Nálægð í kirkjunni

“Geturðu talað við mig, ég hef þörf fyrir samtal?” Svona setning hljómar þegar eðlilegt traust ríkir milli fólks. Og þannig eiga tengsl milli biskups og ábyrgðarfólks í kirkjunni að vera. Þetta fólk þarf að hafa næði og tíma til að tala saman, miðla reynslu, hugmyndum, álagsmálum og vonarefnum.

Ég hef á kynningarfundum vegna biskupskjörs nefnt, að ég vilji breyta biskupsvísitasíum. Mikilvægur þáttur biskupsþjónustu er að vitja fólks. Biskup á að vera hlustandi biskup – vera á eyrunum – og veita athygli.

Græðarastarf gagnvart prestunum og fólkinu í kirkjunni er mikilvægur þáttur biskupsþjónustu. Rétt eins og prófastar þurfa biskupar kirkjunnar að heyra hvað fólk segir, grennslast eftir hvernig því líður og reyna að efla það til starfa og lífs.  Líðan presta, þarfir þeirra og velferð prestsfjölskyldna skiptir miklu máli og varðar því biskupstilsjón.

Til að fólki líði vel þarf að næra það. Það sama gildir í fjölskyldulífinu. Til að kirkjulífið blómgist þarf að sjá, heyra og styrkja.

Biskupinn á að iðka tilsjón – það er að sjá, heyra, vera náinn, meta og efla. Biskupinn á ekki að vera í stjórnsýsluskáp heldur vera meðal fólks í kirkju og landi. Biskup á að heyra nándarkall og gegna nándarskyldu í kirkjunni.