95 greinar Marteins Lúthers

Disputatio pro Declaratione Virtutis Indulgentiarum

Aliter dictum „95 theses“

Af ást og ástundun þess að leiða sannleikann í ljós, þá verður það, sem hér að neðan er ritað, til umræðu í Wittenberg. Umræðum stjórnar hinn æruverðugi faðir Martin Luther, Magister í “Listum” og heilagri guðfræði, lector í heilagri guðfræði á þeim sama stað. Þess vegna fer hann fram á að þeir sem ekki geta verið viðstaddir umræðurnar, leggi fram mál sitt skriflega.

Í nafni drottins vors Jesú Krists. Amen.

  1. Þegar Drottinn vor og meistari Jesús Kristur segir „gjörið iðrun, o.s.frv.“ þá vill hann að allt líf trúaðra sé stöðug yfirbót.
  2. Ekki er hægt að skilja þetta orð eins og það eigi við um yfirbót skriftasakramentisins ( þ.e. þá sem snýr að syndajátningu og aflausn sem presturinn veitir í embætti sínu).
  3. Samt er ekki aðeins átt við innri iðrun; þvert á móti er innri iðrun einskis verð ef hún leiðir ekki af sér ýmiss konar ögun mannsins sem birtist í breytni hans.
  4. Þess vegna varir sektin svo lengi sem sjálfshatrið varir (þ.e. sönn iðrun hið innra) og það verður svo allt þar til við göngum inní himnaríki.
  5. Páfi hvorki vill né getur gefið upp nokkra sekt, aðra en þá sem hann ákveður sjálfur að leggja á eða sem er í samræmi við kirkjurétt.
  6. Páfinn getur ekki fyrirgefið neina synd nema með því að lýsa því yfir og sýna fram á að fyrirgefningin sé frá Guði komin. Nema að sjálfsögðu í þeim tilfellum sem falla beint undir úrskurðarvald hans. Ef réttur hans í slíkum málum væri hundsaður þá myndi sektin vissulega vara.
  7. Guð fyrirgefur ekki sekt nokkurs manns nema hann jafnframt feli hinn auðmýkta, í öllum hlutum, presti á vald, sem er fulltrúi hans.
  8. Kirkjuleg yfirbótarákvæði eru einungis lögð á lifandi menn en skv. þeim á ekkert að leggja á deyjandi fólk.
  9. Þess vegna er Heilagur andi okkur góður, fyrir meðalgöngu páfa, því í ákvæðum hans eru dánartilfelli og neyðartilfelli alltaf undanskilin.
  10. Þeir prestar, sem sleppa deyjandi mönnum ekki við yfirbótarverk í hreinsunareldinum, gera það af vankunnáttu og vonsku.
  11. Það er greinilegt að þessu illgresi, að breyta kirkjulegum yfirbótarákvæðum í refsingu í hreinsunareldinum, hefur verið sáð meðan biskuparnir sváfu.
  12. Áður fyrr voru yfirbótarverkin ekki lögð á fyrir aflausina heldur eftir hana sem eins konar prófraun fyrir sannri iðrun.
  13. Hinir deyjandi losna í dauðanum undan öllu og eru þegar dauðir gagnvart kirkjulegum álögum þar sem þeir að lögum eru lausir undan þeim.
  14. Ófullkomið heilbrigði (sálarinnar) eða ófullkominn kærleikur þeirra sem deyjandi eru, hefur ótvírætt í för með sér mikinn ótta og þeim mun meiri ótta sem kærleikurinn er minni.
  15. Þessi ótti og skelfing er alveg nóg eitt og sér (svo ég segi ekki meira) sem sú refsing sem hreinsunareldurinn er, því skelfingin sem örvæntingunni fylgir, verður ekki meiri.
  16. Það lítur þannig út sem munurinn á helvíti, hreinsunareldinum og himnum sé samsvarandi muninum á örvæntingu, angist og hjálpræðisvissu.
  17. Óhjákvæmilegt virðist með sálirnar í hreinsunareldinum að eftir því sem skelfingin minnkar þá eykst kærleikurinn.
  18. Ekki er að sjá að nokkur hafi sannað – hvorki með skynsamlegum rökum né út frá vitnisburði ritninganna – að sálunum í hreinsunareldinum sé fyrirmunað að afla sér verðleika eða vaxa að kærleika.
  19. Né heldur virðist hafa verið sýnt fram á að þær séu öruggar og vissar um sína sálarheill, alltént ekki allar, þó við getum leyft okkur að vera örugg.
  20. Þannig á páfinn ekki við allar refsingar þegar hann veitir “algera uppgjöf allra refsinga” heldur aðeins þær sem hann hefur sjálfur á lagt.
  21. Þess vegna skjátlast þeim sem boða aflát er þeir segja að maðurinn sé laus undan allri refsingu og frelsaður, vegna afláts páfa.
  22. Þvert á móti leysir páfi ekki sálir í hreinsunareldinum undan nokkurri refsingu sem þær hefðu, skv. kirkjuréttinum, átt að gjalda fyrir í þessu lífi.
  23. Ef hægt er á annað borð að gefa einhverjum upp allar refsingar, þá er öruggt að það á bara við um hin fullkomnustu, það er sárafá.
  24. Þetta veldur því að fjöldamargir láta blekkjast af þessum merkingarlausu og yfirspenntu loforðum um að þau geti losnað undan sekt sinni.
  25. Hver einasti biskup eða prestur hefur í sínu biskupsdæmi eða sókn nákvæmlega það sama vald yfir hreinsunareldinum og páfinn hefur almennt.
  26. Páfi gerir afbragðs vel þegar hann veitir sálum fyrirgefningu, ekki með lyklavaldinu, (sem hann hefur reyndar ekki) heldur með fyrirbænum sínum.
  27. Mannanna verk predika þeir þegar þeir segja að um leið og peningurinn klingi í kassanum, fljúgi sálin frjáls úr hreinsunareldinum.
  28. Öruggt er að gróði og ágirnd getur aukist þegar skildingurinn klingir í kistlinum; en árangurinn af fyrirbænum kirkjunnar veltur einungis á vilja Guðs.
  29. Hver veit hvort allar sálir í hreinsunareldinum kæra sig um að verða endurleystar? En þannig er sagt að hafi verið með þá heil. Severinus og Paschalis.
  30. Enginn er öruggur um það hversu sönn iðrunin hans er, og enn síður hvort hann hafi í framhaldinu fengið fullkomna fyrirgefningu.
  31. Sá maður sem kaupir sér raunverulegt syndaaflát er jafn sjaldgæfur og sá sem raunverulega iðrast, þ.e. hann fyrirfinnst varla.
  32. Þeir sem trúa því að þeir séu öruggir um sína sáluhjálp vegna þess að þeir hafi fengið aflátsbréf munu verða bölvaðir að eilífu ásamt með lærifeðrum sínum.
  33. Menn skulu vera mjög á varðbergi gagnvart þeim sem segja að aflát páfa séu það sama og hin ómetanlega gjöf Guðs, sem sættir manninn við Guð.
  34. Þessi niðurfelling aflátsverkanna gildir aðeins um þau yfirbótarverk sem unnin eru í skriftasakramentinu og menn hafa lagt á.
  35. Þeir boða ekki kristna kenningu, sem halda því fram að iðrun sé ekki nauðsynleg þeim sem hyggjast kaupa sálir lausar eða játningabréf.
  36. Sérhver kristinn maður sem iðrast á rétt á fullri lausn undan refsingu og skuld, meira að segja án aflátsbréfa.
  37. Sérhver kristinn maður, hvort heldur lifandi eða dauður á hlutdeild í öllum gæðum Krists og kirkju; Guð gefur honum þau, einnig án aflátsbréfa.
  38. Samt ber ekki á nokkurn hátt að vanmeta aflausn sem páfinn veitir eða hans þætti, því, eins og ég sagði, þá er hún yfirlýsing um fyrirgefningu Guðs.
  39. Það er afar erfitt, jafnvel fyrir lærðustu guðfræðinga, að vegsama hvort tveggja í senn fyrir mönnum, gnægð fyrirgefningarinnar og einlægni iðrunarinnar.
  40. Sönn iðrun sækist eftir refsingu og ann henni en takmarkalaust aflát víkur sér undan henni og fær mann til að hata hana, eða gefur alltént tilefni til þess.
  41. Varlega skal farið í að predika postullegt aflát, svo almenningur geri sér ekki þá röngu skoðun að það eigi að meta þau meir en önnur kærleiksverk.
  42. Kenna ber kristnum mönnum, að páfi ætlast ekki til þess að uppgjöf aflátsins sé á nokkurn hátt sambærileg við miskunnarverkin.
  43. Kenna ber kristnum mönnum, að sá sem gefur fátækum eða lánar þurfandi gerir betur en ef hann keypti aflát.
  44. Því að við hvert kærleiksverk vex kærleikurinn og maðurinn verður betri en maður verður ekki betri vegna aflátsins heldur aðeins frjálsari undan refsingunni.
  45. Kenna ber kristnum mönnum að sá maður sem sér einhvern líða skort og vanrækir hann en gefur fé fyrir aflát, hann hlýtur ekki aflát páfa heldur reiði Guðs.
  46. Kenna ber kristnum mönnum, að þeir eiga ekki að sólunda fé sínu í aflátsbréf – nema þeir vaði hreinlega peningum – heldur geyma það til þess að sjá fyrir nauðsynjum fjölskyldu sinnar.
  47. Kenna ber kristnum mönnum, að þeim er frjálst að kaupa aflát en til þess liggur engin skylda.
  48. Kenna ber kristnum mönnum, að páfinn óskar þess því meir sem hann þarf meira á því að að halda, að fyrir honum sé beðið þegar hann veitir aflát.
  49. Kenna ber kristnum mönnum að aflát páfa séu gagnleg ef menn leggja ekki allt traust sitt á þau en stórskaðleg ef menn glata guðsóttanum vegna þeirra.
  50. Kenna ber kristnum mönnum að fengi páfinn vitneskju um innheimtuhörku aflátssalanna þá myndi hann frekar vilja að kirkja heil. Péturs brynni til ösku heldur en að hún yrði byggð úr húð, holdi og beinum hans eigin sauða.
  51. Kenna ber kristnum mönnum að páfanum ætti að væri það jafn ljúft og honum er skylt að endurgreiða þeim af sínu eigin fé sem sumir fjárplógsmenn aflátssölunnar hafa vélað af fjármuni. Jafnvel þótt selja þyrfti kirkju heil. Péturs.
  52. Traustið á sáluhjálp vegna aflátsbréfa er innantómt, jafnvel þótt aflátssalinn – já jafnvel páfi sjálfur – legði sál sína að veði fyrir þeim.
  53. Þeir eru óvinir Guðs og páfans sem skipa að orð Guðs skuli alls ekki heyrast í ýmsum kirkjum vegna aflátsprédikunarinnar.
  54. Það er óréttlátt gagnvart orði Guðs þegar jafnmiklum eða meiri tíma er varið í sömu prédikuninni til þess að prédika aflátssölu en að boða orð Guðs.
  55. Það hlýtur að vera meining páfa, að sé aflátinu (sem er veigalítið atriði) fagnað með einni bjölluhringingu, einni helgigöngu og einni guðsþjónustu, þá sé Fagnaðarerindið (sem er mikilvægast af öllu) prédikað með hundrað bjölluhringingum hundrað helgigöngum og hundrað guðsþjónustum.
  56. Verðleikasjóðir kirkjunnar, sem páfi veitir úr aflátin, eru hvorki nógu vel skilgreindir né nógu vel kunnir kristnum  lýð.
  57. Vissulega er ljóst, að þeir eru ekki tímanlegir, því þá myndu margir aflátspredikaranna ekki veita svo glatt úr slíkum sjóðum heldur eingöngu safna í þá.
  58. Og ekki eru það verðleikar Krists eða heilagra manna því þeir hafa ávallt verkað án aðkomu páfa, hinum innri manni til náðar en hinum ytri sem kross, dauði og hel.
  59. Lárentíus segir fjársjóði kirkjunnar vera hina fátæku í kirkjunni, en sú orðanotkun er í samræmi við tíðarandann sem þá var.
  60. Við segjum hiklaust að lyklar kirkjunnar, sem gefnir eru vegna verðleika Krists, séu þessi fjársjóður.
  61. Því það er ljóst að til að aflétta refsingum og í öðrum sérstökum tilfellum, þá dugar vald páfa eitt og sér.
  62. Hinn sanni fjársjóður kirkjunnar er hið allraheilagasta fagnaðarerindi um um dýrð og náð Guðs.
  63. En þessi fjársjóður er að vonum hinn hataðasti því hann lætur hina fyrstu verða síðasta.
  64. En fjársjóður aflátanna er þá að vonum hinn vinsælasti því hann gerir hina síðustu fyrsta.
  65. Þess vegna eru fjársjóðir fagnaðarerindisins net sem auðugir menn voru fyrrum veiddir í.
  66. En fjársjóðir aflátanna eru net sem auður manna eru veidd með.
  67. Aflátin, sem aflátspredikarar básúna sem hina dýrustu náð, ber einmitt að skilja þannig: dýr, því þeim er ætlað að vera arðvæn.
  68. En í raun og sann eru þau lítt sambærileg við náð Guðs og miskunn krossins.
  69. Biskupum og prestum er skylt að taka kurteislega á móti umboðsmönnum postullegra afláta.
  70. En miklu frekar er þeim skylt að hafa augun opin og eyrum sperrt, og gæti þess að þeir prédiki ekki sína eigin draumóra í staðinn fyrir það sem páfinn hafði lagt fyrir þá.
  71. Sá veri bannsettur og bölvaður sem talar gegn sannleikanum um postullegt aflát.
  72. En blessaður sé sá sem stendur á móti geðþóttanum og framhleypninni í orðum aflátssölumannanna.
  73. Rétt eins og páfinn beinir reiði sinni gegn þeim, sem með hvaða brögðum sem er, skaða aflátssöluna
  74. þeim mun frekar ætti reiði hans að beinast að þeim sem undir yfirskini aflátanna skaða helgan kærleika og sannleika.
  75. Að líta svo á að páfalegt aflát sé þess eðlis að það gæti leyst manninn, jafnvel þótt hann hefði gert eitthvað algerlega ófyrirgefanlegt eins og að svívirða Maríu guðsmóður; það er bilun.
  76. Þvert á móti segjum við að aflát páfa geti ekki afmáð hina hversdagslegustu synd, að því er að sektinni lýtur.
  77. Þegar sagt er að heil. Pétur, væri hann páfi núna, gæti ekki einu sinni veitt meiri náð þá er verið að lastmæla heil. Pétri og páfa.
  78. Aftur á móti segjum við að bæði hann og hvaða páfi sem er, eigi nokkuð mikilfenglegra en þetta, s.s. fagnaðarerindið, kraftaverkagáfu, náðargáfur, lækningagáfu o.s.frv. eins og segir í 1 Kor 12
  79. Að segja að krossinn sem [aflátssölumennirnir] reistu og skreyttu með skjaldarmerkjum páfa, sé jafn mikilvægur og kross Krists; það er guðlast.
  80. Biskupar, prestar og guðfræðingar sem láta það viðgangast að svo sé predikað meðal fólks, munu síðar þurfa að standa skil á því.
  81. Þessi blygðunarlausa aflátsprédikun gerir það að verkum að erfitt verður, jafnvel fyrir lærðustu menn, að endurheimta þá virðingu sem páfanum ber, sem og að verjast gagnrýni og hvössum spurningum leikmanna.
  82. Til dæmis: “Hvers vegna tæmir Páfi ekki hreinsunareldinn, í sínum ginnheilaga kærleika, því sálunum þar er mikil nauðsyn á því. Það er hin sanngjarnasta ástæða sem til er og sanngjarnara en að hann endurleysi ótölulegan fjölda sálna fyrir skitna skildinga til þess að byggja kirkju, en sú ástæða er sú ómerkilegasta af öllum.”
  83. Ennfremur: “Hvers vegna viðgangast ennþá útfarar- og ártíðamessur fyrir hinum dauðu í stað þess að páfi skili fénu eða heimili endurgreiðslu á þeim sjóði sem stofnaður var vegna hinna látnu, þegar það er meira að segja óleyfilegt að biðja fyrir þeim sem þegar eru endurleystir.”
  84. Enfremur: “Hvaða nýja guðrækni páfa og kærleiksverk Guðs er það, þegar þeir leyfa, fyrir fégjöf, að illmenni og óvinur Guðs kaupi úr hreinsunareldinum guðrækna sál og Guði kæra en myndi samt ekki endurleysa þessa sömu guðhræddu og góðu sál, sem nauðsynlega þyrfti á því að halda sjálfrar sín vegna, og af engri annarri ástæðu en kærleika.”
  85. Ennfremur: “Kirkjuréttarákvæði um yfirbót eru fyrir löngu aflögð og orðinn dauður bókstafur, bæði í sjálfum sér og fyrir notkunarleysi. Hvers vegna eru þau þá gerð virk fyrir peninga með því að leyfa heimila aflátssölu, eins og þau væru lifandi bókstafur?”
  86. Ennfremur: “Hvers vegna byggir páfinn kirkju helgaða heil. Pétri fyrir fé fátækra trúmanna? Hvers vegna byggir hann hana ekki bara fyrir sína eigin peninga en sjóðir hans eru um þessar mundir digrari en auðugsustu rikisbubba.
  87. Ennfremur: “Hvað fyrirgefur páfinn og hverju úthlutar hann þeim, sem eiga rétt á “algerri fyrirgefningu” og “hlutdeild” í gæðum kirkjunnar, þegar þeir hafa iðrast fullkomlega?”
  88. Ennfremur: “Hvað gæti komið kirkjunni betur til góða en að Páfinn gerði hundrað sinnum á dag, það sem hann gerir einu sinni, þ.e. að hann veitti öllum trúuðum þessa aflausn og hlutdeild í gæðum kirkjunnar.
  89. Af því að Páfi leitast við að veita sálunum heill fyrir tilstilli fyrirgefningar frekar en peninganna vegna; hvers vegna nemur hann úr gildi aflátsbréf og uppgjöf afláta sem þegar var búið að veita, þó svo að þau ættu alveg jafnt að gilda?
  90. Ef þessum smásmyglislegu rökum leikmanna verður aðeins svarað með valdsþótta en ekki með röksemdum þá mun það gera kirkjuna og páfann að athlægi andstæðinga sinna en kristna menn vansæla.
  91. En ef aflátin væru nú predikuð eftir höfði páfa og í anda hans þá myndi þetta allt leysast auðveldlega; eða það sem meira er; þetta hefði aldrei orðið neitt mál.
  92. Burt með alla þá spámenn sem segja við Krists lýð, “heill heill” þar sem engin heill er!
  93. Vel gera þeir spámenn sem segja við Krists lýð: “Kross, kross” þar sem enginn kross er!
  94. Hvetja á kristna menn til þess að leggja sig fram um að fylgja höfðinu, Kristi, í gegnum refsingar, dauða og hel
  95. og þeir geti þannig gengið öruggir inní  í himnaríki eftir mikla erfiðleika frekar en að treysta á sýndaröryggi friðarins.

Sveinn Valgeirsson þýddi.