna?

Stefnan er góð.