Lena Rós Matthíasdóttir, prestur í Grafarvogskirkju

Heyrir, sér, veit og skynjar!

Í nærveru góðs leiðtoga finnur þú til mikilvægis þíns og upplifir tengsl sem þú þarft ekki að hafa fyrir að mynda.  Ástæðan er sú að leiðtoginn sem heyrir þig, sér þig, þekkir þig og skynjar persónu þína, býr yfir þeirri eðlislægu löngun að vilja kynnast þér og leggur sig fram um það af fyrra bragði.  Góður leiðtogi er gæddur þessum fallegu eiginleikum.

Kynni mín af Sigurði Árna Þórðarsyni, haustið 1995 bar einmitt að með þessum hætti.  Ég hugleiddi þá hvað það væri sem hann hefði og mig skorti, en sem ég vildi svo gjarna tileinka mér.  Það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar, þegar ég hafði hlotið vígslu og leiðir okkar lágu oftar saman, að ég áttaði mig á því að það voru einmitt þessir eiginleikar.  Góður leiðtogi hefur nefnilega áhuga á fólki og leggur sig fram um að kynnast því.

Guðfræðin sem Sigurður Árni ber fram í orði og á borði endurspeglar einnig þessar hliðar hans.  Ég kalla hana guðfræði skynjunarinnar, því hún er svo ljóðræn og myndræn en um leið einföld og líkamleg. Hún heyrir, sér, veit og skynjar.  Í gegnum tíðina hef ég lagt mig fram um að lesa ræður hans, en það hefur verið mér góð leiðsögn í predikun á ,,mannamáli“ og hjálpað mér að upplifa Guð með fingurgómum, í sjón, heyrn og bragðlaukum, svo eitthvað sé nefnt.  Góður leiðtogi byggir brú milli hins upptekna nútímamanns og Guðs.

Í Sigurði Árna finn ég leiðtoga sem hefur tamið sér vakandi núvitund.  Með lífsreynslu sinni, menntun og starfi hefur hann tamið sér einbeitta athygli gagnvart því sem að baki er jafnt og því sem er framundan.  Þennan eiginleika hans merki ég í samtali um heimilisguðrækni, skírnaruppfræðslu og æskulýðsmál.  Góður leiðtogi er hugrakkur og vinnur framtíðarsýn sinni veg á líðandi stundu í órjúfanlegu samhengi við fortíðina og upprunann – Jesú Krist.

Ég treysti Sigurði Árna Þórðarsyni til að vera fremstur á meðal jafningja í félaginu okkar, Þjóðkirkjunni.