María Halldórsdóttir + minningarorð

María S. HalldórsdóttiMaría Halldórsdóttir hafði svo sterka útgeislun að allar samverur urðu skemmtilegri þar sem hún var. Hún var gjarnan hrókur fagnaðar, bætti öll samkvæmi og meira segja jókst kirkjugleðin þegar María kom til messu. Það var gaman að tala við hana því augu hennar ljómuðu gjarnan. Jafnvel þegar rætt var um dapurleg mál geisluðu augun hennar af umhyggju, góðmennsku og velvild. María lagði gott til allra mála og alls fólks.

Ævi hennar var stórfelld. Þegar æviskrá og viðtöl við hana eru lesin stingur í augu og hjarta að meira var lagt á Maríu en marga aðra. 24 ára varð hún ekkja og þá með tvö ung börn. 52 ára varð hún aftur ekkja og hafði þá eignast fimm börn. Hvað gerði þessi vel gerða kona í átakanlegum aðstæðum? María naut góðs fólks og leitaði í styrk Guðs og það varð henni til blessunar. Foreldrar hennar voru alin upp í klassískri kristni og móðir hennar kenndi dóttur sinni Passíusálmana sem urðu viskubrunnur fyrir líf og lífshætti. Þegar Maríu leið illa hafði hún yfir vers úr 48. passíusálmi. Hún skildi merkingu þess og notaði til að lýsa upp sorg og sál:

Gegnum Jesú helgast hjarta

í himininn upp ég líta má.

Guðs míns ástar birtu bjarta

bæði fæ ég að reyna og sjá.

Hryggðarmyrkrið sorgar svarta

sálu minni hverfur þá.

Lífsbarátta, horfnir ástvinir, áar og eddur hverfa og þá læðast skuggar í sálina. Og María vissi hvar haldreipið er, þorði að horfa upp í himininn í gegnum himinglugga Jesú Krists. Hvað blasir við? Ástarbirta Guðs sem er hagnýt til lífshamingju. Og þá hverfa skuggarnir úr sál og sinni.

Er þetta ekki fagur vitnisburður sem þið ástvinir megið njóta og ígrunda ykkur til styrkingar? Þegar þið horfið upp í himininn – í hvaða aðkrepptri stöðu sem þið getið lent í – megið þið horfa með augum Maríu og vita að þið eruð í góðum faðmi og njótið elsku Guðs. Hvernig farnaðist Maríu í lífinu? Vel. Hún er fyrirmynd í lífsleikni því hún átti trú, ræktað geð og þor til að leita til Guðs. Hún var María í þessum heimi, nálæg, elskurík og gefandi og vel tengd inn í himininn.

Æfistiklur

VottorðMaría S. Halldórsdóttir fæddist í Reykjavík 10. apríl árið 1923. Hún var ávöxtur ástarævintýris í Rönne á þeim fagra Borgundarhólmi í Danmörk. Móðir Maríu, Bjarný Málfríður Jónsdóttir var vinnukona á Íslands- og kaþólsk-tengdu heimili. Þangað leitaði Halldór Guðjónsson, sem varð einnig Laxness og Kiljan. Í upphafinni sumarbirtu Borgundarhólms faðmaðist unga fólkið. En Halldór var á suðurleið en Málfríður hélt í vestur. Hann gekk með kaþólskuna í huganum en Málfríður með Maríu í lífinu. Hann fékk bréflega – inn fyrir klausturveggina – fréttir af þungun og fæðingu dóttur sinnar. Foreldrar Málfríðar tóku á móti dóttur sinni – barni aukinni – með kærleika og umhyggju og móðir Halldórs og systur reyndust einnig hið besta og urðu Maríu skjól fyrr og síðar.

María hét þremur nöfnum og hét fullu nafni Sigríður María Elísabet. Móðirin, Málfríður, var fædd á Fögrueyri við Fáskrúðfjörð (f. 29.08.1896, d. 07.11.2003), mikil mannkostakona sem alla efldi og engan meiddi eða lastaði. Hún var af Long-ættinni sem kunn er af mörgu og m.a. langlífi. Málfríður náði 107 ára aldri. Hún eignaðist ekki fleiri menn eða börn. En hálfsystkin Maríu, samfeðra, voru þrjú. Auk Maríu eignaðist Halldór Laxness (f. 23.04.1902, d. 08.02.1998) Einar Laxness (f. 9. 08.1931), Sigríði (f. 26.05.1951) og Guðnýju (f. 23.01.1954).

Uppvöxtur, kvennamenning og mótun

María fæddist í húsi við Skólavörðustíg í Reykjavík og ólst upp hjá móður sinni og móðurforeldrum. Nokkur sumur var hún í skjóli ömmu og föðursystra í Laxnesi uns þær brugðu búi og fluttu í bæinn. En tengslin treystust á þessum tíma. Og María átti alla tíð skjól í Laxnesfólkinu og naut þess í ýmsu, m.a. með tónlistarnámi hjá Helgu, föðursystur. Faðir hennar studdi hana fjárhagslega þegar mest var þörf á og María mat það mikils. Í viðtali sem Guðrún Guðlaugsdóttur átti við Maríu og birtist sem bókarkafli árið 2000 kemur berlega fram hve öflugar konur stóðu að Maríu báðum megin. Þær ófu merkilegan vef tengsla, virðingar og umhyggju sem varð öryggisnet Maríu Halldórsdóttur. Það var ekkert sjálfgefið að hún nyti tengsla við föðurfólk sitt né heldur við hálfsystkini en foreldrar, ömmur og afi, föðursystur og eiginkonur skáldsins stuðluðu að og sáu til að tengsl urðu, voru síðan ræktuð og þeim viðhaldið.

Æfisagnaritarar Nóbelskáldsins hafa vikið að þessari kvennaveröld, matríarkatvídd, en þar er æð sem má kanna og rannsaka betur. Það er ekki hlutverk prests í minningarorðum að túlka íslenska menningu almennt eða kvennaveröld Halldórs Laxnes sérstaklega. En vegna samtala við Maríu og viðtöl við hana verður ekki fram hjá litið að Maríuorðin eru lind til að ausa af fyrir síðari rannsóknir. Saga Maríu er að sínu leyti lykilsaga sem ekki aðeins varðar að Halldór varð Nóbelskáld heldur líka að íslensk menning hefur verið ofin sterklega og með giftu og árangri þegar ábyrgð hefur verið öxluð. Áar og eddur Maríu hafa skilað svo mörgum hæfum konum því þær hafa notið natni og elsku fjölda kvenna sem hafa þegið getuna og gildin í arf.

María var námsfús og geturík. Undir föðuráhrifum varð úr að María gekk í Landakotsskóla og alla tíð talaði hún fallega um kennara og skólahald í Landakoti. Leið hennar lá svo í Ingimarsskóla, sem var gagnfræðaskóli við Lindargötu. Þaðan lauk María gagnfræðaprófi. Nokkrar umræður urðu um framhald skólagöngu en María lét sér annt um aðstæður fólksins síns. Hún ákvað að létta undir með móður sinni og fór að vinna fyrir sér og sínu fólki. Henni var margt til lista lagt – hún vann á saumastofu í Kirkjuhvoli og lærði sauma og var síðan afar kunnáttusöm við fatasaum. Hún lærði m.a.s. sérstaklega að sauma karlmannabuxur – því hún átti svo marga stráka – sagði hún. Um tíma vann hún í niðurlagningarverksmiðju með Guðrúnu Á. Símonar. Og María stundaði einnig verslunarstörf. Síðar fékk hún starf á skrifstofu Vélsmiðjunnar Héðins í Reykjavík.

Þegar María hafði komið fimm börnum sínum til manns fór hún til starfa að nýju utan heimilis. Í byrjun áttunda áratugarins stofnaði hún og rak Fatadeildina í Miðbæjarmarkaðnum við Aðalstræti og til ársins 1982 þegar hún hætti verslunarrekstri vegna heilsubrests.

Í 67 ár bjó María í Granaskjóli 17 og skapaði með fjölskyldu sinni fagurt heimili. Fyrstu tvö æviárin bjó María á Skólavörðustíg en bernskuhúsið hennar brann og síðan bjó fjölskylda hennar á nokkrum stöðum í Reykjavík, í Þingholtunum, á Bræðraborgarstíg og vestur á Grímsstaðaholti. María var Reykjavíkurkona og vildi helst hvergi annars staðar vera.

Svo var það ástin

Þegar Ísland var hernumið, Reykvíkingar lærðu orð eins og thumbnail og María vann í miðbænum kynntist hún Ragnari Ámunda Bjarnasyni, járnsmið og ættuðum úr Njarðvíkum. Þau dönsuðu sig til kynna og ástar og gengu í hjónaband árið 1944 og komu sér fyrir vestur í Granaskjóli í einu af fínu, sænsku húsunum í Skjólunum. Þeirra börn eru Bjarni Már og Ragna María. Bjarni fæddist í maí árið 1945 og er byggingatæknifræðingur. Sambýliskona hans er Guðrún Fjóla Gränz, viðskiptafræðingur. Ragna María fæddist í ársbyrjun 1948. Hún er framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis. Hennar maður er Guðmundur Þ. Harðarson, íþróttakennari. Börn þeirra eru Ragnar, Þórunn Kristín, Hörður og María Björk.

Svo reið alda sorgar yfir Maríu og fjölskyldu í febrúar 1948. Ragnar lagði af stað í vinnuna en kom aldrei heim aftur. Hann varð fyrir slysi á leiðinni, var lagður inn á sjúkrahús stórslasaður og lést frá konu og ungum börnum. Raðirnar voru þéttar heima og eldri kynslóðin í Granaskjólinu sló varðborg um ungviðið. Með dugnaði og festu tókst að halda húsi og þar með heimilisrammanum.

hjónavíugslumyndMaría fór að vinna hjá Héðni til að afla fólkinu viðurværis. Og þar hún spilaði póker við mannsefni sitt, Kolbein Karl Guðmund Jónsson, véltæknifræðing og Hafnfirðing. Þau gengu í hjónaband í apríl árið 1954. Kolbeinn gekk börnum Maríu í föðurstað og svo komu þrír synir í heiminn í viðbót við eldri systkinin. Þeir eru Halldór, Kristinn og Þór. Halldór fæddist árið 1955.

Halldór er geðlæknir og kona hans er Hildur Petersen, framkvæmdastjóri. Börn þeirra eru Helga Huld og Kolbeinn. Kristinn er viðskiptafræðingur, hann fæddist árið 1957. Kona hans er Gunnþórunn Geirsdóttir, matráður. Börn þeirra eru: Sigríður María, Kolbeinn og Geir. Börn Gunnþórunnar af fyrra hjónabandi eru Auður og Haukur. Þór er yngstur og fæddist árið 1958. Hann er húsasmíðameistari og viðskiptafræðingur. Dóttir hans og Luciu Helenu Jacques er Irene María. Barnabarnabörn Maríu eru 6.

María og börnin hennar

Minningarnarnar

Við skil er mikilvægt að vitja samskipta, ræða minningarnar, leyfa þeim að koma, gæla við þær og vinna með þær til þroska og visku. Hvernig manstu Maríu? Getur þú dregið fallegu og litríku kjólana hennar fram í hugann. Manstu hve smekkvís hún var og hve mikla áherslu hún lagði á að allt væri vandað og fagurt? Manstu eftir félagslegri getu hennar, glettni og hnytni? Manstu hve umtalsfróm hún var og lagði gott til – jafnvel erfiðra mála? Manstu eftir lífsvisku hennar eða uppeldisráð, sem hún þáði í arf frá sínu fólki? Manstu augun hennar og svipbrigði? Hafði hún augun hans Dóra? Því var haldið fram. Manstu hve fljót hún var að fyrirgefa? Manstu kátínu Maríu þegar lífið var henni ljúft? Manstu hve snyrtileg hún var? Og svo speglaði hún umhyggjusögu borðkristninnar og vildi ávallt að til væri nægur matur handa öllum. Naustu einhvern tíma veitinga hennar? Og sástu einhvern tíma fingur hennar fara yfir hljómborðið og kalla fram náttsöng Chopin eða Dónárvals?

Hvað lýsir henni best? Var það líkingin af kletti? Eða akkeri? Stoð og stytta? Mannbætir? Hún var stolt af fólkinu sínu og afkomendum. Og hvernig getur þú dregið lærdóm frá Maríu til þinnar eigin viskugerðar? Hvaða þræði frá Maríu getur þú þú nýtt í lífvef þínum, þér til lífshamingju, fólki og félögum þínum til blessunar og samfélagi þínu til eflingar?

Nú er María farin inn í hjartaveröld og birtuveröld Guðsástarinnar. Sorgarskuggar æfi Maríu eru horfnir henni, allt líf hennar er upplýst og gott. Hún trúði á Guð sem lýsir upp veröldina, leysir úr viðjum og blessar til góðs.

Guð geymi Maríu Halldórsdóttur í ríki sínu og Guð geymi þig.

Í Jesú nafni – amen

María tengdist söfnuði og starfsfólki Hallgrímskirkju með ýmsum hætti og sérstaklega prestinum dr. Sigurði Pálssyni og Jóhönnu Möller. Ég vil fyrir hönd okkar allra, sóknar- og starfsfólks kirkjunnar þakka gefandi og vermandi. samfylgd. Kveðjur til þessa safnaðar sem kveðjur Maríu í dag flyt ég frá Irene Maríu frá Recife í Brasilíu; frá Nicole, Júlíu Ósk og Lauru Björku í Hjörring í Danmörk. Frá Florída berast kveðjur frá Kolbeini og Geir. Hörður og fjölskylda í Nýju Kaledóníu biðja sömuleiðis fyrir samúðarkveðjur.

Jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði. Erfidrykkja í Nauthól.

Minningarorð við útför Maríu S. Halldórsdóttur í Hallgrímskirkju, 31. mars, 2016.