Valdimar Tómasson, kirkjuvörður og meðhjálpari Neskirkju

Undirritaður hefur starfað við Neskirkju sem meðhjálpari og kirkjuvörður um nokkurra ára skeið. Vorið 2004 kom sr. Sigurður Árni til starfa í Neskirkju. Það fyrsta sem ég tók eftir var sú heiðríkja sem ásjóna hans ber vott um. Allt í hans fasi svo tært og hreint. Viðmótið af sama meiði, alúðlegt, tignarlegt og innilegt, allt í senn.

Engan mann hef ég hitt sem leggur jafn mikið upp úr því að vita hvernig manni líður. Hann er mjög góður hlustandi. Við samræður um eigin líðan skapast mikil nánd og opnar vel fyrir öll tjáskipti. Honum er þessi áhugi eðlislægur. Hann kann líka manna best að hrósa og draga fram það besta í fari manns.

Sr. Sigurður er vel menntaður, vel gefinn, hefur víðtæka reynslu,  er fagurkeri og hamingjumaður í sínu einkalífi.

Það eru gerðar miklar kröfur til biskups Íslands, en ég tel sr. Sigurð Árna fremstan meðal jafningja og óska honum góðs gengis á þeirri braut sem hann hefur ákveðið að feta.

Valdimar Tómasson.