Andri Fannar Guðmundsson – minningarorð

4Myndin á forsíðu sálmaskrárinnar er yndisleg. Andri lá á maganum meðprinsessurnar sínar á bakinu. Þau voru að leika sér á hoppubumbu á sundlaugarsvæðinu nálægt heimli þeirra í Sviss. Eins og þið sjáið brosti Andri út að eyrum og dætur hans ærsluðust og hlógu. Þetta er hamingjumynd og mynd af því hvernig hægt er að lifa vel í heimi en líka á himni. Lífið er skemmtilegt þegar við lifum því með leik og gleði. Þá tengjust við sjálfum okkur og þjálfum okkur fyrir veruna í eilífðinnni sem er heimur hins fullkomna frelsis. Alla æfi erum við að æfa okkur fyrir leik himinsins. Börnin eru best í leiknum – þau kunna aðferð eilífðar. Og í Andra bjó leikgeta. Hann má vera okkur fyrirmynd í að iðka gleðina og leika okkur, hafa gaman af því að lifa. Hver dagur, hver stund er gjöf til að njóta og ástvinir til að elska og næra.

Andri var þegar sem barn áræðinn og jafnvel hvatvís. Figgi, síðar fóstri hans, skrifaði skemmtilega sögu um Andra sex ára. Þá heillaðst Andri af stórum jeppa og gaf sig á tal við eigandann og spurði hvort hann mætti ekki koma með í smárúnt á þessum glæsilega bíl. Jú, jú það var heimilt og rúnturinn varð bílstjóranum ógleymanlegur því drengurinn talaði án afláts, spurði margs og kom viðmælanda sínum fyrir sjónir sem fróður, fullorðinslegur og skemmtilegur. Og fjörið í Andra hefur ekki verið til ills því Birna móðir hans og jeppaeigandinn tóku saman skömmu síðar og fóru síðar í langan rúnt um Afríku.

Upphaf og samhengi

Andri Fannar var vormaður, hann fæddist 11. maí árið 1981. Foreldrar hans eru Birna Guðbjörg Hauksdóttir og Guðmundur Örn Flosason. Andri hóf nám í grunnskólanum á Siglufirði. Hann var fljótur að kynnast fólki, hikaði ekki við að gefa sig á tal við eldri sem yngri. Andri var kotroskinn og þótti ekki verra að geta komið viðmælendum til að hlægja. Eitt af mörgu sem eftir honum er haft frá æskuárum er þessi ágæta og fyndna sjálfskynning. Hann sagði: „Ég heiti Andri Fannar Guðmundsson og pabbi minn heitir Snorri.“ Sumir viðmælendur urðu að blikka augum nokkrum sinnum til að ná snilli drengsins!

Systkini Andra komu eitt af öðru og hann gekkst svo sannarlega við því hlutverki að vera góður bróðir. Og það var ekki bara Rannveig eða hin systkinin sem voru ánægð með stóra bróður heldur var hann alla tíð afar stoltur af þeim og var tilbúin að hringja yfir þveran hnöttinn bara til að segja hve stoltur hann væri af systur sinni eða kátur með bróður.

Andri eignaðist stóran systkinahóp og varð systkinum sínum kraftmikil fyrirmynd í margvíslegu tilliti. Hann hafði áhrif á menntunarsókn þeirra og það var mikilvægt. Systkini Andra sammæðra eru auk Rannveigar – Stefán Haukur Friðriksson, Margrét Marsibil Friðriksdóttir og Eirikur Hrafn Þrastarson. Systkini Andra samfeðra eru Margrét Helga, Fjóla Dröfn og Flosi Gunnar. Stjúpsystkini hans eru Guðbjörg Oddný Friðriksdóttir, Ásgrímur Már Friðriksson, Helgi Phoonsawat Guðmundsson og Óli Phoonsawat Guðmundsson.

Namibía

Lífið á Sigló var dásamlegt en svo ákváðu móðir og stjúpi að nú væri kominn tími til enn stórkostlegri ævintýra. Fjölskyldan flutti til Namibíu í suðvestur-Afríku og þar bjuggu þau í rúmlega fimm ár. Andri hóf nám í enska skólanum í Swakopmund. Andri var jafn snöggur að eignast vini þar eins og á Siglufirði, en kannski hefur hann nú ekki vaðið upp í næsta stórjeppann og beðið um að far á rúntinn.

Hann var snöggur að ná valdi á enskunni í skólanum og umfram flesta aðra lagði hann sig líka eftir Afrikaans og gat því talað við fólk af flestum stigum og stéttum. Andri var sjálfum sér trúr, stóð fast á réttlætismálum, hikaði ekki við að tala skýrt við kennara eða hvern sem var ef þess var þörf.

Aðstæður barnanna voru góðar, ströndin nærri, eyðimörkin á hina hönd og þó iðandi af forvitnilegu lífi. Eðlurnar urðu eftirlætisveiðidýr þeirra systkina og margra barna. Viðskiptavitið spratt upp. Andri setti á stofn verslun og seldi allt mögulegt og álagningin var talsverð. Andri vissi vel hvað þurfti til að viðskiptavinir yrðu kátir með kaupin en hann gæti þó hagnast á viðskiptunum.

Namibía var ekki aðeins ljúf fyrir uppvaxandi börn, heldur fjölbreytilegur fræðsluvettvangur eða skóli varðandi gildi, samskipti kynþátta og menningarhópa.

Afríkuferðin mikla

Andra var fyrr og síðar mikilvægt að njóta frelsis. Hann mat einnig víðáttu og hina opnu möguleika. Fjölskylda Andra lauk Namibíudvöl sinni með mikilli Afríkuferð, og óku eiginlega frá Namibíu til Íslands. Þau óku suður frá Namibíu til Góðrarvonarhöfða og þaðan síðan upp með austurströndinni, þvert yfir Afríku og síðan upp með vesturströndinni til Marókkó, óku yfir eyðimerkur og vel gróðið land, í gegnum hættur, voru á flótta undan óðum fíl, þurftu að gæta sig á fólki sem vildi kaupa eitt barnið úr bílnum, kynntust ótrúlega fjölbreytilegu landslagi í menningu fólks og náttúru. Ferðalagið tók átta mánuði en varð eiginlega mótandi skóli til lífs fyrir Andra og þau öll sem sátu í bílnum. Þetta var tími sem skilaði innsýn Andra í líf margra, einstaklinga, hópa og þjóða – efldi skilning hans á menningu – en líka á að fólk er líkt þótt skinnið sé ólíkt og menningin fjölbreytileg.

Forvitni, hispursleysi, kátína, brosandi augu og þor tengdu Andra við fólk á öllum breiddargráðum og lengdarbaugum. Og fullorðinn var Andri ekki aðeins Íslendingur heldur heimsborgari, jafnhæfur í plássi á Íslandi og í afrísku þorpi, jafn kunnáttusamur í háskólum heimsins, stórbönkum veraldar eða í kælinum í Hagkaup. Mömmu og pabba, fóstrum, ömmum og öllum ástvinum lánaðist að virkja mátt drengsins svo vel að Andri naut sín, nýtti hæfileika sína til vaxtar og varð þroskaður maður, sem var tilbúinn að njóta og lifa vel. Lof sé þeim öllum – ykkiur öllum – þið lögðu svo vel til hans.

Nám og störf

Eftir að Andri og fjölskylda komu heim akandi og siglandi frá Afríku hóf hann nám í Hólabrekkuskóla í Reykjavík. Þaðan lauk hann grunnskólaprófi vorið 1996. Síðan lá leiðin í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og þaðan lauk hann stúdentsprófi árið 2001. Andri vann með námi og kom sér jafnan vel enda hafði hann áhuga á því sem hann var að gera og gekk með krafti í verkin hvort sem það var að puða í Hagkaup eða aðlaga Credit Suisse að nýjum reglum um bankaleynd. Andri hóf starfsferil sinn sem kerrustrákur hjá Hagkaupum og Högum árið 1998 og vann sig snarlega upp í stjórnunar- og ráðgjafastöðu meðfram fullu námi.

Eftir stúdentspróf hellti Andri sér í sálfræðinám við Háskóla Íslands. Og Andri stefndi alltaf til stjarnanna og útskrifaðist með afburðaeinkunn árið 2005. Þetta var á þeim árum þegar skörpustu heilarnir voru metnir og veiddir. Andri vakti athygli í bankaheiminum og þó hann hefði stefnt á framhaldsnám í Harvard var hann til í að staldra við í bankageiranum. Hann vann hjá Glitni á árunum 2006-2008. Um tíma var hann einnig stundakennari við HÍ og HR. Andri fór svo til frekara náms, ekki þó í Bandaríkjunum heldur í Barcelona. Andri lauk MBA-námi frá Navarra-háskólanum árið 2010. Í tengslum við námið var Andri í starfsþjálfun hjá Johnson&Johnson í Stokkhólmi sumarið 2009. Og þrátt fyrir kreppuna sem reið yfir fjármálaheiminn eftir 2008 stóðu Andra ýmsar dyr opnar. Hann fékk vinnu í Zürich hjá Credit Suisse og þar starfaði hann til dánardags – og er sárt saknað bæði persónulega og faglega.

Glæsilegur ferill – glæsilegur maður.

Sara og dæturnar

3Svo er komið að þætti Söru Sturludóttur. Andri heillaðist af henni og hún varð konan hans og drottning. Það var gaman að hlusta á Söru segja frá hversu kunnáttusamur Andri var í fíngerðri list ástalífsins, hvernig hann fékk símanúmerið hennar, hringdi í hana, bauð henni í mat, eldaði eins og Michelinkokkur, aldrei ágengur en heillandi. Svo þegar Andri vissi að hann væri að missa Söru vestur bjó hann til rómantíska helgi fyrir þau og hún fór vestur í sumarvinnuna með ástina í hjartanu. Svo fóru þau að búa og giftu sig. Kannski var Andri ekki í upphafi með hugann við barneignir en hann var alltaf til í að ræða málin og svo gerðist undrið. Birna Sif kom í heiminn 12. nóvember 2008 og Kristrún Elma fæddist svo 26. mars árið 2012.

Andri var frábær pabbi, líflegur, glaður og uppátækjasamur. Hann sinnti krefjandi vinnu vel en svo þegar hann kom heim sinnti hann öllum konunum sínum heils hugar og nálægur. Og það var gaman hjá þeim. Hann tók fullan þátt í heimilishaldinu og galdraði fram veislur.

Og Andri naut leiksins, naut þess að hoppa með dætrum sínum og hann átti ekki í nokkrum erfiðleikum með að fara einn með þær báðar í sund. Flestir feður hefðu hikað – en ekki Andri – hann var margra manna maki í því sem hann tók sér fyir hendur.

„Pabbi er dáinn – ég get ekki séð hann eða snert hann“ sagði Birna Sif við mig – opineyg og ærleg. „En pabbi verður alltaf hjá mér samt“ – bætti hún við.

Og það er hjartaslítandi að hugsa um þessar fallegu stúlkur föðurlausar og Söru Andralausa. Guð geymi þær og gætið þeirra vel og sláið hring elsku og umhyggju um þær allar.

Takk Sara hvernig þú umlaukst Andra með ást þinni alla tíð og leyfðir honum að njóta hamingju til hinstu stundar. Hann vildi ekki fara inn eilífðina strax því hann var svo hamingjusamur í tíma. En hann hvarf inn í leik og gleði himins með hamingju í hjarta – elskaður.

Kveðjur

Þið eru mög sem kveðjið Andra í Hallgrímskirkju í dag. Mörg eru erlendis, eða utan bæjar og komast ekki til útfararinnar en biðja fyrir kveðjur til þeirra sem hér eru. Það gera Þorkell Kristinsson og fjölskylda, einnig systkinin Ásgrímur, Anna Lind og Sunna Lilja sem eru erlendis. Sömuleiðis Una Þórey Sigurðardóttir á Akureyri, Sara og Margrét og Birgitta í Danmörk, Eyþór Guðmundsson, Ellen Kristjánsdóttir og Kristján Kirstjánsson, KK. Sömuleiðis hef ég verið beðinn að geta hve gott samfélag Margrét Helga amma Andra átti við hann og hve þau efldu hvort annað.

Minningarnar

Á krossgötum vakna allar minningarnar um Andra. Leyfðu þeim að koma fram með krafti, leyfðu tilfinningum að flæða, segðu skemmtisögur af honum í erfidrykkjunni á eftir.

Hvernig manstu Andra?

Manstu hve góðhjartaður hann var? Manstu hve félagslega fær hann var – og fljótur til að tengja?

Manstu að hann hafði lítinn tíma fyrir rugl? Og átti ekki í neinum erfileikum með að tjá skoðun sína og ekki heldur gagnvart yfirmönnum? Manstu hve lausnamiðaður Andri var?

Manstu fótboltaáhugann? Og að hann var Arsenalmaður – átti jafnvel fágætar Arsenaltreyjur?

Manstu músíkina hans – hann gat hlustað á Bob Dylan hvar og hvenær sem var, alla Afríkuferðina – og æ síðan. Svo var hann svo klókur að hann giftist Söru – eins og Dylan. Manstu hin sem hann hafði gaman af, Bruce Springsteen, Emmylou Harris og alla hina gullbarkana? Leyfðu músíkinni hans með öllum hjartanálægu textunum að flæða til þín.

Manstu músíkina sem Andri bjó til sjálfur? Hann spilaði í böndum og barði húðirnar af mikilli kúnst, og gat m.a.s. sungið með trommuslættinum sem er ekki öllum gefið.

Manstu hvað Andri las, áhuga hans á Churchill og aðdáun hans á Margaret Thatcher? Hann var vel heima í stjórnvisku járnlafðinnar og gerþekkti æviferil hennar!

Manstu eldhússnilli Andra? Jafnvel nú á síðustu jólum þegar mjög var af honum dregið eldaði Andri. Sósan sem hann gerði mun lifa í minningu fjölskyldunnar. Og manstu hvað hann borðaði? Andri vissi alveg að rjómi og smjör hefur aldrei eyðilagt nokkurn mat!

Manstu einbeittnina í námi, hvað hann lagði hart að sér og uppskar ríkulega? Manstu kappsemina í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur? Það var ástæða fyrir að Andri var kallaður víkingurinn á Spáni – virtur og metinn!

Manstu hvernig hann tengdist þér, talaði við þig, var alnálægur og hafði mikinn áhuga á þér og fólkinu þínu?

Manstu hinn snögga og stundum kostulega húmor hans. Hann gat jafnvel skemmt um hið óskemmtilega. Hann mátaði Barbífót við sig þegar hann var orðinn einfættur. Þegar hann var orðinn mjög veikur lék hann sér í Fifa-fótbolta á X-boxið og spilaði við frænda sinn ungan og puttalipran. Þegar Andra ógnaði staðan og sá fram á tap sagði hann við frændann með blik í augum. „Þú matt ekki vinna mig – ég er með krabbamein.“ Andri tapaði aldrei skopskyni og allt lá undir – líka lífið. Það eru bestu húmoristarnir sem ná því stigi.

Manstu hve auðvelt hann átti með leiki og búa til ævintýri með systkinum sínum og ástvinum? Þeir leikir áttu sér engin takmörk, hann varð í þeim lögfærðingur, dómari og bisnismógull.

Manstu uppátækin – segðu frá þeim. Leyfðu lífsgleði hans að lifa.

Inn í himininn

Nú er Andri farinn. Hann segir þér ekki snarpan brandara, fylgist ekki með Alexis Sanches, býr ekki til fleiri sósur, sér ekki á færi snilldarlausn fyrir banka heimsins. Hann ekur ekki af stað í þriggja tíma ökuferð með prinsessurnar sínar bara til þess eins að prufa nýja sundlaug einhver staðar í Þýskalandi. Og hann tekur ekki stefnuna út í víðáttuna til að fara til Vladivostok – eins og hann sagði stundum.

Andri lifði hratt, betur en við flest, áorkaði meiru á aldarþriðjungi en flestir á langri æfi. Hann var hamingjumaður, skapaði hamingu, lagði svo margt gott til lífsins og hverfur alltof fljótt inn í himinn Guðs. En við megum þakka fyrir Andra, þakka fyrir prinsessurnar hans, þakka fyrir undrin sem hann framkallaði fyrir ástvini og samferðafólk.

Hvernig ætlar þú að glíma við missinn og sorgina? Gerðu það með því að leggja rækt við lífið, leikinn, gleðina og ástina. Þá verður Andri með þér í anda. Og leyfðu honum að fara inn í himininn. Suður í Afríku lærði hann að trúa á Guð. Og þegar hann nálgaðist vistaskiptin talaði hann mikið og einlæglega við Guð. Ræktað talsamband þjónaði undirbúningi hans undir förina inn í eilífðina. Og Guð er besti félaginn í ferðum í tíma en líka á himni. Alltaf vinur, alltaf nærri.

Guð geymi Andra í leik eilífðar. Guð geymi Söru, Birnu Sif, Kristrún Elmu, foreldra hans, systkini, fóstursystkini og alla ástvini. Guð geymi þig.

Amen.

Eftir að þessari athöfn var Andri jarðsettur í kirkjugarðinum á Görðum á Álftanesi. Erfidrykkja í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju.

Minningarorð flutt í Hallgrímskirkju 20. janúar, 2015.