Þekktu þig

Yfir dyrunum véfréttinnar í Delfí í Grikklandi stóðu orðin: Gnoþi seauton – þekktu sjálfan þig – þekktu sjálfa þig. Líklega var þessi setning slagorð til að vekja athygli á og tryggja viðgang véfréttarinnar. Saga þessa helgistaðar er merkleg og vakið marga til íhugunar um eðli og inntak trúar.

Breska Nóbelskáldið, William Golding skrifaði merkilega bók – the double tongue – um völvuna Pithyu frá því hún var ung stúlka á höfðingjasetri í Grikklandi og hvernig hún var valin til starfa við véfrétt Appolos. Golding lýsir vel hvernig boðskap þurfti að búa út svo hann hugnaðist valdamönnum. Allt varð að skilja pólitísku hyggjuviti og færa í trúarlegan búning og viðeigandi orðfæri. Völvan unga varð að horfast í augu við að heimurinn er harður, að hugsjónir, trú og heilindi eru lúxus, sem aðeins glópar geta leyft sér. Um tíma varð hún að láta undan, í baráttu við eigin samvisku og forstjóra véfréttarinnar.

En dagar Delfí voru taldir, guðleg návist var horfin, boðskapurinn enginn og völvan tók sig upp með ævilaun sín og eign og fór til Aþenu. Þar fékk hún færustu listamenn til vinnu og lét gera altari. Hún hafði enga löngun til að heiðra Delfíguðinn. Hann var henni dáinn – en veruleiki Guðs ekki. Hún lét reisa altari og lét rita á það setninguna: Ókunnum Guði.

Samkvæmt Nýja testamenntinu tók Páll postuli sér stöðu við þetta altari Delfívölvunnar og hóf predikun sína um þann Guð sem kemur til manna í sannleika. Hinn ritsnjalli Golding spann sögu sína um guðsdýrkunina í Delfí, sem brást, að sögu kristninnar sem átrúnað kærleikans, en svo er kristnin í stöðugri baráttu við að vera trú köllun sinni og lifa í anda Guðs. Saga Goldings opnast í mikilleik sínum á nýjan hátt, þegar lesandinn gerir sér grein fyrir hinu stóra samhengi. Völvan, sem vildi ekki eða gat lengur þjónað trúarkerfinu í Delfí, lagði kristnum dómi til altari og sögu um leit mannanna að því sem er satt. Saga hennar er brot okkar eigin sögu. Von hennar var fyrirboði, hún var boðberi um framtíð sem kom. Jesús kom í heiminn, hinn óþekkti Guð varð maður. Á aðventu er hollt að spyrja hverjum þitt altari er helgað og til hvers þú lifir. Þekktu sjálfan þig –sjálfa þig – er verkefni fyrir aðventu og raunar lífið allt.