Ummyndun til heilla

Hvað er heilagt? Svörin við slíkri spurningu eru mörg og margvísleg. En einfalda skólasvarið er að það sem er heilagt sé það sem er frátekið fyrir Guð, t.d. staður eins og þessi kirkja eða fólk sem er sett í ákveðið starf í þágu guðsríkisins. Eitthvað sett til hliðar til að þjóna Guði. Og hvað er þá Guði þóknanlegt? Er það bara eitthvað afmarkað og sérstakt fremur en öll veröldin, allt sem í henni er, allt fólk?

Fjallsreynslan
Í dag er síðasti sunnudagurinn eftir þrettánda. Guðspjallið er um reynslu lærisveinanna upp á fjalli. Þessi atburður er afar stíliseraður í frásögninni. Fjallið er sem tákn um hið upphafna og tengir við fjallaviðburði Gamla testamentisins. Fjallið er tákn um hið heilaga. Svo eru þarna þrír mikilvægir vinir Jesú, sem urðu höfðingjar frumkirkjunnar. Þessi atburður er kallaður ummyndun á kirkjumálinu.

Þegar við notum svona orð kemur breyting í huga: Umbreyting, umformun – ummyndun er þegar eitthvað verður annað en áður, að breyting verður. Ummyndunarsagan er um hið heilaga og umstokkun.

Væntingarnar
Pétur, Jakob og Jóhannes höfðu væntingar vegna þess að þeir áttu heima í sterkri og túlkandi menningarhefð. Þeir lifðu í áhrifasögu, sem stýrði hvernig þeir túlkuðu og skýrðu hvernig ætti að tala um hið heilaga. Þeir tengdu upplifun sína strax við stórviðburði hinnar hebresk-kristnu sögu fremur en að líta á það sem þeir urðu fyrir sem eitthvað einstakt og algerlega öðru vísi en allir menn höfðu lifað og skilið áður. Þeir áttu sér væntingar og fyrisjáanleg viðbrögð.
Erum við kannski eins? Höfum við ekki okkar væntingar, vonir og óskir? Viljum við ekki helst hafa hlutina eins og þeir hafa alltaf verið. Lifum við ekki í áhrifasögu, sem þjónar sem andlegt umferðarkerfi okkar – andlegt stýrikerfi?
Lærisveinar upplifðu nýjan tíma. Jesús opnaði nýja glugga, nýja túlkun, nýjan heim og nýja trú. Þorum við að taka afleiðingum af merkingu ummyndunarfjallsins? Það þarf áræðni og trú til að opna fyrir sköpun Guðs og endurnýjun mannheims og raunheims. En í þessari sögu biður Jesús sitt fólk að óttast ekki. Þetta er spennandi texti fyrir spennandi tíma.

Samfélagsbreytingar
Óskar Guðmundsson rithöfundur kom í Neskirkju á miðvikudaginn var og sagði frá nýrri bók sinni um Þórhall Bjarnarson. Þórhallur var forystumaður í íslensku samfélagi í byrjun síðustu aldar og m.a. biskup þjóðkirkjunnar í tíu ár. Meðan Óskar sagði frá sótti æ meir á mig hversu margt er sameiginlegt okkar tíma og fyrstu árum heimastjórnartímans fyrir hundrað árum. Þetta var tími mikilla umbreytinga. Mikil átök voru um stefnu samfélagsins. Barist var um völd og fé og hver skyldu vera tengsl við erlend völd. Samfélag Íslendinga ummyndaðist á þessum árum og nýrra úrræða var þörf, nýrrar hugsunar. Væntingar gamls tíma stýrðu en aðstæður neyddu til að horfast í augu við nýjar kröfur sem kröfðust nýrra svara. Þjóðkirkjan gekk í gegnum breytingu fyrir hundrað árum. Þá spratt fram ný guðfræði til að svara nýjum spurningum.

Hrunáhrifin
Ísland nútímans – er allt breytt eftir Hrun? Hvað varð um vonina um nýtt Ísland eftir hrun? Stjórnmálin urðu öðru vísi en vonirnar. Ferli uppgjörsins líka. Margt er á floti og gildi líka. Með því að flétta saman nokkra þætti má halda fram að meginvandi í samfélagi okkar Íslendinga sé skortur á trausti – að traust sé rofið í samfélaginu, traust til mikilvægra hreyfinga, stjórnmálafla og einstaklinga. Stofnanir samfélagsins njóta ekki trausts og kirkjan hefur glatað trúnaði. Við kirkjufólk ættum að horfast í augu við kreppuna, sem er tækifæri til endurnýjunar. Hlutverk kirkjunnar er að vera traustsins verð og byggja upp traust.

Það er samhengi milli trausts og hins heilaga. Traust og heilagleiki eru systur. Þegar fólk treystir engu nema sjálfu sér og hefur bara áhuga á eigin velferð og eigin stöðu og gróða er fólki ekkert heilagt nema smáheimur eigin sjálfs. Fjármálakreppan var vond en traustkreppan er verri. Hún er andlega útgáfa hrunsins og sýnu hættulegri en peningakreppa. Og það er í þeim efnum, sem kirkjan hefur hlutverk og skyldur.

Kirkjan er á tímamótum. Þorum við að opna fangið gagnvart breytingum og treysta Guði fyrir kirkjunni á tímum sviftinga? Við hræðumst sviftingar og kannski líka ummyndun. En kirkjan eru lærisveinarnir, sem vildu gera eins og við var að búast. En meistari kirkjunnar væntir öðru vísi svara og viðbragða og gefur stærri ramma en væntingar stóðu til.

Ummyndun
Pétur, Jakob og Jóhannes áttu í sér væntingar til Jesú. En hann var stærri, opnaði meiri glugga en þeir áttu von á. Þeir vissu að Jesús var öflugur, en þeir héldu í fordómum sínum að hann væri fyrirsjáanlegur leiðtogi. Ummyndunarsagan er sögð til að sprengja væntingar, fordóma, áhrifasögu og skapa algerlega nýja sýn þeirra.

Lærisveinarnir urður að endurskoða allt og líka afstöðu og hlutverk. Boðskapurinn var: Óttist ekki breytingar, nýja kirkju nýtt erindi. Guð er ekki fjarri heldur nærri. Það eru skilaboð til okkar. Við getum skilið ummyndunarsöguna með margvíslegu móti, en dýpst og öflugust er hin róttæka trúarskerping að allt varðar trúna og í öllu er Guð að umbreyta, fólki, væntingum, siðferði, veraldarsýn og hlutverkum. Við erum kölluð til þeirrar umbreytingar.
Og þá erum við komin að hinu heilaga að nýju. Hvað er heilagt? Jú, vissulega að taka frá stað, tíma, persónur og fleira til að gefa Guði.

Heill
Það er þarft að hugsa um íslenska orðið heill í samhengi heilagleikans. Það sem er heilt er heilagt. Guðstrú gefur sýn á samhengi heims, þjóðfélags, mannlífs og einkalífs. Þegar fólk á í vanda með líkama sinn og umbreytir honum með inngripi er helgi líkamans ekki söm. Þegar náttúran er rofin og nöguð er heill hennar ekki sem skyldi. Þegar þjóðfélagið er í ójafnvægi og traustið skert þarf að skoða heilbrigði og huga að lækningu. Þegar einstaklingar leita fyrst og fremst eigin hags og dýrðar er sálarheill viðkomandi í hættu og skaðar aðra. Kirkja í traustvanda þarf heilun Guðs anda – og að vinna með sjálf sitt, hlutverk, forgang sinn, skipulag, fjárnotkun og framtíð sína.

Gegn traustkrísu þurfum við þennan skýra boðskap: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þjóðkirkjan er eiginlega á ummyndunarfjallinu. Við skelfumst kannski breytingar eða einhverjar kreppur. En við megum gjarnan heyra: „Rísið upp og óttist ekki“ eins og sagt er í guðspjallstextanum. Við erum kölluð til heilbrigði, til heilla.

Það er ekkert einfalt átaksverkefni að byggja upp traust, en hið trúarlega svar er að Guð er nærri og laðar fram nýjar lausnir og nýjar hugmyndir til að efla heill manna, samfélags og nátturu. Sonarmyndin í guðspjallinu merkir, að Guð sér og kemur. Ertu heill og heil – áttu í þér traust? Óttist ekki – Guð kemur og eflir. Ummyndunarsagan á sér fullkomlega skýr endi. Þar segir að þegar lærisveinarnir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Hann var lausn heilsuvandans, heilarinn sjálfur, sem færir heill í líf og gefur traust. Hann ummynda og býður róttæka heilbrigðisáætlun. Þegar henni er fylgt verður allt heilagt og það merki heill, heilbrigði og traust. Ummyndun – það er eiginlega lykilsaga um þig og mig, kirkjuna, þjóðfélagið og heiminn. Það er sagan um að Guð elskar og umbreytir – til heilla.

Ummyndun – það er eiginlega lykilsaga um þig og mig, kirkju, þjóðfélag og heim. Það er sagan um að Guð elskar og umbreytir – til heilla.

Amen.

Prédikun í Neskirkju 29. janúar 2012.