Ingi Kristinsson – minningarorð

Ingi Kristinsson1Ingi skólastjóri var nálægur nemendum Melaskóla. Þegar við komum í skólann var Ingi alltaf mættur, glæsilegur, hlýlegur, opineygur og vinsamlegur. Svo þegar við hlupum út í frímínútur var Ingi líka á skólalóðinni, viðtalsfrómur, leikjahvetjandi, vökull vörður hinna smáu og þeim sem var strítt og skildi að þau sem flugust á. Svo þegar við fórum heim var Ingi líka nálægur og fylgdist með og kvaddi. Hann ávann sér virðingu okkar af verðleikum sínum en ekki stöðu.

Ingi kenndi flestum, sem voru í Melaskóla, eitthvað mikilvægt. Hann kenndi mér merkingu gullnu reglu Biblíunnar. Þegar ég var 11 ára gekk hark- og púkk-æði yfir grunnskólana og fé lagt undir. Mörg mættum við með fimmeyringa í vasanum til að geta tekið þátt í því æsilega fjárhættuspili – að hitta í holu eða á línu! Ég varð brátt svo slyngur kastari að ég græddi flesta daga. Þegar ég fór heim úr skólanum voru vasar mínir oftast svo fullir af fimmeyringum að ég fékk marbletti á lærin af þunganum. Ingi sá til okkar fjárhættuspilaranna og kom út á skólalóðina. Hann sagði félögunum að fara – en sagðist vilja tala við mig einan.

Ég bar virðingu fyrir Inga og óttaðist hann ekki. Ég sá að hann hvorki kímdi né brosti, sem honum var þó tamt. Við töluðum saman lengi, aldrei hækkaði hann róminn, aldrei missti hann stjórn á skapi sínu, heldur minnti mig á að ég hefði náð miklu fé af skólafélögum mínum. Hvað þætti mér um það? Mér þótti þetta samtal stefna í vonda átt. Svo spurði Ingi mig hvernig mér litist á ef aðrir næðu af mér mínum peningum! Mér þótti það ill tilhugsun og skildi hvað hann meinti með opnum og kröftugum spurningum. Á þeim grunni byrjaði Ingi Kristinsson síðan að reisa mér hús siðfræðinnar, útlistaði að athöfn hefur afleiðingar, fjárplógur getur leitt til mikilla vandræða, en mikilvægast væri þó að gæta mannvirðingar og jafnvel takmarka eigið frelsi vegna tillitssemi við aðra. Ingi, sem var vel upplýstur um bakgrunn nemenda sinna, vissi að foreldrum mínum væri annt um að sonur þeirra misnotaði ekki fólk og gerði aðra að eigin féþúfu.

Svo lauk Ingi máli sínu með því að spyrja mig hvort ég þekkti gullnu regluna? Nei, ég var ekki viss – en hafði þó grun um að það væri eitthvað Jesúlegt siðvit. Og þá var Ingi farinn að kíma og hafði yfir það sem ég hafði reyndar heyrt áður að það sem við vildum að aðrir gerðu okkur – það ættum við að gera þeim. Fimmeyringar heimsins, já allt gull veraldarinnar fölnaði í samanburði við ríkidæmi siðvitsins fræddi skólastjórinn mig um. Í lok samtalsins tók Ingi af mér loforð: Ég hét honum að ég skyldi hætta að hafa fé af nemendum Melaskóla. Ég stóð við það, ég hætti harki og púkki algerlega og hef reyndar síðan haldið mér við þá stefnu að hafa ekki fé af nokkrum manni. Enn stend ég í þakkarskuld við Inga fyrir að hafa kennt mér hagnýta Jesúspekina fyrir líf og samskipti. Þessi heimur væri betri ef skólum og stjórnum veraldar væri stýrt af mönnum eins og Inga Kristinssyni.

Þessi einkatími minn í siðfræði hjá Inga fléttar margt saman sem einkenndi þennan eðlisvæna dreng og öfluga skólamann. Hann axlaði ábyrgð, vann sín stórvirki með festu en hægð, fór ekki hraðar en viðmælandinn þoldi, beitti hagnýtum rökum og flestum – kannski öllum – kom hann til nokkurs þroska. Í honum bjó djúp mannvirðing sem varðaði alla og gilti fyrir alla. Hann var þjónandi forystumaður. Fjallræðuspekin var iðkuð í Melaskóla því skólastjórinn var þroskaður: „Það sem þér viljið að aðrir geri yður – það skuluð þér og þeim gera“ (Matt. 7, 12). Þessi glæsilegi maður – sem mér þótti sá fallegasti í Vesturbænum – var góður fulltrúi alls hins besta í kristni og vestrænni mannúðarhefð.

Ætt og upphaf

Ingi Kristinsson var Þingeyingur, fæddist á Hjalla í Grýtubakkahreppi og sleit barnsskónum undir Kaldbak, sem honum þótti vænt um. Brynhildur Áskelsdóttir, móðir hans, var úr Fnjóskadal en Kristinn Jónsson, pabbinn frá Hjalla, var kennari og skólastjóri og þau hjónin stunduðu einnig búskap. Ingi var eldra barn þeirra og fæddist fimmtudaginn, 29. ágúst árið 1929. Laufey, alsystir hans, fæddist árið 1933 og lifir bróður sinn.

Brynhildur, móðir Inga, lést frá börnum, eiginmanni og ástvinum í júlílok árið 1938. Ingi var þá átta ára. Hvernig er fyrir ungan dreng að missa móður sína (sérkennileg spekin í upphafi Brekkukotsannáls nær ekki að skýra vel áhrifin)? Hvaða áhrif hafði hið þunga slag á drenginn? Getur verið að hann hafi orðið dulari vegna áfallsins, axlað meiri ábyrgð – alla tíð – vegna þess að hann var elstur og að auki móðurlaus? Átti hin djúprætta mannvirðing – sem bjó í Inga – sér upphaf í bernskureynslu hans sjálfs? Varð hann svo öflugur skólamaður – og gætti allra nemenda sem honum voru fólgnir og umfram alla skyldu – vegna þess að hann hafði sjálfur orðið fyrir sálarhöggi og skildi því að börn finna til? Sum hinna böldnu eiga sér lífsreynslu, sem þarf að greina og virða til að hægt sé liðsinna þeim til vaxtar. Ég undraðist alltaf virðingu Inga fyrir okkur smáfólkinu og furðaði mig á að hann var alltaf til staðar og fylgdist svo vel með okkur. En kannski er móðurmissir hans hlutaskýring á skólastjórnarháttum, Inga – auk kærleiksríks uppeldis í faðmi viskuleitandi, þingeysks ættboga.

Ingi og Laufey uxu upp meðal föðurfólksins á Hjalla og Greinivík. Föðurbræður og amma urðu móðurlausum Inga mikilvæg . Svo hlotnaðist þeim stjúpa því Kristinn gekk að eiga nýja konu, Steingerði Kristjánsdóttur. Börn þeirra og hálfssystkin Inga eru Jón, sem fæddist 17. júní 1942 og fékk því lýðveldið í afmælisgjöf þegar hann varð tveggja ára. Síðan fæddist Gunnar í ágúst 1948.

Allt sumarbörn.

Heimatökin vor hæg með nám og Ingi var góður námsmaður. Þegar hann hafði lokið grunnnámi tók hann stefnuna inn í Menntaskólann á Akureyri. Hann sagði síðar sjálfur frá að þeir faðir hans hefðu farið af stað með mjólkurbílnum inn eftir. En bíllinn fór út af veginum á leiðinni og feðgarnir gengu um 20 km. leið til Akureyrar – og í miklum snjó. Það þurfti að hafa fyrir að komst til skóla á þessum tíma.

Menntaskólaárin urðu Inga til margþættrar hamingju. Hann aflaði sér góðrar menntunar og kynntist góðum félögum sem urðu vinir hans. Hann lærði að axla félagslega ábyrgð og svo fann ástin hann og þau Hildur urðu par.

Ingi var söngvin og söng með bekkjarbræðrum í kvartett – og hann söng síðan alla ævi. Í Melaskóla stýrði Ingi gjarnan söng eða hvatti til skólasöngs. Ingi ávann sér tiltrú skósystkina og var kosinn til skólaforystu. Ingi var inspector scholae síðasta veturinn í menntaskóla og var vel metinn forystumaður.

Ingi lauk stúdentsprófi árið 1951 og Þórarinn Björnsson sagði þegar hann afhenti honum prófskírteinið að Ingi væri „eðlishreinn drengur.” Umsögn skólameistara merkti að hann væri hreinlyndur maður.

Ingi fór um suður haustið 1951 og hóf nám í Kennaraskólanum og lauk kennaraprófi árið 1952. Sama ár hóf hann síðan kennslu í Melaskóla í Reykjavík, ávann sér strax virðingu starfsfélaga og nemenda og þótti afburðakennari. Hann ræktaði samband við “gamla” nemendur sína og það var hrífandi að heyra og sjá umsagnir þeirra að honum látnum – um “besta kennara og skólastjóra” sem þeir gætu hugsað sér.

Þegar Arngrímur Kristjánsson, fyrsti skólastjóri Melaskóla, lauk störfum árið 1959 – eftir átján ára starf – var farið að svipast um eftir þeim sem gæti tekið við og leitt skólann inn í nýtt skeið. Það þótti ekki auðvelt að stýra þessum margsetna risaskóla. Hinn þrítugi Ingi var talinn best fallinn til að takast á hendur verkefnið. Nokkrum þótti Ingi of ungur – en efasemdaraddir þögnuðu fljótt. Hann varð farsæll skólamaður, fremstur meðal jafningja, gekk sjálfur í verkin, hagsýnn, óhræddur en þó gætinn, mannasættir, hlýr og þótti eflandi og réttsýnn.

Ingi var sagður hafa verið fjárglöggur unglingur og þroskaði eðlisgáfuna og varð mannglöggur! Sem skólastjóri lagði hann upp úr að kynnast öllum nemendum skólans. Hann fylgdist með þeim, þekkti nöfn þeirra – sem er ótrúlegt afrek – og lagði sig eftir að nýta alla vaxtarsprota sem hann sá. Í þrjátíu og fimm ár stýrði Ingi Melaskóla og hætti svo 65 ára. Þá fannst okkur, sem bjuggum í hverfinu sem og starfsfélögum, hann enn vera bráðungur. En það var gott að sjá þennan skólahöfðingja fara um í hverfinu árin sem hann átti ólifuð – alltaf bjartan til augna og með friði.

Einar Magnússon, fyrrum skólastjóri Hagaskóla, þakkar fyrir samvinnu og vináttu. Það er þakkarvert hversu gott samstarf hefur alla tíð verið milli skólanna í hverfinu. Fyrir hönd okkar vesturbæinga vil ég þakka Inga Kristinssyni farsæla skólastjórn, alúð hans og mannúð í störfum og tengslum. Við minnumst ljúfs stjórnanda sem laðaði fremur fram með vinsemd en valdbeitingu. Minning okkar flestra um hann er sveipuð virðingu og þökk.

Ingi var öflugur félagsmálamaður. Hann sat í stjórn íslenskra barnakennara í tvo áratugi, var varaformaður þess í átta ár og formaður í fjögur, frá 1972 til 1976. Ingi sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum m.a. fyrir BSRB, Hjálparsjóð æskufólks, Námsgagnastofnun og Blindrabókasafnið. Oft fór hann á fundi þegar skólastjórastörfum lauk og Brynhildi, dóttur hans, þótti nóg um og sagði einhvern tíma: „Ég nenni ekki að pabbi fari á fund!“

Hjúskapur

Ingi var hamingjumaður í einkalífi. Húsvíkingurinn Kristbjörg Hildur Þórisdóttir sá Inga í MA, hreifst af honum og vildi gjarnan kynnast honum betur – og það gekk eftir. Kóngur og drotting urðu hjón og gengu æviveginn saman og hafa sem næst alla hjúskapartíð sína – yfir sextíu ár – búið í vesturbænum og lengst á Tómasarhaga.

Hildur er kennari. Börn þeirra Inga eru: Þórir, Kristinn og Brynhildur.

Þórir fæddist 3. ágúst árið 1954. Hann er verkfræðingur. Kona hans er Þorbjörg Karlsdóttir. Þau eiga þrjú börn, Ragnar, Hildi og Inga.

Kristinn, yngri sonur þeirra Inga og Hildar, fæddist 24. september árið 1958. Hann er einnig verkfræðingur. Kona hans er Bergdís Hrund Jónsdóttir og þau eiga dæturnar Sigríði Þóru og Þórdísi. Fyrir átti Kristinn dótturina Addý Guðjóns með Mörtu G. Hallgrímsdóttur.

Brynhildur var þriðja barn Inga og Hildar. Hún fæddist á aðventunni árið 1967, kom í heiminn 7. desember. Hún var lífeindafræðingur. Brynhildur lést árið 2011, aðeins fjörutíu og þriggja ára. Maður hennar var Þorkell Lillie Magnússon og þau áttu börnin Margréti Stefaníu, Guðrúnu og Friðrik Ómar.

Afkomendur Inga og Hildar eru tuttugu og eitt, þrjú börn, níu barnabörn og níu barnabarnabörn. Ingi þjónaði fólkinu sínu af elskuríkri elju, tók á móti barnabörnunum með gleði, las með þeim, reiknaði, gaf þeim ís og fékk viðurnefndið afa-pava-rafa skafís – kenndi þeim á skíði og var óhræddur að setja þau af stað í brekkunum. Svo dreif hann fólkið sitt á fjöll og ef eitthvert barnanna var þungt til sporsins sagði hann spennandi Ólasögur og þá var jafnvel hægt að laða unga snót um týrólsk fjöll því sögurnar voru spennandi.

Þegar Hildur var í námsvist í Noregi heilan vetur vafðist ekki fyrir Inga að halda heimili fyrir börnin og kona hans gat sinnt námi sínu óhrædd um holdafar, heilsu þeirra og velferð.

Ingi náði að umgangast börn sín og barnabörn með hlýju í skólanum án þess þó að láta þau njóta einhverrar forréttindastöðu. En þegar hann eignaðist barnabörn leyfði hann sér að blikka sitt fólk án þess að aðrir sæju, brosti asæll og tjáði gleði sína óhikað en með hógværð.

Ingi var alltaf til reiðu til að styðja afkomendur sína. Hann studdi þau í námi og jafnvel vini þeirra einnig. Hann varð þeim aðstoðarkennari, innrætti þeim heilsurækt og gildi hreyfingar, hló með þeim og söng, sagði sögur og þau glöddust yfir uppátækjum hans. Öll áttu þau athvarf hjá Inga afa og Hildi ömmu.

Eigindir

Minningarnar um Inga Kristinsson þyrlast upp á tímamótum. Mannstu ljúflyndi hans og vinsemd? Hve laginn skólamaður hann var? Mannstu hve elskulega hann horði á þig þegar þú áttir orðastað við hann?

Mannstu eftir harðdulegum verkmanninum, sem kunni múrverk, var góður smiður, vandvirkur málari en hafði minni þekkingu á rafmagni og hvaða hlutverki þéttir þjónaði? Manstu hve vandvirkur handverksmaður hann var og hve miklar kröfur hann gerði til sjálfs sín og hve góður kennari hann var öllum þeim sem hann aðstoðaði við húsbyggingar og hreiðurgerð? Mörg ykkar eigið ljúfar minningar um hjálpsaman föður og afa sem ekki dró af sér.

Vissir þú að Ingi og Hildur flugu í mörg ár til Lúxemburg til að njóta evrópsks sumars, óku í austur og gjarnan til Fiss í Austurríki og gengu svo um Alpana?

Manstu hve vel Ingi greindi milli vinnu og heimilis og bar ekki skólavandann með sér heim? Manstu hve vel hann vaktaði Melaskóla meðan hann stjórnaði þeirri menntastofnun? Manstu eftir hve glæsilegur hann var, fallegur höfðingi? Manstu sönginn hans – og skólasönginn?

Manstu garpinn á fjöllum – skíðamanninn, göngumanninn? Og Ingi, sem allan sinn fullorðinstíma bjó á KR-svæðinu var svo mikill fjallamaður að hann var jafnvel til í að hjálpa Fram við að reka skíðaskála í Eldborgargilinu. Svona eru eðal-KRingar.

Manstu geðprýðismanninn og öðlinginn – traustið sem hann þroskaði með sér og smitaði til annarra? Manstu hve ábyrgur hann var í öllum tengslum og störfum? Manstu hinn grandvara, trygga og trúa Inga, ljúflyndan, ærðulausan og samviskusaman?

Inn í himininn

Nú eru orði skil. Ingi hefur verið hrifinn úr faðmi Hildar og ástvina. Nú er Ingi farinn inn í eilífðina. Við horfum á eftir gæfumanni og öðlingi, sem skilur eftir litríkar minningar. Við sem nutum hans þökkum og blessum hann hið innra. Skóla- og samstarfs-fólk þakkar samfylgdina. Vestubæingar lofa þjónustu hans. Þið ástvinir haldið kefli hans á lofti.

Ingi mun aldrei snúa snú-snúbandinu framar en snilld hans lifir í minningunni og þolinmæði við ungviðið. Hann blandar aldrei aftur swiss-miss út í ís til að búa til afa-ís. Ólasögur mun hann ekki segja framar á fjöllum. Engir fleiri aukatímar í siðfræði og gullnu reglunni. Ingi mun aldrei framar grípa til söngbókarinnar í vasanum til að stjórna söng og það verða engir bílasöngvar framar með hans þátttöku. Söngbókin hans var það síðasta sem fór í kistuna hans og fallega tenórröddin hans er þögnuð. En söngvarnir hans lifa, hann kenndi fólkinu sínu að syngja og þegar í frumbernsku.

Ungur afadrengur fékk söngkennslu í langri ökuferð og hann skynjaði merkinguna vel því þegar hann stökk út úr afa-og ömmubílnum í Herðubreiðarlindum söng hann hástöfum Inga og Hildi til gleði: Frjálst er í fjallasal… og söngur barnsins barst um hásal hálendisins, inn í vitund samferðafólksins – og upp í himininn. Nú er Ingi Kristinsson frjás í fjallasal eilífðar, ekkert bindur hann lengur, engin gleymska eða hömlun. Hann á góða heimvon, hittir móður, dóttur, föður og frændgarð. Leyfið honum að fara en leyfið söng hans, siðfræði, metnaði, kímni og gæsku hans að lifa.

Guð geymi hann ávallt, opni honum öll fjallendi undraheims himins – til gangs og svigs. Guð geymi minningu hans og Guð blessi ástvini, íslenska skóla og menningu – og Guð geymi þig.

Amen.

Bálför – jarðsett síðar í Kópavogskirkjugarði.

Minningarorð við útför Inga Kristinssonar í Neskirkju, 2. febrúar, 2015.

Ævistiklur:

Ingi Kristinsson fæddist 29. 8. 1929 á Hjalla í Grýtubakkahreppi í S- Þingeyjarsýslu. Hann lést laugardaginn 24. janúar 2015. Foreldrar hans voru Brynhildur Áskelsdóttir húsmóðir f. 13.1 1906 að Austari-Krókum í Fnjóskadal, S-Þingeyjarsýslu, d. 30.7 1938 og Kristinn Jónsson bóndi, kennari og skólastjóri, f. 14.10 1894 á Hjalla í Grýtubakkahreppi, d. 21.9 1975. Systkini Inga eru Laufey f. 25.7 1933 og hálfbræður samfeðra Jón f. 17.6 1942 og Gunnar f. 28.8 1948.

Eiginkona Inga var Kristbjörg Hildur Þórisdóttir kennari og talmeinafræðingur. Hún fæddist á Húsavík 31.1 1933. Foreldrar hennar voru Arnfríður Karlsdóttir húsmóðir f. 26.6 1905, d.7.6 1976 og Þórir Friðgeirsson gjaldkeri og bókavörður, f. 14.9 1901 d. 26.9 1996.

Börn þeirra eru 1) Þórir verkfræðingur f. 3.8 1954 kvæntur Þorbjörgu Karlsdóttur. Þeirra börn eru a) Ragnar f. 17.2 1977 kvæntur Birnu Björnssdóttur og eiga þau tvö börn b) Hildur f. 28.12 1978 gift Bjarka Valtýssyni og eiga þau þrjú börn c) Ingi f. 30.10 1990 í sambandi með Hörpu Ellertsdóttur. 2) Kristinn verkfræðingur f. 24.9 1958 kvæntur Bergdísi Hrund Jónsdóttur. Þeirra börn eru a) Sigríður Þóra f. 17.7 1986 í sambúð með Steingrími Arasyni og eiga þau eitt barn b) Þórdís f. 4.2 1991 í sambúð með Ívari Sveinssyni. Fyrir átti Kristinn Addý Guðjóns f. 1.4 1978 með Mörtu G Hallgrímsdóttur. Addý er gift Helga Sigurðssyni og eiga þau þrjú börn. 3) Brynhildur lífeindafræðingur f. 7.12 1967 d. 24.6 2011, gift Þorkeli Lillie Magnússyni. Þeirra börn eru a) Margrét Stefanía f. 6.8 1995 b) Guðrún f. 5.11 1998 c) Friðrik Ómar f. 15.10 2003.

Ingi ólst upp á Hjalla og á Grenivík við Eyjafjörðinn austanverðan. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi 1951. Að loknu stúdentsprófi flutti Ingi suður til Reykjavíkur, gekk í Kennaraskólann og lauk kennaraprófi 1952. Í Reykjavík bjuggu Ingi og Hildur í Vesturbænum, lengst af á Tómasarhaga. Haustið 1952 hóf Ingi kennslu við Melaskólann í Reykjavík og varð skólastjóri árið 1959. Hann var skólastjóri Melaskóla í 35 ár eða þar til hann lét af störfum 1994. Ingi sat í stjórn íslenskra barnakennara 1956-1976, var varaformaður þess 1964-1972 og formaður frá 1972-1976. Ingi sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir m.a. BSRB, Hjálparsjóð æskufólks, Námsgagnastofnun og Blindrabókasafnið. Eftir að skólastjóraferlinum lauk tók hann í nokkra vetur að sér skálavörslu í skíðaskála Fram í Bláfjöllum auk þess sem hann gætti barnabarna áður en þau fengu leikskólapláss.