Kynningarfundir biskupsefna og kjörmanna

Kirkjuráð ákvað á þessum janúarfundi að efna til fimm kynningarfunda biskupsefna. Þeir verða í hinum fjórum landsfjórðungum og á Reykjavíkursvæðinu og ekki fyrr en framboðstími er útrunninn í febrúarlok. Kynningarfundirnir verða því á tímabilinu 1-14. mars. Guðmundur Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs, mun skipuleggja fundina í samráði við héraðsnefndir. Fundarstaðir og fundartími verður auglýstur síðar. Allir frambjóðendur og kosningabærir prestar og leikmenn prófastsdæmisins eru boðaðir til fundanna.

Í samþykkt kirkjuráðs segir einnig: “Kostnaður við fundina greiðist úr kirkjumálasjóði. Ekki er greiddur ferðakostnaður fundarmanna og frambjóðenda.Kirkjuráð gangist fyrir og kosti útgáfu á sameiginlegu kynningarefni um frambjóðendur til biskupskjörs. Jafnframt verði kynningarefni um frambjóðendur gert aðgengilegt á sérstöku vefsvæði á vef kirkjunnar. Frambjóðendum og stuðningsmönnum þeirra sé gefinn kostur á að kynna málstað sinn í framangreindum miðlum. Fyllsta jafnræðis sé þar gætt um aðgengi.”