Inga í Brekku – minningarorð

IngaIngigerður Ingvarsdóttir vildi jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna og sagði gjarnan sögu um sjálfa sig unga sem er einnig lykilsaga og skýrir afstöðu og líf hennar. Ingu hafði verið bannað að fara á dansleik á Vatnsleysu í Biskupstungum. En bræður hennar, bæði eldri og yngri fengu hins vegar að fara. Ingu sárnaði þessi mismunun kynjanna. Þegar allir voru farnir í háttinn heima brá hún á það ráð að taka hrossaleggina sína sem hún notaði sem skauta og batt þá á sig. Síðan skautaði hún upp Tungufljótið og fór þangað sem dansleikurinn var haldinn. Og þar sem Inga var ekki með peninga með sér í þessari hljóðlátu mótmælaskautferð fékk hún lánaðar krónurnar sem þurfti til að komast inn. Inga fór það sem hún ætlaði – hún hafði sér einbeittnina og nægilega þrjósku!

Ætt og uppruni

Ingigerður Ingvarsdóttir var fædd á Litla-Fljóti í Biskupstungum 23. ágúst árið 1920. Hún var dóttir hjónanna Jónínu Ragnheiðar Kristjánsdóttur og Ingvars Jóhannssonar. Hún var næstelst fjórtán systkina. Það var mikið barnalán á þeim bæ. Elstur var Ingvar. Á eftir Ingu kom Einar, þá Kristinn, Jóhanna Vilborg, Kormákur, Hörður, Hárlaugur og tvíburabróðir hans andvana fæddur, Ragnhildur, Guðrún, Elín, Sumarliði og Haukur. Tvö þeirra systkina eru á lífi, Sumarliði og Guðrún en hin eru farin af þessum heimi.

Inga flutti ung með foreldrum sínum og bræðrum að Halakoti, sem nú heitir Hvítárbakki, í Biskupstungum. Inga hafði bæði getu og gaman af vinnu og sótti í puðstörfin og kallaði sjálfa sig síðar “útikonu” vegna áhugans á útiverkunum. Einhverju sinni hafði sveitungi Hvítárbakkafólksins orð á dugnaði Ingu og þá varð föður hennar að orði: „Já hún Inga hefði átt að vera strákur.“ Inga heyrði umsögnina, var hnittin og orðheppin og svaraði ákveðið: „Það er þér að kenna en ekki mér pabbi.“ Þeir hafa væntanlega ekki mótmælt, karlarnir.

Inga sótti skóla í Reykholt í Biskupstungum og var í heimavist. Henni gekk vel í skóla, var námfús og fljót að læra. Alla tíð bjó þekkingin í henni og hún mundi það sem hún hafði læri – líka ljóð og sálma. Reykholt var ekki aðeins staður vísulærdóms, lesturs og stærðfræði. Þar var líka hægt að synda. Vegna jarðhitans var sundaðstöðu komi fyrir og sund kennt. Inga lærði að synda og njóta sunds og það gerði hún alla tíð meðan hún hafði heilsu til.

Gunnar og börnin 

Svo fór Inga suður til að afla sér tekna. Hún starfaði sem vinnukona – fór í vist hjá þýskri konu og íslenskum bónda hennar. Lífið í höfuðstaðnum heillaði og í Reykjavík kynntist Inga Gunnari Sveinbjörnssyni, leigubístjóra. Hann var að norðan og hún að sunnan og þau féllust í faðma og hófu búskap. Og þau voru í “görðunum” þessi árin. Þau bjuggu fyrst í Garðastræti í Reykjavík en fluttu svo 1943 í Garðahrepp, kenndan við Garða á Álftanesi. Í þeim hreppi voru þau næstu áratugina – fyrst í Litlu Brekku en byggðu síðan stórt hús upp úr 1950 og nefndu það Brekku. Mannlífið var fjölbreytilegt í umhverfinu og fjölskyldan mátt jafnvel eiga von á að skrúfað yrði fyrir vatnið vegna duttlunga nágranna. Gunnar aflaði tekna fyrir sístækkandi fjölskyldu. Hann rak verkstæði um tíma í stórri skemmu frá Bretunum. Hann vann í Fjöðrinni um tíma og gerði einnig út trillu. Og svo var Gunnar vaktmaður í síldarvinnslu í Njarðvík.

Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá þeim Ingu og Gunnari, fjölskyldan stór og þó Bakkus kæmi oft við í Brekku bauð Inga hann ekki velkominn. Að því kom að þau Inga og Gunnar skildu og Inga flutti á Álfaskeið 100 í Hafnarfirði. Það var um 1970. Síðar fór Inga svo á Unnarstíg, þá á Miðvang og síðan á Ölduslóð. En þó þau Inga skildu slitnaði aldrei vináttustrengurinn milli þeirra. Þau áttu börnin, góðar stundir og fortíðina saman og virðinguna líka.

Gunnar lést í mars 1992 en Inga lifði 22 árum lengur. Árið 2011 fór Inga inn á Hrafnistu í Hafnarfirði og þar naut hún góðrar aðhlynningar síðustu árin og allt til enda.

Inga og Gunnar eignuðust 9 börn á 18 árum. Það er mikið afrek og aðallega Ingu. Sveinn fæddist árið 1940. Sveinbjörn Pálmi fæddist árið 1942. Vegna þroskahömlunar héldu þau Inga heimili saman þar til hann lést árið 2002. Það veitti henni mikilvægt hlutverk fram á gamals aldur. Ingvar fæddist árið 1943 en drukknaði aðeins tvítugur árið 1963. Ragnar fæddist árið 1944 og Kolbrún Kristín árið 1947 og Hjörtur Laxdal 1948. Hrafnkell kom í heiminn árið 1950, Torfhildur Rúna árið 1951 og Gunnþórunn Inga var síðust í röðinni. Hún fæddist 1958.

Hópurinn er stór og afkomendur Ingu orðnir margir – um níu tugir börn, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. Mesta auðlegð fólks er í ástvinum og fjölskyldu – svo Inga var forrík. Og Inga hafði gaman af fólkinu sínu, eldra og yngra og vildi gjarnan þjóna því. Og það eru ilmandi og elskulegar sögur sem ég hef heyrt að hve umhyggjusöm hún var í þeirra garð. Ástvinir Ingu og afkomendur hugsa gjarnan um hana þegar minnst er á pönnukökur. Ingu þótti gaman að standa í kokkhúsinu og baka fallegar pönsur í svanga munna. Og þeim þótti gaman að taka við og njóta hjá henni.

Störfin og minningar

Inga var dugmikil. Hún lærði snemma að vinna og kom stóra hópnum sínum til manns. Þegar næði gafst til frá heimilisstöfum fór hún að vinna sem verkakona. Hún réði sig til fiskvinnslu hjá Frosti í Hafnarfirði og síðar hjá Hval h.f. – sem yfirtók Frostið. Og þar vann hún – framyfir venjulegan lokaaldur – allt þar til hún lét af störfum hálfáttræð. Og hún hefði mátt vera lengur hefði hún viljað – eftir því sem forstjórinn sagði.

Hvernig var svo Inga? Hvernig manstu hana?

Leyfðu myndunum að koma upp í hugann.

Manstu útlit hennar? Horfðu á myndirnar á sálmaskránni og sjáðu hve glæsileg hún var.

Manstu persónustyrk hennar, glaðlyndi og traust?

Manstu styrk hennar? Hún átti ekki alltaf auðvelda daga en gafst aldrei upp og bar í sér Hvítárbakkastyrkinn. Svo var hún traustur vinur og félagi.

Manstu hve góð mamma hún var ósérhlífin og sívinnandi? Hún sat aldrei aðgerðarlaus. Margar fallegar flíkurnar komu úr höndum hennar og klæddu kroppa barna hennar. Hún vildi skýla sínu fólki og tryggja velferð þeirra.

Hún var sterk og kjarkmikil og vílaði ekki fyrir sér að fara í langar og flóknar utanlandsferðir – og alltaf bjargaði hún sér.

Svo gladdist hún með glöðum. Inga naut þess að fara í sveitina og hitta fólkið sitt. Hún hafði gaman að fara í Hvítárbakka hvort sem var til að baka flatkökur eða undirbúa Þorrablótið í Tungunum.

Svo naut hún fjallaferðanna og sóttist eftir að fara með Ídu til að elda ofan leitarmenn. Það þótti henni gaman og svo var maturinn kryddaður með söng og hlátrum. Lífið á fjöllum heillaði Ingu.

Inga hafði fágaðan smekk og var alltaf svo snyrtileg og falleg. Og þótti mikilvægt að hárið færi vel. Inga hafði næman smekk og gekk vel um allt, braut fallega saman og fágun hennar hélst allt til enda. Inga hafði gaman af fallegu handverki og meira að segja fallegum hleðslugörðum.

Svo hafði unun af söng og tónlist og þótti gaman að sækja tónleika. Hún þekkti ekki aðeins ókjör af ljóðum og sálmum heldur söng með tærri og fagurri rödd. Söngáhugi Ingu fær sína útgáfu í sálmum og ljóðum þessarar útfararathafnar.

Himininn

Hvernig er með himnaríkið? Þegar Bjössi dó ræddi Inga stundum um framhald lífsins hinum megin grafar. Inga vildi ekki láta brenna sig. Hún hafði aldrei mörg orð um sín innri mál og ekki heldur um trúmálin. En hún átti í sér von og trú um að mega hitta fyrir fólkið sitt sem hún hafði séð fara yfir móðuna miklu. Foreldra hennar, systkini, synina hennar og Gunnar. Og allir vinirnir hennar voru farnir á undan. Og þá er gott að tala um himininn.

Hvernig hugsar þú um himinn og himnaríkið?

Við menn erum misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn, horfum á skýin og stjörnurnar, skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En hugsun og orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing, heldur hliðstæðuskýring. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls.

Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsaðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vorsólina, Biskupstungur eða Garðabæ, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur litlar og fátæklegar hugmyndir um lífið var við þér tekið þegar þú fæddist. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur hugsað þér.

Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í móðurkviði náttúrunnar, en við megum alveg hugsa um Ingu og allt fólkið hennar baðað birtu þegar við hugsum um himininn, sem hún gistir. Þetta hús, sem er umgjörð kveðjustundar hennar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf og von fólks.

Inga tók á móti deginum fyrir austan – átti leið í bæinn og var svo rík að eignast öll þessi börn, afkomendur og ástvini. Hún fór sína ferð. Nú er hún farin lengra. Við megum trúa, að Inga hafi fæðst inn til ljóssins, inn í veruleika elskunnar, inn í stóran faðm, sem við köllum Guð. Þar má hún búa um alla eilífð, leika sér á hvers konar skautum sem henni þykja bestir og hlægja og syngja.

Nú er Inga farin. Hún bakar ekki lengur pönsur handa þér, syngur ekki fyrir þig, fer ekki á tónleika, hlær ekki við góðri sögu eða segir eitthvað hnyttið og kúnstugt. Hún er farin inn í himin Guðs.

Guð geymi Ingu og Guð geymi þig.

Amen.

Þau er biðja fyrir kveðjur eru:

Kristín Ellen Hauksdóttir,

Ingigerður og fjölskylda og Katrín í Ástralíu.

Bergþóra og Alex í Ameríku

Steinþóra á Spáni,

Ragnheiður Diljá og fjölskylda í Noregi

og Daði Hrafnkelsson.

Erfidrykkja í safnaðarheimili kirkjunnar og jarðsett í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

Minningarorð í Hafnarfjarðarkirkju 24. september, 2014