Stóru kirkjuvíddirnar

Á annadögum er mikilvægt að setjast niður, draga djúpt andann og lyfta sjónum. Það er líka gott að njóta samfélags viturs fólks. Þessa nýt ég í dag því ég tek þátt í ársfundi samkirkjunefndar og þar er mörgu miðlað sem varðar kirkjuna, starf hennar, hlutverk og sýn.

Kirknasamtök eru perlubönd kristninnar. Íslenska þjóðkirkjan er t.d. aðili að Heimsráði kirkna, Lútherska heimssambandinu, Kirknasambandi Evrópu og Porvoo-sambandinu. Þetta samstarf er mikilvægt fyrir kirkjuna því samskiptin eru gagnvirk og veita hugmyndum yfir mörk og mæri. Þær verða til hvatningar um starf, nýjar áherslur og þjónustu kirkjunnar. Afstaða okkar til hlutverks kirkju og kirkjusýnar verður fyrir áhrifum frá systurkirkjum og eflir sjálfsmynd kirkjunnar og þjóna hennar.

Það er magnað að hlusta á frásagnir um líf og starf þeirra kirkna og kirknahreyfinga, sem Íslendingar tengjast. Kirkjurnar í Afríku eru á fleygiferð og breytingaskeiði sem og samfélög þeirra. Smákirkjurnar í múslímska heiminum hafa margar misst vernd sína þegar ríkisstjórnum er steypt og arabíska vorið “skellur” á. Sagðar voru fréttir frá kirknasamtökum, hvernig kirkjur bregðast við breytingum, hvernig prests- og djáknaþjónustan er að breytast.

Erum við rík kirkja eða fátæk kirkja? Hvað eigum við að þiggja erlendis frá? Við höfum notið velvilja og alls konar stuðnings. En þrátt fyrir fjáreklu þjóðkirkjunnar þurfum ekki fé frá útlöndum. Miðlun hins djúptæka og óefnislega er mikilvægara. Mannauðurinn og andlegu dýrmætin eru mikilvægust. Þjóðkirkjan tók á fjárvana tímum ákvörðun um að vera grein á tré heimskirkjunnar. Og nú er kirkjan ekki rík en þó ekki svo snauð að fjármunum að hún geti ekki staðið við skuldbindingar sínar erlendis, t.d. að greiða árgjöld sín til kirknasamtakanna.

Oikoumene er grískt orð og merkti mannheimur í rómversku samhengi og hefur á síðari árum verið samheiti um heim kristinnar kirkju. Kristin kirkja varðar menn í nærsamfélagi og fjarsamfélagi. Að rækta tengsl við systur og bræður – fjölskyldukirkjur – er til bóta. Gott fjölskyldulíf er mikilvægt og þjóðkirkjan nýtur stórfjölskyldu kristninnar. Eflum samkirkjustarfið og allir styrkjast.