Enginn verður óbarinn biskup

Ég var að sækja drengina mína í skólann í dag. Umferðin gekk fremur hægt og á bílastæðinu við skólann var ófærð og bílarnir fóru rólega. Svo kom bíll á móti – ég kannaðist við börnin í bílnum og foreldrana. Þau brostu út að eyrum, bílrúðan hjá þeim seig niður og ég skrúfaði niður mín megin. “Réttu út hendina” gall við úr hinum bíl og ég hlýddi. Svo sló bílstjórinn þrisvar í útrétta hönd og sagði: “Enginn verður óbarinn biskup.” Þetta var gjörningur til velfarnaðar.

Og svona hafa margir tjáð gleði og óskir um að framboð mitt í biskupskjöri mætti fara vel. Þetta hafa verið fararblessanir. Í morgun vildu sundfélagarnir fara yfir stöðuna og þar gullu við frómar óskir í minn garð. Svo vildu margir ræða málin og leggja gott til í kirkjunni. Fjöldi fólks hringdi til að segja fréttir af hvað væri á döfinni í þeirra prófastsdæmi. Það er rífandi gangur og gleði, miklar umræður, margt dregið fram, allt í bróðerni og “systerni” og með hag kirkjunnar að leiðarljósi.

Þessir fyrstu dagar hafa verið sérstæðir og aðallega gleðilegir. En umhyggja fólks og blessun er það sem hefur nært og glatt. Góðar óskir gefa vængi.