Ég held ellefta boðorðið

Ríkur maðurSigurður Árni Þórðarson tók nýlega við starfi sóknarprests við Hallgrímskirkju. Áður gegndi hann preststarfi við Neskirkju í rúmlega tíu ár. Sigurður Árni hefur þjónað sem prestur í sveit og borg og starfað við kirkjulega stjórnsýslu. Hann hefur einnig sinnt kennslustörfum. Hann var rektor Skálholtsskóla á þeim tíma sem starfsemi hans var breytt í að verða menningarmiðstöð kirkjunnar. Sigurður Árni er Vesturbæingur og ættaður af Grímsstaðaholtinu en á einnig ættir að rekja norður í Svarfaðardal. Hann ólst upp á Tómasarhaga. Þar býr hann í steinbæ afa síns og ömmu og með konu sinni Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, lögfræðingi og framkvæmdastjóra Útfararstofu kirkjugarðanna. Sigurður Árni spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni.

Ingi skólastjóri og siðferðið

Það var undursamlegt að alast upp í Vesturbænum, margt brallað og krakkarnir í hverfinu bjuggu við mikið frelsi. Minningarnar um skólaveru og bernsku vöknuðu við að kveðja Inga Kristinsson, skólastjóra Melaskóla, sem lést í janúar. Ingi var dásamlegur skólastjóri, natinn, nálægður, umhyggjusamur en röggsamur skólamaður og leiðtogi. Þegar ég var ellefu ára gekk hark- og púkkæði yfir Reykjavík og við komum í skólann með fimmeyringa til að leggja undir. Ingi hafði veður af að ég væri að verða búinn að græða allan fimmeyringalagerinn í Vesturbænum og kom út á skólalóð þar sem nú er nýi boltavöllurinn. Hann bað alla að fara en mig að ræða við sig. Svo spurði hann mig erfiðra spurninga um fjárhættuspilamennskuna, benti mér á að stundum yrði maður, af tillitssemi við aðra, að takmarka eigið frelsi. Og svo skýrði hann út fyrir mér merkingu gullnu reglu Jesú í Fjallræðunni, að það sem maður væntir af öðrum sé það sem vert sé að gera öðrum. Og í því ljósi fékk Ingi mig til að lofa sér að græða aldrei framar á öðrum. Við það hef ég staðið – og því aðeins stundað venjulega launavinnu sem opinber starfsmaður!

Flugbrautin og sjórinn

Það var ekki aðeins ævintýri að leika sér í götuleikjunum á Tómasarhaganum, sumar sem vetur. Lynghagaróló heillaði og alltaf einhverjir í fótbolta sem ég stundaði stíft. Tómasarhagagengi stóð upp í hárinu á Fálkagötuflokkum og stundum geisuðu stríð milli okkar á Holtinu og krakka í Skerjó eða jafnvel upp í Þingholtum. Við fengum lausan taum til leikja. Einu sinni vorum við félagar teknir af flugvallarlögreglunni þar sem við vorum að leika okkur við að hjóla yfir flugbrautina milli flugferða. Það var æsilegur leikur en löggan hafði engan skilning á eðli þess leiks. Einu sinni fékk ég gamlan dekkjalager frá Landleiðaverkstæðinu þar sem nú eru hjónagarðarnir við Suðurgötu, bætti, pumpaði upp, batt saman stórar slöngur og fór svo á sjó við Bjarnastaðavörina. Ég meira að segja veiddi af flekanum sem ég stýrði með langri bambusstöng. Stundum fórum við í mikla fiskleiðangra til að veiða ufsa út á Granda, en mamma hafði aldrei löngun til að matreiða fisk sem við veiddum úr klóakinu. Ég skildi það seinna!

Gott fólk

Það var mikið af mjög áhugaverðu fólki í hverfinu sem lét sig unga fólkið varða og varð okkur fyrirmyndir. Árni í Árnabúð, sá frábæri verslunarmaður, réð mig í vinnu þegar ég var tólf ára. Hrefna Tynes var skemmtilegur æskulýðsleiðtogi sem m.a. beitti sér í starfi Neskirkju. Þar voru prestarnir öflugir og sr. Frank sem lagði gott til okkar krökkanna. Ég hef alltaf verið honum þakklátur síðan. Magnea Þorkelsdóttir og Sigurbjörn Einarsson, biskupshjónin, bjuggu hinum megin Tómasarhagans og höfðu tíma fyrir okkur smáfólkið við götuna. Dóri, fisksali á Dunhaganum, var elskulegur og hvatti ungviðið til góðs m.a. í Þrótti. Björn Guðjónsson var til í að leyfa mé að fara á sjó með sér. KR varð sem annað heimili og ég sótti Neskirkju og eignaðiset marga félaga þar. Svo var nokkur hópur sem fór niður í KFUM á Amtmannsstíg og í bíó á eftir. Ég varð eiginlega kristilegur KR-ingur og er enn.

Melaskólaárin og Hagaskólaárin voru skemmtileg ár og þetta voru undraverðar menntastofnanir. Ég met eftir á hve kennararnir lögðu sig í líma við að þjóna okkur. Jóna Hansen þreyttist ekki viðað að auka orðaforða í dönskunni. Björn Jónsson, skólastjóri, spilaði við mig borðtennis vikulega. Stórkostlegt fólk, björt bernska, fjölskrúðugt mannlíf. Ég var heppinn að alast upp í Vesturbænum. Ég á fimm börn og þeir yngstu eru níu ára drengir sem eru í Melaskóla. Þeir eru fjórði liður í beinan karllegg sem býr í sama húsinu, Litlabæ, Tómasarhaga 16b. Það er nú dálítið sérstakt í Reykjavík.

Skólarnir

Ég fór í MR eins og margir úr Hagaskóla. Eftir stúdentspróf fór ég til Noregs í eitt ár. Sumarið eftir stúdentspróf var ég í Oslo, veiktist og var skotið inn á krabbameinssjúkrahús, skorinn með hraði. Í þrjár vikur fannst mér ég vera deyjandi en svo fékk ég lífsdóm. En þessi reynsla fjarri heimahögum og heimavarnaliðinu breytti mér. Ég hafði fyrst ætlað í líffræði í háskólanum og sérhæfa mig í vatni. En kynnin af krabbanum varð til að ég gerði upp við Guð og fór í guðfræðina. Ég naut frábærra kennarra sem opnuðu heim fræðanna og tengdu vel við samtímann. Heimspekin heillaði mig líka. Ég var hvattur til að halda áfram námi og fékk styrki beggja megin Atlantshafsins og valdi að lokum að fara í doktorsnám í Vanderbiltháskóla í Nashville. Það var gott því guðfræðideildin þar var meðal þeirra tíu bestu í Ameríku. Mér bauðst kennslustaða vestra en valdi að fara heim. Og núna þegar maður horfir í afturspegilinn sé ég betur hve möguleikarnir eru margir og hvernig eitt leiðir af öðru. Ég held að ég hefði ekki orðið hamingjusamari í fræðaturni í Ameríku.

Presturinn

Svo vígðist ég til þjónustu við Skaftfellinga og upplifði dulmagn náttúru og fjölmargar víddir tilverunnar sem nýja Ófeigsbókin Öræfi tjáir vel. Ég lærði að elska skaftfellska náttúru og menningu, er alltaf með heimþrá austur. Svo fór ég norður og glímdi við þingeyskt kristnilíf sem var mjög skemmtilegt. Þingeyingar voru mjög fyndnir og höfðu gaman af að reyna prestinn. Í Bárðardal gengu nokkrir karlar ekki til altaris en þar sem jafnan var vel í bikarnum í messulok bað ég þá að hjálpa mér að tæma svo ég lenti ekki í vandræðum við akstur á heimleiðinni. Þeir kunnu að meta húmorinn og lærðu að meta gildi altarissakramentisins. En ég var stutt fyrir norðan. Pétur biskup bað mig að taka að mér rektorsstarf við Skálholtsskóla. Þar bjuggum við í fimm ár og síðan á Þingvöllum. Ég er lukkuhrólfur að hafa fengið að búa með börnum mínum og fjölskyldu á eða í þessum helgidómum íslenskrar menningar og börnin mín eru bæði mótuð og þakklát fyrir þessi ár í faðmi Íslands, inni í náttúru og sögu.

Svo fór ég í bæinn, stundaði fræðastörf og þjónaði á biskupsstofu, leysti af um tíma öðlinginn og vitringinn dr. Sigurð Pálsson í Hallgrímskirkju. En svo var ég valinn til prestsstarfs í Neskirkju frá vori 2004.

Þorpið okkar

Mér kom svolítið á óvart hvað Vesturbærinn hafði þróast yfir í að vera þorp í borginni. Skólarnir, kirkjan, KR, verslanirnar og sundlaugin hafa mótað þétta og öfluga einingu. Við stöndum saman um að vernda hverfið okkar og það er samhugur og döngun í þessu samfélagi. Fólk lætur sig hvert annað varða og það finnum við t.d. í nágrænnagæslu í mínum hverfishluta. Við þurfum að halda vökunni, gæta að stofnunum okkar, eins og kirkju og skólunum. Og ég aðhyllist þéttingu byggðar í Vesturbænum til að vega á móti umbreytingu margra íbúða í hverfi okkar í orlofsíbúðir Íslendinga erlendis.

 

Lærisveinninn

Já, ég lít nú reyndar svo á að Þingholtin sé systurhverfi, sumir segja úthverfi Vesturbæjarins! Og einhverjir töldu að með því að ég færi í prestsþjónustu á Skólavörðuholti væru Vesturbæingarnir að gera tilraun til að innlima Hallgrímssókn í Nessókn. En ég held að við eigum að auka samvinnu milli Hallgrímssóknar, Dómkirkjusóknar og Nessóknar og líka Seltjarnarnessókn líka. Þetta er eitt svæði og þó við sameinum ekki sóknir er hægt að auka samstarfið og samnýta mannafla og mannauð. Það er margt líkt í kirkjustarfinu í Neskirkju og Hallgrímskirkju en þó margt sem er ólíkt. Ferðamennskan í Hallgrímskirkju er mikil. Nú í febrúar eru jafn margir ferðamenn og í júlímánuði fyrir fimm árum. Það er merkilegt viðfangsefni að þjóna yfir hálfri milljón ferðamanna vel og útvíkka hina kirkjulegu þjónustu við þetta fólk. Hallgrímskirkja er orðin pílagrímakirkja, fólk sækir til hennar vegna þess að hún er fræg sem ein af áhugaverðustu kirkjum í heimi og er á ýmsum “must see” listum ferðamennskunnar. Hún er tákn Reykjavíkur og útlína borgar- og menningarlandslags þjóðarinnar. Kirkjan gegnir hlutverki sem musteri sálmaskáldsins og kirkjulistar, ekki síst tónlistar. Mér hefur verið tekið ótrúlega vel og hefur komið á óvart hin mikla vinsemd sem ég hef mætt. Ég sagði við vin minn í Vegamótafiskbúðinni um daginn að mér hefði ekki verið tekið betur þó ég hefði verið einn af lærisveinum Jesú. Og hann horfði á mig og sagði: „Nú, þú ert lærisveinn Jesú“ sem er rétt. Það er margt nýtt í Hallgrímskirkju. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, afar öflugur prestur var ráðin um leið og ég og starfsmannateymið er samstætt og reiðubúið að sækja fram.

Þó ég sé ekki daglega lengur í Neskirkju og fermi ekki í vor, sem ég sé eftir, held ég áfram að þjóna fólki í hverfinu. Ég er ekki farinn úr Vesturbænum, sæki kaffihúsið, sundlaugina, versla í Melabúðinni og Bónus, rölti um hverfið, æpi í KR-stúkunni á leikjum, fylgi strákunum mínum í þeirra skóla- og tómstundastarfi og leiði konuna mína áfram í rómantískum göngum á stígnum inn í Nauthólsvík. Ég held áfram að birta prédikanir og pistla á vefnum eins og áður og margir Vesturbæingar lesa. Svo held ég áfram að rækta minn stóra matjurtagarð og sinna ávaxtatrjánum mínum í garðinum. Ég aðhyllist lífið og held að ellefta boðorðið sé: Þér skuluð ekki vera leiðinleg!

Viðtal sem biritist í Vesturbæjarblaðinu í mars 2015, s. 4-5