Ástarsögur

 

Ég sat í vikunni fyrir framan sjónvarpið með sonum mínum sem eru á unglingsaldri. Við horfðum á leiki í Meistaradeild Evrópu. Við sáum Juventus sigra vini okkar í Manchester. Svo sáum við líka brot úr öðrum leikjum. Strákarnir mínir eru í boltanum og fylgjast með heimsknattspyrnunni. Og íþróttahetjurnar eru dýrlingar nútímans, fyrirmyndir, sem hafa mikil áhrif á og móta milljónir uppvaxandi ungmenna um allan heim. Og þegar við hrifumst og hryggðumst yfir leikjum vikunnar flaug í gegnum hug mér: Hvað hefur áhrif á drengina mína? Hvað mun móta þá? Hvernig verða þeir? Hvað gerir þeim gott og hvað verður þeim til góðs? Og ég horfði á þá ástaraugum.

En við, karlarnir mínir, sáum ekki bara meistaradeildarleiki heldur líka leiki í allt annarri deild, – og mun myrkari. Það var steraþátturinn, sem Kveikur sýndi nú í vikunni. Við hlustuðum á sögur þeirra, sem hafa freistast til að nota stera. Markmiðið er einfalt, að fá hjálp við að móta líkamann, gera hann stæltan og flottan. Og vöðvarnir verða útblásnir við steranotkunina. En í flottum skrokki er fleira en vöðvar – sterar rugla fínstillt jafnvægi efnabúskapar líkamans.Og það er fjöldi ungmenna sem deyr á Íslandi á hverju ári vegna stera. Það, sem átti að skapa stórkostlegt lúkk, var í raun ásjóna dauðans. Sterkasti maður heims dó, líklega vegna steranotkunar. Og æðið heldur áfram, það eru ungu drengirnir sem eru ginkeyptastir fyrir sterunum. Þessar sögur hræddu.

Og svo heyrði ég í vikunni margar aðrar sögur um unglinga, sem hafa lent í algerum ógöngum vegna útlitsáherslu. Til að ná útitsmarkmiðum sínum, hvort sem þau eru raunsæ eða ekki, hætta margir unglingar að borða eðlilega – og mörg lenda í hringrás blekkinga og alls kyns veikinda. Til hvers? Ásýnd er ekki inntak hamingju. Og við ættum að horfa ástaraugum á börnin okkar, hugsa um hvort þeim lánast að rata veg hamingjunnar og hvað við getum gert til að styrkja þau og efla. Það er sótt að þeim, raunar okkur öllum. Vertu þetta, notaðu þetta, gerðu þetta, kauptu þetta. En hvað dugar og hvað þráum við innst inni?

Í okkur býr ástarþrá. Við höfum öll þörf fyrir umhyggju, athygli, strokur, aðdáun og samfélag. Við erum börn ástarinnar, á leið eftir ástarveginum og viljum fá að vera með öðrum á þeim vegi. En hvernig lánast okkur?

Hallgrímur og Passíusálmar

Í dag er Hallgrímsmessa. Við minnumst þess, að 344 ár eru liðin frá dauða Hallgríms Péturssonar, sem lést 27. október 1674. Hallgrímur var frábært skáld, að mínu viti mikilvægasta trúarskáld Íslendinga. Stærsta kirkja þjóðarinnar er táknkirkja mannsins og trúar hans. En af hverju skyldi Hallgrímur Pétursson hafa orðið svo elskaður meðal formæðra og forfeðra okkar? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega – en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á sín börn og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu, fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi, og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Og það er sú ástarsaga sem er góður gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs hins stóra og rismikla. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki hinum reiða guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Hamingjuleitin

Unga fólk nútímans, eins og á öllum öldum, leitar hamingjunnar. Hvað verður þeim til lífs og gleði? Eru sterarnir góðir fyrir stráka, sem eru að stækka og vilja vera stæltir? Eru köglarnir, grasreykingar í Hólavallagarði eða matarflóttinn það besta fyrir stráka og stelpur?

Hvað gladdi þig mest þegar þú varst að alast upp? Og hvað hefur fært þér mesta ánægju æ síðan? Er það ekki ástin, kærleikurinn, menningin, siðvitið, listin, fólkið sem elskar þig? Þessi félagslega fæða sem fæst í fjölskyldum og heillyndu uppeldi, jafnvel þar sem margt er brotið og í skralli.

Átakalaust líf er ekki hið eftirsóknarverðasta. Og mikilvægt er að muna að sorg er skuggi ástarinnar. Ef við viljum aldrei syrgja ættum við aldrei að elska. Sorgin fylgir alltaf miklum ástarsögum. Ég, þú, við öll, erum kölluð til að elska, njóta, hlægja og fagna. Við erum ferðalangar á vegi ástarinnar í þessum heimi. Og þegar við minnumst ártíðar Hallgríms Péturssonar, minnumst við ástarsögu hans og Guðríðar og fjölskyldu þeirra. En sú saga var í fanginu á stóru ástarsögunni, sem Hallgrímur ljóðaði svo vel um – ástarsögu Guðs. Guð elskar, Guð kemur, Guð umfaðmar alla veröld og þig líka. Líka þegar myrkrið umlykur þig.

Pílagrímaferðirnar

Við, sem störfum í þessum mikla helgidómi, Hallgrímskirkju, verðum daglega vitni að leit fólks að inntaki lífsins. Hingað koma margir og tjá, að þetta sé áhrifaríkur staður. Og mörg ykkar vitið, að einn af fjölmiðlarisum veraldar hefur úrskurðað, að Hallgrímskirkja sé eitt af mikilvægstu íhugunarhúsum heimsins. Það kemur þeim ekki á óvart, sem sækja þessa kirkju. Og ekki lýgur the Guardian– vörður sannleikans – og flytur ekki falsfréttir gegn betri vitund.

Hvað merkir að vera íhugunarhús? Það er staður þar sem er gott samband, góð skynjun og líðan, skapandi hugsun. Staður til að tengja við innri mann, umhverfi en líka við eilífðina. Og af því fólk hefur heyrt, að Hallgrímskirkja sé staðurinn, kemur það hingað til að vera. Það fer ekki aðeins hálfa leið upp í himininn og baka – þ.e. í kirkjuturninn, heldur inn í kirkjuna og sest niður. Þar er hægt að fara yfir líðan, vonir og áhyggjur og kveikja svo á kertum til stuðnings sálarvinnunni, hugsa um til hvers við lifum og af hverju. Í kyrru kirkjunnar taka margir ákvarðanir um stærstu málin og breyta um stefnu, ákveða með fjölskyldumál sín, atvinnu, menntun, tengsl og líka tengslarof. Allt þetta, sem fólk hugsar um varðar merkingu, hamingju og tilgang. Þetta sem allir leita að og hugsa um. Og svo er vaxandi fjöldi, sem kemur frá útlöndum, í þetta mikla sambandshús, til að giftast, fer á heimsenda til að fá bæn og blessun yfir ást sína. Ástarsögurnar eru alls konar.

Þín ástarsaga

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Tengsl trosna og gliðna eins og við prestar sjáum oft. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur upplifun, reynslu, því sem kemur til móts við djúpa kærleiksþörf fólks. Og fólk á ferð lífsins kemur í þessa kirkju til að leita að hinu djúpa. Við segjum ástarsögu um Hallgrím og Guðríði og ástarsögu Guðs sem alltaf elskar. Og þó Hallgrímskirkja sé gott íhugunarhús fyrir borg, þjóð og heim er þó annað hús sem skiptir þig þó enn meira máli. Það ert þú sjálfur – þú sjálf. Þú ert raunar miðjan í ástarsögu Guðs og heimsins. Þú mátt elska og njóta ástar. Sterar, grasreykingar, matarflótti eru ásýndarmál, yfirborð – en hið innra þarftu það sem raunverulega gefur þér hamingju.

Viltu hamingju – staldraðu við.

Leitar þú ástar – hún stendur þér til boða.

Þarftu fang? Það er tilbúið.

Viðurkennir þú þörf þína – þá er vinur við hlið þér.

Guð sér þig. Þú og þitt fólk er elskað.

Guð elskar.

Amen

Hallgrímsmessa – 28. október, 2018