Freki kallinn

grimanManstu eftir Dallasþáttunum í sjónvarpinu? Einu sinni var Ewing gamli, pabbi Dallasbræðranna, að kenna Bobby hvernig hann ætti að koma sér áfram. Hann sagði við hann og var að kenna honum meginregluna: “Enginn gefur þér vald. Vald er eitthvað sem maður hrifsar til sín.” Dallasserían er nú kannski ekki lífsleikniþáttur fyrir unglinga, en setning ættföðursins um hið grímulausa, hrifsandi vald er eftirminnileg. Hún tjáir vel hvernig freki kallinn hegðar sér. „Power is not given to you. It is something you take!“

Eitthvað sem þú tekur þér! Valdið, sem þú hrifsar til þín! Þetta er Voldemortviska veraldar. Allt of margar frekjur ganga lausar í samfélaginu, sópa að sér fjármuni, reyna að ná bestu sætunum, aðstöðunni, hrifsa til sín valdastöðurnar. Dallassápan hefur lekið út í allt samfélagið, en jafnframt rutt frá sér hinni mjúku lífsvisku sem allt nærir og eflir.

Í Biblíunni eru í margar sögur um aðila sem sækja í vald. Aðalhrifsir Biblíunnar og sá versti er Satan og er eins konar safnmynd og táknvera alls hins versta. Hann sogar til sín, tælir, rænir og brjálar. Samkvæmt arfsögninni var Satan sonur ljóssins, engill Guðs. Hann vildi þó meira af dýrðinni en honum bar, vildi meira. Og sóknin í vald varð honum að falli. Svona saga varðar alla, er um okkur öll. Við þurfum ekki að taka hana afar alvarlega.

Er frekjan að hrjá þig?

Guðspjallsvers dagsins – í þriðja guðspjallinu – fjallar um það þegar fólk sest í rangt sæti og það er ein birtingarmynd þess að vera í ruglinu. Guðspjallið er um freka kallinn – og freku konuna. Lúkasarguðspjall er bók veislunnar og okkur er sagt frá samkvæmi. Jesús situr til borðs með hópi fólks. Venjan var að heiðursgesturinn talaði um lífið og trúna. Það var nú reyndar uppáhaldsefni Jesú eins og við vitum. Hann hefur sjálfsagt séð vandræðagang fólks við að finna sér rétt sæti. Freki kallinn hefur verið að troða sér og Jesús vísar til uppákomunnar til kenna tilheyrendum sínum lífsleikni. Auðvitað þekktu nærstaddir hinar stífu sætareglur. Enginn fór beina leið til gestgjafans og hlammaði sér niður honum til hægri handar. Og erindi Jesú er: Ertu freki kallinn inn við beinið. Er frekjan að heltaka þig?

Draumur þinn?

Viltu vekja athygli? Langar þig til að vera aðalkallinn – aðalkonan? Viltu verða frægur, ríkur, voldugur? Í undirbúningi kosninga eru þetta góðar spurningar. Kemur þú þér þar fyrir sem þín er ekki vænst og þú átt ekki að vera? Eða bíður þú og lætur vísa þér til sætis? Niðurstaða Jesú er að “…hver sem upphefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upphafinn verða.”

Hver er syndin?

Þessi íhugun um sætaröðun smellpassar inn í tíma okkar. Hún varðar eðli og hlutverk okkar allra. Marteinn Lúther minnti á að maðurinn væri incurvatus in se ipsum, kengboginn inn í sjálfan sig. Það heitir á einfaldri íslensku að vera sjálfselskur – frekjubeygla. Þau sem gera sjálf sig að nafla tilverunnar eru sjálfhverf. Fólki er ætlað að vera upprétt í samskiptum við fólk, náttúru og Guð. En þegar fólk bregst þeirri köllun sinni bognar það inn í sjálft sig. Þá riðlast allt, tengslin bresta og samskiptin. Freki kallinn eyðileggur lífið.

Hrokinn – hubris

Þessa innsýn höfum við Vesturlandabúar þegið í arf bæði úr hinni grísku og gyðinglegu hefð. Grikkirnir sögðu margar rosalegar sögur um þau, sem ekki þekktu mörk sín og ætlaðu sér aðra stöðu en mönnum er fært að skipa. Vefarinn Arachne ætlaði sér að sigra gyðjuna Aþenu í vefnaði. Hroki hennar varð til að henni var breytt í könguló. Draumasveinninn Narcissus tapaði glórunni og lífinu vegna ástar á sjálfum sér. Hann dó beinlínis af því að dást að spegilmynd sinni. Grikkirnir sáu, að þegar menn ætla sér annað og meira en mönnum ber, fer illa. Þeir kölluðu slíkt hroka, hubris. Þegar spekingurinn Evagrius frá Pontus setti fyrstur saman lista hinna verstu synda var hrokinn þar með. Síðar ákvað Gregor páfi á sjöttu öld hverjar dauðasyndirnar væru. Hrokinn hefur síðan oft verið talin meginsyndin og möndull hinna lastanna.

Einkenni hrokans

Hvað einkennir freka kallinn og freku konuna? Þau vilja vera miðja gæðanna. Hinn hrokafulli hefur alltaf rétt fyrir sér. Þú þarft ekki lengi að svipast um til að sjá slíka snillinga! Þegar eitthvað fer aflaga kemur hinn freki sök á aðra og býr til sökudólga. Hinn sjálfhverfi gengst ógjarnan við nokkurri sök. Hinn sjálfhverfi býr til óvini og vandkvæði sem berjast skal gegn. Einu gildir hvort það er í einkalífinu eða í pólitíkinni. Nazistarnir minntu alltaf á sökudólgana, kommarnir líka. Því miður er alltof mikið af heimspólitík okkar samtíðar með einkennum hinnar hrokafullu frekju. Þau “hin” eru sek, hinar þjóðirnar og eða hóparnir eru dólgarnir.

Frekjan deyðir

Frekjan er sjúkdómur, sem allir líða fyrir nema einna helst sá sem sjúkur er. Fíklar eru skýr mynd hins hrokafulla, haldnir sjálfsblekkingu og reyna alltaf að sannfæra aðra um eigin blekkingu. Hinn freki er sama marki brenndur, reynir að beygja aðra til fylgilags við sig. Hrokinn reynir að smækka tilveruna, einhæfa og rýra. Frekjan deyðir. Fólk tapar ávallt þar sem hrokinn stjórnar. Þar sem hrokafrekjan verður alger, hjá þeim sem hafa tapað siðferðiskennd og dómgreind, eru samferðamennirnir, makar, börn, ættingjar og vinnufélagar notaðir sem tæki til að ná dýrð, aðdáun, völdum eða fjármunum. Hrokinn er hið djöfullega í samfélaginu. Frekjan er alls staðar umhverfis okkur og líka í okkur sjálfum.

Auðmýktin – andstæða hrokans  

Hver sem upphefur sjálfan sig mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig mun upphafinn verða. Þetta er boðskapurinn. Þessu vill Jesús miðla okkur. Auðmýktin, hver er hún og hvað er hún? Er mögulegt að vera auðmjúkur í hinni freku samkeppni? Já, vegna þess að auðmýkt er ekki það að vera geðlaus gufa. Auðmýkt er ekki sakleysi kjánans.

Auðmýkt er andstæða frekjunnar. Hin auðmjúku eru æðrulausir höfðingjar samstöðu og lífsverndar. Hin auðmjúku gera sér grein fyrir að öll erum við jafn mikilvæg, að aðrir eru ekki tæki í eigin þágu, heldur markmið í sjálfum sér eins og bæði Jesús Kristur og siðfræði Immanúels Kants minna okkur á. Á vegi auðmýktar lærum við, að við erum ekki nafli heimsins heldur fögur og fullgild meðal annarra fagurra og fullgildra. Við lærum að við eigum rétt – en þó ekki allan réttinn ein. Við göngumst við að við erum mikilvægur hlekkur í neti veruleikans en ekki miðdepill. Við skiljum að tilveran er fjölbreytileg og margbrotin og við megum gleðjast óttalaust gagnvart því sem er öðru vísi.

Það er ekki auðmjúk afstaða að halda að maður sé neðstur alls sem er og eigi að vera þar. Það er afrakstur lélegrar sjálfsmyndar. Auðmýkt hefur ekki með tap að gera, heldur er geðstyrk viska og heilbrigð veraldarsýn.

Hin fremstu eru hógvær og vitur

Mundu eftir anda boðorðanna: Ég er Drottinn Guð þinn. Þú skalt ekki aðra Guði hafa. Þar eru skilin dregin. John Milton kenndi í Paradísarmissi að frekjan væri upphaf og forsenda annarra synda, hið djöfullega afl, sem við eigum í okkur, reynir að draga okkur á tálar, vill sannfæra okkur um að heimurinn eigi að lúta okkur. Þegar dýpst er skoðað er hrokinn uppreisn gegn Guði. Baráttan við frekjuna í okkur er því trúarbarátta þegar grannt er skoðað. Lestu Passíusálmana og þú munt nema sama boðskapinn.

Hin djúpa alvara í sögu Jesú er að veisluherrann í lífsveislunni er Guð sjálfur. Sætaröðunin er ekki af tagi Ewingpabbans, ekki samkvæmt handbók hins illa eða Furstum stjórnsnillinga (Machiavelli). Þar hrifsar enginn, þar er freki kallinn ekki í aðalsætinu. Þar eru allir menn uppréttir, tengdir og glaðir. Því þar er auðmýktin og lífsvitið. Í hvaða sæti ertu þú?

Prédikun 18. september 2016.

Lestrar 17. sunnudags eftir þrenningarhátíð, skv. A-textaröð.

Lexían Orðskv. 16.16-19

Hversu miklu betra er að afla sér visku en gulls
og ákjósanlegra að afla sér hygginda en silfurs.
Braut hreinskilinna er að forðast illt,
að varðveita sálu sína er að gæta breytni sinnar.
Drambsemi er undanfari tortímingar,
og oflæti veit á fall.
Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum
en að skipta herfangi með dramblátum.

Pistillinn Ef. 4.1-6

Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.

Guðspjallið Lúk. 14.1-11

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu.

Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.’ Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!’ Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“