Mennskan og bernskan

Eitt af bestu og litríkustu ævintýrum lífsins er að fylgjast með þroskaferli barna. Það er ekki aðeins skemmtilegt að vera með þeim heldur getum við lært margt af þeim því þau eru fundvís á aðalatriðin. Og börnin nærast af samskiptum, þau þrá samtöl og nánd og gefa mikið af sér. Það staðfesta væntanlega foreldrar og ástvinir fermingarungmennanna sem sögðu já áðan. Og flest hér í kirkjunni í dag hafa einhvern tíma hlegið með börnum og furðað sig á skerpu þeirra.

Spurningar og niðurstöður barna hafa löngum orðið mér íhugnarefni. Texti dagsins minnti mig á samtöl við drengina mína fyrir nokkrum árum. Þó ungir séu hafa þeir lengi fylgst með íþróttum og ofurhetjum íþróttanna. Fyrir nokkrum árum hófu þeir nákvæmar rannsóknir á öllum helstu hetjum knattspyrnuheimsins. Þegar þeir voru búnir að skoða boltatækni og youtube-klippurnar af Messi og Ronaldo vildu þeir ræða um hvernig þeir væru og hvað væri innan í þeim líka. Þeir spurðu mikilla spurninga: „Pabbi, er Messi góður maður?“ „Er Ronaldo góður maður?“ Og þar sem pabbinn var og er bæði hrifinn af fóbolta og stóru lífsspurningunum urðu umræðurnar fjörlegar. Við ræddum um hvað það væri að vera góður maður og um félagsþroska, hjúskaparstöðu og barnamál fótboltakarlanna. Hafa þeir bara töfra í tánum eða hafa þeir líka orðið góðir í samskiptum við annað fólk og sjálfa sig. Kunna þeir að nýta fjármuni fyrir fleira en spilakassa og dót? Í samtölunum kom fram að mínir drengir voru að máta sig, reyna að móta sér skoðanir um hvað væri eftirsóknarvert. Fyrirmyndin var metin til að móta eigið sjálf og markmið.

Hlutverk allra manna er að þroskast og verða að manni. Og siðfræðin er ekki aðeins fag nörda í heimspekideild og guðfræðideildum háskólanna heldur kemur við sögu snemma í bernsku flestra. Góður maður? hvað er það og til hvers? Er þetta mál og spurning sem varðar þig og þitt líf? Hefur þú þörf fyrir að íhuga stöðu þína og hvað þú ert og hvað þig langar til?

Lið Jesú
Lærisveinar voru fyrirmyndir frumkirkjunnar. Rit Nýja testamentisins veita innsýn í veröld þeirra. Á öllum öldum hafa síðan komið fram einstaklingar, konur og karlar, sem hafa þótt skara framúr í rækt og iðju trúarinnar. Þessir einstaklingar hafa verið fyrirmyndir. Um þau hafa verið sagðar sögur til að veita öðrum hugmynd um hvernig eigi og megi lifa og til að vel sé lifað. En dýrlingamyndir helgisóknar fyrri alda hafa misst samhengi. Og ef ofurhratt er farið í menningarsögu vesturlanda á tuttugustu öld þá féllu “heilagir sérvitringar“ úr tísku en aðrir tóku við. 

Á öllum tímum verða einhverjir í úrvali athyglinnar. Hetjurnar þjóna einhverju hlutverki, ef ekki siðferðilegu, þá þjóðernislegu eða peningalegu. Þegar ég var barn voru leikaramyndir algengar og við krakkarnir skiptumst á myndum af Brigitte Bardot, Roy Rodgers og Sophiu Loren rétt eins og síðar var skipst á myndum af knattspyrnugoðum. Dýrlingarmyndir miðalda fengu framhald í leikaramyndum og myndum af popgoðum. Íkónar samtímans eru fótboltakappar og aðrar ofurhetjur. Þegar íkónar himins hverfa verða til nýir himnar en þó innan þessa heims.

Í leit að mennsku

Börn leita þroska og við erum svo innréttuð að við leitum að merkingu og meiningu með lífinu. Allir krakkar og á öllum aldri þurfa eitthvað meira en ofurþjálfaða fótboltafætur. Allir leita hamingju og lífsfyllingar. Og hjörtun eru söm hvort sem er í Súdan eða Grímsnesinu – hjörtu okkar eru óró þar til þau hafa fundið hina dýpstu sælu sem seður sál og líf. Það er alveg sama hvað menn puða við að blekkja sig með ytri nautnum, ytri velsæld, völdum, sjálfsdýrkun og hossun eigin gildis. Allir leita merkingar og tilgangs í lífinu. Og fermingarungmennin sem sögðu já í dag vinna að hamingju sinni. Og við erum öll í sömu sporum og þau – alla daga.

Guðspjallið
Inntak guðspjalls dagsins varðar það mikla mál að vera manneskja. Jesús sagði snilldarsögur til að skerpa vitund fólks um hlutverk í lífinu. Og sagan er um að einn er skipaður fyrirliði og fær stjórnunarhlutverk. Og svo þegar viðkomandi eru orðinn stjóri þá vakna siðferðisspurningar og ýmsir möguleikar gefast til að misnota aðstöðu sína og stöðu. Hvernig er innrætið? Misnotar ekki fólk yfirleitt stöðu sína og vald? Alla vega þau, sem aldrei hafa fengið önnur skilaboð en þau, að markmið lífsins sé að afla sér mestra peninga, sinna hvötum þegar færi gefst og reyna að koma sér sem best fyrir án þess að vera gómaður. 

Jesús Kristur var mannþekkjari og sagði stundum sögur um sjálfhverfvert fólk. En Jesús þráði að við yrðum öll þroskaðir einstaklingar sem værum  ekki bara upptekin af sjálfum okkur heldur því að efla lífið í kringum okkur.  

Gildi einstaklinga er ekki einskorðað við innangildi heldur tengslagildi. Manneskjan er dásamleg sem einstaklingur en verður þó ekki til nema í tengslum. Þau tensl varða jafnvægistengsl hins andlega og líkamlega, einstaklings og hóps, manneskjulífs og lífs í náttúrunni. Og enginn verður alheill – skv. túlkun kristninnar – nema í heilum tengslum við lífgjafann sjálfan, Guð. Þetta er inntak lífslistarinnar. Guð elskar og við klúðrum öllu nema við lifum í því ljósi. Við græðum ekkert með því að hugsa aðeins um eigin hag heldur sjá okkur í heild, gegna stöðu okkar með stæl og njóta þess að þjóna. Og endanlega erum við tengd lífinu, gegnum ábyrgð og eigum ekki að drottna heldur vera í tengslum. Það er skikkanin og þannig fer best. Allt hitt eru misnotkun, ofbeldi, vonska. 

Aðalmálið er að vera góð manneskja. Það eru ekki aðeins litlir drengir sem spyrja stóru spurninganna. Hvað viltu? Hlutverk þitt er að hætta að lifa í sjálfhverfu núi, læra að njóta hins mikilvæga og axla ábyrgð og iðka lífsholla og lífseflandi ráðsmennsku. Í allri lífsreynslu og átökum hljóma spurningar sem þú mátt heyra og taka mark á: Ertu góð kona? Ertu góður karl? Þetta er sú spurning sem bæði fermingarungmenni og við hin líka þurfum að svara með einhverju móti alla daga ævi okkar. Og Guð heyrir og gleðst þegar við segjum já og tjáum fegurð í lífi okkar í tengslum.

Amen.