Inga Harðardóttir

Ég átti því láni að fagna fyrir nokkrum árum að kynnast þeim heiðurshjónum Sigurði Árna og Elínu. Leiðir okkar lágu saman er ég starfaði á leikskóla og tvíburasynir þeirra voru í minni umsjá. Afskaplega lífsglaðir og kátir ungir drengir sem auðsjánalega nutu mjög góðs atlætis frá foreldrum sínum. Það vakti athygli mína hversu mikla virðingu og væntumþykkju þau sýndu drengjunum sínum og því starfsólki sem annaðist um þá og aldrei bar skugga á samstarf okkar. Alltaf mætti okkur starfsfólkinu; jákvæðni, áhugi og virðing.

Þau áttu síðar eftir að sýna mér mikið traust, stuðning og virðingu er ég gekk í gegnum erfiðleikatímabil sem olli mér miklum sársauka og sálarangist. Ætíð voru þau boðin og búin að styðja og hjálpa mér á meðan á þeirri þrautagöngu stóð. Þau áunnu sér virðingu mína og þakklæti fyrir það hversu heiðarleg og réttsýn þau eru og tílbúin að stíga fram og styðja við þá sem beittir eru órétti og/eða mæta andstræmi og hugrekki til að standa við skoðanir sínar.

Ég hef sótt námskeið og messur í Neskirkju og aldrei fundið mig annað en mjög velkomna þó svo ég sé ekki sóknarbarn í þeirri sókn og greinilegt að góður andi er í Neskirkju og starfsfólk annt um kirkjuna og það starf sem þar fer fram og sinnir því af mikilli kostgæfni.

Ég tel að það verði kirkjunni til góðs á fá Sigurð Árna sem biskup. Þar fer maður sem er afar réttsýnn og lætur sér annt um fólk, er mannasættari og leitast við að draga það besta fram í fólki. Hann býr yfir mikilli næmni á fólk og allt hans starf og framkoma einkennist af virðingu og fordómaleysi og hann á afar gott með að nálgast fólk og hlusta á það á jafnréttisgrundvelli, sama hvaða aldurshópur, stétt eða staða á í hlut.

Á þessari stundu eru fjórir álitlegir frambjóðendur til biskups og eflaust eiga einhverjir erfitt með að gera upp á milli hvern skuli velja. En með Sigðurð sem biskup eru góðir og gleiðiríkir dagar framunda. Ég hef þá trú að með honum lægi þær öldur sem hafa verið í kirkjunni. Að virðing, manngæska og samstarf ásamt sátt og gleði verði að leiðarljósi.

Með þessum orðum vill ég þakka Sigðurði Árna fyrir framboðið.