Við eldhúsborð og á traktor

Ég sat við eldhúsborð út á Mýrunum talaði við kjörmann í biskupskjöri. „Traust til kirkjunnar verður að byggja upp að nýju“ sagði viðmælandi minn og horfði í augu mér. Traustið þarf að endurvekja. Traust, friður, uppbygging, leiði yfir vandræðum, vilji til samtaka og átak. Þetta tjá kjörmenn, sem ég hef talað við.

Ég er snortinn af þeim hóp, sem bæst hefur við í biskupsvalinu nú. Ég hef lagt til að sóknarnefndarformenn hittist reglulega á þingum til að miðla upplýsingum og þétta raðir. Og ég er enn staðráðnari í að leggja til landsfund sóknarnefndarformanna eftir að ég hef talað við marga þeirra. Þetta er öflugt fólk, sem getur lagt kirkjunni enn betra lið en verið hefur.

Nú þegar dregur að lokum undirbúnings seinni umferðar biskupskjörs er ég fullur þakklætis. Ég er þakklátur að hafa notið svo margra ánægjustunda með glöðu og velviljuðu fólki, þakklátur fyrir að þjóðkirkjan er ekki í keng, heldur fremur eins og íslensk björk sem kemur úr skaflinum og réttir sig upp mót vorsólinni. Ég er þakklátur fyrir stuðningsfólk, sem hefur lagt mikið á sig og þakklátur Guði.

Biskupskjör á sér margar víddir. Ég hef ekki aðeins lært margt, fengið margar nýjar hugmyndir, skilið enn betur starf og líf kirkjunnar í landinu, heldur líka upplifað skemmtiefni. Á Snæfellsnesi kom ég að mjög skemmtilegum manni, sem var að gera upp gamlan Deutz-traktor. Ave María hljómaði úr spilaranum hans meðan hann var að vinna. Við skiptumst á skoðunum og fyrr en varði var ég kominn upp á þennan gamla en fallega traktor, ræsti og ók af stað. Og eigandinn skellihló og skemmti sér yfir gleði biskupsefnisins. Sveitamennirnir í okkur tengdust. Ekki hafði mig órað fyrir að á þessari vegferð myndi ég kynnast Deuz. En svona er nú lífið skemmtilegt. Guð sé lof fyrir lífið, gleðina og fólkið í kirkjunni.