Orðasóðar og frelsið

img_3988Í dag er sunnudagur guðlastsins. Það er ekki vegna þess að á þessum degi hafi menn guðlastað eða fengið leyfi til að vera orðasóðar. Nei, á þessum degi er sagt í guðspjallinu að Jesús hafi verið vændur um guðlast. Og hann var svo að lokum tekinn af lífi vegna guðlasts.

Á Íslandi var bannað að guðlasta en svo er ekki lengur. Á síðasta ári, 2015, felldi Alþingi úr gildi grein í almennum hegningarlögum sem úrskurðaði þá athöfn refsiverða, sem smánaði trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags. Það var 125 gr. hegningarlaganna (nr. 19/1940). Eini guðlastsdómurinn í seinni tíð féll í Hæstarétti árið 1984. Í tímaritinu Speglinum hafði verið gert grín að altarissakramentinu og dómurinn taldi umfjöllun blaðsins refsiverða. Fleiri dómar hafa ekki gengið. Við Íslendingar hefðum ekki verið bættari ef grínistar og spaugstofumenn þjóðarinnar hefðu verið sektaðir eða fangelsaðir fyrir trúarlegan glannaskap. Að dæma menn fyrir guðlast hefur aldrei bætt samfélag eða guðsdýrkun.

En nú er guðlastsgreinin farin en verkefni okkar er að bæta samtal okkar. Í netheimum hafa margir sullað sinni drullu á torg heimsins. Þar er hópur sem talar niðrandi um menn og Guð, hnjóðar í atferli fólks, lastar skoðanir einstaklinga og smánar fólk með ýmsum hætti. Af hverju sulla svo mörg smekkleysu inn í æðar netsins? Er það vegna áfalla í bernsku eða hrunreiði sem svo mikið flýtur skætingi í garð skoðana fólks, trúar, litar, kynhneigðar. Eða er það ótti? Orðsóðaskapur er líka stundum tjáning óuppgerðar reiði.

Niðrandi tal um Guð

Orðabókin segir að guðlast sé það að tala óvirðulega um Guð, lasta Guð, hafa Guð að spotti. Þessi skilningur, sem flestir hafa lagt í hugtakið, tengist túlkun á boðorðinu: “Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.” Guðlast var talinn glæpur meðal hinna fornu Hebrea og refsing var líflát. Á þessari aftökuhefð voru þær lögskýringar Gyðinga reistar, sem voru notaðar gegn Jesú og til að dæma hann.

Býzantíski keisarinn, Justinianus 1, sem uppi var á sjöttu öld hins kristna tímatals, tók upp dauðarefsingar við guðlasti. Fjöldi þjóða fylgdi þessu fordæmi og iðkaði í þúsund ár. En hið athyglisverða er að refsiharkan var ekki vegna Biblíuhlýðni eða trúarástæðna, heldur fremur vegna hagsmuna valdamanna. Árás á trú og kenningu var jafnan túlkuð sem árás á ríkjandi stjórnvöld þegar trú og siður voru eitt. Að lasta Guð var að lasta stjórn samfélagsins. Guðlast var ekki liðið vegna þess að það ógnaði valdsjórninni. En sú samfélagsútgáfa guðlasts er allt annað mál og hin trúarlega. Guðlast að viti kristninnar er það að virða ekki hin elskandi, leysandi og styðjandi Guð. Að Guð elskunnar sé ekki elskaður.

Frelsi

Vestrænar þjóðir hafa sem betur fer reynt að feta leið frelsins. Við njótum mannréttinda, sem eru ávöxtur margra alda frelsisbaráttu. Við njótum frelsis til trúariðkunar og frelsis til tjáningar. Og þessi mikilvægu mannréttindi hafa sprottið upp á akri kristinnar kirkju og í skjóli kristinnar kenningar. Kristnin leggur áherslu á dýrmæti hverrar manneskju. Mannréttindabálkar eru í samræmi við siðfræði, mannhugsun og elskuafstöðu Guðs kristninnar.

Frelsi einstaklingsins er dýrmætt – ofurdýrmætt – og því má ekki fórna þó að því sé sótt úr ýmsum áttum. Jesús Kristur stóð alltaf vörð um einstaklinga og við fylgjendur hans eigum að fara eins að. Frelsi er einn meginþáttur kristninnar. Guð hefur áhuga á frelsi fólks. Jesús Kristur var frelsishetjan mikla sem kom til að leysa fjötra og kalla fólk og heim til frelsis. Enn kallar hann.

En frelsi má nota eða misnota. Að kristnum skilningi er frelsið ekki bara frelsi til að fá útrás fyrir einstaklingsþarfir. Frelsið er fangvítt og í þágu lífsins, lífs okkar allra. Frelsið er líka í þágu annarra. Á tímum sem einkennast af einstaklingshyggju sem slagar í átt að narcissisma slævist meðal fólks hin djúpa frelsisáhersla kristninnar og þjónustuafstaða. Siðvitund breytist og samfélgssýn einnig. Einstaklingurinn verður mælikvarði alls, þarfir hans og langanir. En Guð vill að við umgöngumst lífið, frelsið, fólk sem dýrmæti en ekki einnota drasl í þágu skyndinota og án vitundar um afleiðingar gerða okkar.

Allt leyfilegt?

Hinn lamaði í sögunni á sér systur og bræður í samtíma okkar. Sjálfhverfa er ein af alvarlegri röskununum. Því þegar hún vex rrýrnar samfélagsvíddin. Tjáningarfrelsið verður þá sem næst heilagur réttur. En kristnin hafnar að tjáningarfrelsi lifi í tómarúmi, að það sé ofurréttur sem ekkert megi hrófla við eða takmarka. Tjáningarfrelsi er mikilvægt en má ekki verða ofar öllu og allt annað verði að lúta því. Og til að frelsið nýtist sem best þarf að gæta að samskiptum, jákvæðri nálgun og mannhelgi allra. Það er hlutverk okkar að stæla siðvitund og kenna börnum okkar ábyrg tengsl og jákvæð samskipti. Verkefni okkar samfélags er að rækta virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum, fólki sem hugsar eða er öðru vísi en við sjálf. Við þurfum að gæta okkur að lasta hvorki menn né Guð.

Hver eru gildi þín? Er eitthvað sem skiptir þig algeru máli? Það er hið trúarlega í lífi þínu. Við erum kölluð til að vanda okkur í öllum tengslum okkar. Vöndum okkur í samtölum og stælum mannvirðinguna.

Hvað er þér mikilvægt?

Strákur var spurður hvað guðlast væri. Hann hugsaði sig um og sagði svo: „Last á enskunni er síðastur. Guð er last. Það þýðir þá að Guð sé síðastur.“ Og það er hnyttin útgáfa og rambar á hið mikilvæga. Þegar allt er þrotið kemur Guð. Guð er síðastur en líka fyrstur.

„Hann guðlastar” ályktuðu fræðimennirnir þegar Jesús fyrirgaf syndir. Þeir vissu að enginn mátti fyrirgefa syndir nema Guð. Jesús reyndi þá og spurði viturlega: „Hvort er auðveldara að segjast fyrirgefa syndirnar eða reisa manninn upp?“ Og þar sem maðurinn fékk heilsu var komið að spurningunni um fyrirgefningu syndanna. Ef Jesús væri fær um að lækna gæti kannski verið, að þar færi maður með mátt himinsins í sér? Guðlastaði Jesús eða ekki? Nei hann stóð lífsins megin. Guðlast er að virða ekki Guð sem elskar, læknar og leysir. Jesús Kristur elskaði, læknaði og leysti fjötra. Það er fagnaðarerindið sem varðar þig og allt samfélagið.

Amen

19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. Prédikun í Hallgrímskirkju, 2016. Útvarpsmessa RÚV.

Lexían Es. 18.29-32

Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!’ – ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, – segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.“

Pistillinn Ef. 4.22-32

Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Guðspjallið Matt. 9.1-8

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: „Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.